Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Þriðjudaginn 15. desember 1998, kl. 16:20:56 (2334)

1998-12-15 16:20:56# 123. lþ. 41.1 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv. 139/1998, Frsm. meiri hluta SF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 123. lþ.

[16:20]

Frsm. meiri hluta heilbr.- og trn. (Siv Friðleifsdóttir) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því að vísa því á bug að ekki hafi verið um eðlileg vinnubrögð að ræða í heilbr.- og trn. Ég bendi sérstaklega á að það voru þrír formenn fastanefnda Alþingis sem voru með í því að taka þetta mál út. Þetta er því allt gert mjög eðlilega af fólki sem hefur mikla reynslu af þingstörfum.

Hér er sérstaklega vitnað í framkvæmdastjóra tölvunefndar og ég tel að þessi tilvitnun sé nú eitthvað slitið úr samhengi. Ég bendi á að viðkomandi aðili sagði líka að hægt væri að samkeyra þessar upplýsingar en það væri viðamikið verkefni og þyrfti sérstaka yfirlegu. En það væri hægt. Það stendur ekki í áliti minni hlutans.

Ég vil líka taka það sérstaklega fram, vegna þess sem hv. þm. Bryndís Hlöðversdóttir segir hér og gerir hálfgert grín að þeirri er hér stendur, að tala um væntanlegan starfsleyfishafa. Þá vil ég benda á það að í nál. fyrsta minni hluta stendur, með leyfi forseta: ,,væntanlegur starfsleyfishafi``. Nákvæmlega sama orðalag og ég hef notað. Þannig að ef þetta er sérstakur bjánagangur að þá er þetta sérstakur bjánagangur líka í hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni og hv. þm. Ástu Ragnheiði Jóhennesdóttur, sem tala um ,,væntanlegan`` starfsleyfishafa.

Að lokum vísa ég því algjörlega á bug að við séum að vinna undir einhverri utanaðkomandi stjórn og lesist: undir stjórn Íslenskrar erfðagreiningar. Það er alrangt. Við fáum hins vegar miklar upplýsingar bæði frá andstæðingum frv. og frá þeim sem eru fylgjandi því, bæði í gegnum netið, símtöl, fax og annað en það er alrangt að við séum undir stjórn einhverra aðila utan frá.

Við stýrum brtt. okkar sjálf á Alþingi. Þetta eru brtt. okkar meiri hlutans og ég gæti alveg eins sakað hv. þm. um að vera sérstakan bandingja andstæðinga frv. en ég ætla ekki að gera það.