Fjárlög 1999

Föstudaginn 11. desember 1998, kl. 17:29:57 (2149)

1998-12-11 17:29:57# 123. lþ. 38.8 fundur 1. mál: #A fjárlög 1999# frv. 165/1998, GE
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur, 123. lþ.

[17:29]

Gísli S. Einarsson:

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir að greitt hafi verið fyrir því að hægt sé að halda áfram þeirri umræðu sem átti að hefjast kl. hálfellefu í morgun. Þeim sem hér stendur var gerð grein fyrir því að það væri nauðsynlegt að hann væri mættur kl. eitt í dag. Það hittist þannig á að ég var bundinn við það sem ég gat engan veginn komist hjá ásamt hæstv. heilbrrh. og það var ástæðan fyrir því að ég var ekki hér í salnum þá og það var ástæðan fyrir því að hæstv. heilbrrh. var ekki heldur mætt í þingsal.

[17:30]

Herra forseti. Ég hef alltaf, við hverja einustu umræðu um fjárlög gert kröfu til þess að hæstv. ráðherrar ríkisstjórnar væru hér og hlustuðu á álit minni hlutans og hef gjarnan nefnt að það væri dónaskapur að hlýða ekki á álit minni hlutans. Ég held því áfram að minna á þetta. Ég vil þakka þeim ráðherrum sem voru hér viðstaddir og sérstaklega þeim sem svöruðu því sem til þeirra var beint undir þessari kynningu eða kynningu á áliti minni hlutans. Ég ítreka það, herra forseti, að mér þykir miður þegar ráðherra gefur sér ekki tíma til að hlýða á það sem fjárln. hefur að segja eftir að um 70% af vinnutíma fjárlaganefndarmanna hefur farið beinlínis í umfjöllun um fjárlagafrv. frá hausti og fram til 2. umr. Ég ítreka það að ég þakka þeim sem voru hér og svöruðu.

Ég hafði hug á, herra forseti, að koma mörgum málum að hér en þar sem boðað hefur verið að það sé tiltölulega stuttur tími þar til þingfundi lýkur þá ætla ég að stytta mál mitt verulega.

Fjárlaganefndin hefur haft frv. til fjárlaga til meðferðar frá því að fyrir því var mælt í byrjun þings. Yfirferðin felst í viðræðum við ráðuneytin um hina ýmsu málaflokka, fulltrúa frá stofnunum, sveitarfélögum og einstökum aðilum sem eiga erindi við fjárln. vegna þessarar fjárlagagerðar. Ákvarðanir í fjárlagagerð í fjárlögum eru grunnur allrar starfsemi á vegum ríkisins og undirstaða samstarfs í veigamestu málaflokkum milli ríkisstjórnar og sveitarfélaga. Ríkisstjórn á hverjum tíma notar fjárlög sem verkfæri til stjórnunar efnahagsmála og þróunar efnahagslífsins á Íslandi. Fjárlög afmarka útgjöld, verðbólgu, fjárfestingu, vexti, gengi og viðskiptajöfnuð.

Vönduð fjárlagagerð á að vera stefnuyfirlýsing ríkisstjórnarinnar á hverjum tíma. Þeir þættir sem hér hafa verið taldir ráða mestu um afkomu þjóðarinnar. Ekki verður þess vart í framsetningu þessa frv., frekar en í fjárlögum síðasta árs, að um ráðdeildarsemi sé að ræða hjá ríkisstjórninni. Öllu fé sem til fellur og meira en það er ráðstafað og teflt á tæpasta vað. Ríkisstjórnin virðist ekki hafa heildarsýn og þess vegna er fjármálastjórnin óábyrg.

Ég vil lýsa því yfir, herra forseti, að ég geri ekki kröfu til þess að ráðherrar séu viðstaddir til að hlýða á orð mín. Ég tel að ástæða sé til að þeir séu við þegar nefndarálitin eru kynnt, bæði meiri hluta og minni hluta, að öðru leyti tel ég að því hafi verið komið til skila að mestu leyti sem fjárln. hefur að segja.

