Fjárfestingarbanki atvinnulífsins

Fimmtudaginn 17. desember 1998, kl. 19:04:26 (2548)

1998-12-17 19:04:26# 123. lþ. 44.17 fundur 229. mál: #A Fjárfestingarbanki atvinnulífsins# (sala hlutafjár) frv. 167/1998, viðskrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 123. lþ.

[19:04]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Það er tvennt sem ég má til með að þakka hv. þm. Ögmundi Jónassyni fyrir. Annars vegar góðar óskir í garð Framsfl. og hins vegar ágæta ræðu sem hv. þm. flutti við þessa umræðu.

En það var ekki þess vegna sem ég stóð upp heldur fyrst og fremst að ég skynjaði það í upphafi ræðu hv. þm. að hann hafði ekki alveg gert sér grein fyrir því hvað Alþingi hafði samþykkt varðandi söluheimildir og heimildir til að auka hlutafé í ríkisviðskiptabönkunum, Landsbanka og Búnaðarbanka. Og því þykir mér rétt að fara aðeins yfir það svo enginn misskilningur sé í því.

Það kemur skýrt fram í lögunum um hlutafjárvæðingu Landsbanka Íslands hf. og Búnaðarbanka Íslands hf. að ekki er hægt að selja eignarhluti ríkisins í þessum fyrirtækjum nema með heimildum frá Alþingi. Eftir þeim heimildum verður ekki leitað að þessu sinni.

Hins vegar eru líka ákvæði í þessum lögum um að viðskrh. hafi heimild til að auka hlutafé í þessum bönkum allt að 35%. Um þetta hefur enginn ágreiningur verið. Þannig eru þessar heimildir og á grundvelli þeirra var tekin ákvörðun, bæði í Landsbanka og Búnaðarbanka, að auka hlutafé um 15% í þessum bönkum af því bankarnir þurftu á því að halda. Þetta var gert í góðu samráði við starfsfólkið, þetta lá fyrir þegar frv. var lagt fyrir Alþingi, starfsfólkið vissi af þessu og það var haft með í ráðum í undirbúningi þessa máls.

Það sem að Fjárfestingarbanka atvinnulífsins snýr er að í frv., þegar bankinn var útbúinn frá Alþingi formlega með lögum, var líka heimild til þess fyrir iðnrh. og sjútvrh. að selja þennan 49% hlut ríkisins í bankanum. En það var líka tekið fram að möguleiki væri á því að síðar á kjörtímabilinu yrðu 51% sem eftir væru seld. Og það er eftir þeim heimildum sem við erum að leita núna frá Alþingi með sérstöku lagafrv. en ekki eins og oft áður var gert að stinga slíkum hlutum inn í fjárlagfrv. Þetta er gert með sérstöku frv.

Ég get því miður ekki gert að því þótt hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir hafi ekki verið viðstödd hér í þingsalnum þegar ég svaraði hv. þm. Guðmundi Árna Stefánssyni fyrr við þessa umræðu nákvæmlega efnislega sömu spurningunum og hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir spurði um.