Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Þriðjudaginn 15. desember 1998, kl. 23:58:57 (2395)

1998-12-15 23:58:57# 123. lþ. 42.2 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv. 139/1998, KH (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 123. lþ.

[23:58]

Kristín Halldórsdóttir (um fundarstjórn):

Herra forseti. Það vill nú svo til að ég hafði ekki beðið um orðið en ég að sjálfsögðu tek það úr því að mér var boðið það. Sennilega hefur hæstv. forseti gert ráð fyrir því að ég mundi tala eins og aðrir þingflokksformenn stjórnarandstöðunnar og mundi tala aftur. Ég get ekkert annað en tekið undir þeirra orð. Enn fremur verð ég að segja að mjög alvarlegar ásakanir komu fram í máli hv. síðasta ræðumanns og ég bara trúi því ekki það sé svo, sem hann gaf í skyn, að hæstv. forsrh. sé farinn að stjórna þinginu. Ég ber að sjálfsögðu fullkomið traust til hæstv. forseta, bæði þess sem hér situr og annarra, að þeir láti ekki forsrh. landsins stjórna þinginu. Auðvitað stjórna forsetar þinginu.

(Forseti (RA): Forseti biður hv. þm. afsökunar á að hafa gefið henni orðið án þess að hafa beðið um það, en ástæðan var einfaldlega sú að forseti gat ekki svo auðveldlega greint öll þessi mörgu bönk sem komu áðan og gaf þar af leiðandi orðið þeim sem töluðu í fyrra sinnið í sömu röð og þeir töluðu. En hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir mun ótvírætt hafa beðið um orðið.)