Fjárfestingarbanki atvinnulífsins

Fimmtudaginn 17. desember 1998, kl. 19:54:11 (2558)

1998-12-17 19:54:11# 123. lþ. 44.17 fundur 229. mál: #A Fjárfestingarbanki atvinnulífsins# (sala hlutafjár) frv. 167/1998, JóhS
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 123. lþ.

[19:54]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Því miður verð ég að hryggja hæstv. forseta með því að sú ræða hæstv. viðskrh. sem hann flutti, þar sem ég bað um að hann svaraði spurningum mínum, hefur ekki orðið tilefni til að stytta þennan fund, því miður. Ég þarf því að fara aðeins yfir þetta mál á nýjan leik vegna þess að hæstv. ráðherra hefur ekki svarað þeim spurningum sem ég beindi til hans. Mér fannst ráðherrann vera með útúrsnúning, hroka og yfirlæti ...

(Forseti (GÁ): Hæstvirtur.)

Hæstvirtur ráðherrann. Hæstv. ráðherra sagði í andsvari áðan við hv. þm. Össur Skarphéðinsson að hann ætti að taka mig og hv. þm. Ágúst Einarsson í fræðslu að því er varðar bankamál og bankakerfi. Ég verð nú bara að vísa þessu til föðurhúsanna og segja við hæstv. ráðherra að mér finnst stundum af málflutningi hans, sem ber ábyrgð á miklum eigum ríkissjóðs eins og bankakerfinu, að honum veitti oft og iðulega ekki af því fá fræðslu varðandi bankakerfið og hvernig með eigi að fara varðandi eigur ríkissjóðs þannig að skattgreiðendur og ríkiskassinn fái sem mest þegar verið er að fara út í sölu á bönkunum og einkavinavæðingu. Ég ætla mér alveg blákalt, herra forseti, að halda því fram þrátt fyrir það sem hæstv. ráðherra sagði áðan.

Ég ætla að byrja á því að fara yfir þær spurningar sem hæstv. ráðherra hefur ekki svarað. Ég spurði, herra forseti, sem er grundvallaratriði, sérstaklega þegar við erum kominn tímaþröng með þinghaldið fyrir jólin:

Hvað liggur svona mikið á að koma þessari heimild Fjárfestingarbankans í gegnum þingið, að þetta frv. þurfi að hafa hér algjöran forgang? Það vantar veigamiklar upplýsingar sem kallað hefur verið eftir úr þessum ræðustól, til þess að þingið hafi heildaryfirsýn yfir málið. Ég bað hæstv. ráðherra um rök fyrir því hvað það væri sem gerði það að verkum að svo mikið lægi á að afgreiða málið. Ekkert hefur komið fram í máli ráðherrans sem segir mér að afgreiða þurfi þetta mál með þeim flýti sem hér á að gerast. Taka það í forgang, t.d. á undan frv. um stjórn fiskveiða og mikilvægum málum sem liggur á að komi til umræðu. Þetta er númer eitt.

Þær upplýsingar sem ég segi að vanti inn í þessa umræðu og ég hef kallað eftir eru m.a. það sem embættismenn viðskrn. upplýstu efh.- og viðskn. um að mundi liggja fyrir, þegar þeir komu á fund nefndarinnar 4. des., en meiri hluta nefndarinnar lá svo á að afgreiða málið út að það var afgreitt út 3. des. án þess að þessi hluthafaskrá í Fjárfestingarbankanum lægi fyrir.

Við erum aðallega að ræða hér um Fjárfestingarbankann, og ég hefði gjarnan viljað halda mig við það umræðuefni, en hæstv. ráðherra fór út um víðan völl í ræðu sinni þannig að það er ekki víst að ég geti alveg gert eins og ég ætlaði.

Þegar hæstv. ráðherra fór yfir hve margir hluthafar stæðu eftir, eftir að útboðin hafa farið fram í þessum þremur bönkum, við hvaða tíma var hæstv. ráðherra að miða? Er hæstv. ráðherra að fullyrða að eftir standi 60 þúsund hluthafar í Búnaðarbankanum á þessum degi, 17. des. 1998? Það er alveg rétt að upplýsingar komu um það fyrir nokkrum dögum síðan að strax hefði einn þriðji hluti af þessu verið seldur aftur, 30 þúsund, og eftir stæðu 60 þúsund. Við vitum ekkert hvernig staðan í þessum málum er í dag og það hefði þurft smátíma til að átta sig á hvaða áhrif þessi kennitölusöfnun í raun og sanni hafði og við hefðum haft miklu betri tíma til þess að gera það þegar þing kemur aftur saman í janúarmánuði. Mér finnst það nú allnokkuð að 30 þúsund hafi strax látið bréfin af hendi --- bréfin komu náttúrlega aldrei í hendur þessara 30 þúsund einstaklinga, þeir tóku bara ágóða sinn yfir borðið.

