1999-03-11 02:22:00# 123. lþ. 84.28 fundur 41. mál: #A undirritun Kyoto-bókunarinnar# þál., Frsm. 2. minni hluta HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 123. lþ.

[26:22]

Frsm. 2. minni hluta umhvn. (Hjörleifur Guttormsson) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta var ágæt og hressileg ræða sem hér var flutt en eitthvað fannst mér holt undir. Ég kemst ekki hjá því þegar menn tala um með stórum orðum og skýrum að við eigum að laga stefnu okkar innan lands að þeim markmiðum sem Kyoto-bókunin gerir ráð fyrir og hér sé siðferðilegt vandamál á ferðinni. Við eigum að vera ábyrg þjóð og ef við fylgjum ekki þessum leikreglum í sambandi við loftslagssamninginn og Kyoto-bókunina séum við á lífshættulegri braut. Ég get tekið undir þetta allt saman en hvað eru fulltrúar Samfylkingarinnar að gera á Alþingi Íslendinga þessa daga? Fyrir hverju tala fulltrúar Samfylkingarinnar víða úti um landið? Hvernig tala þeir? Við erum að ganga til lokaafgreiðslu á frv. um raforkuver sem eru heimildir til ríkisstjórnar til að auka orkuframleiðslu til stóriðju. Hér stefnir í það, virðulegur forseti, að við förum 16% fram úr markmiðinu árið 2000, að við förum líklega 40% fram úr árið 2010 og þá er ekki reiknað með álbræðslunni á Austurlandi sem Samfylkingin styður, sem leiða mun til, ef fullbyggð verður eftir núverandi áætlunum 1 millj. tonna losunar á gróðurhúsalofttegundum. Hvar er samkvæmnin í þessum málflutningi?

Virðulegur forseti. Það er aldeilis óhjákvæmilegt að benda á þessa þversögn og ekki síst vegna þess að talsmaður Samfylkingarinnar, sem flytur ágæta tillögu á Alþingi, getur ekki sannfært mig og marga fleiri um að samkvæmni sé á milli orða og yfirlýsinga og raunverulegra ákvarðana sem viðkomandi þingmenn ætla að vera þátttakendur í.