1998-12-20 00:56:46# 123. lþ. 47.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 1999# frv. 165/1998, SJS (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 123. lþ.

[24:56]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég kem í stólinn fyrst og fremst með það tiltölulega léttvæga erindi að biðja menn að samþykkja þessa tillögu. Ég vil leyfa mér að halda því fram að pakkhúsið á Höfn sé ekkert ómerkilegra mál heldur en önnur sem hér fá jákvæða meðhöndlun og ég auðvitað fagna. Mér er t.d. ljóst að Kaupangur á Vopnafirði er góðra gjalda verður og það er þörf tillaga hjá meiri hluta fjárln. sem þekkir vel til á Austurlandi, eins og kunnugt er, en þar sitja hv. þm. Jón Kristjánsson og Arnbjörg Sveinsdóttir ásamt fleiri góðum mönnum. Eins er það með stafakirkjuna í Vestmannaeyjum eins og mörg önnur góð mál sem fá jákvæða umfjöllun (Samgrh.: En gamla hesthúsið á Möðruvöllum?) og lengi mætti til tína. En pakkhúsið á Höfn ...

(Forseti (StB): Forseti vil biðja hv. þm. um að gefa ræðumanni hljóð.)

Ég vil leyfa mér að halda því fram, herra forseti, að það mundi ekki ríða fjárhag ríkissjóðs á slig eða setja allt á hvolf þó að þessi litla og sanngjarna tillaga yrði samþykkt að flutningsmanni að vísu fjarstöddum. Það hefur líka gjarnan verið venjan að samþykkja eins og eina tillögu frá minni hlutanum við fjárlagaafgreiðslu og ég er alveg sannfærður um að það að hefja endurbyggingu pakkhússins á Höfn væri alveg upplögð tillaga í því sambandi. Ég leyfi mér að biðja menn að skoða hug sinn og sýna nú kjark, bregða út af reglunni, vera frumlegir og samþykkja þetta.