1998-12-09 00:02:12# 123. lþ. 35.1 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv. 139/1998, HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur, 123. lþ.

[24:02]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. ræðumanni fyrir tölu hans. Þetta var mjög merkilegt innlegg í umræðuna sem kom fram og hefur vafalaust opnað augu ýmissa fyrir nýjum flötum í málinu og hvernig á þetta er litið af hálfu þingmanna Sjálfstfl. sumra hverra, þó ég geri ráð fyrir að hv. þm. telji sig tala fyrir sig fyrst og fremst. Ég skildi nú ekki allt í röksemdafærslunni en það er vafalaust takmörkun mín.

Hv. þm. hann nefndi það í upphafi, hann var að leiða líkur að því hvort telja ætti miðlæga gagnagrunninn góðan eða vondan, og eitt af því fyrsta sem hann nefndi sem slæmt við þennan grunn var það að þarna væri safnað miklum upplýsingum á einn stað. En síðar í ræðunni kom hv. þm. að því að þetta væri samt öruggara en dreifðir gagnagrunnar svo miklu næmi. Hér hefur hv. þm. því fundið mikið þjóðráð til þess að auka öryggi í sambandi við meðferð upplýsinga þó að ég sé ekki alveg sammála hv. þm. að þessu leyti, eins og fyrir liggur í þingskjölum.

Annað atriði sem kom fram hjá hv. þm., og ég heyri að er sameign ýmissa í þingflokki Sjálfstfl., og það er að engar nýjar upplýsingar verða til við tilurð þessa gagnagrunns. Ég átta mig ekki á því hvaða máli það skiptir inn í þetta samhengi. Verið er að setja upplýsingarnar í allt annað form og allt annað samhengi þannig að ég átta mig ekki á því hvaða rök eru með miðlægum gagnagrunni og þeirri áhættu sem honum fylgir og þeim möguleikum sem í honum felast og hættum fyrir persónuvernd, m.a. við þá áformuðu samkeyrslu sem þarna er á döfinni.

Annað atriði leyfi ég mér kannski að nefna í næsta innleggi sem varðar eflingu læknavísindanna.