Það er töluvert langt síðan ég heyrði varðandi Landsbankann sem var áður með sín bréf í sölu að hluthöfum hefði strax fækkað úr 12 þúsund í 8 þúsund. Er það svo í dag, herra forseti? Ég veit það ekki, við höfum ekki fengið að sjá hluthafaskrárnar í þessum bönkum, hvernig þær líta út í dag og heldur ekki að því er varðar Fjárfestingarbankann. Hæstv. ráðherra hélt því fram, sem kom mér gjörsamlega á óvart, í seinni ræðu sinni, að stefnan sem ríkisstjórnin mótaði í ágúst sl. varðandi hlutafjárútboðin, þau markmið hefðu gengið eftir.

Ég vil minna á, herra forseti, að haft var eftir ráðherranum fyrir nokkrum dögum þar sem hann var að ræða um söfnun á kennitölum --- að vísu hefur Viðskiptablaðið verið með ákúrur á ráðherrann um að hann skuli vera að taka undir með mér að þessar kennitölusafnanir séu eitthvað óeðlilegar og það þurfi að skoða hvort bregðast þurfi við því --- að þá sagði ráðherrann varðandi söluna á Fjárfestingarbankanum og kaup á hlut í honum að þetta væri þvert á stefnu um dreifða eignaraðild.

[20:00]

Samt segir ráðherrann núna að þau markmið hafi náðst sem ríkisstjórnin setti sér varðandi þessi hlutafjárútboð. Mér finnst það stangast á sem hæstv. ráðherra segir. Ég bið hæstv. forseta að virða mér það til betri vegar þó ég þurfi að fá skýrari svör en ég fékk frá ráðherranum áðan.

Ég spurði líka ráðherrann að því sem ég veit ekki til að hann hafi svarað, þ.e. hvenær við megum vænta niðurstöðu frá bankaeftirlitinu sem er að skoða þessa kennitölusöfnun, og hvort þetta hafi gengið gegn útboðsskilmálum. Ráðherrann svaraði því til úr ræðustól að niðurstaðan væri ekki komin. En þá spurði ég hæstv. ráðherra: Er hann tilbúinn að beita sér fyrir því að tala strax við bankaeftirlitið og athuga hvort hægt væri að fá niðurstöðu bankaeftirlitsins áður en við lykjum umræðunni? Bankaeftirlitið má mín vegna hafa tíma til þess að skoða málið fram í síðari hluta janúarmánaðar, eða hvenær það er sem við komum saman, eða hvort það er 5. eða 6. janúar sem menn eru að tala um núna, hafa rýmri tíma. Við gætum frestað þessu máli þannig að bankaeftirlitið geti þá haft þann tíma sem það þarf. En ef þessi asi er á að afgreiða það beini ég þeirri spurningu til hæstv. ráðherra, hvort hann væri þá tilbúinn til að beita sér fyrir því að bankaeftirlitið hraðaði afgreiðslu og niðurstöðum í máli sínu þannig að við gætum haft það til umfjöllunar við 2. og 3. umr. málsins.

Ég spurði hæstv. ráðherra, að mér fannst, mjög eðlilegrar spurningar: Finnst hæstv. ráðherra það ekki koma til athugunar og skoðunar miðað við þessa stöðu --- og nú erum við að fjalla um Fjárfestingarbankann þar sem liggur fyrir að einn aðili er með 9% hlut í bankanum og 14% af heildaratkvæðamagni --- þegar verið er að heimila 51%, þ.e. allt hlutafé í bankanum, að inn í frv. verði sett ákvæði um hámarkshlutinn? Í því sambandi vil ég nefna að í frv. sjálfu segir, með leyfi forseta:

,,Verði eftirspurn eftir áskrift hins vegar ekki nægileg til að selja 49% hlutafjár með þessum hætti`` --- þá var verið að tala um fyrri söluna --- ,,skal leita tilboða í þann hluta sem ekki selst, þó þannig að einstakir aðilar geti aðeins keypt hlutafé sem nemi allt að 3% hlutafjár í bankanum í slíkri sölu.``

