Ferill 183. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 199  —  183. mál.




Frumvarp til laga



um breyting á skaðabótalögum, nr. 50 19. maí 1993, sbr. lög nr. 42 13. maí 1996.

(Lagt fyrir Alþingi á 123. löggjafarþingi 1998–99.)


1. gr.

    1. mgr. 2. gr. laganna orðast svo:
    Bætur fyrir atvinnutjón skal ákveða fyrir tímann frá því að tjón varð þangað til tjónþoli getur hafið vinnu að nýju eða þar til heilsufar hans er orðið stöðugt.

2. gr.

    1. málsl. 1. mgr. 3. gr. laganna orðast svo: Greiða skal þjáningabætur fyrir tímabilið frá því að tjón varð þar til heilsufar tjónþola er orðið stöðugt, 1.300 kr. fyrir hvern dag sem hann er rúmfastur og 700 kr. fyrir hvern dag sem hann er veikur án þess að vera rúmliggjandi.

3. gr.

    4. gr. laganna orðast svo:
    Þegar fjárhæð bóta fyrir varanlegan miska er ákveðin skal litið til þess hvers eðlis og hversu miklar afleiðingar tjóns eru frá læknisfræðilegu sjónarmiði, svo og til erfiðleika sem það veldur í lífi tjónþola. Varanlegur miski skal metinn til stiga og skal miða við heilsufar tjónþola eins og það er þegar það er orðið stöðugt.
    Bætur fara eftir aldri tjónþola á tjónsdegi og skulu vera þessar fyrir algeran, 100 stiga, miska:
Aldur Krónur Aldur Krónur
49 ára og yngri 4.000.000 62 ára 3.480.000
50 ára 3.960.000 63 ára 3.440.000
51 ára 3.920.000 64 ára 3.400.000
52 ára 3.880.000 65 ára 3.360.000
53 ára 3.840.000 66 ára 3.320.000
54 ára 3.800.000 67 ára 3.280.000
55 ára 3.760.000 68 ára 3.240.000
56 ára 3.720.000 69 ára 3.200.000
57 ára 3.680.000 70 ára 3.160.000
58 ára 3.640.000 71 ára 3.120.000
59 ára 3.600.000 72 ára 3.080.000
60 ára 3.560.000 73 ára 3.040.000
61 ára 3.520.000 74 ára eða eldri 3.000.000

    Við lægra miskastig lækka fjárhæðir þessar í réttu hlutfalli. Þegar sérstaklega stendur á er heimilt að ákveða hærri bætur, allt að 50% hærri en samkvæmt töflunni.
    Um greiðslur frá þriðja manni fer eftir 4. mgr. 5. gr.

4. gr.

    4. mgr. 5. gr. laganna orðast svo:
    Frá skaðabótakröfu vegna líkamstjóns dragast greiðslur sem tjónþoli fær frá almanna­tryggingum, bætur frá slysatryggingu ökumanns eftir umferðarlögum og bætur frá sams konar slysatryggingu manns er slasast sem farþegi í eigin ökutæki. Greiðslur frá samnings- eða lögbundinni atvinnuslysatryggingu launþega dragast frá skaðabótakröfu hans á hendur vinnuveitanda þeim sem slysatrygginguna keypti. Jafnframt skal draga frá skaðabótakröfu 40% af reiknuðu eingreiðsluverðmæti örorkulífeyris frá lífeyrissjóði og skal við útreikning­inn miðað við 4,5% ársafvöxtun. Aðrar greiðslur sem tjónþoli fær frá þriðja manni vegna líkamstjóns, svo sem lífeyrissjóði eða vátryggingafélagi, dragast ekki frá skaðabótakröfu.

5. gr.

    Í stað 1. mgr. 6. gr. laganna, sbr. lög nr. 42/1996, koma þrjár nýjar málsgreinar sem orð­ast svo:
    Bætur fyrir varanlega örorku skal meta til fjárhæðar á grundvelli örorkustigs tjónþola skv. 5. gr., árslauna hans skv. 7. gr. og eftirfarandi töflu, þannig að margfölduð séu saman ör­orkustig, árslaun og stuðull töflunnar í samræmi við aldur tjónþola á þeim tíma þegar honum er metin varanleg örorka:
Aldur Stuðull Aldur Stuðull Aldur Stuðull
0 10,614 25 13,085 50 4,691
1 10,901 26 12,520 51 4,684
2 11,196 27 12,074 52 4,645
3 11,498 28 11,628 53 4,623
4 11,809 29 11,294 54 4,621
5 12,128 30 10,626 55 4,591
6 12,455 31 10,344 56 4,534
7 12,792 32 10,054 57 4,449
8 13,138 33 9,758 58 4,358
9 13,493 34 9,455 59 4,259
10 13,857 35 9,144 60 4,155
11 14,232 36 8,825 61 4,096
12 14,616 37 8,499 62 4,068
13 15,011 38 8,208 63 4,073
14 15,417 39 7,906 64 4,090
15 15,833 40 7,592 65 4,119
16 16,261 41 7,265 66 4,082
17 16,701 42 6,889 67 3,731
18 17,116 43 6,538 68 3,348
19 16,535 44 6,140 69 2,950
20 15,955 45 5,731 70 2,537
21 15,376 46 5,342 71 2,101
22 14,800 47 4,953 72 1,636
23 14,226 48 4,828 73 1,136
24 13,654 49 4,744 74 0,588

    Sé tjónþoli orðinn 75 ára þegar honum er metin örorka, en hafi stundað vinnu þegar tjón varð, skal ákvarða honum bætur skv. 1. mgr. og skal þá notaður margfeldisstuðullinn 0,588.
    Bótafjárhæðin skal greidd í einu lagi.

6. gr.

    7. gr. laganna orðast svo:
    Árslaun til ákvörðunar bóta skv. 6. gr. skulu teljast vera meðalatvinnutekjur tjónþola að meðtöldu framlagi vinnuveitanda til lífeyrissjóðs þrjú síðustu almanaksárin fyrir þann dag er tjón varð, leiðrétt samkvæmt launavísitölu til þess tíma er honum er metin varanleg örorka.
    Árslaun skulu þó metin sérstaklega þegar óvenjulegar aðstæður eru fyrir hendi og ætla má að annar mælikvarði sé réttari á líklegar framtíðartekjur tjónþola.
    Þrátt fyrir ákvæði 1.–2. mgr. skal ekki miða við lægri árslaun en tilgreint er í þessari töflu:
Aldur Kr.
66 ára og yngri 1.200.000
67 ára 1.100.000
68 ára 1.000.000
69 ára 900.000
70 ára 800.000
71 ára 700.000
72 ára 600.000
73 ára 500.000
74 ára 400.000

    Ekki skal miða við hærri árslaun en 4.500.000 kr.

7. gr.

    8. gr. laganna, sbr. lög nr. 42/1996, orðast svo:
    Bætur til barna og tjónþola, sem að verulegu leyti nýta vinnugetu sína þannig að þeir hafa engar eða takmarkaðar vinnutekjur, skal ákvarða á grundvelli örorkustigs skv. 5. gr. Bætur skulu ákveðnar eftir reglum 5.–7. gr.

8. gr.

    9. gr. laganna orðast svo:
    Í 4. og 6. gr. eru töflugildin miðuð við upphaf aldursárs. Við útreikning bóta skal reiknað með að margfeldisstuðull breytist hlutfallslega jafnt milli töflugilda.

9. gr.

    10. gr. laganna ásamt fyrirsögn orðast svo:

Mat á örorku. Örorkunefnd.

    Þegar fyrir liggur sérfræðilegt álit um örorku- og/eða miskastig tjónþola, eða þá læknis­fræðilegu þætti skv. 2. og 3. gr. sem meta þarf til þess að uppgjör bóta samkvæmt lögum þessum geti farið fram, getur hvor um sig, tjónþoli eða sá sem krafinn er bóta, borið álitið undir örorkunefnd. Heimilt er að óska álits örorkunefndar um ákvörðun örorku- og/eða miskastigs, án þess að fyrir liggi sérfræðilegt álit, ef málsaðilar standa sameiginlega að slíkri beiðni.
    Í örorkunefnd eiga sæti þrír menn sem skipaðir eru af dómsmálaráðherra til sex ára í senn. Skulu tveir nefndarmanna vera læknar, en einn lögfræðingur og er hann formaður nefndar­innar. Formaður skal fullnægja skilyrðum laga til að hljóta skipun í embætti hæstaréttardóm­ara. Ráðherra skipar varamenn eftir sömu reglum og aðalmenn. Ráðherra er heimilt, að ósk nefndarinnar, að fjölga nefndarmönnum tímabundið, í því skyni að tryggja að afgreiðsla mála dragist ekki. Um hæfi nefndarmanna til þess að fara með mál skal fara eftir reglum laga um sérstakt hæfi dómara.
    Örorkunefnd skal semja töflur um miskastig.
    Ráðherra setur reglugerð um starfsháttu örorkunefndar. Í reglugerðinni skal m.a. vera heimild fyrir nefndina til þess að kveðja lækna og aðra sérfróða menn til starfa í þágu nefndarinnar og jafnframt ákveðið hvernig staðið skuli að birtingu helstu álitsgerða hennar. Í reglugerð skal og kveða á um gjald fyrir álitsgerðir nefndarinnar.

10. gr.

    2. mgr. 13. gr. laganna fellur brott.

11. gr.

    Lokamálsliður 2. mgr. 15. gr. laganna fellur brott.

12. gr.

    1. mgr. 16. gr. laganna orðast svo:
    Bætur fyrir þjáningar, varanlegan miska, tímabundið atvinnutjón og missi framfæranda bera vexti frá því að tjón varð. Bætur fyrir varanlega örorku bera vexti frá upphafsdegi met­innar örorku skv. 5. gr. Vextirnir skulu nema 4,5% á ári.