Ég tel að það sé mjög alvarlegt ef fjármálastjórnin er óábyrg og ég vil segja að það sé vegna þess að tengslaskortur er á milli ráðuneyta og þar af leiðir að ekki er nægjanleg samábyrgð á ráðstöfunum fjármuna. Ég tel að þetta þurfi að vera þannig að ráðstöfun fjármuna ríkisins verði að vera miðlæg, hún þarf að vera miðlæg þannig að hægt sé að ná heildaryfirsýn yfir fjárlögin (Gripið fram í: Í gagnagrunni?) Ég veit að orðið ,,miðlægt``, er orðið tamt en það er nákvæmlega það sem á við fjárlög, þau þurfa að vera miðlæg. Ég ætla ekkert að ræða um gagnagrunninn hvernig hann á að vera, ekki að sinni. (Gripið fram í: Því meira í næstu viku.)

Við þær aðstæður sem nú ríkja í þjóðarbúskapnum gegna aðgerðir stjórnvalda lykilhlutverki í að halda aftur af þeirri miklu aukningu sem orðið hefur í eftirspurn og almennum umsvifum. Aðhald í útgjöldum ríkissjóðs er grundvallarforsenda þess að árangur náist í því að minnka viðskiptahalla, sem er skuggalegur og vísar til þenslu og vaxandi hættu á skuldasöfnun þjóðarbúsins. Ríkisfjármálastefnan þarf að vera samstillt peningamálastefnu ef ná á árangri. Þjóðhagsstofnun spáir að árið 1999 verði hið fjórða í röð öflugra hagvaxtarára og spáir hagvexti um 4,6%. Sem er drifin af hverju? Drifin af fjárfestingu og einkaneyslu. Það er því ástæða til þess að vara við þegar slík staða er uppi.

Herra forseti. Svo ég snúi mér aðeins að gjaldahlið fjárlagafrv. til viðbótar við það sem fram kom í áliti minni hlutans þá vil ég ræða örlítið um heilbrigðismál. Þegar verið er að meta velferðarstöðu einstakra þjóða er oft og tíðum miðað við heilbrigðismál. Ég vil geta þess hér að fyrir mikla málafylgju fulltrúa stjórnarandstöðu hefur tekist að lagfæra slæma fjárhagsstöðu margra stofnana í landinu og það er vel. En það stendur út af að hátæknisjúkrahúsin í Reykjavík búa við alvarlegan, óviðunandi rekstrarhalla sem verður að bæta úr.

Alvarleg staða í heilbrigðismálum er vegna skorts á læknum og hjúkrunarfræðingum. Víða á landsbyggðinni er læknaskortur og það þarf að grípa til aðgerða í menntunarmálum svo að ráða megi bót á því alvarlega ástandi sem ríkir vegna manneklu.

Minni hluti fjárln. hefur stutt allar úrbótaaðgerðir í heilbrigðiskerfinu. En við höfum gagnrýnt óeðlilegar og óframkvæmanlegar kröfur um sparnað sem hvað eftir annað hafa verið settar fram á undanförnum árum. Þær kröfur hafa skilað neikvæðum árangri svo sem sannað hefur verið. Það hafa orðið gífurlegar tæknilegar framfarir og það ber að nýta þau tækifæri sem þær hafa í för með sér til að bæta líðan sjúkra á Íslandi. Ég vil ítreka skoðun mína og skoðun minni hlutans um að gerð verði fjögurra til átta ára áætlun um viðhald heilbrigðisstofnana og endurnýjun tækjakosts svo að þessar stofnanir geti sinnt því hlutverki sem þeim er ætlað og sjálfsögð krafa er um af hálfu þjóðarinnar.

Ég vil lítillega til viðbótar því sem minnst er á málefni fatlaðra í minnihlutaálitinu nefna nokkur atriði. Það er mjög alvarlega staða í málaflokknum. Ástæða er til að minnast á það að þeir sem tilheyra þessum málaflokki voru til skamms tíma eins og óhreinu börnin hennar Evu í íslensku samfélagi, þau voru nánast í felum, áttu sér enga talsmenn eða komust ekki í gegn til að gera grein fyrir stöðu sinni. Það er þetta fólk sem þarf að leggja ofuráherslu á að bæta kjörin hjá og við munum gera það í minni hlutanum með tillöguflutningi og öllum tiltækum ráðum. Ég vildi bara aðeins, herra forseti, nefna þessa hluti sem tilheyra gjaldahlið fjárlaganna.

