Ferill 93. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 194  —  93. mál.




Svar



sjávarútvegsráðherra við fyrirspurn Lúðvíks Bergvinssonar um fjölda starfsmanna sem vinna við fiskveiðistjórnunarkerfið.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hversu margir sinna störfum við stjórnkerfi fiskveiða og eftirlit með því, talið í starfsmönnum og stöðugildum?
     2.      Hvernig skiptast þeir starfsmenn og þau stöðugildi eftir stofnunum?
     3.      Hver hefur þróunin verið frá 1991?


    Hugtakið stjórnkerfi fiskveiða er hægt að túlka á mismunandi hátt. Ef það er túlkað vítt má segja að allir starfsmenn sjávarútvegsráðuneytisins og Hafrannsóknastofnunarinnar sinni störfum sem beint eða óbeint tengjast stjórnkerfi fiskveiða. Ársverk unnin hjá Hafrannsókna­stofnuninni eru um 160, en starfsmenn eru 135. Er hér talið með sumarafleysingafólk og fólk sem starfar við tímabundnar rannsóknir. Stöðugildi þessara 135 starfsmanna eru 127. Hjá sjávarútvegsráðuneytinu starfa 18 manns í 17,6 stöðugildum. Að auki sinnir starfsfólk Fiski­stofu störfum við stjórnkerfi fiskveiða og eftirliti með því.
    Í svarinu er þó kosið að túlka hugtakið stjórnkerfi fiskveiða þröngt og þeir taldir upp sem sinna gerð laga og reglna í fiskveiðikerfinu og þeir sem sjá um daglega framkvæmd þess og eftirlit með því. Miðað við þetta sjónarhorn er eftirfarandi tafla unnin:

Stöðugildi 1. október 1998 Stöðugildi 1993
Sjávarútvegsráðuneyti 5,5 4,5
Fiskistofa
    Fiskveiðistjórnunarsvið1 10,0 8,0
    Lögfræðisvið 3,0 1,0
    Veiðieftirlitssvið2 26,0 18,0
    Eftirlit með úthafsveiðum3 5,0 0,0
    Tölvusvið4 5,5 4,5
    Fjármála- og rekstrarsvið4 6,0 6,0
Hafrannsóknastofnun
    Lokanir svæða5 1,0 1,0

     1.      Á þessu ári var ráðinn einn starfsmaður vegna Kvótaþings.
     2.      Fyrr á þessu ári voru sex starfsmenn ráðnir til að sinna eftirliti um borð í fullvinnsluskipum.
     3.      Eftirlit á Flæmingjagrunni. Starfsmenn ráðnir tímabundið.
     4.      Um 50% stöðugilda á tölvusviði og 75% stöðugilda á fjármála- og rekstrarsviði eru talin störf við stjórnkerfi fiskveiða og eftirlit með því.
     5.      Sjö sérfræðingar hjá Hafrannsóknastofnuninni skipta með sér sólarhringsbakvakt.

    Að auki er hluti af starfi hafnarstarfsmanna um allt land vinna við fiskveiðistjórnunarkerf­ið þar sem þeir sjá um vigtun og skráningu á lönduðum afla.
    Fiskistofa tók til starfa 1. september 1992. Við stofnun hennar fluttust 17 veiðieftirlits­menn sem höfðu starfað hjá sjávarútvegsráðuneytinu til Fiskistofu og auk þess fjórir aðrir starfsmenn ráðuneytisins. Frá Hafrannsóknastofnuninni fluttust starfsmenn tölvudeildar, samtals 5,6 stöðugildi, og tveir starfsmenn aðrir sem sáu um aflaskýrslur.
    Á árinu 1991 störfuðu 18 veiðieftirlitsmenn hjá ráðuneytinu og um tíu starfsmenn aðrir er sinntu störfum á sviði fiskveiðistjórnunar. Auk þessa sinnti tölvudeild Hafrannsóknastofn­unarinnar vinnu við fiskveiðistjórnunarkerfið og starfsmenn þar sáu um aflaskýrslur. Við uppbyggingu á tölvukerfum vegna eftirlits með fiskveiðistjórnunarkerfinu var einnig notuð aðkeypt vinna sérfræðinga.