13. gr.

    26. gr. laganna orðast svo:
    Heimilt er að láta þann sem:
     a.      af ásetningi eða stórfelldu gáleysi veldur líkamstjóni eða
     b.      ábyrgð ber á ólögmætri meingerð gegn frelsi, friði, æru eða persónu annars manns
greiða miskabætur til þess sem misgert var við.
    Þeim sem af ásetningi eða gáleysi veldur dauða annars manns má gera að greiða maka, börnum eða foreldrum miskabætur.

14. gr.

    Á eftir 28. gr. laganna kemur ný grein sem orðast svo:
    Fjárhæðir samkvæmt lögum þessum eru miðaðar við lánskjaravísitölu eins og hún var 1. júlí 1993 (3282) og taka þær sömu breytingum og mælt er fyrir um í 15. gr., sbr. einnig lög nr. 12/1995, um vísitölu neysluverðs.

15. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1999 og eiga við um skaðabótaábyrgð vegna tjóns sem rakið verður til bótaskylds atviks eftir gildistöku laganna.
    Ákvæði til bráðabirgða, sbr. lög nr. 42/1996 og nr. 149/1997, fellur brott.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er samið af Guðmundi Jónssyni, fyrrverandi hæstaréttardómara, og Gesti Jónssyni hæstaréttarlögmanni. Haustið 1996 skipaði dómsmálaráðherra þá, ásamt Sigrúnu Guðmundsdóttur hæstaréttarlögmanni, í nefnd skv. 3. gr. laga nr. 42/1996, til að vinna að heildarendurskoðun skaðabótalaga, nr. 50/1993. Nefndinni var ætlað að ljúka störfum í októ­ber 1997, en með lögum nr. 149/1997 var sá tími framlengdur til október 1998. Nefndin skil­aði áliti í tvennu lagi. Sigrún skilaði minnihlutaáliti sem birt er sem fylgiskjal II með frum­varpinu.
    Frumvarpinu fylgir greinargerð höfunda til dómsmálaráðherra (fylgiskjal I) þar sem gerð er grein fyrir starfi nefndarinnar, sett fram svör við þeim spurningum sem allsherjarnefnd Al­þingis fól nefndinni að leita svara við og settur fram rökstuðningur fyrir niðurstöðum meiri hluta nefndarinnar.
    Samkvæmt frumvarpinu eru helstu breytingar frá gildandi lögum þessar:
     1.      Við útreikning bóta fyrir varanlega örorku er notaður samfelldur margfeldisstuðull til 75 ára aldurs. Í gildandi lögum er fastur margfeldisstuðull sem lækkar frá 26 ára aldri. Ítarleg grein er gerð fyrir forsendum stuðulsins í athugasemdum við 5. gr. frumvarpsins.
     2.      Við ákvörðun bóta fyrir varanlega örorku er miðað við fjárhagslegt örorkumat fyrir alla slasaða, en ekki einungis þá sem nýta vinnugetu sína til þess að afla tekna. Felld er nið­ur sérregla 8. gr.
     3.      Árslaun til ákvörðunar bóta miðast við meðalatvinnutekjur slasaða síðustu þrjú almanaksárin fyrir slys. Í gildandi lögum er miðað við heildarvinnutekjur slasaða síðustu 12 mánuði fyrir slys. Tekin er upp lágmarkslaunaviðmiðun við útreikning bóta fyrir varan­lega örorku, en hámark viðmiðunarlauna er óbreytt.
     4.      Reglum um frádrátt frá skaðabótakröfu vegna varanlegrar örorku er breytt þannig að auk þeirra greiðslna sem nú dragast frá koma greiðslur frá almannatryggingum til frá­dráttar og hluti örorkulífeyris frá lífeyrissjóði.
     5.      Bótaréttur 70 ára og eldri vegna varanlega örorku er rýmkaður.
     6.      Breytt er orðalagi í 2., 3. og 4. gr. laganna um það tímamark þegar tímabundinni örorku lýkur.
     7.      Heimild til þess að ákveða álag á miskabætur skv. 4. gr. laganna er rýmkuð. Fellt er niður ákvæði í 4. gr. um að bætur greiðist ekki nái miskastig ekki 5%.
     8.      Veruleg breyting verður á reglum um örorkunefnd í 10. gr. skaðabótalaganna. Meðal annars er lagt til að aðalreglan verði sú að málsaðilar afli sjálfir sérfræðilegra álits­gerða um örorku- og/eða miskamat, en hvor aðili hafi rétt til þess að skjóta slíkum álits­gerðum til örorkunefndar til endurmats. Örorkunefnd verði einungis matsaðili á fyrsta stigi þegar málsaðilar óska þess sameiginlega. Um þessar breytingar vísast nánar til skýringa við 9. gr. frumvarpsins.
     9.      Ársvextir af bótum skv. 16. gr. hækka úr 2% í 4,5%.
     10.      Gildissvið miskabótareglunnar í 26. gr. laganna er rýmkað.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Gerð er tillaga um að rétti til bóta fyrir tímabundið atvinnutjón ljúki þegar tjónþoli getur hafið vinnu að nýju eða þegar heilsufar hans er orðið stöðugt. Miða ber við það tímamark sem fyrr kemur. Í gildandi lögum eru orðin þegar „ekki er að vænta frekari bata“ notuð um síðari tímaviðmiðunina. Mat á batahorfum og því hvenær heilsufarslegt ástand tjónþola telst orðið stöðugt er læknisfræðilegt. Þeir læknar sem nefndin hefur ráðfært sig við telja annmarka á því að miða við batahorfur þar sem ástand tjónþola geti talist stöðugt þótt batahorfur séu enn fyrir hendi. Eins er ekki gefið í öllum tilvikum að nokkurs bata sé von eftir slys. Í ljósi þessa er gerð tillaga um að miða lok þess tímabils sem bætt er samkvæmt reglum 2. gr. við það tímamark er tjónþoli getur hafið vinnu að nýju eða þegar heilsufar hans er orðið stöðugt. Síðara tímamarkið hefur verið nefnt stöðugleikatímapunktur (á dönsku: stationærtidspunkt). 1 Miklu getur skipt hvert þetta tímamark er því þá fellur niður réttur tjónþola til bóta fyrir tímabundið atvinnutjón og við tekur tímabil sem bætt er samkvæmt reglum um varanlega örorku og varanlegan miska. Í frumvarpinu er gerð tillaga um sams konar orðalagsbreytingu á 3., 4. og 5. gr. skaðabótalaganna, sbr. 2.–4. gr. frumvarpsins.

Um 2. gr.

    Gerð er tillaga um að réttur til þjáningabóta geti verið fyrir hendi þar til heilsufar tjónþola er orðið stöðugt í stað þess að miða við batahorfur. Vísað er til athugasemda við 1. gr. frumvarpsins.

Um 3. gr.

    Gerð er tillaga um að varanlegur miski verði metinn miðað við heilsufar tjónþola þegar það er orðið stöðugt, sbr. athugasemdir um 1. gr. frumvarpsins.
    Samkvæmt gildandi lögum lækka bætur vegna varanlegs miska um 5% fyrir hvert aldursár tjónþola umfram 59 ár að sjötugu, en ekkert eftir það. Lækkun miskabóta vegna aldurs er þannig rökstudd að því eldri sem tjónþoli er því skemur þurfi hann að búa við áverkann. Miðað við þá hugsun eru rök til þess að skerða miskabætur vegna aldurs slasaða miklu fyrr en við sextugt, reyndar ætti skerðingin þá að vera samfelld alla mannsævina. Hér er lagt til að skerðing miskabóta vegna aldurs hefjist við 50 ára aldur, en skerðingin verði 1% fyrir hvert ár á aldrinum 50–74 ára og bætur fyrir 100% miska endi þar með í þremur milljónum króna.
    Þá er lagt til að breytt verði framsetningu á 2. mgr. 4. gr. þannig að lækkun bóta fyrir varanlegan miska verði lýst í töflu, sem verði hluti sjálfs lagatextans. Er það í samræmi við tillögur um framsetningu á 6. gr.
    Samkvæmt lokamálslið 1. mgr. 4. gr. gildandi laga skulu engar bætur greiddar þegar varanlegur miski er metinn minni en 5%. Þetta ákvæði hefur sætt gagnrýni sem felst í því að ekki séu rök til þess að fella niður bótarétt þess sem hlýtur varanlegan miska þótt hann mælist minni en 5%. 2 Lágmarkið leiði annaðhvort til þess að raunverulegur varanlegur miski bætist ekki eða að minni miski en 5% sé metinn upp í 5%, svo bætur falli ekki niður með öllu.
    Fremur mun fátítt að læknisfræðileg örorka vegna afleiðinga slyss sé metin lægri en 5%. Slíkt gerist þó, t.d. þegar slasaði missir framan af fingri. Þótt tilvikin séu fá felur það eitt vart í sér rök til að svipta slíka tjónþola bótarétti. Miskabætur í þessum tilvikum yrðu lágar. Hagkvæmnisástæður réttlæta ekki að engar bætur séu greiddar fyrir lítinn miska né heldur að hann sé ofbættur með því að færa hann upp í 5%. Slíkt leiðir til ósamræmis.
    Lagt er til að heimilt verði, við sérstakar aðstæður, að ákveða allt að 50% hærri miska­bætur en í töflunni. Ekki er áskilið að varanlegur miski tjónþola nái tilteknu lágmarki til þess að heimildinni megi beita. Er þetta víðtækari heimild en í samsvarandi ákvæði dönsku skaðabótalagannna, þar sem hækkunarheimildin er bundin við að læknisfræðileg örorka slasaða sé 100%. Eru þá fyrst og fremst höfð í huga tilvik þar sem töflumat á læknisfræði­legri örorku færi yfir 100%.

