Stimpilgjald

Laugardaginn 19. desember 1998, kl. 21:46:44 (2832)

1998-12-19 21:46:44# 123. lþ. 47.22 fundur 151. mál: #A stimpilgjald# (undanþágur frá gjaldi) frv. 157/1998, JóhS
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 123. lþ.

[21:46]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Þegar málið sem hér er til umræðu var tekið til 2. umr. var vakin athygli á því sem hæstv. fjmrh. nefndi í máli sínu. Þótt þetta frv. geri ráð fyrir að skuldabréf sem gefin eru út til Íbúðalánasjóðs vegna viðbótarláns beri ekki stimpilgjöld stóð það eftir að húsbréf, sem verða núna verulegur hluti af lánum til þeirra sem hafa fengið félagslegt lán í kerfinu sem á að leggja niður, bera stimpilgjöld en það eru 65--70% lánsins. Að auki var vakin athygli á því að skuldbreytingalán, þ.e. fyrir fólk í greiðsluerfiðleikum og lánaflokkar sem voru í Byggingarsjóði ríkisins, lán til byggingarheimila fyrir aldraða m.a. og sérstök lán til einstaklinga með sérþarfir, munu einnig bera stimpilgjöld. Formaður efh.- og viðskn. tók vel í að þetta mál yrði sérstaklega skoðað milli 2. og 3. umr. málsins. Eftir því sem ég best veit var tekið undir þetta í efh.- og viðskn., raunar svo jákvætt að gerð var brtt. sem flytja átti af formanni og varaformanni efh.- og viðskn. Í þeirri brtt. var lagt til að fasteignaveðbréf, skipt fyrir húsbréf, gefin út samhliða skuldabréfi vegna viðbótarláns vegna sömu fasteignar bæru ekki stimpilgjöld. Mér virðist málið hafa hlaupið í hnút og eftir því sem ég best veit var hæstv. fjmrh. ekki sáttur við þessa niðurstöðu máls af hálfu efh.- og viðskn. Í stað þess að þessi brtt. sé flutt sameiginlega af efh.- og viðskn. kemur þessi yfirlýsing hæstv. ráðherra.

Ég ætla ekki að gera lítið úr þeirri yfirlýsingu sem hæstv. ráðherra hefur flutt. Hæstv. ráðherra sagði efnislega að ef í ljós kæmi að einstaklingar sem flytjast nú yfir í nýjan Íbúðalánasjóð og voru í félagslega kerfinu yrðu ekki jafnsettir eftir sem áður í þessum nýja Íbúðalánasjóði að því er varðar kostnað við að taka lánin, yrði það skoðað sérstaklega og reynt að leita lausna á þeim málum.

Mér fannst koma fram í máli hæstv. ráðherra áðan, að ef slík tilvik kæmu upp þá yrðu þau mjög fá vegna þess að hægt væri að leysa málin þannig að fólk fengi stimpilgjöldin endurgreidd í vaxtabótakerfinu. Þetta var einmitt mál sem við fórum mjög ítarlega í gegnum í vor. Efh.- og viðskn., sem fjallaði um vaxtabæturnar var með rökum sýnt fram á að þær breytingar sem var verið að gera, þ.e. að breyta niðurgreiðslu sem var í félagslega kerfinu, hætta niðurgreiddum vöxtum og fara með vextina upp í markaðsvexti en að niðurgreiðslan kæmi eins og hjá öðrum í gegnum vaxtabótakerfið, henni var sýnt fram á að þakið sem er á vaxtabótakerfinu kæmi í veg fyrir að kostnaður vegna stimpilgjalda gæti fallið undir vaxtabótakerfið og orðið frádráttarbært.

