Ferill 64. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.




123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 64 — 64. mál.



Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 88 27. maí 1997, um fjárreiður ríkisins.

Flm.: Jóhanna Sigurðardóttir, Ágúst Einarsson, Bryndís Hlöðversdóttir,


Guðný Guðbjörnsdóttir, Ásta R. Jóhannesdóttir, Lúðvík Bergvinsson,
Kristín Halldórsdóttir, Ögmundur Jónasson.


1. gr.

    Við 18. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Ársreikningi ríkisaðila skal fylgja sundurliðað yfirlit um launagreiðslur, bifreiða-, ferða- og risnukostnað. Sundurliðun einstakra þátta skal vera þannig:
     1.      Launagreiðslur:
           a.      Heildarlaunagreiðslur.
           b.      Föst yfirvinna.
           c.      Önnur yfirvinna.
           d.      Hlutfall yfirvinnu í heildarlaunagreiðslum.
           e.      Upplýsingar um starfsmannafjölda.
           f.      Starfskjör stjórnenda.
     2.      Bifreiðakostnaður:
           a.      Fjöldi ríkisbifreiða og rekstrarkostnaður þeirra.
           b.      Notkun bílaleigubifreiða.
           c.      Notkun leigubifreiða.
           d.      Greiðslur fyrir afnot af bifreiðum starfsmanna.
           e.      Bifreiðakostnaður stjórnenda.
     3.      Risnukostnaður:
           a.      Föst risna greidd einstökum starfsmönnum.
           b.      Risna greidd samkvæmt reikningi.
           c.      Sundurliðun á helstu þáttum risnu og helstu tilefni hennar.
     4.      Ferðakostnaður:
           a.      Ferðakostnaður innan lands, þar með talin sundurliðun á dagpeningum, gistikostnaði og ferðakostnaði.
           b.      Ferðakostnaður utan lands, þar með talin sundurliðun á dagpeningum, gistikostnaði og ferðakostnaði.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Frumvarp þetta er í samræmi við breytingar sem gerðar voru á lögum um Seðlabanka Íslands, Landsbanka Íslands, Búnaðarbanka Íslands og Útvegsbanka Íslands á árinu 1983, sbr. lög nr. 35–37/1983 og 39/1983. Með breytingunum var skylda sú sem felst í frumvarp­inu lögð á viðkomandi stofnanir. Þegar sett voru ný lög um viðskiptabanka, nr. 86/1986, og um Seðlabanka Íslands, nr. 36/1986, var slíkt ákvæði ekki í lögunum en var í reglugerð um ársreikninga bankanna sem sett var með stoð í lögunum. Þessi ákvæði er hins vegar ekki að finna í núgildandi reglugerð um ársreikninga bankanna. Í ljósi þeirrar umræðu sem átt hefur sér stað undanfarið um risnu-, ferða- og bifreiðakostnað og starfskjör stjórnenda Landsbanka Íslands hf. þykir eðlilegt að setja slík ákvæði á ný í íslenska löggjöf. Jafnframt verður að telja rétt að láta sambærileg ákvæði gilda um ársreikninga annarra ríkisaðila, eins og þeir eru skilgreindir samkvæmt lögunum, en með setningu laganna um fjárreiður ríkisins var fellt út ákvæði sem var í 79. gr. laga nr. 52/1966, um ríkisbókhald, gerð ríkisreiknings og fjárlaga, með síðari breytingum, sem laut að skyldu ráðuneyta og ríkisstofnana til að leggja fram yfirlit sambærilegt við það sem í frumvarpi þessu greinir.