Lífeyrissjóður sjómanna

Fimmtudaginn 10. desember 1998, kl. 20:48:26 (2082)

1998-12-10 20:48:26# 123. lþ. 37.10 fundur 324. mál: #A Lífeyrissjóður sjómanna# (heildarlög) frv., ÞHS
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 123. lþ.

[20:48]

Þórunn H. Sveinbjörnsdóttir:

Hæstv. forseti. Mér finnst rétt að benda á að á Alþingi hefur ítrekað verið veitt fé til að rétta af halla Lífeyrissjóðs opinberra starfsmanna og hér undanfarið hefur komið fram í ýmsum málsskjölum að víða vantar stórar fúlgur vegna vanreiknaðra lífeyrisskuldbindinga auk þess sem ríkið greiðir 11,5% í þann sjóð.

Við sem hér erum erum að borga í lífeyrissjóð sem ekki á fyrir því sem hann á að standa skil á, en ríkið borgar. En sjómennirnir okkar sem halda uppi samfélaginu eiga engan rétt á að fá ríkisframlag til að ná réttarstöðu sinni. Engir frekar en þeir að eiga þann rétt skilið, að mínu mati. 44% til örorkubóta er svo há greiðsla að hún kostar þennan sjóð geysilegar upphæðir. Ég tel því mjög eðlilegt að eitthvert mótframlag kæmi fram vegna þess. Það er enginn sjóður með svo hátt hlutfall. Það hæsta sem ég hef séð er 30%. Sjóðurinn er líka með mjög háan makalífeyri þannig að þessi staða er mjög sérstök. Vaxtaveislunni er lokið í bili.

Herra forseti. Mig langar einnig aðeins að benda á að stór hluti ríkisstarfsmanna sem vinnur á almennum vinnumarkaði flokkast sem B-ríkisstarfsmenn og fá aðeins 6% iðgjald á meðan aðrir ríkisstarfsmenn fá 11,5 úr ríkissjóði. Þar með eru þeir annars flokks starfsmenn í augum ríkissjóðs. Sjaldan er ein báran stök.