Um 4. gr.

    Samkvæmt gildandi lögum dragast bætur frá almannatryggingum og lífeyrissjóði ekki frá bótum fyrir varanlega örorku. Í greinargerð með frumvarpinu að skaðabótalögum, nr. 50/1993, kemur fram að margföldunarstuðull laganna hafi öðrum þræði verið ákveðinn með hliðsjón af því að tjónþoli héldi óskertum rétti til bóta frá þriðja manni, t.d. almannatrygg­ingum og vátryggingum. Þessi sjónarmið eiga ekki við í þessu frumvarpi. Margföldunarstuð­ull 5. gr. frumvarpsins er annars eðlis en í gildandi lögum og við það miðaður að tjónþoli fái að fullu bætt það tekjutap sem hann verður fyrir vegna varanlegrar örorku. Vegna þessa er lagt til að til frádráttar bótum komi greiðslur af félagslegum toga sem koma í hlut tjónþola vegna örorkunnar. Við frádráttinn þarf að huga að því að greiðslur séu sambærilegar með því að taka tillit til skattskyldu og greiðsluforms, áður en dregið er frá skattfrjálsum og af­vöxtuðum bótum fyrir varanlega örorku. Ekki er lagt til að bætur skerðist vegna slysa­trygginga eða annarra bótaúrræða sem tjónþoli hefur sjálfur kostað með greiðslu iðgjalds.
    Breytingar á frádrætti eru tvenns konar. Annars vegar skal samkvæmt frumvarpinu draga frá greiðslur frá almannatryggingum. Hins vegar er gerð tillaga um að frá bótum dragist 40% af verðmæti örorkulífeyris. Lengi hefur verið álitamál hvernig fara beri með örorku­lífeyri við uppgjör slysabóta. Rétt til örorkulífeyris öðlast menn með iðgjaldsgreiðslum til lífeyrissjóðs. Í eðli sínu er örorkulífeyrir samsettur annars vegar sem tryggingabætur sem tjónþoli hefur sjálfur greitt iðgjald af og hins vegar sem tryggingabætur þar sem vinnu­veitandi greiðir iðgjaldið samkvæmt lagaskyldu. Algengast er að launþeginn greiði 4% tekna sinna í lífeyrissjóðsiðgjald en vinnuveitandinn 6% ofan á greidd laun. Iðgjaldshluti vinnu­veitandans er þó stundum hærri. Samkvæmt lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997, er öllum launamönnum og þeim sem stunda atvinnu­rekstur eða sjálfstæða starfsemi skylt að tryggja sér lífeyrisréttindi með aðild að lífeyris­sjóði. Vegna lagaskyldunnar má færa fyrir því rök að réttur til örorkulífeyris sé annars eðlis en bótaréttur sem fæst úr frjálsum slysatryggingum. Örorkulífeyrir sé, vegna lagaskyld­unnar, nær því að vera félagslegt úrræði. Áður en skaðabótalögin tóku gildi árið 1993 höfðu dómstólar haft verðmæti örorkulífeyris til hliðsjónar við ákvörðun bóta, án þess þó að verðmætið væri dregið frá að fullu við ákvörðunina. Tekið skal fram að almennt öðlast tjón­þoli ekki rétt til örorkulífeyris frá lífeyrissjóði nema varanleg örorka hans sé a.m.k. 40%. Samkvæmt reynslutölum frá örorkunefnd eru slík mál örfá á ári hverju.
    Hér er lagt til að 60% verðmætis örorkulífeyris komi til frádráttar bótum. Er það í samræmi við það hlutfall sem algengast er að vinnuveitandi greiði af iðgjaldi til lífeyris­sjóðs. Örorkulífeyrir er skattskyldur eins og aðrar tekjur. Tekjur, sem stofn fyrir útreikning skaðabóta, eru skertar um þriðjung vegna skattfrelsis, sbr. umfjöllun um 5. gr. Því þarf að skerða örorkulífeyrinn, sem kemur til frádráttar, með sama hætti. Frádrátturinn verður því 40%, þ.e. 2/ 3 af 60%. Nauðsynlegt er við uppgjör bóta að reikna verðmæti örorkulífeyris til eingreiðslu og er eðlilegt að sú fjárhæð sé fundin með sömu afvöxtunarprósentu og notuð er til ákvörðunar á stuðlinum í 5. gr.

Um 5. gr.

    Gerð er tillaga um að hverfa frá þeirri tilhögun gildandi laga að hafa einn og sama margföldunarstuðulinn, sem háður er breytingum frá 26 ára aldri samkvæmt ákvæðum 9. gr. Í staðinn komi samfelldur margfeldisstuðull fyrir alla starfsævina, sem lækkar með hækk­andi aldri. 3 Þannig yrði ákvæði hliðstætt lækkunarákvæði 9. gr. fellt inn í margföldunarstuðulinn. Með þessu er stefnt að því að fram náist sanngjarnari niðurstaða um bætur fyrir fjárhagslegt tjón án þess að fórnað sé þeirri einföldun bótaákvarðana sem fólst í setningu skaðabótalaganna.
    Forsendurnar við útreikning margfeldisstuðulsins eru þessar:
     a.      Notaðir eru tryggingafræðilegir stuðlar sem sýna hversu mikið árstekjur margfaldast ef bættar eru tapaðar vinnutekjur til 75 ára aldurs. Við útreikning stuðlanna er tekið tillit til dánar-, örorku- og starfslíkinda. Byggt er á íslenskum dánarlíkum áranna 1991–95. Örorkulíkur eru byggðar á danskri reynslu. Starfslíkindi hefur Sigurður Freyr Jónatansson cand. act. reiknað út frá tölum um atvinnuþátttöku í vinnumarkaðskönnun Hagstofu Íslands frá því í apríl 1998.
     b.      Miðað er við 4,5% ársafvöxtunarforsendu frá 18 ára aldri tjónþola. Er sú forsenda í samræmi við niðurstöðuna í dómi Hæstaréttar frá 30. mars 1995 og í samræmi við þá ávöxtunarmöguleika sem telja má að séu fyrir hendi í þjóðfélaginu nú, þegar miðað er við áhættulitla ávöxtun.
     c.      Í stuðlinum er miðað við að bætur til barna ávaxtist um 3% á ári til 18 ára aldurs, en 4,5% eftir það. Lagt er til grundvallar að barn sem er tjónþoli byrji að hafa tekjur 18 ára og er því ekki bættur tekjumissir að því aldursmarki. Vegna þessa verður höfuðstóll bóta til barns lægri eftir því sem það er yngra, að gefnu sama örorkustigi. Er lagt á barnið sjálft, eða öllu heldur forráðamenn þess, að ávaxta bæturnar til 18 ára aldurs barnsins til þess að jafna muninn. Er lagt til að ávöxtunarkrafa fjárins á þessu tímabili sé lægri en eftir að 18 ára aldri er náð.
     d.      Miðað er við að skerðing vegna tekjuskattshagræðis og eingreiðslu verði 33,3%. Ljóst er að áhrif tekjuskattfrelsis eru mismunandi fyrir einstaka tjónþola, bæði vegna mis­munar í tekjuviðmiðun og eins vegna mishás örorkustigs. Hlutfall tekjuskatts af háum tekjum er hærra en af lágum tekjum. Þá má líta svo á að þar sem metin örorkustig miðast við samsvarandi, hlutfallslega tekjulækkun til frambúðar þá sé sá hluti teknanna sem tapast að jafnaði skattlagður hærra en sá hlutinn sem eftir stendur. Erfitt er að reikna þennan mismun skattlagningar inn í stuðulinn og því er lagt til að miða við fast hlutfall.
     e.      Við útreikning bóta vegna varanlegrar örorku er miðað við að tjónþoli nái að ávaxta höfuðstólinn um 4,5% á ári (3% að 18 ára aldri) og vextirnir auk höfuðstólsins standi undir því að greiða bætur í samræmi við metið tjón. Sá hluti bótanna sem er í formi vaxtatekna í framtíðinni er ekki skattfrjáls eins og höfuðstóllinn. Fyrir unga tjónþola er þessi hluti bótanna mun stærri hlutfallslega en hjá eldri tjónþolum. Skattur af fjármagnstekjum er nú 10%. Inn í margföldunarstuðulinn er reiknað álag til þess að mæta áhrifum10% fjármagnstekjuskatts.
     f.      Við útreikning stuðulsins er litið til þeirrar staðreyndar að launatekjur manna dreifast ójafnt yfir starfsævina. Tekjur manna eru að jafnaði hæstar um miðbik starfsævinnar en lækka síðan nokkuð fram að starfslokum. Tekjur ungra manna eru sjaldnast eðlilegur grundvöllur fyrir áætlun um ævitekjur þeirra. Við útreikning framtíðartekjumissis er ekki eðlilegt að byggja á tekjureynslu liðinna ára, án þess að taka tillit til framan­greindra atriða. Í stuðlinum er reiknað 30% álag á tekjur þess sem slasast 18 ára gamall eða yngri. Það álag stiglækkar fram til loka 29. aldursárs. Á sama hátt er tekið tillit til þess að líkur eru fyrir lækkandi tekjum á síðari hluta starfsævi. 4
     g.      Stuðullinn gildir jafnt fyrir bæði kyn. Litið er framhjá mismuni einstaklinga sem byggist á kynferði og reiknað út frá meðaltali fyrir bæði kyn.
    Í 2. mgr. er ákvæði um bótarétt þeirra sem hafa náð 75 ára aldri þegar þeim er metin varanleg örorka. Skilyrði fyrir bótum er að viðkomandi einstaklingur hafi stundað vinnu þegar tjón varð. Notaður er sami stuðull og fyrir 74 ára mann og árslaun reiknast skv. 6. gr. frumvarpsins, nema hvað lágmarkslaunaviðmiðun greinarinnar er ekki notuð. Ákvæðið kemur í stað 2. mgr. 9. gr. gildandi laga sem lagt er til að verði felld úr gildi, sbr. athuga­semdir við 8. gr. frumvarpsins.

