Almannatryggingar

Laugardaginn 19. desember 1998, kl. 10:35:14 (2700)

1998-12-19 10:35:14# 123. lþ. 46.13 fundur 365. mál: #A almannatryggingar# frv. 149/1998, ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 123. lþ.

[10:35]

Ásta R. Jóhannesdóttir (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. ráðherra vitnar í álit umboðsmanns Alþingis sem hún túlkar á þann veg að skýra eigi lögin. Umboðsmaður Alþingis fór fram á það að vilji þingsins væri skýr í þessum efnum. Er það vilji Alþingis að lögfesta tekjutengingu tekna maka við lífeyrisgreiðslur hans? Er það vilji Alþingis? Hæstv. ráðherra getur breytt frítekjumörkunum án þess að fara í allar þessar breytingar sem hún leggur fram í frv. Það er auðvelt mál. En að fara að lögfesta ákvæði sem fara á svig við stjórnarskrána tveim dögum fyrir jól í þinginu, er það vilji Alþingis? Er það vilji ráðherrans? Það lítur því miður út fyrir það.