Fjárfestingarbanki atvinnulífsins

Fimmtudaginn 17. desember 1998, kl. 19:09:30 (2550)

1998-12-17 19:09:30# 123. lþ. 44.17 fundur 229. mál: #A Fjárfestingarbanki atvinnulífsins# (sala hlutafjár) frv. 167/1998, viðskrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 123. lþ.

[19:09]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Enn nokkur orð um samráðið við starfsfólk. Eitt af þeim fyrstu verkum sem ég fór í þegar ákveðið var að setja þessar nefndir af stað til að undirbúa hlutafjárvæðinguna var að eiga fundi með starfsmönnum bankanna, fulltrúum starfsmannafélaganna. Þeim var lofað samráði allan tímann, það var haft samráð við starfsfólkið allan tímann. Það var hins vegar líka alveg ljóst að á einhverjum stigum málsins gætu leiðir skilið. Þær skildu hins vegar aldrei og stuðningur starfsmannafélaga beggja bankanna var við þá leið sem farin var.

Það er alveg rétt hjá hv. þm. að verið er að markaðsvæða eða almannavæða þessi fyrirtæki. (ÖJ: Almannavæða?) Já. Ég segi almannavæða vegna þess að það eru tæplega 93 þúsund einstaklingar sem skráðu sig fyrir hlut í Búnaðarbanka Íslands. Það voru 12 þúsund einstaklingar sem skráðu sig fyrir hlut í Landsbanka Íslands. Það voru um 10 þúsund einstaklingar sem skráðu sig fyrir hlut í Fjárfestingarbanka atvinnulífsins. Þeim hefur fækkað í öllum þessum bönkum og þeim mun eitthvað fækka enn. En Búnaðarbanki Íslands mun verða fjölmennasta almenningshlutafélag á Íslandi þegar fram líða stundir.

Það var ekki nema --- sem betur fer --- þriðjungur, tæplega þó, af þessum 93 þúsundum sem skráðu sig í Búnaðarbankanum sem framseldi sína kennitölu. (Gripið fram í: Og lentu beint í gin kolkrabbans.) Íslandsbanki náði 1,5% út úr því, en hefur örugglega ætlað sér miklu stærri hluti, en náði ekki nema 1,5%. Sem segir mér það að kennitölukapphlaupið mistókst, sem betur fer. Það mistókst vegna þess að sá hluti þjóðarinnar var ekki tilbúinn til að binda sig fyrir fram gagnvart þessum fjármálastofnunum með því að selja þeim fyrir fram á tilteknu verði, genginu 2,28, 2,5 eða 2,6, sinn hlut, vegna þess að þeir sem ekki seldu hlut sinn fyrir fram gátu í dag, þegar bankinn kom í fyrsta skipti inn í Verðbréfaþingið, selt hlut sinn fyrir 2,71. Og munu geta selt fyrir hærra verð þegar fram líða stundir.

Þetta segir bara eitt: Þetta fólk veit hvernig hlutabréfamarkaðurinn virkar á Íslandi, sem betur fer.