Bankastjóri Landsbankans nefndi það í blaðaviðtali sem ég vitnaði til fyrir nokkrum dögum að úr útboðsskilmálum Fjárfestingarbankans hefði mátt lesa að gert hefði verið ráð fyrir í hæsta lagi 3% eignaraðild. Þess vegna gengur 9% eignaraðild, sem við stöndum uppi með núna annars vegar hjá Kaupþingi og hins vegar 5--6% hjá Búnaðarbankanum, gegn útboðsskilmálum, gengur gegn stefnu ríkisstjórnarinnar sem hún markaði, gengur gegn því sem hæstv. forsrh. sagði skömmu eftir að ríkisstjórnin markaði þá stefnu, og sem tekið var upp í leiðara, að hann teldi að eignaraðilar með 2--3% eignarhlut gætu haft veruleg áhrif. Hann lýsti þeirri skoðun að mikilvægt væri að eignarhaldi á bönkum yrði dreift og það tryggt að bankarnir væru hlutlausir gagnvart viðskiptalífinu. Hann taldi að fyllilega kæmi til álita, að tryggja með lagasetningu, herra forseti, að eignarhald á bönkunum yrði sett inn í lagasetningu.

Af því erum að fjalla nákvæmlega um þetta frv. og það sem gerist eftir að þetta frv. fer út úr þinginu, hefði þá ekki verið tryggara, herra forseti --- og ég spyr hæstv. ráðherra að því, af því að mér finnst hann ekkert hafa svarað því --- að setja inn í það frv. sem við erum að fjalla um varðandi Fjárfestingarbankann í ljósi þess að þegar kominn er 9% eignaraðild í hlut eins aðila, ákvæði um að sett verði tímamörk á eignarhaldstímann --- ráðherrann hefur sjálfur nefnt tvö til þrjú ár --- eða að sett verði ákvæði um hámarkshlut eins og 3%? Eða hvaða tök hefur ráðherrann á málinu ef það verður afgreitt bara með þessari einu línu í 1. gr., þ.e. heimildinni til að selja allt hlutaféð í Fjárfestingarbankanum? Hvað telur ráðherrann --- og það spurði ég hann um --- sig geta gert í útboðsskilmálunum sjálfum, eða hvað er hægt að gera í leiðbeinandi útboðsskilmálum þegar og ef þessi heimild verður nýtt? Af því, herra forseti, að mér fannst í viðtali við hæstv. ráðherra skömmu eftir að vitneskja barst um þetta kennitölufár, að hann teldi fyllstu ástæðu til að skoða það að setja ákvæði um ákveðinn eignarhaldstíma og nefndi það að skipta bréfunum til landsmanna og fleiri atriði sem ég nefndi í dag. Þess vegna var ég að spyrja hæstv. ráðherrann einmitt um þessi atriði.

Herra forseti. Mér hefur líka ekki fundist hæstv. ráðherra svara því svo fullnægjandi sé hvort bankarnir hafi verið seldir á undirverði. Það er eitthvað meira en lítið bogið við það þegar bréfin rjúka upp um 30% á einum, tveimur, þremur eða fjórum dögum. Því hefur verið haldið fram og ég hef tekið undir það að þeir sem hafa raunverulega grætt á þessari sölu, fjársterkir aðilar, hafi grætt á bankasölunni í þessum þremur bönkum einhver hundruð milljóna. Sumir hafa nefnt 1--1,5 milljarða sem hægt hefði verið að fá meira fyrir bankana. Ráðherrann hæstv. nefndi að ef þetta hefði farið í útboð og sett niður í stærri hluta en ekki dreifða eignaraðild, sem ég tel að sé markleysa af því að hún mistókst, og ef miðað hefði verið við 15--20% hlut þá hefði verið hægt að fá miklu meira fyrir bankana. Það er ekki fjarri því að einn aðili sé kominn með 15% hlut, a.m.k. er hann kominn með það í heildaratkvæðamagni og getur, eftir því sem ég hef skilið málið, krafist stjórnarsetu.

Herra forseti. Ég skal ekki lengja málflutning minn miklu meira þó ærið tilefni sé til þess miðað við ræðu ráðherrans. Ég ætla bara að vona að hæstv. ráðherra gefi ekki tilefni til þess í síðari ræðu sinni að við framlengjum þessa umræðu mikið enda veit ég að ég er búin að tala tvisvar. En ég minni þá á, herra forseti, að ég á alltaf tímann við 3. umr. eftir og þar hef ég kallað eftir því að upplýsingarnar um hlutafélagaskrárnar liggi fyrir og að niðurstaða bankaeftirlitsins liggi fyrir. Ég vona að þeir sem eru í forsvari fyrir efh.- og viðskn. sjái til að svo verði gert.

