Fjárfestingarbanki atvinnulífsins

Fimmtudaginn 17. desember 1998, kl. 15:45:08 (2523)

1998-12-17 15:45:08# 123. lþ. 44.17 fundur 229. mál: #A Fjárfestingarbanki atvinnulífsins# (sala hlutafjár) frv. 167/1998, Frsm. meiri hluta VE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 123. lþ.

[15:45]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tel að með þeirri aðferð sem hefur verið notuð hafi myndast afar dreifð eignaraðild á Fjárfestingarbankanum og mun dreifðari eignaraðild en verið hefði ef leið hv. þm. hefði verið farin, sú að skipta sjóðunum á milli hinna bankanna í kerfinu. Fjárfestingarbankinn, eins og hann starfar í dag, er sjálfstætt fyrirtæki og það eru fleiri keppinautar á markaðnum. Samkeppnin á markaðnum hefur aukist, vaxtamunurinn hefur minnkað, öll sú þróun sem verið hefur á fjármagnsmarkaðnum hefur verið í átt til aukinnar hagkvæmni og aukinnar arðsemi til hagsbóta fyrir viðskiptavinina og til hagsbóta fyrir þá sem eiga þarna fjármuni.

Öllu því sem hv. þm. hefur sagt er aðeins hægt að gefa eina einkunn, þetta er bara nöldur og málþóf. Hv. þm. er einfaldlega á móti þessu af einhverjum furðulegum ástæðum sem er ómögulegt að vita og væri fróðlegt að fara að fá einhverjar skýringar á því.

Hv. þm. talar um einkavinavæðingu í þessu sambandi og ég verð að segja það að ég er stoltur af því að eiga 90 þúsund einkavini sem hafa skrifað sig fyrir hlutafé í Búnaðarbanka Íslands. Ég er viss um að Búnaðarbanki Íslands verður eftir allar þessar breytingar fjölmennasta hlutafélag landsins. Sannarlega er ágætt að eiga þá vini alla saman að einkavinum og verð ég þá a.m.k. vinaríkari en hv. þm., sem virðist vera á móti og hafa einhverja fordóma gegn öllum þeim sem eiga hluti í þessum bönkum. Furðulegastir eru þó fordómar hv. þm. í garð Íslandsbanka, sem komu áðan fram, sem er fyrirtæki með afar dreifða eignaraðild. Nánast þriðjungur hlutafjárins er í eigu lífeyrissjóða, enginn hluthafi er stærri en 10% í bankanum, þriðjungur er í eigu fyrirtækja og stofnana og annar þriðjungur í eigu þúsunda einstaklinga. Ég skil ekki þessa fordóma í garð þess fyrirtækis.