Ég hef áhyggjur af því sem verður í framhaldinu varðandi húsnæðiskerfið þar sem verið er að leggja það niður. Ég hef miklar áhyggjur af því hvað gerist fyrir allan þann fjölda sem bíður eftir leiguhúsnæði, ég hef áhyggjur af því að ekki skuli vera gerðar tillögur um almennilegar úrbætur fyrir það fólk. Ég hef líka áhyggjur af þeim starfsháttum sem beitt hefur verið við breytingu á Húsnæðisstofnun í Íbúðalánasjóð. Ég tel þá vera ámælisverða, sérstaklega hvað varðar samskipti við starfsfólk þar sem því fólki hefur verið gerð lítil grein fyrir hverjar fyrirætlanir eru um endurráðningu og starfskjarabreytingar. Það eru einnig mörg álitamál varðandi samskiptin við bankakerfið, þ.e. flutning viðskipta frá Landsbanka til Búnaðarbanka í þessum málaflokki.

Ég hef hugsað mér, herra forseti, eins og ég sagði í upphafi, að stytta mjög mál mitt til þess að þeir sem hér eru í salnum eigi möguleika á að komast að fyrir hlé og ætla því að víkja að málaflokki sem ekkert hefur verið ræddur í þessari umræðu, eða lítið, og það eru umhverfis- og iðnaðarmál. Það er ástæða til að ræða um stöðu umhverfis- og iðnaðarmála. Það er hafin vakning, herra forseti, gegn virkjunum í ýmsum áhrifahópum. Mér er það alveg ljóst að allir Íslendingar bera hag landsins fyrir brjósti. Það hlýtur að fara saman að bera umhyggju allra byggða landsins fyrir brjósti í þessu sambandi. En ég vil vara við því að í andmælum og viðvörunum um meðferð og nýtingu landsins má ekki vera firring í gangi. Svelti einstaklinga til að vinna gegn virkjunaráformum, er einhver mesta heimska sem ég get hugsað mér gagnvart málstað verndunarsinna, því að í sveltinu felst að mínu mati sú versta sóun sem hugsast getur.

Mikilvægasta atriðið sem ber að huga að er að nýta auðlindir á skynsamlegan hátt, skapa jafnvægi í atvinnustigi á landinu, skapa möguleika fyrir fólk til að hafa störf í heimabyggð. Ég er, herra forseti, stoltur af því að hafa staðið að fullu með stóriðju á Vesturlandi. Það skapaði vinnu á svæðinu og hefur áhrif langt út fyrir kjördæmið og sannanlega á alla landsmenn. Því til sönnunar vil ég nefna að fjölmörg atvinnufyrirtæki sem áttu í rekstrarvanda á nálægum svæðum við Grundartanga hafa náð betri stöðu, aukið umsvif, ráðið fleira fólk til starfa og þar með eytt atvinnuleysi í sumum starfsgreinum. Það er varla hægt að trúa því að fólk sem beitir sér harðast gegn nýtingu á orku og atvinnusköpun sé búið að gleyma því ástandi sem var fyrir fimm árum þegar atvinnuleysi, t.d. á Vesturlandi, var 7--8%, þegar straumur fólks var úr landi vegna atvinnuleysis, þegar vonleysi og samdráttur neyddi fólk til að flýja frá eignum sínum svo eitthvað sé nefnt.

Íslensk þjóð verður að velja og hafna af skynsemi í þessum málum. Það þýðir ekki að ráðast í að virkja allt sem virkjanlegt er og ekki á að ráðast í óskynsamlega stóriðju. Allt það sem við gerum á að orka tvímælis þá gert er. Þá getur farið fram málefnaleg umræða. En ég held að lífssýn geti verið mismunandi eftir því hverju fólk hefur kynnst í uppeldi og orðið að búa við. Þeir sem hafa unnið hörðum höndum við verkamannastörf, sjómennsku, iðnað eða landbúnað skilja betur en hinir, sem aldrei hafa farið í slíka vinnu, hvar fjármunamyndunin hefur orðið til og mun verða grunnurinn að lífsafkomu Íslendinga vel fram á næstu öld.

