Útflutningsráð Íslands

Laugardaginn 19. desember 1998, kl. 23:02:17 (2847)

1998-12-19 23:02:17# 123. lþ. 47.25 fundur 340. mál: #A Útflutningsráð Íslands# (tekjur, samráðsnefnd, stjórn o.fl.) frv. 137/1998, Frsm. minni hluta SJS
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 123. lþ.

[23:02]

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Minni hlutinn treystir sér ekki til að standa að samþykkt þessa frv. eins og málið ber að. Ég mæli fyrir áliti minni hlutans. Hann skipa ásamt mér hv. þm. Ágúst Einarsson og Svavar Gestsson.

Ljóst er, herra forseti, af því sem fyrir liggur í þessu máli að ekki hefur tekist að ná því heildarsamkomulagi um framtíðartilhögun og skipulag um starfsemi Útflutningsráðs sem tryggi að samstaða sé um framhaldið. Minni hlutinn hefði því talið eðlilegast að framlengja lögin um Útflutningsráð sem minnst breytt en ekki að fara út í þær breytingar á lögunum sem þetta frv. gerir ráð fyrir. Þær eru umtalsverðar, bæði hvað varðar aðild að ráðinu og einnig greiðslur til þess.

Þegar svo við bætist, herra forseti, að áform eru um að auka gjaldtökuna með því að bæta við gjaldtökuna til að mæta kostnaði við verkefni í tengslum við Fjárfestingarstofu Íslands, er enn síður skynsamlegt, í ljósi þess að verið er að tjalda til fáeinna nátta, að gera allar þessar breytingar.

Það er, herra forseti, tæpast mjög trúverðugt í ljósi forsögu málsins að leggja nú til meiri gjaldtöku sem þó er í orði kveðnu a.m.k. ætlunin að leggja af innan tveggja ára að ég hygg. Þar vísa ég í ákvæðin í frv. þannig að ekki lítur út fyrir að menn hafi náð landi með þessi mál.

Ég held einnig að nokkuð ljóst sé að fara þurfi betur yfir og reyna að ná sátt um samræmingu starfa á þessu sviði, hinnar nýju viðskiptaþjónustu utanrrn. --- sem verið er að byggja upp og er góðra gjalda vert --- og þess hluta starfsins sem formlega séð tilheyrir Útflutningsráði með aðild atvinnulífsins. Þarna vantar á samræminguna og einnig má setja spurningarmerki við það með hvaða hætti starfsemi fjárfestingarskrifstofunnar er tengd þessu máli.

Við, herra forseti, sem skipum minni hlutann getum því ekki mælt með samþykkt frv. og sitjum því hjá við afgreiðslu málsins.