Herra forseti. Ætli það séu ekki 6--8 raunveruleg dæmi um einstaklinga, einstæða foreldra, hjónafólk, hjón með börn, með mismunandi tekjur, mismunandi stórar eignir sem sýndu fram á hver raunveruleikinn í málinu væri. Hann er í fyrsta lagi sá, herra forseti, að sú niðurgreiðsla sem fólk fékk í gegnum félagslega íbúðakerfið og fær núna í gegnum vaxtabætur er ekki sambærileg. Fólk hefur meiri greiðslubyrði í nýja kerfinu vegna þess að það rekur sig upp undir þakið. Það er áður en kemur að stimpilgjöldunum og hér eru dæmi, raunveruleg dæmi. Við getum tekið einstakling, herra forseti. Hámark vaxtabóta er 144 þús. kr. á ári, íbúðarverð er 6,3 millj. kr. og síðan er skoðað hvað þetta gefur að því er varðar niðurgreiðsluna í núgildandi kerfi og í vaxtabótakerfinu. Sjá má að í núgildandi kerfi, þ.e. í því kerfi sem á að leggja niður núna um áramótin, er nettógreiðslan að meðaltali 168 þús. kr. á ári fyrstu 10 árin hjá einstaklingi sem hefur í tekjur 1.500 þús. en 134 þús. hjá einstaklingi með 800 þús. Mismunurinn á niðurgreiðslunni sem var áður í félagslega kerfinu og þeirri sem verður í vaxtabótakerfinu er á bilinu 23--57 þús. kr. Það hefði því þurft að hækka þakið í vaxtabótum um á bilinu 23--57 þús. kr. fyrir einstaklinga til að þeir væru jafnsettir með niðurgreiðslu á vöxtum með vaxtabótum annars vegar og niðurgreiddum vöxtum hins vegar. Með öðrum orðum þyrfti að lyfta þakinu um 57 þús. kr. fyrir þennan einstakling til að hann yrði jafnsettur. Að auki stóðu þá stimpilgjöldin út af. Menn sjá að til að vera jafnsettur með niðurgreiðslu í formi vaxtabóta og þeirrar niðurgreiðslu sem var fyrir, þá þyrfti að lyfta þakinu verulega. Í þessu dæmi um 23--57 þús. kr.

Hjá einstaklingi með börn var þetta á bilinu 3--63 þús. sem þurfti að lyfta þakinu til að einstætt foreldri væri jafnsett á eftir. Hjá hjónum var mismunurinn á bilinu 16--28 þús. Þá er um við ekki farin að tala um stimpilgjaldið. Í engu þessara tilvika var rúm fyrir stimpilgjaldið. Viðkomandi þurfti að bera stimpilgjaldið sjálfur og það er töluvert hátt. Ég ætla að koma að því á eftir í máli mínu af því það var ekki pláss fyrir það innan vaxtabótakerfisins. Þetta eru staðreyndir sem við stóðum frammi fyrir á síðasta þingi. Þá var gerð tilraun í efh.- og viðskn. til að fá samstöðu um að lyfta þakinu svo yfirlýsing hæstv. félmrh. stæði, um að einstaklingarnir yrðu jafnsettir í nýju kerfi eins og í félagslega kerfinu sem leggja átti niður, að því er varðar bæði vaxtaniðurgreiðslu og kostnaðinn. Um það náðist ekki samstaða, herra forseti. Við stöndum því frammi fyrir því að greiðslubyrðin verður meiri í þessu nýja íbúðalánakerfi að því er varðar vaxtabyrðina.

Þá komum við að kostnaðinum, herra forseti, í formi stimpilgjalda en fólk í félagslega kerfinu þurfti ekkert stimpilgjald að borga af sínum lánum. Það var undanþegið stimpilgjaldi. Nú þarf það að borga stimpilgjald af 65% lánanna. Hvað kemur þá í ljós? Þessi dæmi lágu öll fyrir í fyrra. Það er ekkert nýtt í þessu. Þá var sýnt fram á að stimpilgjald, miðað við einstætt foreldri með eitt barn, sem kaupir íbúð á fimm og hálfa milljón og er með 960 þús. í árslaun, mánaðarlaunin eru 80 þús. Það fer allt í einu að borga stimpilgjald upp á 57 þús. kr. sem það þurfti ekki að borga áður. Hér liggur fyrir að þetta stimpilgjald kemst ekki undir vaxtabótaþakið. Þá eru til tvær leiðir. Þær eru að fella niður stimpilgjaldið alfarið og líka af húsbréfunum, eins og mér fannst að efh.- og viðskn. hefði raunverulega tekið undir, eða lyfta vaxtabótaþakinu til að stimpilgjaldið geti fallið undir vaxtabæturnar.

