Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Þriðjudaginn 15. desember 1998, kl. 18:57:38 (2353)

1998-12-15 18:57:38# 123. lþ. 41.1 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv. 139/1998, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 123. lþ.

[18:57]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Hæstv. forseti. Menn munu setjast niður og ná góðum samningum við sérleyfishafa. Það er komið undir því að þeir nái slíkum samningum og það er rekstrarleyfishafinn sem hefur verðmætin hjá sér. Í þeim tilvikum þar sem viðsemjandinn er veitandi kann hann að hafa einhverja stöðu til samninga. En þar sem hann ekki er veitandi? Þar sem viðsemjandinn, vísindamaðurinn eða stofnunin er ekki veitandi heldur íslenskur vísindamaður í fjárvana stofnun? Þá er hann í heljargreipum, þá hvílir hann í vinarklóm. Þá hefur sérleyfishafinn öll ráð í hendi sinni. Síðan er spurningin þessi: Ef ríkisstjórnin ætlar að komast að samkomulagi fyrir hönd annarra en þeirra sem eru á vegum ríkisins eða sveitarfélaga, óttast menn þá ekki að það yrði skilgreint sem einhvers konar niðurgreiðsla og mundi ekki standast EES-samkeppnisreglur? Ég vil gjarnan fá svör og hugleiðingar við þessu.