Landmælingar og kortagerð

Laugardaginn 19. desember 1998, kl. 20:23:25 (2798)

1998-12-19 20:23:25# 123. lþ. 47.3 fundur 370. mál: #A landmælingar og kortagerð# frv. 132/1998, KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 123. lþ.

[20:23]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég vil andmæla þeim fullyrðingum þingmannsins að þinginu sé lítilsvirðing sýnd með því að bregðast skjótt við dómi Hæstaréttar og minni á að það var krafa stjórnarandstöðunnar fyrir nokkrum dögum í kjölfar annars dóms að þingið brygðist skjótt við og helst fundið að því að ríkisstjórnin væri ekki nógu skjót í viðbrögðum sínum. Ef menn vilja leita að dæmi um að þinginu hafi verið sýnd lítilsvirðing, þá ætti hv. þm. að leita að öðrum dæmum en þessu frv., t.d. því að standa hér fyrir ræðuhöldum í tíu tíma samfleytt og má spyrja hverjum var helst sýnd lítilsvirðing með slíku framtaki.

Ég vil spyrja þingmanninn hvort það sé ekki rétt munað hjá mér að sá ríkislögmaður sem vitnað er til sitji nú í Hæstarétti. Ég vil einnig benda þingmanninum á að hvergi stendur í lögum að það þurfi lög frá Alþingi til að heimilaður sé flutningur stofnunar út á land. Það ákvæði er hvergi að finna í íslenskum lögum. Hæstiréttur var ekki að dæma samkvæmt einhverju slíku lagaákvæði. Hæstiréttur var að túlka lög og kom með túlkun sem ekki hefur fyrr verið uppi höfð fyrir utan álit ríkislögmanns fyrir fáeinum árum. Það er auðvitað vandi þegar Hæstiréttur landsins fer að túlka lög á þann hátt sem hann gerir í þessu tilviki því að hann leggur hluti ekki að jöfnu í sínum úrskurði. Hæstiréttur kveður upp úr með það að ekki þurfi ákvæði í lögum til að kveða á um hvar stofnun sé en að það þurfi lög til að flytja hana úr Reykjavík. Með úrskurði Hæstaréttar var Ísland smækkað verulega.