Ferill 178. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.




123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 188  —  178. mál.



Tillaga til þingsályktunar



um stofnun endurhæfingarmiðstöðvar.

Flm.: Siv Friðleifsdóttir, Bryndís Hlöðversdóttir,


Magnús Stefánsson, Ásta R. Jóhannesdóttir.

    
    Alþingi ályktar að fela heilbrigðisráðherra að setja á stofn endurhæfingarmiðstöð sem verði sjálfstæð opinber stofnun með þjónustusamning við heilbrigðisráðuneyti. Markmið stofnunarinnar yrði að bæta þjónustu við þá sem þarfnast endurhæfingar til lengri tíma, stuðla að því að þeir verði virkir þjóðfélagsþegnar á ný og bæta um leið nýtingu spítalanna.

Greinargerð.


    Endurhæfingu sjúklinga til lengri tíma eftir að bráðaendurhæfingu á spítölunum lýkur þarf að bæta. Undanfarin ár hefur gengið erfiðlega að koma þessum sjúklingum, sem hafa orðið illa úti af sjúkdómum og slysum, í viðeigandi meðferð. Endurhæfingu á bráðastigi hefur verið nokkuð vel sinnt en almennt er viðurkennt að fjárskortur hefur háð endurhæfingu að því loknu. Tilhneiging hefur verið að sjúkrahús leggi áherslu á bráðaþjónustu á kostnað lang­tímaendurhæfingar. Þá hefur einnig staðið endurhæfingu fyrir þrifum, bæði á Ríkisspítöl­unum og Sjúkrahúsi Reykjavíkur, að heyra undir lyflæknissvið í stað þess að vera sjálfstætt svið með eigin stjórnun, fjárveitingu og rekstur. Til að ráða bót á þessu hafa komið fram hugmyndir um að sameina krafta og þekkingu á endurhæfingardeildum þessara stofnana í eina endurhæfingarmiðstöð. Til greina kæmi einnig að aðrar stofnanir sem sinna endurhæf­ingu, svo sem Reykjalundur og Heilsustofnun NLFÍ í Hveragerði, gætu tengst miðstöðinni svo að sem best samvinna væri um hvert sjúklingar færu til meðferðar.
    Varðandi staðsetningu stöðvarinnar verði kannaður sá möguleiki að samnýta aðstöðu á Grensásdeild og í Kópavogi.
    Verði miðstöðin sett á stofn gæti skipun stjórnar hennar verið eftirfarandi: Formaður skip­aður af heilbrigðisráðherra og aðrir fulltrúar skipaðir af Háskóla Íslands, Sjúkrahúsi Reykja­víkur, Ríkisspítölunum, Neytendasamtökunum, Vinnuveitendasambandinu og einn fulltrúi skipaður af starfsmönnum.
    Í Reykjavík voru á síðastliðnu ári að meðaltali um 35 rúm á Grensásdeild til afnota fyrir langtímaendurhæfingu. Á Reykjalundi eru um 150 endurhæfingarrúm og á Heilsustofnun NLFÍ eru 160 rúm, þar af 60 skilgreind fyrir endurhæfingu. Á hvorugum staðnum er hins vegar gert ráð fyrir umönnun svokallaðra þungra endurhæfingarsjúklinga. Í Reykjavík og nágrenni eru þannig samtals um 240–250 rúm skilgreind til notkunar fyrir endurhæfingu en þar af eru aðeins 30–35 fyrir þunga endurhæfingu. Hluti rúmanna er að auki stöðugt tepptur vegna of fárra vistunarúrræða.
    Gert er ráð fyrir að í nýju miðstöðinni rúmist starfsemi sem nú fer fram á Grensásdeild Sjúkrahúss Reykjavíkur auk þess sem endurhæfingarþjónustu þeirri sem ráðgerð er á nýrri deild á Kópavogshæli yrði einnig komið fyrir þar. Loks flytjist þeir sjúklingar sem þarfnast endurhæfingar til lengri tíma og nú liggja á bráðadeildum í miðstöðina um leið og ástand þeirra leyfir.