Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Þriðjudaginn 15. desember 1998, kl. 21:15:50 (2368)

1998-12-15 21:15:50# 123. lþ. 42.2 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv. 139/1998, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 123. lþ.

[21:15]

Frsm. 1. minni hluta heilbr.- og trn. (Össur Skarphéðinsson) (andsvar):

Herra forseti. Þó að hv. þm. Tómasi Inga Olrich hafi verið falið að hafa forustu af hálfu Sjálfstfl. í þessu máli, þá er hann ekki í nefndinni sem fjallaði um þetta mál.

Það var alltaf ljóst og sér í lagi eftir margar heimsóknir og mörg samtöl nefndarinnar við starfsmenn heilbrrn. að þessi skilningur sem ég hef lýst var hárréttur. Skilningur hv. þm. Tómasar Inga Olrichs var rangur. En það rann upp fyrir honum í miðri ræðu við 2. umr. að hann hafði rangt fyrir sér. Því kom hann fram með þessa hugmynd vegna þess að eðlilega eins og hann hefur skilið þetta sem rannsóknartæki, þá vantaði erfðafræðina inn í. En það var bara ekki skilningur ráðuneytisins. Það var ekki skilningur hæstv. heilbrrh., ekki okkar hinna.

Hv. þm. sagði það núna í ræðu sinni áðan að ekki sé hægt að nýta erfðafræðigrunn ef tölvunefnd þarf að gefa leyfi í sérhvert skipti. Hver segir það? Hver heldur því fram? Hver hefur upplýst hv. þm. Tómas Inga Olrich um það? Ekki starfsmenn heilbrrn. Ekki þeir sérfræðingar sem komu til fundar við nefndina. Getur verið að starfsmenn Íslenskrar erfðagreiningar hafi upplýst hann um það?