Fjárlög 1999

Laugardaginn 19. desember 1998, kl. 15:04:27 (2737)

1998-12-19 15:04:27# 123. lþ. 46.15 fundur 1. mál: #A fjárlög 1999# frv. 165/1998, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 123. lþ.

[15:04]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Sturla Böðvarsson segir að hagur ríkissjóðs sé sérlega góður og jákvæð teikn á lofti varðandi framtíðarstjórn ríkisins. En það sem rak mig í pontu var sú yfirlýsing hv. þm. að enginn hafi borið brigður á að mörkuð hafi verið tímamót í þessum efnum. Þetta er ekki rétt. Ítrekað hefur verið á það bent í fjárlagaumræðunni hve illa ríkisstjórnin hefur haldið á málum, hve mjög hún hefur klúðrað góðærinu og dregur nú upp mjög villandi mynd af ástandi mála.

Hagur ríkissjóðs er vissulega góður vegna ytri skilyrða, metafla og hagstæðs verðs á útflutningsvörum Íslendinga. En hann er ekki síst góður á kostnað sveitarfélaganna sem nú eru rekin með milljarðahalla. Hann er góður vegna mikillar þenslu í þjóðfélaginu. Það stefnir í mesta viðskiptahalla í sögu íslensku þjóðarinnar, 40 milljarða kr., og það stefnir í verstu skuldastöðu íslenskra heimila í sögunni, 400 milljarða kr. En það sem er verst er að hagur ríkissjóðs er góður á kostnað atvinnulausra, öryrkja og aldraðra sem ríkisstjórnin hefur hlunnfarið um milljarða króna.