Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 18. desember 1998, kl. 14:33:36 (2594)

1998-12-18 14:33:36# 123. lþ. 45.3 fundur 343. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðileyfi o.fl.) frv. 1/1999, 344. mál: #A veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands# (grásleppuveiðar) frv., ÁRÁ
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur, 123. lþ.

[14:33]

Árni R. Árnason:

Herra forseti. Þingmálin tvö sem við ræðum nú eru rökrétt viðbrögð í framhaldi af dómi Hæstaréttar þar sem sagði að tiltekið lagaákvæði í tilgreindum lagabálki stæðist ekki stjórnarskrá. Sá skilningur liggur fyrir að stjórnvöld verði að bregðast við með því að leggja fram frumvarp til laga til að breyta því ákvæði sem Hæstiréttur fjallar um. Í þessu tilviki er það 5. gr. laga um stjórn fiskveiða, ákvæði sem lengi hefur verið í lögum um stjórn fiskveiða, miklu lengur en núgildandi lög þar um og er nánast óbreytt frá því það fyrst kom fram fyrir einum og hálfum áratug eða svo.

Það er ástæða til þess, herra forseti, að velta því fyrir sér að Hæstiréttur hefur á undanförnum árum og missirum fjallað um þau réttindi sem í þessum lögum ræðir. Hann hefur dæmt í u.þ.b. tug dómsmála og verður ekki með réttu sagt að dómar hafi allir fallið á þessa lund. Þegar við leggjum mat á þennan dóm verður að viðurkenna að sú hugsun kemur upp að Hæstiréttur sé með þessum dómi að leggja nýjan skilning í jafnréttishugtakið. Hann segir réttilega í dómnum að þó að ákvæðið sé nýtt í stjórnarskrá þá sé það hefðbundið í stjórnsýslu og hafi í raun verið viðmið í löggjöf og stjórnsýsluákvörðunum um langt tímaskeið.

Ég hygg líka, herra forseti, að rétt sé að benda á --- a.m.k. er það minn skilningur --- að í dómnum, í því sem hæstaréttardómararnir sjálfir segja kemur skýrt fram um kröfu stefnanda að hann leggi ekki fyrir dóminn öll þau atriði sem hann lagði fyrir ráðuneytið í umsókn um veiðileyfi og veiðiheimildir. Fyrir dóminn leggur hann eingöngu þá röksemd ráðuneytis að hafna umsókn um veiðileyfi á grundvelli tiltekinnar greinar laga um stjórn fiskveiða, 5. gr. þar sem fjallað er um útgáfu veiðileyfa.

Í dómnum segir, herra forseti, með yðar leyfi:

,,Áfrýjandi ber ekki á það brigður, að sjávarútvegsráðuneytið hafi farið að lögum, er það synjaði honum hins umbeðna leyfis ... Hann telur á hinn bóginn, að ákvæði 5. gr. laga nr. 38/1990 brjóti í bága við 65. gr. og 75. gr. stjórnarskrár ...``

Mitt mat, herra forseti, er að með þessu sé skýrt fram tekið í dómnum sjálfum að hann fáist ekki við stærra viðfangsefni en þetta. T.d. er hvergi vikið að því að viðfangsefni dómsins geti varðað 72. gr. stjórnarskrárinnar þar sem fjallað er um friðhelgi eignarréttar. Skilningur á því hugtaki er ekki nýr af nálinni. Ef við lítum yfir umfjöllun fræðimanna í lögum um þann rétt, þá er ljóst að það liggur frekar fyrir og er betur skilgreint en jafnræðishugtakið sem dómurinn tekur afstöðu til í þessu máli.

Ég er þeirrar skoðunar, herra forseti, að í þessu atriði og öðrum í dómnum komi skýrt fram að dómurinn ætlist ekki til að niðurstaðan verði túlkuð víðar en svo að fjallað sé um veiðileyfið eitt og sér. Þó verður, herra forseti, einnig að viðurkenna að niðurstaðan er slík að ég hlýt að velta því fyrir mér hvort ástæða sé til að gefa út sérstök veiðileyfi til fiskiskipa. Með þessari niðurstöðu liggur fyrir að öll fiskiskip ættu að fá veiðileyfi sem fullnægja öryggisákvæðum og hafa þess vegna fengið haffærniskírteini.