Herra forseti. Ég kemst þó ekki hjá því að nefna, af því ráðherrann talaði mikið um hagræðingu og að allar úrtölur okkar hafi ekki gengið eftir varðandi hlutafélagavæðingu á bönkunum og sölu Fjárfestingarbankans að ég blæs á þetta, herra forseti, og gæti auðvitað haft mörg orð um að það sem við héldum fram hefur gengið eftir. Ég minni á það og vil bara halda því til haga að það sem hefur gerst varðandi hlutafélagavæðinguna, þ.e. hagræðinguna í rekstri sem menn kalla svo, er að hægt hefði verið að fara í það allt saman án þess að hlutafélagavæða bankann. Það hefði verið hægt. Það var ekki hlutafélagavæðingin sem varð til þess að fækka bankastjórum heldur atvik sem ég ætla ekki að tefja tíma þingsins með að rifja upp, þ.e. að við erum kominn með einn bankastjóra í annan þessara banka. Það er vel hægt án þess að hlutafélagavæða bankana að minnka rekstrarkostnað og yfirbyggingu í bönkunum.

Ég held að fólk hafi ekki svo mikið fundið fyrir lækkun á þjónustugjöldum eða lækkun á vöxtum en það sem er áþreifanlegt er að störfum hefur fækkað verulega í fjármálastofnunum og það hefur helst, eins og ég sagði í dag, bitnað á konum, en þeim hefur fækkað úr 3.700 í 2.600 á fjórum árum. Það eru handfastar tölur sem við höfum um það hverju hagræðingin hefur skilað.

Herra forseti. Ég vil fá að sjá þessar hluthafaskrár og tel nauðsynlegt að við áttum okkur betur á þessu og tel tímann raunar of stuttan, jafnvel þó við fengjum hluthafaskrárnar á næstu dögum, til þess að meta áhrifin af þessu kennitölufári. Ég held að við værum miklu betur í stakk búin til þess að meta það á næsta ári þegar þing kemur saman aftur.

Ég fullyrði, herra forseti, og við sjáum þess þegar merki, að þegar upp verður staðið, þó eitthvað sé hægt að tala um einhverja dreifða eignaraðild núna þessa dagana, og fyrr en nokkurn órar fyrir --- og ég veit að hæstv. forseta verður um og ó þegar ég segi það --- þá munu bankarnir verða komnir í hendur fjársterkra aðila, í hendur kolkrabbans og það tel ég ekki æskilega þróun. Það hefur gerst hjá olíufélögunum, tryggingafélögunum og í flutningastarfsemi. Það leiðir til fákeppni og einokunar. Bönkunum fækkar þegar þessir eignarhlutar eru komnir meira í hendurnar á þessum mönnum, eins og Íslandsbanka --- þeir vilja samruna t.d. við Búnaðarbankann. --- Er það ekki hann sem þeir sækjast eftir? Þá verður samruni. Mun það ekki leiða til fákeppni og einokunar? Það er ekki til þess fallið að tryggja betri þjónustu fyrir þá sem leita til bankanna.

Herra forseti. Enn og aftur freista ég þess að fá svör ráðherrans við fyrirspurnum mínum. Ég ætla að vona, af því þær eru það margar, herra forseti, að hann bjóði ekki upp á stutt andsvar til þess að svara þeim fyrirspurnum. Hvað liggur á? Það spyr ég um. Er ráðherrann tilbúinn að beita sér fyrir því við 3. umr., ef tillaga okkar um að vísa málinu til ríkisstjórnar verður felld, að ákvæði komi inn um hámarkshlut eða eignarhaldstíma? Ég spyr hann líka um hluthafaskrárnar, hvort hann sé tilbúinn að beita sér fyrir því að þær liggi fyrir efh.- og viðskn. við 3. umr. og að hann beiti sér fyrir því að bankaeftirlitið flýti niðurstöðu sinni og að niðurstaða bankaeftirlitsins liggi fyrir áður en málið verður endanlega afgreitt, sem ég vona að verði ekki fyrr en á næsta ári þannig að við höfum betri heildarmynd af áhrifum á sölu á þessum hlutum í bönkunum.