1998-12-19 00:12:49# 123. lþ. 45.10 fundur 185. mál: #A lögheimili# (sjálfræðisaldur) frv. 145/1998, PHB
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur, 123. lþ.

[24:12]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Örstutt um þetta mál. Miklar breytingar hafa orðið á stöðu fjölskyldunnar á undanförnum árum. Það er orðið mjög algengt að fjölskyldan búi ekki á sama staðnum, innan lands sem erlendis um lengri eða skemmri tíma. Hjón geta búið á Íslandi, annar aðilinn á Íslandi og hinn aðilinn í útlöndum í námi, og þetta er þekkt. Einnig búa börnin um lengri og skemmri tíma, bæði erlendis og innan lands á öðrum stöðum en foreldrarnir. Það er sem sagt orðið mjög brýnt að taka á því að gera þá breytingu á lögheimilislögunum að fjölskyldan geti haft lögheimili víða, þ.e. að hver fjölskyldumeðlimur geti haft lögheimili á þeim stað þar sem hann býr án þess að rjúfa fjölskylduna. Þetta eru hagsmunir sjómanna sem ráða sig til vinnu og er þeim oft gert að flytja lögheimili á staðinn þar sem þeir vinna. Þá lendir makinn í því að njóta ekki félagslegrar þjónustu á þeim stað sem þau bjuggu áður. Þetta er náttúrlega algerlega ófært, herra forseti, og mér finnst mjög brýnt að breyta þessu þannig að fjölskyldan geti haft lögheimili á mörgum stöðum.