Um 6. gr.

    Í 1. mgr. 7. gr. gildandi laga er miðað við tekjur á „jafnlengdarári“, þ.e. tekjur á síðustu 12 mánuðum fyrir þann dag er tjón varð. Þessi viðmiðun er ekki að öllu leyti heppileg. Að jafnaði liggja tekjur manna skýrast fyrir miðað við almanaksár, þ.e. í skattframtölum. Ákvörðun „jafnlengdarárstekna“ krefst hins vegar sérstakrar athugunar þar sem tímasetja þarf tekjur nákvæmlega innan ársins. Slíkt er oft háð erfiðleikum og óvissu.
    Hér er lagt til að snúið verði til fyrri framkvæmdar um að tekjurnar miðist við almanaks­ár og miðað verði við meðaltal þriggja síðustu ára fyrir slys. Tekjurnar yrðu færðar upp til verðlags þess dags sem metin varanleg örorka tjónþola miðast við. Þetta er sama tímamark og miðað er við í 1. mgr. 6. gr. frumvarpsins. Af þessu leiðir að vísitöluleiðréttingin í lokamálslið 2. mgr. 15. gr. laganna á ekki lengur við og fellur brott. Til þess að taka af tví­mæli er jafnframt kveðið á um að til „heildarvinnutekna“ skuli m.a. bæði telja framlag vinnuveitanda og launþega til lífeyrissjóðs.
    Viðmiðun við síðustu þrjú tekjuár er að jafnaði eðlileg þegar um er að ræða mann í launuðu starfi. Launatekjur liðinna ára eru oftast góð vísbending um launatekjur komandi ára. Þetta á þó ekki alltaf við. Hjá ungu fólki, sem er að hefja starfsferil sinn, eru líkur fyrir hækkandi launum. Hjá fullorðnu fólki, sem nálgast lok starfsævinnar, eru líkur fyrir lækkandi launum. Til þessara þátta er tekið tillit í margfeldisstuðli 6. gr. Launatekjur liðinna ára eru hins vegar ekki góður mælikvarði ef breytingar höfðu orðið á högum tjónþola skömmu áður en slys varð eða þegar fullyrða má að slíkar breytingar standi fyrir dyrum. Má nefna sem dæmi að tjónþoli hafi skipt um starf þannig að breyting hafi orðið á tekjum eða látið af starfi og hafið töku lífeyris. Í slíkum tilvikum er eðlilegra að ákveða viðmiðunar­launin miðað við nýjar aðstæður. Á sama hátt yrði tekjuviðmiðun námsmanns, sem væri að ljúka starfsréttindanámi, eðlilegust miðað við það starf, sbr. umfjöllun um 8. gr.
    Þá er gerð tillaga um að 2. mgr. 7. gr. verði rýmkuð þannig að mati verði beitt í þeim tilvikum þegar viðmiðun við síðustu þrjú tekjuár fyrir slys þykir af einhverjum ástæðum ekki réttmæt.
    Lagt er til að í 3. mgr. 7. gr. laganna verði tekin upp lágmarkslaunaviðmiðun, sem miðist við 1.200.000 kr. á ári eða 100.000 kr. á mánuði allt að 67 ára aldri. Lágmarkslaunaviðmið­unin lækki um 100.000 kr. fyrir hvert aldursár umfram 66 þar til 400.000 kr. viðmiðunar­launum er náð, en lækki ekki eftir það. Framangreindar fjárhæðir miðast við verðlag 1. júlí 1993.
    Um nánari skýringar á lágmarkslaunaviðmiðuninni vísast til umfjöllunar um 8. gr. þar sem fjallað er um tölulegar forsendur og tengsl þeirrar greinar annars vegar og 6. gr. hins vegar.
    Í 4. mgr. 7. gr. gildandi laga er ákvæði þess efnis að ekki skuli miðað við hærri árslaun en 4,5 millj. kr. Þeirri gagnrýni hefur verið hreyft að þetta ákvæði valdi því að fullar bætur fáist ekki í tilviki tekjuhás tjónþola. Reglan feli í sér frávik frá grundvallarreglu, sem ekki sé eðlilegt að víkja frá.
    Ekki er að finna sérstaka skýringu á þessu hámarksákvæði í athugasemdum með frum­varpi til laganna. Ætla má að rökin geti falist í því að ýmsir þeir sem svo hárra tekna njóta hafi þær einungis tímabundið. Er líði á starfsævina færist tekjur manna yfirleitt nær meðal­launum. Sem dæmi hefur verið bent á sjómenn. Að þessu virtu er ekki gerð tillaga um breyt­ingu hér á.

Um 7. gr.

    Deilur hafa verið um gildandi fyrirkomulag á ákvörðun bóta til barna og tjónþola sem að verulegu leyti nýta vinnugetu sína þannig að þeir hafa litlar vinnutekjur. Bent hefur verið á mikla mismunun milli tjónþola eftir því hvort um bótaákvörðun fer samkvæmt reglum 5.–7. gr. eða ákvæði 8. gr. Oft er vafasamt í hvorn dilkinn skuli draga einstaka tjónþola.
    Undir 8. gr. laganna falla að meginstefnu til þeir sem engar eða óverulegar vinnutekjur hafa. Í greininni er sérstaklega getið um börn, án þess að nánar sé tilgreint til hvaða aldurs það nái. Auk barna munu stærstu hóparnir sem greinin tekur til vera heimavinnandi húsmæð­ur og námsmenn.
    Bætur til þeirra sem falla undir greinina eru ekki byggðar á mati á fjárhagslegri örorku heldur eru bótaupphæðir leiddar af mati á læknisfræðilegri örorku. Þannig er ætlað fjártjón vegna varanlegrar örorku bætt á grundvelli miskastigs skv. 4. gr. Er því grundvallarmunur á þeim aðferðum sem notaðar eru til þess að meta fjártjón þeirra sem falla undir 8. gr. laganna og annarra tjónþola.
    Samkvæmt skaðabótalögunum frá 1993 greiddust engar fjártjónsbætur til þeirra sem féllu undir 8. gr. væri metinn miski lægri en 15%. Eftir lagabreytingu á miðju ári 1996 (lög nr. 42/1996) var lágmarkið fært í 10%. Í máli sem dæmt var í Hæstarétti 4. júní 1998 (mál nr. 317/1997) reyndi á hvort aðgreining tjónþola í lögunum í tvo hópa eftir tekjureynslu væri reist á málefnalegum grundvelli. Jafnframt hvort það stæðist jafnræðisreglu 65. gr. og eignarréttarákvæði 72. gr. stjórnarskrárinnar að þeir sem fái metið miskastig undir tilteknu lágmarki eigi ekki rétt til bóta fyrir líklegt fjártjón eins og nú er skv. 8. gr. skaðabótalag­anna. Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að aðgreining tjónþolanna í tvo hópa væri byggð á málefnalegum sjónarmiðum. Hins vegar væri það andstætt tilgreindum greinum stjórnarskrár að þeir sem fái metinn miska undir tilteknu lágmarki fái ekki fjártjónsbætur í samræmi við líklegt tjón.
    Skipting tjónþola í tvær fylkingar, eins og gert er í 6. og 8. gr. skaðabótalaganna, veldur óhjákvæmilega misræmi og afmörkunarvanda. Notkun læknisfræðilegs örorkumats í 8. gr. en fjárhagslegs örorkumats í 6. gr. getur leitt til óeðlilegrar niðurstöðu. Niðurfelling bóta­réttar við lægra miskastig en 15 eða 10% stenst ekki samkvæmt tilvitnuðum dómi Hæstarétt­ar. Þá hefur verið bent á að bætur skv. 8. gr. geti verið svo háar að launafólki sem fái bætur skv. 6. gr. beri mun lægri bætur heldur en hinum sem ekki vinna fyrir tekjum og falla því undir 8. gr. Þannig kunni húsmóðir með hátt miskastig sem einungis vinnur á heimili að fá hærri bætur en húsmóðir sem auk heimilisstarfa sinna hefur stundað launað starf utan heim­ilis.
    Eitt helsta markmið með setningu skaðabótalaganna var að taka upp fjárhagslegt örorku­mat í stað læknisfræðilegs til þess að bætur yrðu ákveðnar í meira samræmi við raunverulegt einstaklingsbundið fjártjón en hið læknisfræðilega örorkumat gefur kost á. Þessu markmiði hefur einungis verið náð gagnvart þeim tjónþolum sem falla undir 6. gr., því enn er miðað við læknisfræðilegt örorkumat gagnvart hinum tekjulausu.
    Það er óeðlileg niðurstaða að vinnutekjur sem maður aflar geti orðið til þess að lækka bætur sem honum hefðu ella borið. Í ljósi þess er lagt til að samræma og fella saman, að því marki sem kostur er, reglur lagagreinanna tveggja með það fyrir augum að draga úr misræmi bóta.     
    Gerð er tillaga um að í fyrsta lagi verði í 7. gr. tekin inn lágmarksárslaun sem viðmiðun við ákvörðun bóta og verði þau 1.200.000 kr. miðað við grunnvísitölu skaðabótalaganna. Í tillögum Gests Jónssonar og Gunnlaugs Claessen á árinu 1995 var miðað við 1.400.000 kr. lágmarkslaun, en sú fjárhæð svarar nánast til meðallauna landverkafólks innan ASÍ á árinu 1994 eins og sést af eftirfarandi töflu:

