Almannatryggingar

Laugardaginn 19. desember 1998, kl. 10:31:23 (2694)

1998-12-19 10:31:23# 123. lþ. 46.13 fundur 365. mál: #A almannatryggingar# frv. 149/1998, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 123. lþ.

[10:31]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Þó að hæstv. ráðherra leggi þetta mál þannig fyrir að það sé sjálfsagt að það renni hér í gegn með miklum hraða, þá er málið flóknara en hún gerir ráð fyrir og það er ekki að öllu leyti eins sjálfsagt að það fari athugunarlítið í gegnum þingið og hæstv. ráðherra hefur óskað eftir. Mig langar þess vegna til að spyrja hæstv. ráðherra að hvaða leyti hún hefur borið þetta mál undir Öryrkjabandalag Íslands, sem er auðvitað það bandalag sem þetta varðar hvað mest, til þess að fá upplýsingar um það frá hæstv. ráðherra hversu mikið málið er unnið, með það fyrir augum að það mundi e.t.v. greiða fyrir meðferð þingsins á málinu ef fyrir liggur að búið er að ræða það út í hörgul við Öryrkjabandalag Íslands.