Sala hugverka, ferðamannaþjónusta, listsköpun, lífefnaiðnaður og fleira mun smám saman koma meira inn sem hluti af atvinnugrunni. Og að því stefnum við og eigum að stefna. En grunnatvinnuvegirnir, sem ég nefndi áður, munu standa undir menntun og fagurfræði og grunnframfærslu um alllangan tíma.

Íslensk þjóð hefur búið við sult og seyru. Og við skulum ekki fara viljandi í það ferli með því að grípa til öfgakenndra aðferða á neinu sviði. Það er, herra forseti, að mínu mati mikil heimska.

Ég mátti til með, herra forseti, að nefna þessi mál því að þau eru mér hugleikin og ég tel mig síst minni verndunarsinna en aðra, hvorki hér inni á hv. Alþingi né almennt úti í þjóðfélaginu.

[17:45]

Ég get ekki látið hjá líða í þeim örfáu orðum sem ég ætla að fara með hér að nefna fiskveiðistjórnarkerfið. Nýfallinn dómur Hæstaréttar hefur vakið mikla athygli. Ýmsir hafa að vonum látið stór orð falla í kjölfar hans. Það er ástæða til að ræða þessi mál í tengslum við fjárlagaumræðu. Afkoma okkar og framtíð er nátengd sjávarfangi og sölu þess sem aflast úr sameiginlegri auðlind þjóðarinnar. Þessa auðlind eigum við að nýta á sjálfbæran máta, hvort sem um er að ræða hvalveiðar eða kræklingarækt, rauðmaga- eða rækjuveiði, löngu- eða lúðuveiði, þorsk-, loðnu- eða síldveiði, eða hvert annað það sjávarfang sem felst í auðlindinni. Réttur okkar allra er að eiga á einhvern máta aðild að því sem sú auðlind gefur. Þess vegna er um stórmál að ræða.

Gífurleg mismunun hefur falist í úthlutun á afnotarétti hvað varðar þessa auðlind. Það er það sem deilt hefur verið um. Þess vegna var þessi hæstaréttardómur felldur sem nú er efstur á baugi. Það tækifæri sem gafst til að gera breytingar á framkvæmd nýtingar auðlindarinnar átti að grípa og reyna að ná viðunandi sátt um hana. Við eigum að viðurkenna þörf fyrir stjórnun og takmörkun aðgangs en hún verður að vera í sátt við þjóðina.

Eftir fram komið frumvarp sem stjórnarliðar hafa samþykkt til framlagningar tel ég stöðuna aftur hafa versnað. Enn er stefnt að því að auka rétt hinna fáu og stóru á kostnað fjöldans. Ég tel að mjög fróðlegt verði að sjá og fylgjast með hverjar breytingar verða gerðar á þessu frv. undir stjórn framsóknarmannsins, hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar. Ég minnist þess að á borðum okkar þingmanna liggur frv. frá honum sem ég hef í ræðu og riti lýst stuðningi við, en það er um að eftir starf á sjó í langan tíma fái menn rétt til fiskveiða í hlutfalli við starfstíma og aldur.

Það væri auðvitað ástæða til að ræða þetta mál í einstökum atriðum, þ.e. þetta frv. sem lagt hefur verið fram í kjölfar hæstaréttardómsins stóra. En ég læt það bíða að sinni en þó er ástæða til að vonast eftir því að mörg hjól springi á ríkisstjórnarvagni hæstv. forsrh. þegar þetta mál kemur til umræðu og ég treysti því að eftirtaldir hv. þm. muni styðja okkur sem erum gegn frv., þ.e. hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson, Einar Oddur Kristjánsson, Einar K. Guðfinnsson, Siv Friðleifsdóttir, Hjálmar Árnason, Guðmundur Hallvarðsson, Guðni Ágústsson, þ.e. verndari litla mannsins, Magnús Stefánsson, Guðjón Guðmundsson og ugglaust fleiri. Ég treysti því að þessir hv. þm. muni ekki samþykkja fyrirliggjandi frv. Það heyrðist enda í Ríkisútvarpinu í morgun að hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson sagðist mundu beita sér af heift gegn frv. eins og það liggur fyrir, og hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson gaf þá yfirlýsingu að þeir mundu verða landsbyggðarverðir.