Því hefur þegar verið hafnað að lyfta vaxtabótaþakinu. Nú, herra forseti, á greinilega að hafna því að húsbréfin verði án stimpilgjalda. Ég hef efasemdir um þetta, miðað við þá leið sem hæstv. ráðherra nefnir, að ef þetta verði vandamál hvort þá verði fundin einhver lausn. Ég spyr ráðherrann: Ef hann er ekki tilbúinn að lyfta vaxtabótaþakinu, ekki tilbúinn að afnema stimpilgjöldin af húsbréfunum, hvaða leið hefur þá hæstv. ráðherra til að t.d. einstætt foreldri þurfi ekki allt í einu að leggja út, miðað við litla íbúð upp á 5,5 millj. kr., upp undir 60 þús. kr. sem það hefur ekki gert áður, fyrir utan það að greiðslubyrðin af vöxtunum verður meiri?

Herra forseti. Mér nægir ekki þessi yfirlýsing ráðherra af því að ég veit af þessu vandamáli. Ég þarf ekki að bíða eftir að fá einhverja reynslu í því. Ráðherrann lætur líta svo út að þetta verði ekki stórt mál, komi aðeins til með að snerta einn og einn en málið er raunverulegt og við stöndum frammi fyrir þessu vandamáli. Ég tel að það sé undansláttur í málinu, menn séu að koma sér hjá því að samþykkja þetta, vegna þess að við stöndum frammi fyrir þessu vandamáli.

Hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir kannast við alla þessa umræðu. Hún er formaður í félmn. sem fjallaði um þessar breytingar og fór rækilega yfir stimpilgjöldin, viðbótarkostnaðinn, greiðslubyrðina hve mikil hún yrði miðað við vaxtabæturnar þar sem fólk ræki sig upp undir þakið. Eins kom í ljós hve niðurgreiðslan var hagstæðari fyrir fólk. Ég sé að hv. þm. kinkar kolli. Við fórum í gegnum þá umræðu og voru allir sammála um að svona væri þetta. Þess vegna spyr ég: Af hverju að fresta þessu vandamáli fram yfir áramót ef meiri hlutinn vill taka á málinu? Við þurfum ekki frekari sannanir. Þær liggja á borðinu.

Herra forseti. Það olli mér miklum vonbrigðum, að ekki næðist samstaða um þetta. Í brtt. efh.- og viðskn. sem ég sá, og það er að vísu hægt að kalla það tvöfalt kerfi eins og hæstv. ráðherra nefndi, vorum við jú aðeins að tala um að aflétta stimpilgjöldunum af húsbréfunum sem kæmu til viðbótar þessum viðbótarlánum. Ég hygg að við séum ekki að tala um stórar fjárhæðir, herra forseti. Stimpilgjöldin gefa ríkissjóði í dag um 2,3 milljarða. Svo var a.m.k. síðast þegar ég var að skoða þetta. Það getur þó vel verið að það sé meira á næsta ári. Þegar ég vann að tillögu sem við fluttum um aðgerðir til að bæta stöðu skuldara kom þetta í ljós að þau gáfu um 2,3 milljarða kr. Þegar maður skoðar þessi mál, af því við erum að tala um tekjulægstu hópana sem allt í einu eiga að bera meiri kostnað en þeir gerðu áður, þá hefur ríkissjóður verulegar tekjur af heimilum sem raunverulega eru í neyð. Ríkisstjórnin bætti síðan um betur á síðasta þingi að því er varðar t.d. dómsmálagjöldin. Þau voru hækkuð, t.d. var hækkuð gjaldtaka vegna beiðni um nauðungarsölu. Þar var ríkið að ná sér í peninga á síðasta þingi. Þegar ég flutti málið fyrir tveimur þingum hafði ríkið verulegar tekjur af stimpilgjöldum, þinglýsingargjöldum, gjöldum af fjárnámi og nauðungarsölu auk tekna af virðisaukaskatti af gjaldtöku lögmanna hjá skuldurum í innheimtumálum.