    Árslaun landverkafólks ASÍ 1994 í krónum. 5

Verkakarlar 1.399.000 Afgreiðslukonur 1.075.000
Verkakonur 1.104.000 Skrifstofukarlar 1.694.000
Iðnaðarmenn 1.802.000 Skrifstofukonur 1.331.000
Afgreiðslukarlar 1.546.000 ASÍ, landverkafólk 1.414.000

    Í umfjöllun um breytingartillöguna á árinu 1995 kom fram sú gagnrýni að lágmarksárs­launaviðmiðunin væri of há. Breytingin í þessu frumvarpi er gerð með hliðsjón af því.
    Í annan stað er lagt til að tekið verði upp fjárhagslegt örorkumat gagnvart þeim sem ekki hafa vinnutekjur í stað hins læknisfræðilega örorkumats. Með því móti fellur sjálfkrafa niður 10% stýfingin í 8. gr. sem Hæstiréttur hefur dæmt andstæða stjórnarskránni. Með þessu móti verður fjártjón tjónþola í öllum tilvikum reiknað út frá sams konar örorkumati. Ljóst er að fjárhagslegt örorkumat hlýtur eðli máls samkvæmt að byggjast á nokkuð öðrum og veikari forsendum hjá hinum tekjulausu en þeim sem 6. gr. tekur til.
    Í athugasemdum sem fylgdu frumvarpi til skaðabótalaga, nr. 50/1993, má sjá skilgrein­ingu á þeim atriðum sem ráða skulu við ákvörðun hins fjárhagslega örorkumats. Vísast eink­um til athugasemda við 5. gr. frumvarpsins. Þar segir m.a.:
    „Það sem ræður úrslitum við ákvörðun bóta fyrir varanlega örorku samkvæmt þessari grein er hvort tjónþoli tapar tekjum til frambúðar.
    Í 2. mgr. segir í almennum orðum við hvað eigi að miða þegar tjón vegna varanlegrar örorku er metið. Annars vegar verður að meta hvaða atvinnutækifæri tjónþoli hefði átt ef hann hefði ekki orðið fyrir tjóni og hins vegar atvinnutækifæri eftir líkamstjón. Í því skyni verður hverju sinni að afla upplýsinga um atvinnu hans og tekjur fyrir og eftir tjónsatvik. Að því er varðar atvinnutækifæri eftir það skal vakin athygli á því að í 2. mgr. er berum orðum vikið að því að líta skuli til þess hvort ætla megi að tjónþoli eigi kost á vinnu sem sanngjarnt er að ætlast til að hann starfi við. Við slíkt sanngirnismat koma einkum til álita andlegir og líkamlegir hæfileikar tjónþola, verkkunnátta hans, menntun og aldur“ (leturbreyt. frum­varpshöfunda).
    Við fjárhagslegt örorkumat fer fram samanburður á tveimur hugsuðum atburðarásum, sem báðar byggjast að mestu leyti á spá um framtíðina. 6 Annars vegar er litið til þess hver hefði orðið framvindan í lífi tjónþola í atvinnu- og tekjulegu tilliti hefði tjónsatvikið ekki orðið, en hins vegar er lagt mat á líklega framvindu í ljósi þess líkamstjóns sem orðið er. Af framangreindri tilvitnun í athugasemdir með frumvarpinu til skaðabótalaga má ráða að áherslan hvíli á mati á atvinnutækifærum fyrir slys annars vegar og eftir slys hins vegar. Í því skyni skuli líta til þeirra þátta sem í framhaldinu greinir. Ljóst er að sum þeirra hliðsjónaratriða, sem nefnd eru, svo sem tekjur fyrir og eftir slys, geta ekki átt við um flesta þá sem 8. gr. tekur til. Þrátt fyrir það er lagt til að fram fari fjárhagslegt örorkumat gagnvart þeim einstaklingum, með mismun á atvinnutækifærum fyrir og eftir slys sem mælikvarða og líklegum áhrifum á atvinnutekjur. Við mat á atvinnutækifærum fyrir og eftir slys yrði m.a. að líta til starfshæfni og starfa viðkomandi tjónþola fyrr á ævinni, menntunar hans og starfs­réttinda með það fyrir augum að ákvarða að hvaða marki þessir möguleikar hafi raskast. Við matið yrði gengið út frá andlegu og líkamlegu heilsufari viðkomandi tjónþola, eins og það var fyrir slys, svo og aldri hans.
    Ýmist má ætla að tjón geti valdið vanhæfni til þess að gegna ákveðnum störfum eða al­mennt minnkaðri getu til þess að sinna að fullu starfi sem viðkomandi þó ræður við. Taka má sem dæmi skurðlækni. Líkamlegur áverki getur valdið því að hann verði að hætta skurð­lækningum og verði þá að snúa sér að öðru starfi. Annar áverki getur valdið því að skurð­læknirinn þurfi að stytta vinnudag sinn þótt hann geti áfram sinnt starfinu. Í báðum tilvikum þarf að meta fjárhagslega örorku hins slasaða til örorkustiga skv. 3. mgr. 5. gr. laganna.
    Í tilviki heimavinnandi einstaklings yrði almennt að meta skert hæfi til tekjuöflunar utan heimilis samkvæmt þeim viðmiðunum sem að framan greinir. Hugsanlegt er að örorka til heimilisstarfa geti orðið afleiðing slyss, þótt hún yrði ekki talin þess eðlis að af henni leiði skerta eða jafnskerta möguleika til tekjuöflunar utan heimilis. Sem dæmi má nefna hreyfi­hömlun af tilteknu tagi. Við þær aðstæður yrði að meta viðkomandi einstaklingi fjárhagslega örorku vegna minnkaðrar getu til heimilisstarfa. Hún yrði þá bætt á grundvelli lágmarks­tekjuviðmiðunar 7. gr. laganna, sbr. og 3. mgr. 1. gr. laganna.
    Í tilviki námsmanns yrði almennt að líta til mismunar á atvinnutækifærum fyrir og eftir slys. Við þær aðstæður að námslok tengd starfsferli eða starfsréttindum megi teljast fyrirsjá­anleg yrðu þó metnir möguleikar námsmannsins til þess að gegna því starfi sem hann stefndi að með menntun sinni. Þetta á við hvort heldur slys valdi því að hann verði að hætta námi eða það dragi úr starfsgetu í fyrirhuguðu starfi. Tekjuviðmiðun í slíku tilviki færi eftir sér­reglunni í 2. mgr. 7. gr., svo sem lagt er til að henni verið breytt.
    Varðandi atvinnulausan mann er þess sérstaklega að geta að þótt hann falli undir 8. gr. getur tekjuviðmiðun fyrir slys átt við um hann, a.m.k. að einhverju leyti. Sérstaklega getur það átt við í ljósi tillögunnar um breytingu á 7. gr. um þriggja ára tekjuviðmiðun fyrir slys, í stað eins árs í gildandi lögum.
    Sérstaklega ber að geta þess að börn falla undir 8. gr. Mat á fjárhagslegri örorku barns verður að fara eftir stöðluðum reglum, þar eð vart eru tiltækar efnislegar viðmiðanir í hinum einstöku tilvikum. Lagt er til grundvallar að börnum verði bættur missir atvinnutekna frá 18 ára aldri en þau verði ekki fyrir tekjumissi til þess tíma. Með því að tekjutap bætist aðeins frá þessu aldursmarki er gert ráð fyrir að úrskurðaðar bætur til barna ávaxtist óskertar með 3% ársvöxtum frá útborgunardegi til 18 ára aldurs. Barnið fær bætur þannig ákvarðaðar og þar með er lagt á það sjálft, eða öllu heldur forráðamenn þess, að ávaxta bæturnar á um­ræddu æviskeiði. Launaviðmiðun barna yngri en 18 ára yrðu lágmarkslaun skv. 3. mgr. 7. gr. að viðbættum 30%, þ.e. 1.560.000 kr. á ári. Er þetta innifalið í töflu 6. gr. frumvarpsins.
    Með þeim efnisreglum, sem hér eru lagðar til, ætti ekki að skipta máli varðandi fjárhæð bóta hvort tjónþoli félli undir reglu 7. eða 8. gr. Af þeirri ástæðu er ekki ástæða til ítarlegri reglna til afmörkunar á því undir hvora regluna einstakir tjónþolar falla.

Um 8. gr.

    Efni 9. gr. laganna um lækkun örorkubótafjárhæðar við hærri aldur var dregið inn í töflu 6. gr. samkvæmt frumvarpinu. Í stað 2. mgr. kemur 2. mgr. 6. gr. frumvarpsins.
    Í samræmi við það er gerð tillaga um að núverandi 9. gr. laganna falli brott, en í staðinn komi regla um að margfeldisstuðlar 4. og 6. gr. laganna breytist innan ársins, til þess að girða fyrir þrep í bótafjárhæðum á afmælisdögum tjónþola. Til skýringar á reglunni má nefna dæmi af manni sem er 30 ára og 50 daga á þeim degi sem varanleg örorka hans miðast við. Margföldunarstuðull hans skv. 6. gr. lækkar um 50/365 af mismuninum á margföldunar­stuðli 30 ára manns og 31 árs manns. Tekið skal fram að margföldunarstuðullinn lækkar ekki eftir að 74 ára aldri er náð.

Um 9. gr.