Ég vil benda á að verja þarf einyrkjaframtakið ekkert síður á suðvesturhorninu. Þar er fjölda útgerðarmanna stefnt rakleitt í gjaldþrot, ef af verður.

Herra forseti. Ég hef í ræðum mínum um fjárlög ávallt komið að málefni um laun á Íslandi og mér finnst ástæða til að ræða enn einu sinni um laun á Íslandi. Ég kom að því fyrr í ræðu minni að lægstu umsamin laun á Íslandi væru að mati ýmissa sérfræðinga neðan fátæktarmarka. Ég vil vísa til BA-verkefnis Hörpu Njáls í félagsfræði við Háskóla Íslands, nr. 1208, sem heitir Fátækt í velferðarsamfélagi, en þar er sagt m.a. um fátækt, með leyfi forseta:

,,Einstaklingar, fjölskyldur eða hópar í samfélaginu lifa í fátækt þegar bjargir þeirra duga ekki til til að nærast, vera þátttakendur í samfélaginu og búa við þau skilyrði eða þægindi sem teljast eðlileg eða eru a.m.k. viðurkennd í því samfélagi sem fólk býr.``

Með flutningi frumvarps sl. þrjú ár hef ég beint athygli að því að lægstu umsamin laun séu undir fátæktarmörkum. Þess vegna gerði ég tillögu um að þessi laun væru 85 þús. kr. Þessa upphæð þarf að framreikna með nýju frumvarpi, ef lagt verður fram. En málin liggja þannig, herra forseti, að frá því í haust hefur það frv. sem ég hef flutt hér ár eftir ár, þ.e. frv. til laga um lögbindingu lágmarkslauna, verið í athugun hjá Þjóðhagsstofnun þar sem óskað var eftir því sérstaklega að þau rök sem sett eru fram sem grunnhugmynd málsins og byggja á bókinni Myth and Measurement verði rækilega skoðuð. Ég geri mér væntingar um að á grunni framlagðra gagna með þessu umrædda frv. muni örðugt að hnekkja þeim dómi bókarinnar að lagasetning um lágmarkslaun, sem byggir á skilgreiningu sem ég las hér áður um fátækt, muni leiða til aukinnar atvinnu og bætts hagvaxtar --- þvert á móti því sem mjög hefur verið haldið fram hér á Íslandi. En ég verð, herra forseti, að viðurkenna að mjög er gengið á þolinmæðisbirgðir mínar varðandi það að fá niðurstöðu frá Þjóðhagsstofnun.

Ég hef, herra forseti, einnig undir höndum niðurstöðu ráðstefnu sem ég skil þannig að lágmarkslaun eigi að hækka í góðæri. Þetta er niðurstaða ráðstefnu sem fór fram í Bandaríkjunum á vegum American Enterprise Institute for Public Policy Research. Ég skil niðurstöðuna þannig að það eigi að setja lög um lágmarkslaun eða a.m.k. að þau eigi að hækka í góðæri. E.t.v. þarf að gera það með þeirri leið að veita takmarkaðan skattafslátt. Ég get að sjálfsögðu fallist á hverja þá leið sem gefur árangur. En meðan ég hef til þess rétt og aðstöðu á hinu háa Alþingi þá mun ég halda áfram að tala fyrir þessu máli og skilgreini það þannig að það eigi í raun erindi inn í allar umræður sem fara fram, og ég læt vita af því hér með, herra forseti, að ég mun e.t.v. grípa til þess ráðs að ræða fátækt og lægstu laun í tengslum við öll frumvörp og þáltill. sem ég ræði um í þessum ræðustóli.

