Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Fimmtudaginn 10. desember 1998, kl. 13:07:09 (1943)

1998-12-10 13:07:09# 123. lþ. 37.1 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv. 139/1998, ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 123. lþ.

[13:07]

Ágúst Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. ráðherra gerði að umtalsefni í ræðu sinni að sátt yrði að ríkja um þetta mál. Ég er sammála hæstv. ráðherra. Ég lagði fram í þingræðu hugmyndir um sátt um þetta mál. Þær voru m.a. að auðvelda aðgengi vísindamanna, takmarka sérleyfið í sex ár í staðinn fyrir tólf, að þeir sem fari úr grunninum geti látið eyða upplýsingum um sig, tryggja betur stöðu barna og sjúkra við ákvarðanatöku, endurskoða lögin eftir fimm ár en ekki tíu og hafa einn sameiginlegan fulltrúa háskólaráðs og sérleyfishafa í aðgengisnefnd í stað eins fulltrúa sérleyfishafa. Ég lagði til að við mundum tryggja betur stöðu tölvunefndar og afgreiða málið ekki fyrir jól heldur reyna að ná meiri sátt um það í samfélaginu. Þetta byggir á þeirri skoðun minni að málið sé ónýtt nema sátt ríki um það.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort hann sé reiðubúinn til að reyna að beita sér fyrir slíkri sáttargjörð og þá e.t.v. í anda þeirra hugmynda sem ég hef lagt fram. Ég vil gjarnan heyra afstöðu hennar til þess.