Framkvæmdasjóður Íslands

Miðvikudaginn 16. desember 1998, kl. 18:13:37 (2436)

1998-12-16 18:13:37# 123. lþ. 43.5 fundur 123. mál: #A Framkvæmdasjóður Íslands# (afnám laga) frv. 146/1998, fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur, 123. lþ.

[18:13]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Þær upplýsingar sem hv. þm. rakti hér eru að sjálfsögðu mikilvægur fróðleikur sem lagður er fram í málinu af hálfu Ríkisendurskoðunar. En þetta eru staðreyndir sem menn verða að horfast í augu við og hér er um það að ræða að viðkomandi aðilar hafa áunnið sér þennan rétt og honum verður ekki burtu svipt bótalaust þannig að ef menn vilja gera eitthvað í því, eins og stundum er sagt, þá eiga menn auðvitað á hættu að kalla yfir ríkið dómsmál sem mundi væntanlega tapast vegna þess að hér er um að ræða réttindi sem viðkomandi hafa sannanlega áunnið sér. Hitt er annað mál að vissulega er þarna um að tefla verðmæt réttindi og mikil fyrir einstaka menn. En aðalatriðið er þó að við erum núna að vinna okkur út úr þessu gamla kerfi sem menn þekkja, og nýir tímar eru upp runnir í þessum efnum eins og allir í Alþingi vita væntanlega.

Lífeyrisskuldbindingar geta verið vandmeðfarin útreikningsmál. Maður sem hættir 65 ára og fær 100 þús. kr. í lífeyri og lifir síðan til 95 ára aldurs kostar tugi milljóna, ef svo mætti að orði komast, fyrir þann sem ábyrgð tekur á lífeyrisskuldbindingunni. Þessar upphæðir eru því fljótar að safnast saman og menn verða að horfast í augu við þær, alveg eins og við erum t.d. að gera núna í fjáraukalagafrv. fyrir þetta ár. Þar erum við að horfast í augu við þær skuldbindingar hjá ríkinu almennt sem safnast hafa upp og best er vitað um.