Herra forseti. Ég stóð hér í ræðustól hv. Alþingis hvað eftir annað sl. vetur og barðist fyrir framlagi til verkefnis sem Alþingi setti á laggirnar til að skapa framtíðarsýn um matvælaframleiðslu á grunni sjálfbærra framleiðsluhátta. Það tókst að fá skilning fyrir því. Þetta átaksverkefni átti að koma á reglugerðum og framkvæmdum í þessum málum, sem við Íslendingar höfum ekki verið nægilega vakandi fyrir. Staða mála er þannig nú að þetta verkefni hefur tekist og fjöldi fólks hefur tekið þátt í aðgerðum á þessu sviði.

Á Íslandi eru nú framleidd eftirsótt, lífrænt ræktuð matvæli sem eiga sívaxandi vinsældum að fagna. Ég tel að hv. Alþingi eigi að viðhalda þessu verkefni með því að færa það á einhvern hátt að vinnu við svokallaða Dagskrá 21 um vistvæna byggðakjarna í samstarfi við Samband ísl. sveitarfélaga.

Ég vil segja, herra forseti, að mikil nauðsyn er að koma á gæðavottun íslenskra matvæla. Sennilega eru hvergi á einum stað til meiri upplýsingar um það hvernig má koma gæðavottun á en hjá þessu umrædda átaksverkefni sem heitir Áform.

Ég má til með að nefna nokkra punkta sem ég hafði meðferðis varðandi landbúnað og e.t.v. tengingu landbúnaðar og sjávarútvegs. Það er ástæða til að nefna að landbúnaður hefur staðið sig nokkuð vel á undanförnum árum. Framleiðslan hefur einkum tekið mið af heimamarkaði og fullnægt honum á flestum sviðum. Með þessu hefur þjóðin sparað gjaldeyri sem ella hefði verið nýttur til innflutnings á matvælum. Með landbúnaði hefur verið tryggt að landið er enn í byggð. Ég vil segja að bændum hefur að mínu mati tekist að viðhalda menningararfleifð þjóðarinnar sem á rætur að rekja til sveitasamfélagsins mun fremur en þéttbýlis. Á bændum hvílir sú ábyrgð að viðhalda landgæðum og bæta þau þar sem því verður við komið. Með þessu móti munu innlendir og erlendir ferðamenn njóta náttúrufegurðar landsins. Ferðaþjónustan er talin vera ein af vaxtarbroddum atvinnulífsins. Flestir ferðamenn sem hingað koma vilja njóta ósnortinnar náttúru landsins.

Hér kem ég að því, sem ég nefndi áður í ræðu minni, að það á að velja af skynsemi, það á að hafna af skynsemi og við eigum ekki að fara offari í neinu þegar við erum að tala um virkjunaráform eða verndunaráform --- og allra síst get ég fallist á það að eðlilegt sé að háskólinn leggi til húsnæði fyrir ungar stúlkur sem fara í svelti. Ég get ekki fallist á slíkt. Mér finnst það sóun og mér finnst það heimska.

Íslenskur landbúnaður hefur alla burði til að tryggja neytendum holl og góð matvæli sem framleidd eru án óæskilegra aukefna. Dýravernd á að vera í heiðri höfð og hún á að vera í sátt við umhverfið. En til að svo megi vera þá verða bændur að taka höndum saman og koma á gæðastýrðu framleiðsluferli. Og það er það sem ég hef áhuga á í sambandi við það verkefni sem ég var að ræða um að ég hefði barist fyrir að fengi framlag eins og ætlað var af hálfu Alþingis, af hálfu flutningsmanna þeirrar þingsályktunar sem samþykkt var á Alþingi og flutt var af formönnum þáv. þingflokka sem sátu á Alþingi.

Ég tel að halda eigi þessu verkefni áfram. Það er kominn árangur og ég er að leggja drög að því að til verði tillögur um á hvern hátt eigi að nálgast þau markmið að hér verði framleidd úrvals gæðavara á viðunandi verði. Það þarf að efla skilning, ekki bara hjá framleiðendum heldur einnig hjá neytendum.

