Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Þriðjudaginn 15. desember 1998, kl. 23:44:34 (2388)

1998-12-15 23:44:34# 123. lþ. 42.2 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv. 139/1998, SvG (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 123. lþ.

[23:44]

Svavar Gestsson (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég tek undir þær óskir hv. þm. Ögmundar Jónassonar, formanns þingflokks óháðra, fyrir hönd míns þingflokks að ég óska eftir því að þessum fundi verði nú slitið. Það eru engin rök fyrir því að halda honum áfram. Mjög margir eru á mælendaskrá og augljóst að það hefur ekkert upp á sig að halda áfram inn í nóttina. Það leysir engan vanda. Það væri langskynsamlegast að taka núna hlé á þessum fundi þannig að það verði þá hægt að skoða hlutina betur í fyrramálið.

Ég bendi líka á það, herra forseti, að nokkrar nefndir eru á fundum í fyrramálið. Ég veit að hv. efh.- og viðskn. hefur verið boðuð á fund í fyrramálið til þess að afgreiða nokkur skattafrv. þannig að bersýnilegt er að nefndirnar eru á fundum enn þá þó að nefndavikunni og nefndadögunum sé lokið sem er nú kapítuli út af fyrir sig og sýnir vel stjórnleysið í þessari stofnun.

Síðan vill þannig til að til stóð samkvæmt starfsáætlun Alþingis að þinghaldi lyki á laugardaginn kemur, fyrir hátíðarnar. Samkvæmt lista sem ég hef nýlega séð og farið yfir eru ein 30 mál eftir sem þarf að ljúka fyrir laugardagskvöld ef það á að ljúka öllum málum fyrir hátíðarnar eins og hæstv. ríkisstjórn ætlast til. Það er því augljóst að nauðsynlegt er að fara núna strax í viðræður um þinghaldið. Og ef hæstv. forseti treystir sér ekki til þess að slíta fundinum nú þegar, sem ég teldi langskynsamlegast, þá fer ég fram á það sem varakröfu að settur verði hér á fundur með forustumönnum þingflokka og þingsins um skipulag þinghaldsins næstu daga því að það stefnir í fullkomið óefni.

Vandinn í kvöld hefur aðallega verið málþóf stjórnarsinna. Tveir fulltrúar Sjálfstfl. í heilbrn. hafa tekið á annan klukkutíma hvor þannig að um það bil helmingurinn af þeim tíma sem farið hefur í umræðu um gagnagrunnsmálið hefur farið í málþóf stjórnarsinna. Því er ekki við okkur að sakast þó hlutirnir hafi tekið einhvern tíma eins og þróun mála hefur verið. Ég skora því á hæstv. forseta að slíta núna þessum fundi þannig að hægt sé að snúa sér að öðru.