Niðurstaðan er sú, herra forseti, að í framhaldi af þessu verður ekki fjallað sérstaklega um hvaða skilmálum fiskiskip, sem fullnægir þeim ákvæðum sem varða haffærniskírteini, þurfi að fullnægja til að hljóta veiðileyfi. Þar með er einnig ljóst að skipum sem hafa leyfi til að stunda fiskveiðar við Ísland mun fjölga verulega. Dóminn er ekki hægt að skilja öðruvísi en að hann sé ekki með neinu móti að úrskurða um þau ákvæði laganna um stjórn fiskveiða sem varða framkvæmd úthlutunar veiðiréttindanna sjálfra, aflaheimilda eða veiðiheimilda.

Það er þess vegna sannfæring mín, herra forseti, að réttmætt sé að túlka dóminn þröngt. Ég hlýt raunar að viðurkenna, eftir þá reynslu sem ég hef af því að umgangast lög, bæði í skamman tíma hér á þingi og þegn sem þarf að búa undir lögum þjóðfélagsins, að lög og dóma beri ætíð að túlka þröngt og ganga sem skemmst í að heimfæra þau upp á önnur atriði en fram koma í ákvæðum eða dómum.

Áhrifin eru augljós, herra forseti. Skipum með veiðileyfi mun fjölga og eftirspurn eftir aflaheimildum mun aukast í framhaldi af því með augljósum áhrifum á verð aflaheimilda. Það atriði hefur vakið mestar deilur í þjóðfélaginu um stjórnkerfi fiskveiða yfirleitt. Því virðast fjölmargir meðal almennings, í hinni opinberu umræðu í fjölmiðlum og þeirri umræðu sem haldið er uppi af stjórnmálamönnum, telja að verðmæti aflaheimilda hafi skapast við það að sett voru lög um stjórn veiðiheimilda, byggð á aflamarkskerfinu svonefnda.

Ég hlýt að segja þá skoðun mína, herra forseti, og tel mig hafa góðar ástæður fyrir henni og hef rökstutt hana hér og víðar, að verðmæti veiðiheimildanna hafi verið til áður en þetta stjórnkerfi var tekið upp. Það varð til snemma á fyrri áratug, raunar á áttunda áratugnum þegar við reyndum fyrst að hafa stjórn á fiskveiðum, að hemja sókn okkar í fiskstofnana. Fyrsta úrræðið var einmitt að takmarka fjölgun veiðileyfa. Þá þegar sást í efnahagskerfinu að skip með veiðileyfi höfðu miklu hærra endursöluverðmæti en skip án veiðileyfis. Þessi staðreynd verður ekki hrakin. Auðvitað var verðmunurinn veiðileyfið sjálft, réttindin til þess að ganga í fiskstofnana.

Áhrifin af þessum dómi, herra forseti, eru fleiri og það hefur einmitt mikið verið rætt hér í dag eins og undanfarnar vikur og daga. Í því stjórnkerfi sem við lýði er eru þrjú fyrirbæri sem ekki eru að öllu leyti sambærileg:

Skip sem stunda veiðar í hreinu aflamarkskerfi og leggja út frá upphafi fiskveiðiárs frá takmörkuðum veiðiheimildum og stjórnendur þeirra skipa og fyrirtækja hegða útgerðarmynstrinu í samræmi við það. Í öðru lagi hegða smábátar eins og við köllum þá, krókaveiðibátar á þorskaflahámarki, sér sumpart samkvæmt hámarki um þorskafla en án takmarka um veiði á öðrum tegundum. Í þriðja lagi er að nefna það sem hér er efst á baugi, kerfi sóknardaga þar sem menn róa eingöngu eftir dagafjölda og án viðmiðana við aflamagn nema með áhrifum eftir á, eftirááhrifum á sóknardaga ári síðar. Þetta kerfi, herra forseti, mun verða fyrir mestum áhrifum af dómi Hæstaréttar með því að veiðileyfum fjölgar en bátar sem stunda veiðar eftir sóknardagakerfinu eru eingöngu háðir því að hafa veiðileyfi. Ljóst er að ef við teljum mikilvægt að gæta atvinnumöguleika og afkomu þeirra sem þær veiðar stunda þá verðum við að bregðast við þessum dómi einhvern veginn.