    Örorkunefnd tók til starfa eftir gildistöku skaðabótalaganna árið 1993. Málum sem skotið er til nefndarinnar hefur stöðugt fjölgað. Vegna málafjöldans hefur álag á nefndina verið mjög mikið og afgreiðslutími mála lengst. Miklu skiptir fyrir málsaðila að enginn ónauðsyn­legur dráttur verði á því að mat á afleiðingum líkamstjóns geti legið fyrir.
    Í því skyni að létta álagi af örorkunefnd er lagt til að 1. mgr. 10. gr. laganna verði breytt þannig að horfið verði frá þeirri meginreglu að örorkunefnd sé matsaðili á fyrsta stigi. Aðalreglan verði sú að málsaðilar afli sjálfir sérfræðilegs álits um örorku- og/eða miskastig og þá læknisfræðilegu þætti sem meta þarf skv. 2. og 3. gr. laganna til þess að ljúka megi bótauppgjöri. Sérfræðilegt mat, sem annar málsaðila aflar, geti tjónþoli eða sá sem krafinn er bóta borið undir örorkunefnd. Með þessu breytist hlutverk örorkunefndar og hún verður fyrst og fremst matsaðili á síðara stigi. Áfram verður það meginhlutverk nefndarinnar að stuðla að því að viðunandi samræmi geti fengist um matsniðurstöður. Ætla má að til hennar verði einkum skotið þeim málum sem eru á einhvern hátt sérstök eða fordæmisskapandi. Sætti annar málsaðila sig ekki við niðurstöðu örorkunefndar getur hann freistað þess að fá henni breytt eða hrundið með því að leita til dómstóla.
    Þá er í frumvarpsgreininni jafnframt heimilað að skjóta til örorkunefndar sérfræðilegu áliti um þá læknisfræðilegu þætti sem um er getið í 2. og 3. gr. laganna. Slík heimild hefur ekki verið fyrir hendi til þessa.
    Frá aðalreglunni um að örorkunefnd fjalli ekki um mál á fyrsta stigi er gerð sú undantekn­ing að málsaðilar geta sameiginlega óskað álits örorkunefndar um ákvörðun örorku- og/eða miskastigs án þess að áður liggi fyrir sérfræðilegt álit.
    Lagt er til að við 2. mgr. 10. gr. verði bætt heimild til ráðherra, að fenginni ósk örorku­nefndar, að fjölga tímabundið í nefndinni, í því skyni að tryggja að afgreiðsla mála dragist ekki. Málsgreinin er að öðru leyti óbreytt.
    Til þess að tryggja að örorkunefnd geti sem best sinnt samræmingarhlutverki sínu er nauðsynlegt að helstu niðurstöður hennar verði gerðar aðgengilegar með birtingu. Gerð er tillaga um viðbót við 4. mgr. 10. gr. þess efnis að ráðherra skuli ákveða í reglugerð hvernig staðið skuli að birtingu helstu álitsgerða nefndarinnar.

Um 10. gr.

    Ákvæðið á ekki lengur við þar sem aldursleiðrétting bóta samkvæmt frumvarpinu verður gerð með öðrum hætti.

Um 11. gr.

    Samkvæmt frumvarpinu skal reikna bætur fyrir varanlega örorku miðað við verðlag á þeim tíma þegar heilsufarslegt ástand tjónþola er orðið stöðugt. Leiðrétting launaviðmiðunar skv. 1. mgr. 7. gr. miðast við þann dag. Lokamálsliður 2. mgr. 15. gr. á því ekki lengur við.

Um 12. gr.

    Lagt er til að vextir verði þeir sömu og miðað er við í afvöxtunarforsendu margfeldis­stuðulsins skv. 6. gr., þ.e. 4,5% á ári. Vakin skal athygli á því að vextir reiknast ekki af bótum fyrir varanlega örorku fyrr en frá upphafsdegi metinnar örorku, þ.e. því tímamarki þegar tímabundnu ástandi lýkur og við tekur mat á varanlegri örorku. Réttur til dráttarvaxta verður áfram samkvæmt vaxtalögum, sbr. 2. mgr. 16. gr. laganna.

Um 13. gr.

    Lagt er til að heimild til ákvörðunar miskabóta skv. 26. gr. skaðabótalaganna verði rýmkuð.
    Í fyrri málsgreininni er fjallað um rétt þess sem misgert var við til miskabóta. Skv. a-lið er heimilt að láta þann sem veldur öðrum líkamstjóni af ásetningi eða stórfelldu gáleysi greiða miskabætur til þess sem misgert var við. Heimildin í 26. gr. er sjálfstæð, en bætur samkvæmt henni gætu jafnframt komið til viðbótar bótum fyrir tímabundið ófjárhagslegt tjón skv. 3. gr. laganna (þjáningabótum) og/eða bótum fyrir varanlegan miska skv. 4. gr. Skilyrði þjáningabóta skv. 3. gr. eru almennt tengd rúmlegu eða veikindum og skilyrði miskabóta skv. 4. gr. er að líkamstjón leiði til varanlegrar læknisfræðilegrar örorku. Bótafjárhæðir eru bundnar í greinunum. Samkvæmt frumvarpinu eru huglægu bótaskilyrðin skv. a-lið ströng, en séu þau uppfyllt þykir rétt að rýmka rétt til þess að ákveða þeim sem verður fyrir líkamstjóni bætur frá því sem er samkvæmt gildandi lögum, jafnvel þótt ekki teljist uppfyllt þau skilyrði um afleiðingar líkamstjóns sem áskilin eru skv. 3. og 4. gr. Bóta­fjárhæðir eru ekki bundnar enda verið að mæla fyrir um reglu þar sem ákvarða ber bætur eftir því sem sanngjarnt þykir.
    Í b-lið í 1. mgr. eru bótaskilyrði óbreytt frá því sem nú er í 26. gr. Samkvæmt frumvarp­inu er þó um heimild en ekki skyldu til greiðslu miskabóta að ræða.
    Í 2. mgr. frumvarpsins er nýmæli sem opnar rétt eftirlifenda til miskabóta í vissum tilvikum. Heimilt er að gera þeim sem af ásetningi eða stórfelldu gáleysi veldur dauða annars manns að greiða maka, börnum eða foreldrum miskabætur. Orðið maki nær hér einnig til sambúðarmaka og barn til fósturbarns. Heimild af þessu tagi hefur ekki verið fyrir hendi í íslenskum lögum. Samsvarandi regla er í norsku skaðabótalögunum. Reglan er matskennd og er sett í því skyni að dómstólar hafi heimild til þess að ákvarða miskabætur til þeirra sem nánastir eru hinum látna, þegar dauða ber að með þeim hætti sem lýst er í ákvæðinu. Lagt er í hendur dómstóla að ákveða hæfilegar bætur og jafnframt að ákveða hverju sinni hverjir úr hópi hinna tilgreindu eigi rétt til bótanna. Færi slíkt eftir aðstæðum hverju sinni.
    Lögð er áhersla á að fjárhæðir bóta samkvæmt greininni eiga að ákvarðast samkvæmt því sem sanngjarnt þykir hverju sinni. Hafa skal m.a. í huga umfang tjóns, sök tjónvalds og fjárhagsstöðu hans. Séu börn fórnarlömb kynferðisbrota ber að líta til þess hversu alvarlegar afleiðingar brots eru fyrir þau, svo og til eðlis verknaðarins, hve lengi misnotkun hefur staðið og hvort um misnotkun fjölskyldu- eða trúnaðartengsla er að ræða. Slík tengsl eiga ekki að leiða til lækkunar bóta.

Um 14.–15. gr.

    Greinarnar þarfnast ekki skýringa.


Fylgiskjal I.


GREINARGERÐ

til dómsmálaráðherra með tillögum Gests Jónssonar hrl. og Guðmundar Jónssonar, fyrrverandi hæstaréttardómara, sem ásamt Sigrúnu Guðmundsdóttur hrl.
voru skipaðir í nefnd skv. 3. gr. laga nr. 42/1996, til að vinna að
endurskoðun skaðabótalaga, nr. 50/1993.


I.

