Skipulags- og byggingarlög

Þriðjudaginn 02. febrúar 1999, kl. 16:20:16 (3162)

1999-02-02 16:20:16# 123. lþ. 57.2 fundur 352. mál: #A skipulags- og byggingarlög# (skipulag miðhálendisins) frv., HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur, 123. lþ.

[16:20]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Mér sýnist að málið sé í raun óljósara, einnig í huga hæstv. ráðherra, en ég hafði jafnvel gert ráð fyrir þrátt fyrir athugasemdir mínar í ræðu hér áðan. Og þá fyrst varðandi línuna. Það virðist hafa farið fram hjá hæstv. ráðherra sá skilningur sem margítrekaður var í vinnu að svæðisskipulagi miðhálendisins, að af hálfu þeirra sem völdu fulltrúa í nefndina var þessi lína ekki hugsuð sem varanleg, heldur sem viðmiðunarlína, sem vinnuaðferð og síðan rynni svæðisskipulagið saman við svæðisskipulag neðan línunnar, byggðarmegin við línuna, þegar slíkt svæðisskipulag yrði unnið. Þetta var það sem ég þekki til og þess vegna sýnist mér að málið sé allt vandasamara en kemur fram í svari hæstv. ráðherra, og ég segi því miður. Ég hefði kosið að þessi grunnur væri traustari en raun ber vitni eins og ég les í málið. Ekki meira um það nú.

Í öðru lagi varðandi verkefni nefndarinnar. --- Virðulegur forseti. Ég óska eftir að dregið verði frá tíma mínum hér því hæstv. ráðherra er truflaður hér ítrekað. Varðandi annan þáttinn, þ.e. verkefni nefndarinnar. Hér er um allt annað orðalag að ræða en áður og það er alveg ljóst að þessari samvinnunefnd er ætlað samkvæmt frv. að gera tillögu um svæðisskipulag. Þannig er svæðið innan markalínunnar, þ.e. miðhálendi Íslands, orðið sérstök stjórnsýslueining í samhenginu svæðisskipulag, orðið sérstök, sjálfstæð stjórnsýslueining í því samhengi og það er allt annað en hæstv. ráðherra er að tala fyrir. Hann er hér með í graut, því miður, hugmyndina frá í fyrra og það frv. sem hann leggur hér fyrir. Þetta er afar ótraust, virðulegur forseti.

Í þriðja lagi, virðulegur forseti, hvernig með skuli fara, eftir 13. eða 15. gr. skipulagslaganna, og hæstv. ráðherra svarar 13. Ég er aldeilis hissa miðað við þær tillögur sem fyrir liggja og efni og orðalag 12. gr. þrátt fyrir þó það innskot sem kemur fram í 1. gr. þessa frv.