1998-12-20 02:56:04# 123. lþ. 48.1 fundur 370. mál: #A landmælingar og kortagerð# frv. 132/1998, umhvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 123. lþ.

[26:56]

Umhverfisráðherra (Guðmundur Bjarnason) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er kannski ekki miklu við að bæta en hv. þm. beindi þó til mín þeirri spurningu hvort ég hefði leitað álits lögmanna á því hvort skynsamlegra væri að bregðast við eins og ég hef nú þegar lagt til og þingheimur veit um eða að draga málið. Niðurstaða þeirra sem ég hef leitað til hefur verið sú að nauðsynlegt sé að eyða þeirri óvissu sem hér er uppi vegna þess að ekki verður horfið frá ákvörðuninni um flutninginn og að frestunin skapi meira óvissuástand sem ekki er vitað til hvers leiði með því að draga málið og því sé bæði rétt og nauðsynlegt að bregðast við eins og hér hefur verið lagt til.

Ég er ekki að draga úr því að það er auðvitað óþægilegt að þurfa að taka á svo stóru máli svo skjótt sem raun ber vitni og hefur komið fram í umræðunum. En niðurstaða þeirra sem hafa fjallað um málið með mér hefur verið sú að það sé nauðsynlegt. Ég hef reyndar látið það koma fram áður og hef engu við það að bæta.