    Frumvarp til skaðabótalaga var samþykkt sem lög á Alþingi, staðfest af forseta Íslands 19. maí 1993 og birt sem lög nr. 50/1993. Samkvæmt ákvæði 28. gr. laganna öðluðust þau gildi 1. júlí 1993 og eiga við um skaðabótaábyrgð á tjónum sem orðið hafa eftir gildistöku þeirra.
    Í athugasemdum með frumvarpi sem lagt var fyrir á Alþingi á 116. löggjafarþingi 1992 er rakinn aðdragandinn að samningu þess, gerð grein fyrir meginmarkmiðum með setningu skaðabótalaga og þeim breytingum sem gerðar höfðu verið á frumvarpinu frá upphaflegri gerð þess er það var fyrst lagt fyrir Alþingi á 115. löggjafarþingi, en frumvarpið varð þá ekki útrætt.
    Um meginmarkmið frumvarpsins segir svo í athugasemdunum:
     1.      Að endurbæta reglur um ákvörðun bóta fyrir tjón á mönnum, þar á meðal tjón vegna missis framfæranda.
     2.      Að færa til nútímahorfs reglur um tengsl skaðabótaréttar og annarra bótaúrræða.
     3.      Að setja lagaákvæði sem gera dómstólum kleift að taka eðlilegt tillit til hagsmuna þeirra sem valda tjóni eða bera af öðrum ástæðum skaðabótaábyrgð.
    Auk þess eru í frumvarpinu ákvæði um nokkur önnur atriði sem tengjast greindum breyt­ingum, t.d. reglur um skiptingu bótaábyrgðar milli aðila sem bera ábyrgð vegna sama tjóns, aðilaskipti að bótakröfu og bætur fyrir óhjákvæmilegt tjón sem verður rakið til líkamstjóns. 7
    Með bréfi dags. 18. febrúar 1994 fól dómsmálaráðherra Gesti Jónssyni hæstaréttarlög­manni, Guðmundi Skaftasyni, fyrrverandi hæstaréttardómara, og Gunnlaugi Claessen hæsta­réttarlögmanni að láta í té rökstutt mat á því hvort margföldunarstuðull 1. mgr. 6. gr. skaða­bótalaganna leiddi til þess að fullar bætur fengjust fyrir fjárhagslegt tjón og gefa álit sitt á áhrifum breytinga á stuðlinum á heildarfjárhæð skaðabóta í samanburði við eldri rétt. Var nefndin skipuð í framhaldi rökstuddrar gagnrýni nokkurra lögmanna sem töldu að með reiknireglu laganna hefði bótaréttur tjónþola vegna varanlegrar örorku skerst frá því sem áður gilti. Meiri hluti nefndarmanna lagði til í álitsgerð sinni 23. júní 1994 að stuðull í 1. mgr. 6. gr. yrði hækkaður úr 7,5 í 10. Einnig lagði meiri hlutinn til að ákvæði 1. málsl. 2. mgr. 6. gr. yrði breytt þannig að í stað lágmarksins 15% kæmi 10% og 2. málsl. 2. mgr. 8. gr. breyttist með hliðsjón af því. Tillögurnar leiddu ekki til breytinga á skaðabótalögunum.
    Í tilefni af dómi Hæstaréttar 30. mars 1995 fól allsherjarnefnd Alþingis 7. júní 1995 Gesti Jónssyni hæstaréttarlögmanni og Gunnlaugi Claessen hæstaréttardómara að taka á ný upp athugunina frá árinu 1994. Skyldu þeir taka til athugunar margföldunarstuðul 1. mgr. 6. gr. skaðabótalaga í ljósi dóms Hæstaréttar, yfirfara önnur ákvæði laganna og semja frumvarp til laga um breytingar á lögunum, ef niðurstöðurnar gæfu tilefni til þess.
    Álitsgerð Gests og Gunnlaugs frá 10. nóvember 1995 fylgdi fullbúið frumvarp til laga um breytingu á skaðabótalögunum. 8 Frumvarpið varð ekki að lögum, en með lögum nr. 42 13. maí 1996, um breytingu á skaðabótalögum, nr. 50/1993, var stuðullinn í 1. mgr. 6. gr. laganna hækkaður í 10, auk þess sem gerð var breyting á 8. gr. laganna. Samkvæmt ákvæði 3. gr. laganna var dómsmálaráðherra falið að skipa nefnd til að vinna að heildarendurskoðun skaðabótalaga, nr. 50/1993.
    Hinn 17. júlí 1996 skipaði dómsmálaráðherra Árna Kolbeinsson ráðuneytisstjóra, Guð­mund Jónsson, fyrrverandi hæstaréttardómara, og Þorgeir Örlygsson prófessor í nefnd til að vinna að endurskoðun laganna. Árni og Þorgeir viku úr nefndinni að eigin ósk og skipaði dómsmálaráðherra í þeirra stað Gest Jónsson og Sigrúnu Guðmundsdóttur hæstaréttar­lögmenn. Var nefndin þannig fullskipuð 21. nóvember 1996. Fyrsti formlegi fundur nefndar­innar var haldinn 27. nóvember 1996. Nefndin hefur haldið yfir 50 fundi.
    Með bréfi dags. 15. september 1997 fór nefndin þess á leit við dómsmálaráðherra að frestur til þess að ljúka verkefninu yrði framlengdur. Við því var orðið og var nefndinni veittur frestur til haustsins 1998 til þess að ljúka verkefni sínu.

II.

    Í athugasemdum með frumvarpi til laga nr. 42/1996 er gerð grein fyrir gagnrýni sem fram kom á tillögur Gests Jónssonar og Gunnlaugs Claessen. Sérstaklega hafi þrjú atriði verið gagnrýnd:
     1.      Gagnrýni á ákvörðun lágmarkslauna til viðmiðunar við bótaútreikning og um afmörkun bótaréttar fyrir varanlega örorku við aldur.
     2.      Að tillögurnar leiði til ofbóta, þ.e. heildarbætur til hins slasaða verði hærri en nemur tekjutjóni hans, þar sem áfram verði í gildi reglur laganna um að bætur frá þriðja aðila dragist ekki frá bótakröfu.
     3.      Að aukinn bótaréttur geti leitt til umtalsverðrar hækkunar iðgjalda.
    Í athugasemdunum kemur fram að allsherjarnefnd hafi farið mjög ítarlega yfir skaðabóta­lögin út frá tillögunum. Ýmsar spurningar hafi vaknað hjá nefndinni við þá athugun, svo sem hvort rétt sé að víkja frá þeirri stöðlun bótareglna sem lögfest var 1993 með því að láta bætur frá öðrum en hinum bótaskylda hafa áhrif á skaðabótakröfu; hvort unnt sé að láta sömu meginreglur gilda við ákvörðun skaðabóta til tjónþola hvort sem þeir hafa aflað sér atvinnutekna fyrir slysið eða ekki og hvort rétt sé að lögfesta lágmarksviðmiðun í því sam­bandi; hvort réttara sé að greiða örorkulífeyri út mánaðarlega í stað eingreiðslu skaðabóta þegar örorkustig er hátt og hinn bótaskyldi er fær um að taka á sig slíka skuldbindingu; hvort eðlilegra sé að reikna framtíðartjón út frá nettóárslaunum fremur en heildarárslaunum; hvort möguleikar frambúðarávöxtunar séu aðrir en Hæstiréttur gengur út frá í dómi sínum 30. mars 1995. Fram kemur að fleiri spurningar hafi vaknað við meðferð málsins fyrir alls­herjarnefnd sem ekki eru raktar í greinargerðinni. Taldi nefndin of mörgum spurningum ósvarað til þess að hægt væri að gera að sinni allar þær breytingar á lögunum sem fram komu í tillögum Gests og Gunnlaugs.
    Með skaðabótalögunum varð grundvallarbreyting á ákvörðun skaðabóta fyrir líkamstjón. Sjónarmið sem beitt var við ákvörðun skaðabóta höfðu fram til þess mótast af dómvenju þar sem ríkt tillit var tekið til einstaklingsbundinna þátta. Með lögunum var í auknum mæli byggt á stöðlun skaðabóta. Frumvarpshöfundar telja rétt að viðhalda stöðlun bótaréttar í ríkum mæli en gera þó tillögur um aukið tillit til einstaklingsbundinna þátta. Tillögurnar eru byggðar á þeim grundvelli sem lagður var með setningu skaðabótalaganna en tekið er tillit til ábendinga og gagnrýni sem fram hefur komið.

III.

    Við starf sitt hefur nefndin yfirfarið þau gögn sem lágu fyrir allsherjarnefnd Alþingis þegar fjallað var um frumvarp Gests Jónssonar og Gunnlaugs Claessen haustið 1995.
    Nefndinni hafa borist ýmis erindi og ábendingar, svo sem bréf dómsmálaráðuneytisins varðandi störf örorkunefndar, bréf frá hópi lögmanna með ábendingum um breytingar á skaðabótalögunum, bréf frá Gylfa Tholacius hrl., álitsgerð umboðsmanns barna, minnisblað Kristjáns Guðjónssonar, deildarstjóra slysatryggingadeildar Tryggingstofnunar, minnisblað Unu Bjarkar Ómarsdóttur um tilkynnt bifreiðaslys, bréf dr. Atla Þórs Ólasonar læknis ásamt athugasemdum hans við skaðaðbótalögin, bréf Sambands íslenskra tryggingafélaga ásamt greinargerð Guðnýjar Björnsdóttur hrl. Öll framangreind erindi fylgja greinargerð þessari til ráðherra.
    Á fund nefndarinnar hafa komið Þórarinn V. Þórarinsson, framkvæmdastjóri Vinnuveit­endasambands Íslands, læknarnir Jónas Hallgrímsson og Guðmundur Björnsson, hæsta­réttarlögmennirnir Jón Steinar Gunnlaugsson og Karl Axelsson, Sigmar Ármannsson, fram­kvæmdastjóri Sambands íslenskra tryggingafélaga, Ragnar Þ. Ragnarsson tryggingastærð­fræðingur, Ragnar Halldór Hall hæstaréttarlögmaður, formaður Örorkunefndar, og Viðar Már Matthíasson prófessor. Þá hefur nefndin átt nokkra fundi með fulltrúum Vátrygginga­eftirlitsins.

IV.

    Rétt þykir að fjalla í þessum kafla sérstaklega um þá gagnrýni sem sett var fram á tillögur Gests Jónssonar og Gunnlaugs Claessen, sem rakin er að framan, en fjalla síðan í næsta kafla um þau atriði sem allsherjarnefnd óskar sérstakrar skoðunar á í greinargerð með lögum nr. 42/1996.

     1.      Gagnrýni á ákvörðun lágmarkslauna til viðmiðunar við bótaútreikning og um afmörkun bótaréttar fyrir varanlega örorku við aldur.
    Í tillögum Gests og Gunnlaugs var gerð tillaga um að lágmarkslaun til viðmiðunar við bótaútreikning yrðu 1.400.000 kr. fyrir 66 ára og yngri. Þá var gert ráð fyrir nokkurri tekjuöflun allt að 83 ára aldri. Aldursafmörkunin var byggð á upplýsingum um starfslíkur.
    Í meðfylgjandi frumvarpi er gerð tillaga um að lágmarksárslaun til viðmiðunar við bótaútreikning verði 1.200.000 kr. Er miðað við þá almennu reglu að varanleg örorka leiði ekki til tekjutaps eftir að 75 ára aldri er náð. Bætur fyrir tekjutap greiðast ekki eftir það aldursmark nema sýnt sé fram á að tjónþoli hafi stundað vinnu þegar tjón varð, sbr. 2. mgr. 6. gr. frumvarpsins.