Ég hlýt að viðurkenna, herra forseti, að mér finnst það gert með frv. því sem við ræðum, um breytingar á lögunum um stjórn fiskveiða. Ég velti fyrir mér, vegna þess hvernig menn hafa rætt það mál, að ef svo færi að með ákvæðum þessum þrengist kjör þeirra sem þær veiðar stunda samkvæmt þessum ákvæðum þá verði að færa til þeirra veiðiréttindi, sumir segja með því að taka úr sjónum. Ég verð nú að segja að ég get ekki skilið að eina leiðin til að skapa þeim meiri veiðirétt sé að skapa þeim meiri aflaheimildir. Ég held raunar að það verði eingöngu gert með því að ganga á aflaheimildir annarra sem gera út á grundvelli laganna um stjórn fiskveiða.

Þá kem ég að því, herra forseti, að í gögnum frá ári til árs má rekja að eftir hinum stjórnkerfunum tveimur, og þó sérstaklega eftir hinu almenna aflamarkskerfi, eru rekin sambærilega stór skip með sambærilega fjárfestingu en með miklu minni heimildir en þeir sem starfað hafa í sóknardagakerfinu. Þeir hafa rýmri takmarkanir til að afla sér tekna og tryggja afkomu sína. Það liggur líka fyrir, ef við lítum til baka þann tíma sem þetta stjórnkerfi hefur verið við lýði með nokkrum breytingum, að þau skip sem hafa kannski minnsta möguleika til að leita annarra úrræða innan þessa stjórnkerfis eða leita á fjarlægari mið, hafa orðið að bera skerðingu a.m.k. fjórum sinnum vegna annarra útgerða. Vegna þess að ég segi þetta svona vil ég minna á sérstakar kvótabreytingar og tilfærslur vegna loðnubrests, sérstakan kvóta til raðsmíðaskipa, skipstjórakvóta og síðast en ekki síst sérstaka hækkun á sameiginlegu aflamarki krókabátanna sem nánast var fjórfaldað fyrir fáum árum.

[14:45]

Auðvitað hefur allt þetta orðið til að rýra aflahlutdeild og þar með raunverulegar aflaheimildir skipanna sem eftir voru í aflamarkskerfinu. Þar starfa fjölmargir útgerðarmenn lítilla dagróðrabáta, eins og ég sagði áður, með engu minni fjárfestingu og áhættu og byggja á þeim alla sína afkomumöguleika. Þeir eiga fjölskyldur, afkomendur, fasteignir og báta og eiga að litlu öðru að hverfa.

Flestir þessara manna hafa fyrir löngu sætt sig við, eins og aðrir útgerðarmenn sem þeir starfa í samfélagi við, að ganga undir sömu skerðingar og aðrir. Það gerðu ekki þeir sem við höfum helst rætt um í dag. En hvers vegna ræðum við það helst, herra forseti? Hvers vegna vekur það mesta athygli okkar hvort eða hvernig skerðing hluta flotans verður?

Jú, eins og oftar, herra forseti, er það vegna þess að þeir hafa hæst. Þeir láta mest um sín kjör. Því miður geta þeir bent á að nokkur byggðarlög treysta öðru fremur á starfsemi þeirra en annarra. Hins vegar er þess ekki getið um leið, herra forseti, að önnur byggðarlög treysta líka jafnmikið á afkomu og starfsemi hinna sem verða fyrir skerðingum ef við ætlum að auka heimildir smábáta sem gera út á sóknardögum.

Ég er þeirrar skoðunar, herra forseti, að það væri farsælla og mundi skapa frið til lengri tíma um stjórn fiskveiða á Íslandi ef við kæmumst að niðurstöðu sem skapa mundi öllum útgerðarmönnum og sjómönnum sem starfa á Íslandsmiðum sambærilegan rétt, sambærilegar skyldur og ábyrgð. Svo er ekki í dag. Ég er þeirrar skoðunar að við eigum að leita slíkra niðurstaðna.