[22:00]

Herra forseti. Mér finnst að í þessu góðæri sem stjórnarliðum er tamt að ræða um í þessum ræðustól, eigi að reyna að ná samstöðu um að leggja ekki auknar álögur með þessari breytingu sem ríkisstjórnin er að gera, viðbótarkostnað á það fólk sem verst er sett í þjóðfélaginu og sem naut mestrar aðstoðar af félagslega kerfinu sem nú hefur verið lagt niður. Ég er að tala um einstæða foreldra, námsmenn, aldraða og öryrkja. En það erum við að gera. Bara stimpilgjöldin ein og sér, sem geta verið 60--70 þúsund kr., eru stundum heil mánaðarlaun hjá þessu fólki.

Þess vegna gladdi það mig mjög þegar ég stóð í þeirri trú að samstaða væri um að meiri hluti efh.- og viðskn. flytti þessa brtt.

Herra forseti. Ég vil biðja forseta og þingheim að virða mér það til betri vegar þó að ég kaupi ekki alveg þessa yfirlýsingu hæstv. ráðherra, þó að ég viti að hún sé vel meint, þegar maður hefur þessar staðreyndir fyrir framan sig.

Ég skal ekki tefja þingstörfin meira. Ég vildi bara koma því skilmerkilega á framfæri sem ég hef um þetta mál að segja, vegna þess að ég veit að við erum með vandamál sem við munum standa frammi fyrir á næsta ári en hefði verið hægt að leysa við þessa umræðu.

Ég hefði gjarnan viljað spyrja hæstv. ráðherra, herra forseti, hvort hann geti svarað þessu: Ef þetta er jafnmikið vandamál og ég sé það fyrir mér, herra forseti --- ef ég á að giska á eitthvað, herra forseti, miðað við þær úttektir sem ég hef verið að gera á einstaka hópum, þá hygg ég að við séum kannski að tala um að þrjá fjórðu hluta þeirra sem fá viðbótarlán, þ.e. þeir sem hafa verið í félagslega kerfinu og fara nú að fá viðbótarlán í nýjum Íbúðalánasjóði, lendi í því að reka sig upp undir þetta þak og bera sjálfir að fullu stimpilgjöldin sem þeir gerðu ekki áður --- ef það kemur í ljós að við séum ekki bara að tala um einn og einn --- ég vona að hæstv. ráðherra sé að hlýða á mál mitt --- ef við erum að tala um töluvert stóran hóp, er ráðherrann þá tilbúinn að lýsa því yfir hér og nú að hann muni þá koma með frv. inn í þingið sem gerir annað tveggja, að lyfta vaxtabótaþakinu þannig að rúm skapist fyrir stimpilgjöldin eða að aflétta stimpilgjöldunum af húsbréfunum vegna viðbótarlána? Við erum náttúrlega líka að tala um skuldbreytingarlánin og við erum líka að tala um þá þrjá lánaflokka sem ég nefndi.

Við erum greinilega ekki sammála, ég er miklu sannfærðari en ráðherrann hæstv. um að þetta sé raunverulegt vandamál og við því er ekkert að gera ef ráðherrann telur þetta ekki vera stórt vandamál. Ég tel það vera vandamál. Við gætum færst nær því að finna lausn á þessu og ekki þurft að ræða þetta mikið lengur í kvöld ef ráðherrann væri tilbúinn að lýsa því svolítið skýrar yfir en hann gerði áðan, að ef þetta sýnir sig að vera raunverulegt vandamál, að við séum að tala um nokkuð stóran hóp sem rekur sig í þetta þak, þá muni hann koma inn í þingið með lagabreytingu sem leysir þetta mál, annaðhvort með því að lyfta vaxtabótaþakinu eða afnema stimpilgjöldin af lánunum. Og ef ráðherrann þekkir einhverja þriðju leið, sem ég sé ekki í hendi mér hver gæti verið, þá væri mjög gott að fá hana fram við þessa umræðu.