Ég vil nefna sjávarútveginn. Sjávarútvegur er að mínu mati hin höfuðatvinnugrein þjóðarinnar. Íslenskur fiskur er hágæðaafurð á heimsmörkuðum og núverandi veiðistjórnarkerfi er metið þannig að það leiði til verndunar. Það eru margir sem telja það vera með því besta sem þekkist. Ég er ekki fullkomlega sammála þeirri skilgreiningu, ég tel að það geti verið betra, ég tel að það megi bæta, en ekki er tækifæri til þess að leggja fram í stuttu máli á hvern hátt á að nálgast þá bót.

Ég vil aðeins nefna það sem ég hef oft komið að áður, herra forseti, að menn hafa litið svo á hingað til að ekki borgi sig að hirða úrgang sem til fellur í sjávarútvegi, hvort sem það er frá fiskiskipum eða vinnslustöðvum. Við munum að bannað er að henda úrgangi í sjóinn sem hægt er að nýta. Ég vil bara segja að ef íslenskir bændur fengju allan þann úrgang sem fellur til í sjávarútvegi og í matvælavinnslunni þá gætu fleiri bændur tekið upp lífrænar framleiðsluaðferðir.

Ég held, herra forseti, að það sé kannski ástæðulaust að vera að messa langt mál um þessi áhugamál mín. Ég sneiddi viljandi fram hjá umræðum um þá liði sem við höfum gert grein fyrir í áliti minni hlutans.

[18:00]

Þá aðeins nokkur orð um allar þær brtt. sem liggja fyrir, bæði frá meiri hluta og minni hluta fjárln. og síðan frá einstökum þingmönnum. Það má sjá á þeim tillögum sem fyrir liggja að margir eru sannfærðir um að það ríki mikið góðæri. Ég er ekki sannfærður um góðærið. Ég tel að góðærið hafi sneitt fram hjá dyrum fjölmargra í íslensku samfélagi. Ég tel að mikið vanti á að þetta umrædda góðæri hafi komist að dyrum öryrkja, fatlaðra og aldraðra. Minni hlutinn leggur höfuðáherslu á þessi mál. Ég er búinn að fá hæstv. fjmrh. hér upp í stól þar sem hann hefur heitið því, að mínu mati, að úr verði bætt og það verulega. Og ég segi að verði ekki komið með upphæð sem nemur a.m.k. því sem skert hefur verið á undanförnum þremur árum, og þá miða ég við lágmarkslaun, er illa farið. Þetta fólk bíður og er með væntingar um að vel verði gert. Ég óttast hins vegar að þær tillögur sem fyrir liggja óafgreiddar, þá á ég við byggðastefnutillöguna sem hljóðar upp 300 milljónir, jöfnunartillöguna um húshitunarkostnað sem ég veit ekki hvað verður há --- hún verður ugglaust nálægt 100 milljónum --- og þær aðrar tillögur sem í pípunum bíða upp á 700--800 milljónir, leiði til þess að fjárlög eru komin á tæpasta vað.

Herra forseti. Í ljósi þeirra tillagna sem fyrir liggja tel ég að ástæða sé til þess að breyta um vinnuaðferð. Það þarf að breyta um vinnuaðferð. Menn verða að fá meiri yfirsýn yfir málin. Þegar verið er að selja eignir eins og nú er verið að gera þá eiga þeir fjármunir sem koma frá sölu eigna að renna beint til að greiða niður skuldir.

Herra forseti. Ég óttast að ýmsar þær aðgerðir sem ríkisstjórnin hefur gripið til séu nánast eins og að ausa olíu á eld. Ég óttast verðbólgu. Ég verð að segja það hér í þessum stól að ég óttast verðbólgu vegna þess að ekki hefur verið gripið til þeirra aðhaldsaðgerða sem þörf er á. Þar með er ekki sagt að það eigi ekki að bæta kjör þeirra sem ég nefndi áðan.

Herra forseti. Ég hef stytt mál mitt eins og ég hef getað og reynt að koma því að sem mig langaði að segja með örfáum stikkorðum. Það hef ég gert til þess að taka tillit til þeirra sem enn bíða frá því í morgun eftir að geta tekið til máls rétt eins og ég um þau málefni sem við höfum fjallað um í 70% af okkar starfstíma. Ég get nefnt það sem dæmi að hjá mér hafa farið yfir 200 klukkustundir í fjárlagavinnunna bara í síðasta mánuði.