Útboð á rekstri hjúkrunarheimilis fyrir aldraða

Föstudaginn 18. desember 1998, kl. 16:22:33 (2605)

1998-12-18 16:22:33# 123. lþ. 45.92 fundur 180#B útboð á rekstri hjúkrunarheimilis fyrir aldraða# (umræður utan dagskrár), ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur, 123. lþ.

[16:22]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Hér er til umræðu útboð á öldrunarþjónustu fyrir 60 aldraða, rekstur og útvegun á hjúkrunarheimili í 25 ár. ,,... nýjung í öflun og rekstri hjúkrunarheimilis á Íslandi, svokölluð einkaframkvæmd``, eins og segir í auglýsingu í Morgunblaðinu.

Hvað er hér á ferðinni? Hæstv. ráðherra reyndi að svara því í ræðu sinni hér á undan, en því miður var ekki mikið um svör. Við vitum hvernig ástandið er í hjúkrunarmálum aldraðra. Í Reykjavík bíða á þriðja hundrað manns eftir plássi á hjúkrunarheimili, 169 þeirra eru í brýnni þörf. Vanda þessa stóra hóps verður vissulega að leysa.

En hvernig á að standa að þeim rekstri sem hér er auglýstur? Hvernig samningar verða gerðir við þá sem taka þetta að sér? Það er greinilega ekki ljóst. Útboðsvinnan er enn þá í gangi. Það er álit þeirra sem gerst þekkja í þessum málaflokki að í dag sé það svo að sjálfseignarstofnanir velja inn sjúklinga eftir hjúkrunarþyngd. Dýrir sjúklingar, þ.e. þeir sem þurfa dýr lyf og mikla þjónustu, sitja eftir. Það á ekki að eiga sér stað. Jafnræði verður að ríkja. Hvað verður gert í því útboði sem fyrirhugað er til þess að tryggja rétt þeirra sjúklinga sem eru í þessari stöðu, tryggja rétt þeirra sem þurfa dýra þjónustu og eru í mestri neyð eins og þeirra 170 Reykvíkinga sem bíða núna í brýnni þörf? Mun verða greitt fyrir hvern sjúkling eftir hjúkrunarþyngd? Ætlar ráðherra að reka þetta hjúkrunarheimili á daggjöldum? Í dag eru daggjöld mjög mismunandi. Ákveðin hjúkrunarheimili sem eru á lægstu daggjöldunum eiga í stanslausum rekstrarvanda. Það er ekkert samræmi. Þarf ekki að samræma daggjöldin á milli stofnana? Þjónustan er heldur ekki samræmd því þjónustan er mismunandi eftir hjúkrunarheimilum. Sums staðar þurfa ættingjar t.d. að sjá um þvott af sínum nánustu sem eru inni á hjúkrunarheimilum.

Ég deili áhyggjum með málshefjanda, hv. þm. Svavari Gestssyni, um að þarna verði einhver mismunun á ferðinni. Það má ekki eiga sér stað, herra forseti. Aðalatriðið er að fólki verði ekki mismunað og allir fái þjónustu við hæfi. Það verður að tryggja.