Ef hugsanlegt er að hér komi fram tillögur til breytinga við þetta frv. sem treyst gætu afkomumöguleika sóknardagamanna þá hljótum við að sjá til þess að þær nái einnig til hinna sem hafa unað við og starfað samkvæmt ákvæðum um aflamarkskerfið. Ef við gerum það ekki þá erum við enn og aftur að mismuna mönnum sem starfa hlið við hlið. Þá ætlum við enn að segja við manninn sem búið hefur við það í 15--20 ár að aflaheimildir hans hafa verið skertar í samræmi við niðurstöðu okkar bestu vísindamanna og okkar ábyrgustu ráðamanna um veiðiþol stofnanna á Íslandsmiðum að enn eigi að skerða hlut hans til að bæta hlut annarra sem aldrei þoldu skerðingarnar áður.

Þetta er mat mitt, herra forseti. Ég tel nauðsynlegt að búa þeim sem starfa hlið við hlið í sömu atvinnugrein, við sambærilega áhættu og ætla sér að stunda þá starfsemi áfram og lifa af henni, sömu möguleika, sama rétt og sömu skyldur. Ég segi enn og aftur: Ef við lendum í því enn og ætlum að láta það gilda til frambúðar að taka atvinnuréttindi af einum hópi manna vegna þess að hann er hógværari en annar, þá erum við ekki að dæma út frá réttlætissjónarmiðum eða á faglegum forsendum. Þá erum við að láta undan þeim sem hafa hærra. Það eru ekki frambærilegar ástæður fyrir ákvörðunum sem við teljum öll að varði þjóðarhag.

Mörg okkar vita, hafa upplifað og hafa allar staðreyndir til að benda á að starfsemi þessara manna er í raun undirstaða, ekki fárra og fámennra byggðarlaga, heldur efnahagskerfs okkar sem í dag er sem betur fer sterkara, þróttmeira og fjölbreyttara en nokkru sinni fyrr. Við vitum líka, þegar við lítum til hugmynda um að skattleggja þessa menn sérstaklega, að slíkur skattur, alveg sama í hvaða formi hann verður lagður á, hvort sem hann verður útboðsfyrirkomulag eða sérstakt auðlindagjald, mun bitna harðast á litlu fyrirtækjunum sem fámennari og smærri og dreifðu byggðarlögin treysta mest á. Þeir sem þeim stjórna hafa fæstar útgönguleiðir til þess að ná í fjármagn annars staðar frá. Fjárfestar og þeir sem stjórna fjármagninu hafa ástæðu til þess að varast að leggja mikið fé í lítil fyrirtæki í litlum, fámennum byggðarlögum. Við þekkjum allar þessar ástæður. Einmitt þessi fyrirtæki hafa reynst hafa meiri sveigjanleika og meiri þolinmæði en hin stóru til að lifa með möguleikunum í dreifðum og fámennum byggðarlögum. Ef við meinum eitthvað með því að tala um að treysta byggðir landsins þá tökum við tillit til þessara fyrirtækja og þeirra sem við þau starfa.

Ég er þeirrar skoðunar, herra forseti, að afkoma og möguleikar stóru fyrirtækjanna muni ekki ráðast af því sem við ræðum hér í dag í tengslum við frv. Afkoma stórfyrirtækjanna mun lítið breytast. Þetta frv. tekur einfaldlega ekki á þeim möguleikum sem þau fyrirtæki hafa helst fært sér í nyt. Þau hafa samt sem áður verið meðal þeirra sem fremst hafa farið í að auka verðmætasköpun í sjávarútvegi. Það hefur fært okkur meira úr sjávarútvegi yfir í aðrar greinar og þar með í þjóðarbúið. Ég hef áður sagt og segi enn að það er hið raunverulega afgjald og raunverulegur arður þjóðarinnar af þessum auðlindum. Það verður ekki bætt með skattlagningu.

Skattlagning, sama í hvaða formi hún yrði, yrði eingöngu til að þessi fyrirtæki mundu síður geta lagt í slík nýsköpunar- og framþróunarverkefni. Þess vegna tel ég, herra forseti, það ekki úrræði til farsældar að taka á forsendum þessa dóms upp sérstaka skattlagningu eða útboð veiðiheimilda. Okkur væri það ekki til farsældar og mundi þegar frá líður draga úr lífskjörum á Íslandi. Við eigum að bæta starfsmöguleika útgerðar, hvort sem hún er smá eða stór. Við þurfum að gæta þess að möguleikar hinna smáu séu sambærilegir.