Almannatryggingar

Laugardaginn 19. desember 1998, kl. 16:34:59 (2765)

1998-12-19 16:34:59# 123. lþ. 46.13 fundur 365. mál: #A almannatryggingar# frv. 149/1998, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 123. lþ.

[16:34]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla ekki að hlaupa um allar þorpagrundir á eftir hæstv. ráðherra til að sýna fram á hvað hún hefur sagt. Það er alveg rétt að hún hefur mörgum sinnum sagt að hún ætli að stíga fyrsta skrefið. Ég hef að vísu undir höndum ræðu sem má skilja þannig að hún segi það afdráttarlaust að hún ætli sér að afnema þetta og þetta sé fyrsta skrefið, en ég ætla ekki að elta ólar við það.

Hæstv. ráðherra hefur aftur og aftur sagt að þetta sé gróft ranglæti og það þurfi að breyta því og hún sé að stíga fyrsta skrefið. Ef þetta er gróft ranglæti hvers vegna stígur hún þá ekki skrefið sem nægir til þess að svipta þessu ranglæti í burtu? Ef hún telur sig ekki hafa fjármagn til þess, sem er alveg skiljanlegt, þá er réttlætanlegt að spyrja hæstv. ráðherra: Hvenær á að taka hin skrefin og hvers vegna fellst hæstv. ráðherra ekki á að þær dagsetningar verði settar inn í þetta frv.?

Í annan stað. Hæstv. ráðherra tekur undir með mér að þegar búið er að gera þær breytingar sem voru hluti af því samkomulagi --- ég var ekki viðstaddur þegar það var gert sökum fundar utan þings --- þá þurfi að breyta reglugerð og nú er allt í einu í lagi að breyta reglugerð, herra forseti. Ég held að hægt hefði verið að afgreiða þetta mál fram á næsta ár með einföldum reglugerðarbreytingum en það er ekki sátt um það við stjórnarliðið og ég get í sjálfu sér ekki kvartað yfir því. Meiri hlutinn ræður. En ég held að þetta hefði verið betra og miklu betra varðandi málstað öryrkja og það hefði komið í veg fyrir að þingið tæki mögulega þátt í því að brjóta stjórnarskrána gagnvart þessum hópi.