Ferill 72. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 175  —  72. mál.




Svar



dóms- og kirkjumálaráðherra við fyrirspurn Össurar Skarphéðinssonar um dagsektir vegna umgengnisbrota.

     1.      Hve oft hefur dagsektum verið beitt vegna umgengnisbrota skv. 38. gr. barnalaga?
    Frá gildistöku barnalaga 1. júlí 1992 hefur alls fjórum sinnum verið úrskurðað um dag­sektir á grundvelli 38. gr. laganna.
    Við embætti sýslumannsins í Reykjavík voru kveðnir upp tveir slíkir úrskurðir árið 1995, báðir á hendur sama aðilanum, og einn úrskurður árið 1997. Sýslumaðurinn í Keflavík hefur kveðið upp einn úrskurð á grundvelli ákvæðisins, það var á árinu 1995.

     2.      Hversu oft hefur fjárnámsheimild sömu greinar verið beitt til að innheimta dagsektir?
    Fjárnámsheimild ákvæðisins hefur verið beitt alls þrisvar sinnum.
    Við embætti sýslumannsins í Reykjavík hafa tvær fjárnámsgerðir farið fram á grundvelli dagsektarúrskurða, báðar hjá sama aðila. Fjárnámsandlag fyrri gerðarinnar var selt nauð­ungarsölu án þess að nokkuð kæmi upp í dagsektakröfuna. Nýtt fjárnám var gert á grundvelli úrskurðarins en það var árangurslaust og sektarþoli hefur verið tekinn til gjaldþrotaskipta. Sýslumaðurinn í Keflavík hefur einu sinni beitt fjárnámsheimildinni, fjárnámið var árangurs­laust og leiddi til gjaldþrotaskipta.

     3.      Hve miklar upphæðir hefur ríkissjóður innheimt samtals vegna dagsekta?
    Samkvæmt upplýsingum ríkisbókhalds hefur engin innheimta dagsekta vegna umgengnis­brota skilað sér í ríkissjóð.

     4.      Hvert er mat ráðuneytisins á gildi slíkra sekta í ljósi reynslunnar?
    Ekki hefur oft þurft að grípa til heimildar 38. gr. barnalaga til að koma á umgengni milli barns og foreldris. Af þeirri reynslu má draga þá ályktun að heimildin hafi nokkur varnaðar­áhrif, þótt ómögulegt sé að meta þau með nokkurri vissu. Það bendir vissulega fremur til virkra varnaðaráhrifa úrræðisins að í þeim tilfellum sem komið hefur til úrskurðar og fjár­námsgerða hafa engar eignir verið fyrir hendi þegar til átti að taka. Ljóst er að ríkissjóður hefur ekki hagnast á dagsektum enn sem komið er.
    Þau úrræði sem beitt er í grannlöndum okkar til að þvinga fram umgengni barns og foreldris eru annars vegar dagsektir og hins vegar innsetningargerð. Fyrir dyrum stendur endurskoðun á ýmsum ákvæðum barnalaga. Eitt þeirra atriða sem verða skoðuð verður hvort rétt sé að leggja til þá breytingu á ákvæðum barnalaga að auk heimildar til að leggja á dag­sektir sem úrræði til að þvinga fram umgengni geymi þau heimild til að koma á umgengni með innsetningargerð.