Fjárlög 1999

Laugardaginn 19. desember 1998, kl. 19:42:08 (2787)

1998-12-19 19:42:08# 123. lþ. 47.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 1999# frv. 165/1998, fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 123. lþ.

[19:42]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Það er þýðingarlítið að karpa um þessa hluti hér. Auðvitað eru þessar spár ákveðinni óvissu háðar. En ég held að þingmaðurinn sé nokkuð á villigötum með allt þetta tal um mismuninn á virðisaukaskatti á innflutningi og veltunni innan lands. Við höfum farið yfir það dálítið við annað tækifæri. Virðisaukaskattur á innflutningi kemur til frádráttar yfirleitt sem innskattur innan lands og það hvernig þetta þróast hangir þá saman við hvort aukning er í innflutningi almennt eða hvort t.d. útflutningur er að aukast. Það gefur í sjálfu sér engar vísbendingar um neina stórkostlega hluti.

Aðalatriðið er að þjóðhagsspáin hefur gefið Þjóðhagsstofnun tilefni til að endurmeta tekjurnar af virðisaukaskattinum, hækka þær um 400 millj. Hv. þm. sat sem ráðherra í sjö ár og veit hvernig þessi hlutir ganga fyrir sig. Það er ekki svo að ríkisstjórnin geti pantað einhverjar slíkar niðurstöður. En vegna þess að meiri veltubreytingar eru í þjóðhagsspánni en áður var gert ráð fyrir og hagvöxturinn er meiri, þá þýðir það bara að virðisaukaskatturinn eykst. Þetta er afleidd stærð og um það þarf ekkert að deila. Hitt er svo alveg rétt að þessar spár hitta ekki alltaf í mark, hvorki að því er varðar þennan skatt né aðra tekjuöflun hjá ríkinu. Það er eitt af þessum vandamálum sem alltaf er við að fást og ekkert sérstaklega bundið við fjárlögin núna, en allir sem að þessum málum koma eiga að reyna að endurbæta eins og hægt er. Það liggur í hlutarins eðli að þegar um er að ræða spár um stærðir af þessum toga þá er ekki hægt að gera þær með 100% nákvæmni. Þá væri orðið mjög dularfullt ástand í þjóðfélaginu. Við gætum ekki lengur talað um frjálst þjóðfélag ef hægt væri að áætla þessar tekjur og skammta þær með 100% nákvæmni ár fram í tímann eða í fjárlögum fyrir eitt ár fram í tímann eins og við erum hér að fást við. Þetta er bara hluti af þeim takmörkunum sem um er að ræða eðli málsins samkvæmt í þessu ferli og alls ekki neitt nýtt fyrirbæri.