Málefni fatlaðra

Föstudaginn 11. desember 1998, kl. 10:52:03 (2094)

1998-12-11 10:52:03# 123. lþ. 38.5 fundur 331. mál: #A málefni fatlaðra# (yfirfærsla til sveitarfélaga) frv. 156/1998, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur, 123. lþ.

[10:52]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Þetta svar hv. þm. Kristjáns Pálssonar var alveg dæmigert fyrir tilraunir íhaldsins til að draga rógsherferð sína gegn R-listanum og Reykjavíkurborg inn í hvað sem er. Mál af þessu tagi, sem á ósköp lítið skylt við þá skítadreifingarherferð íhaldsins sem er í gangi, er tekið hér upp. Þetta er alveg með ólíkindum. Svo neita menn að horfast í augu við staðreyndirnar. Staðreyndin er sú að útsvarið í Reykjavík var með því lægsta sem finnanlegt var meðal sveitarfélaga af þessari stærðargráðu. Það eru bara svefnbæirnir utan við Reykjavík sem hafa komist upp með að hafa lægra útsvar vegna þess að þeir eru í dekurstöðu. Þó að Reykjanesbær verði með aðeins lægra útsvar eftir hækkun Reykjavíkur þá sýndi hv. þm. fram á að útsvarið var áður hærra í Reykjanesbæ heldur en í Reykjavík.

Hvað með Kópavog og Gunnar Birgisson, kraftaverkamanninn mikla? Hann er búinn að keyra á hærra útsvari í þessum mikla bæ, Kópavogi, en Reykjavík hefur gert. Hvað með Vestmannaeyjar? Hv. þm. svaraði því engu. Þetta eru auðvitað dæmi um það sem við höfum upplifað síðustu daga, vikur og mánuði, að íhaldið er í einni allsherjarskítadreifingarherferð hvað Reykjavíkurborg varðar og meiri hlutann hér.

Ég er enginn sérstakur aðdáandi R-listans og tek ekki að mér að verja hann út af hverju sem er. Ég hef gagnrýnt ýmislegt sem hann hefur staðið fyrir. Svona málflutningi situr maður hins vegar ekki þegjandi undir. Það er alveg gjörsamlega ástæðulaust að láta íhaldið komast upp með það.