Landmælingar og kortagerð

Laugardaginn 19. desember 1998, kl. 20:40:10 (2806)

1998-12-19 20:40:10# 123. lþ. 47.3 fundur 370. mál: #A landmælingar og kortagerð# frv. 132/1998, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 123. lþ.

[20:40]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég hafði síst af öllu ætlað að blanda mér í þessa umræðu, mér liggur við að segja í þessu ömurlega máli og árans klúðri öllu sem þetta er, hvort heldur litið er til forsögunnar eða þeirrar stöðu sem uppi er í málinu á Alþingi og í þessari afgreiðslu á því, ef afgreiðslu skyldi kalla. Enn síður ætla ég, herra forseti, út í einkunnagjöf á dómum Hæstaréttar. Mætti margt um þá umræðu segja sem geisar í þjóðfélaginu þessa daga og ekki síst hér inni á þingi og þá sérstaklega af hálfu þeirra sem eru ósáttir við niðurstöðurnar. Dómar æðsta dómstóls landsins eru dómar og þeir eru endanlegir og hef ég ekki meira að segja um það mál.

En til þess að rétt sé rétt og öllu til haga haldið, af því hér var nefnt af hálfu ræðumanns samlíking við flutning annarra stofnana fyrr á tíð út um landið og þar á meðal var nefnd Skógrækt ríkisins, þá er ræðumanni málið skylt og rétt að hér komi fram að þá var einmitt það gert sem því miður var ekki gert í tilviki flutnings Landmælinga upp á Akranes, að aflað var sjálfstæðrar lagaheimildar fyrir flutningnum og nýju lögheimili stofnunarinnar áður en sú ákvörðun var tekin og henni hrint í framkvæmd. Þá var það gert sem hér skortir upp á og er nú verið að leiðrétta eftir á, að afla þessa sjálfstæða og sérstaka samþykkis löggjafans fyrir nýju heimilisfangi opinberrar stofnunar. Það er á margan hátt m.a. í því ljósi úr sögunni séð eiginlega sérkennilegt að menn skyldu ekki a.m.k., þrátt fyrir vissu sína um að þeir væru að gera rétt, sem ég dreg ekkert í efa að hafi átt við í tilviki hæstv. umhvrh., hafa haft vaðið fyrir neðan sig og aflað fyrir fram samþykkis Alþingis sem allir sjá nú í þessu dapurlega ljósi að hefðu verið heppilegri vinnubrögð.