Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 18. desember 1998, kl. 20:55:10 (2650)

1998-12-18 20:55:10# 123. lþ. 45.3 fundur 343. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðileyfi o.fl.) frv. 1/1999, 344. mál: #A veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands# (grásleppuveiðar) frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur, 123. lþ.

[20:55]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Þetta yrðu svona u.þ.b. 13 milljarðar þegar kerfið væri komið í fullan gang eftir 20 ár. En það fer náttúrlega mikið eftir því hvað útgerðin er tilbúin til að borga og hvað gefur henni að meðaltali góðan hagnað. Það verður að geta þess líka að þessi kostnaður kemur til frádráttar sem kostnaður hjá fyrirtækinu, þetta er afskrifað, þannig að skattbyrði fyrirtækjanna minnkar, en eykur um leið skattbyrði þeirra sem taka á móti. Því ég geri ráð fyrir að þetta sé skattað hjá einstaklingunum sem fá þetta, nákvæmlega eins og aðrar tekjur.

Það eru þá um 13 milljarðar sem fást út úr þessu, sem yrði flutt frá fyrirtækjunum til einstaklinga. Og sumir mundu náttúrlega segja: Hvernig á útgerðin að bera þetta? 13 milljarðar! Nýjar álögur! munu menn hrópa. En ég segi: Menn hafa 20 ár til að aðlagast þessu og útgerðin borgar ekki meira en gefur henni að meðaltali hagnað. Ef þetta verð gefur henni ekki hagnað þá mun verðið að sjálfsögðu lækka niður í 6 milljarða eða 2 milljarða eða 1 milljarð eða jafnvel engan milljarð, ef illa gengur hjá útgerðinni. Það verður nefnilega þannig að eftir þetta er það hagur útgerðarinnar sem ákveður hvaða verð hún getur greitt að meðaltali. En auðvitað munu góðu fyrirtækin geta greitt meira og þau munu halda uppi verðinu.