Vinnubrögð í iðnaðarnefnd

Fimmtudaginn 04. febrúar 1999, kl. 10:33:46 (3289)

1999-02-04 10:33:46# 123. lþ. 59.91 fundur 228#B vinnubrögð í iðnaðarnefnd# (aths. um störf þingsins), HG
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur, 123. lþ.

[10:33]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Ég sé ástæðu til þess að gefnu tilefni að vekja athygli hæstv. forseta á því að verið er að reyna að ýta fram málum í þinginu með þeim hætti að ég tel að það gangi á svig við þingsköp. Ég var að koma af fundi áðan í iðnn. þingsins sem kölluð var sérstaklega saman til þess að fjalla um þrjú mál, þrjú frv. frá hæstv. iðnrh. sem formaður nefndarinnar upplýsti að væntanleg væru til Alþingis á næstunni, þrjú tilgreind frv. sem ég hef ekki séð meðal þingmála og var það hugmynd formanns nefndarinnar og tilmæli til nefndarinnar að þau yrðu send út til umsagnar í nafni nefndarinnar. Rætt var við mig í gær af formanni nefndarinnar um að halda aukafund um málið í þessum tilgangi. Ég tjáði honum að ég teldi það ekki rétt að stefna að því að senda út mál á vegum þingnefnda sem ekki væru komin til Alþingis og lýsti þar með fyrirvara af minni hálfu varðandi þetta fundarboð. En eftir sem áður er fundur boðaður í iðnn. kl. 10 og honum var að ljúka. Þar vakti ég athygli á 23. gr. þingskapa þar sem segir m.a., með leyfi forseta:

,,Til fastanefnda getur þingið vísað þeim þingmálum sem lögð eru fram og þörf þykir að nefnd íhugi. Vísa skal frumvörpum, þingsályktunartillögum og skýrslum til nefnda eftir efni þeirra og hafa um það hliðsjón af skiptingu málefna í Stjórnarráðinu.``

Síðan segir í 2. mgr. þessarar sömu greinar þingskapalaga:

,,Áður en 1. umr. fer fram um stjórnarfrumvörp eða fyrri umræða um tillögur frá ríkisstjórninni getur forseti heimilað, ef ósk berst um það frá níu þingmönnum, að nefnd athugi mál í því skyni að afla frekari upplýsinga um það eða skýringa á efni þess. Slíkt er og heimilt að gera að lokinni framsöguræðu um málið. Forseti ákveður hve lengi athugun nefndarinnar má standa.

Nefnd, sem fengið hefur mál til athugunar, skal heimilt að vísa því til annarrar fastanefndar`` o.s.frv.

Þetta er úr 23. gr. þingskapa Alþingis og ég fæ ekki skilið, virðulegur forseti, hvernig formönnum þingnefnda dettur það í hug að kveðja til nefndarfunda til þess að vísa málum til umsagna sem ekki eru komin inn til þingmanna, hvað þá að leyfi forseta og tilskilin ósk níu þingmanna liggi fyrir um að afbrigða sé leitað varðandi umfjöllun nefndar. Mér finnst að Alþingi þurfi að gæta sín í þessum efnum, að framkvæmdarvaldið fari ekki algerlega offari í máli sem þessu og vildi vekja athygli virðulegs forseta á þessu máli.