Afgreiðsla heilbr.- og trn. á frumvarpi um gagnagrunn

Föstudaginn 11. desember 1998, kl. 14:35:41 (2131)

1998-12-11 14:35:41# 123. lþ. 38.94 fundur 159#B afgreiðsla heilbr.- og trn. á frumvarpi um gagnagrunn# (um fundarstjórn), ÁE
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur, 123. lþ.

[14:35]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Við í stjórnarandstöðunni virðum forseta okkar og þetta mál snýr að þinginu. Komið hefur fram mjög hörð gagnrýni á vinnubrögð hér innan þings. Hæstv. forseti hefur lagt til rétta málsmeðferð. Hann mun funda núna strax með þingflokksformönnum.

Það hefur komið hér fram að stjórnarandstæðingar líta á þetta sem alvarlegt mál, mjög alvarlegt mál, e.t.v. alvarlegasta mál sem komið hefur upp á kjörtímabilinu. Það er fullkomlega eðlilegt, hæstv. forseti, að meðan menn ráða ráðum sínum varðandi málið sé gefið fundarhlé. Og forseti getur ekki ætlast til þess að sátt sé um það að umræða um fjárlög haldi hér áfram þegar svona stendur á. Það er fullkomlega eðlileg ósk af okkar hálfu í stjórnarandstöðunni að gert verði fundarhlé og hæstv. forseti og þingflokksformenn fái ráðrúm til að fara yfir þetta mál þannig að það skýrist þá síðar í dag hvernig á því verði tekið.

En það er ekki hægt, hæstv. forseti, að ætlast til þess að fjárlagaumræðan haldi áfram þó að fordæmi séu fyrir slíkum vinnubrögðum við mál. Þau hafa ekki verið af því umfangi sem hér er á ferðinni. Því fer ég þess á leit við hæstv. forseta að um leið og fundur með þingflokksformönnum hefst verði umræðunni frestað.