1998-12-20 01:05:34# 123. lþ. 47.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 1999# frv. 165/1998, RG (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 123. lþ.

[25:05]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Herra forseti. Alþingi samþykkti lög um fjölskyldustefnu fyrir tveimur árum. Það var góð stefnumótun. Jafnaðarmenn og framsóknarmenn náðu reyndar saman í því máli en síðan hefur ekkert gerst. Útfærsla hefur ekki séð dagsins ljós. Fjölskyldustefna hefur aðeins reynst falleg yfirlýsing, þar sem þau lög sem gætu endurspeglað pólitískan vilja um öfluga fjölskyldustefnu gera það ekki. Mikilvægur liður var felldur úr tillögunni á sínum tíma af stjórnarflokkunum. Það var ákvæði um fjölskyldusjóð sem standa átti fyrir rannsóknum í málum sem snúa að málefnum fjölskyldunnar.

Sagt var að fjölskylduráðið fengi það verkefni og fengi sérstakar fjárveitingar í því skyni. Í frv. er tillaga um 2 millj. kr. fjárveitingu til ráðsins. Hún er allt of lág. Ég er hófleg í tillögugerð minni. Ég legg til að fjárveitingin hækki um 3 millj., herra forseti, og verði 5 millj. Ég legg til að Alþingi samþykki þessa tillögu --- og ég sé að það er á leiðinni að gera það.