Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Þriðjudaginn 08. desember 1998, kl. 22:51:04 (1821)

1998-12-08 22:51:04# 123. lþ. 35.1 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv. 139/1998, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur, 123. lþ.

[22:51]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Hæstv. forseti. Sérleyfishafinn hefur enga viðskiptalega, formlega eða samningsbundna ábyrgð í því efni. Hann hefur enga frekari ábyrgð á hendi en samfélagið og heimurinn allur gagnvart sjúku fólki. Staðreyndin er sú að hér er um að ræða viðskiptasamband. Gagnrýnin á þetta frv. hefur einkum beinst að því að hagsmunir viðskiptalífsins séu í fyrirrúmi en sjúklinganna ekki. Út á þetta gengur gagnrýnin.

Í þessu andsvari langar mig jafnframt að vekja athygli á því að þegar hv. þm. Hjálmar Jónsson ber deCODE Genetics Incorporated, bandaríska fyrirtækið sem í ráði er að veita sérleyfi á heilsufarsupplýsingum Íslendinga, saman við Krabbameinsfélagið og önnur félög sem stundað hafa rannsóknir hér á landi, rannsóknanna og vísindanna vegna, þá er það ekki sambærilegt. Í öðru tilvikinu er um að ræða vísinda- og líknarstofnun og hins vegar er um að ræða gróðafyrirtæki sem gengur fyrir lögmálum viðskiptalífsins.

Fyrirtæki í viðskiptalífinu geta að sjálfsögðu gert ýmsa góða hluti. Á þessu er hins vegar grundvallarmunur og þegar við ræðum um að veita einu slíku fyrirtæki tangarhald á heilli þjóð þá er ekki að undra að menn rísi upp og bregði í brún, ekki bara hér á landi heldur um heim allan.