     2.      Að tillögurnar leiði til ofbóta, þ.e. heildarbætur til hins slasaða verði hærri en nemur tekjutjóni hans, þar sem áfram verði í gildi reglur laganna um að bætur frá þriðja aðila dragist ekki frá bótakröfu.
    Í stöðlun bótaréttar felst að minna tillit er tekið til einstaklingsbundinna þátta. Í gildandi lögum er notaður fastur margföldunarstuðull, sem lækkar frá 26 ára aldri, í stað trygginga­fræðilegra stuðla sem áður voru notaðir. Fasti margföldunarstuðullinn er lægri en trygginga­fræðilegu stuðlarnir, enda ákveðinn út frá þeirri forsendu að ýmsir þættir, sem áður voru látnir hafa áhrif til lækkunar á bótagreiðslur, t.d. skattfrelsi og greiðslur frá þriðja aðila, hafi það ekki lengur. Ljóst er að bótaréttur slasaðs fólks frá þriðja aðila, t.d. almannatrygg­ingum eða lífeyrissjóði, er mjög misjafn. Þá er þýðing skattfrelsis háð tekjum hins slasaða. Loks hafa bótaúrræði sem slasaði hefur kostað sjálfur með greiðslu iðgjalds ekki áhrif á skaðabætur. Af framangreindu leiðir að bótaúrræði sem ekki hafa áhrif á skaðabótaákvörð­unina geta leitt til þess að heildarbætur til tjónþola verði hærri en tekjutapi hans nemur. Á sama hátt liggur ljóst fyrir að stöðlunin leiðir til þess að margir tjónþolar fá ekki fullar bætur fyrir tekjutap þar sem þeir njóta ekki greiðslna frá þriðja aðila vegna tjónsins.
    Í frumvarpinu er fylgt þeirri stefnu, sem lengi hefur verið ríkjandi í íslenskum skaðabóta­rétti, að bætur sem falla tjónþola í skaut frá tryggingum sem hann hefur kostað sjálfur með greiðslu iðgjalds eigi ekki að hafa áhrif á skaðabótakröfu. Hins vegar telja frumvarps­höfundar rétt að til frádráttar komi bótagreiðslur sem telja má að séu af félagslegum toga. Í samræmi við þetta er gerð tillaga um tvenns konar breytingar á 4. mgr. 5. gr. skaðabóta­laganna um að bætur frá þriðja aðila dragist ekki frá skaðabótakröfu vegna varanlegrar örorku. Í fyrsta lagi er lagt til að verðmæti greiðslna frá almannatryggingum dragist frá skaðabótakröfu og í öðru lagi er lagt til að 40% af eingreiðsluverðmæti örorkulífeyris frá lífeyrissjóði verði dregið frá bótum. Nánar er gerð grein fyrir þessum tillögum og forsendum þeirra í athugasemdum með 4. gr. frumvarpsins.
    Rétt er að vekja athygli á því að réttur til örorkulífeyris frá lífeyrissjóði stofnast yfirleitt ekki nema varanleg örorka sé mjög há, oftast a.m.k. 40%. Bótaskyld tilvik þar sem varanleg örorka er svo há eru ekki mörg. Samkvæmt upplýsingum frá örorkunefnd hefur nefndin metið svo háa örorku í innan við 30 tilvikum frá því skaðabótalögin tóku gildi. 9 Þá ber að hafa í huga að þegar örorkustig er mjög hátt má ætla að bætur fyrir framtíðartekjutjón nægi ekki til þess að mæta fjártjóni slasaða, því auk tekjutjónsins má ætla að ýmsir þættir daglegs lífs, sem heilbrigðir einstaklingar leysa án fjárhagslegra útgjalda, svo sem þrif, matseld, viðhald o.fl., hafi í för með sér viðbótarútgjöld hjá þeim sem verða fyrir mikilli varanlegri örorku.

     3.      Að aukinn bótaréttur geti leitt til umtalsverðrar hækkunar iðgjalda.
    Óumdeilt markmið með því að setja skaðabótareglur er að tryggja tjónþolum hæfilegar bætur vegna fjártjóns og miska. Iðgjöld vátrygginga eru afleidd stærð, þ.e þau þurfa að vera nægjanlega há til þess að standa undir bótagreiðslunum og eðlilegum kostnaði við rekstur vátryggingastarfseminnar. Augljóst er að því rýmri sem bótaréttur er því hærri þurfa vá­tryggingaiðgjöldin að vera.
    Mikil breyting varð á skaðabótareglunum við lögfestingu þeirra árið 1993. Um margt er erfitt að bera eldra bótakerfi saman við lögin vegna þess hve ólík þau eru. Í eldra kerfinu var tjón reiknað á grundvelli læknisfræðilegs örorkumats (varanlegs miska) en í yngra kerfinu er aðalreglan að fjártjón er bætt á grundvelli fjárhagslegs örorkumats. Áður voru tryggingafræðilegir stuðlar notaðir við útreikninga en nú er notaður fastur margföldunar­stuðull sem lækkar frá 26 ára aldri tjónþola. Áður voru fjártjónsbætur til barna og tekju­lausra einstaklinga ákveðnar á grundvelli einstaklingsbundinna sjónarmiða, nú eru þær ákveðnar samkvæmt staðlaðri bótareglu í 8. gr. laganna. Þá voru gerðar breytingar á reglum um frádrátt vegna greiðslna frá þriðja aðila. Fleira mætti nefna.
    Þegar frumvarp til breytinga á skaðabótalögunum var til meðferðar hjá allsherjarnefnd Alþingis síðla árs 1995 kom fram ábending frá Sambandi íslenskra tryggingafélaga (SÍT) um að yrði frumvarpið að lögum þyrfti að hækka iðgjöld bifreiðatrygginga mjög verulega. Lagði SÍT fyrir allsherjarnefnd athugun Bjarna Guðmundssonar tryggingafræðings, dags. 8. desember 1995, á áhrifum tillagnanna á bótafjárhæðir vegna líkamstjóna í lögboðnum bifreiðatryggingum. 10
    Í athugun Bjarna var byggt á upplýsingum sem SÍT safnaði um stöðu 921 slysamáls sem urðu á síðari hluta ársins 1993, þ.e. fyrsta missirinu sem skaðabótalögin giltu. Voru þetta öll skráð slys á tímabilinu. Málunum var skipt í þrjá flokka. Í fyrsta flokk var skipað 119 málum sem voru uppgerð eða langt komin. Í annan flokk var skipað 215 málum þar sem nokkrar upplýsingar lágu fyrir. Í þriðja flokki voru 587 mál sem ekki voru það langt komin að unnt væri að skipta áætlun niður á bótaþætti. Með því að áætla meðalkostnað á mál í hverjum flokki fékkst niðurstaða um áætlaðan heildartjónakostnað tímabilsins. Af niður­stöðunni var dregin sú ályktun að iðgjöld bifreiðatrygginga þyrftu að hækka um 30,5% til þess að afkoma félaganna versnaði ekki frá því sem áður var. Deilur urðu um réttmæti forsendnanna og þeirra ályktana sem af þeim voru dregnar. Var nefndinni falið að láta í ljós skoðun sína á því hver iðgjaldaáhrif tillögur um breytingar á skaðabótalögunum gætu haft.
    Nú eru liðin tæp fimm ár að jafnaði frá því tjón síðari hluta ársins 1993 urðu. Upplýsingar ættu að liggja fyrir um niðurstöðu langflestra málanna eða a.m.k. ætti að vera unnt að áætla með nokkurri vissu hver niðurstaða málanna verður. Að mati frumvarps­höfunda er besta leiðin til þess að fá fram áreiðanlegar upplýsingar um kostnað bifreiðatrygginga vegna líkamstjóna að endurvinna þá athugun sem gerð var að frumkvæði SÍT árið 1995. Hefur nefndin talið rétt að yfirfara að nýju málin 921 og bera niðurstöðurnar saman við þær áætlanir sem gerðar voru fyrir þremur árum og kynntar fyrir Alþingi.
    Eftir að hafa átt fund með framkvæmdastjóra SÍT sendi nefndin sambandinu skriflegt erindi 2. júní 1997 þar sem þess var óskað að framangreind athugun yrði endurunnin. 11 Með bréfi dags. 26. júní 1997 upplýsti SÍT að sambandið hefði tekið erindið upp við viðkomandi tryggingafélög og því hefði verið vel tekið. Veruleg vinna væri því samfara að verða við erindinu og væri svars því ekki að vænta fyrr en síðla sumars. 12 Svar SÍT barst 12. september 1997. 13 Ekki var orðið við beiðni nefndarinnar um að endurvinna athugunina frá 1995. Lýsti framkvæmdastjóri SÍT því yfir á fundi með nefndinni að teldi hún svör SÍT ekki fullnægjandi væri eðlilegt að nefndin sneri sér beint til vátryggingafélaganna með erindið.
    Nefndin átti fund með fulltrúa Vátryggingaeftirlitsins 3. október 1997 þar sem þess var óskað að eftirlitið legði nefndinni lið við að óska þeirra upplýsinga sem hún hafði beðið um frá SÍT. Síðari hluta október var nefndinni tilkynnt símleiðis að Vátryggingaeftirlitið ætti af ýmsum ástæðum erfitt með að verða við beiðninni, a.m.k. það snemma að gagn yrði að í störfum nefndarinnar. Með bréfi dags. 5. nóvember 1997 fór nefndin þess á leit við Vátryggingaeftirlitið að það endurskoðaði fyrri afstöðu sína. 14 Rökstuddi nefndin í bréfi sínu af hverju hún teldi að athugunarinnar væri þörf. Svar Vátryggingaeftirlitsins barst í bréfi dags. 14. nóvember 1997 og var erindi nefndarinnar hafnað. 15
    Iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið óskaði þess við Vátryggingaeftirlitið með bréfi dags. 16. desember 1997 að eftirlitið athugaði hverjar hafi verið endanlegar bótafjárhæðir vegna slysa sem urðu síðari hluta árs 1993. 16 Í framhaldi þessa bréfs átti nefndin fund með fulltrúum Vátryggingaeftirlitsins 14. janúar 1998. Á fundinum lagði eftirlitið fram minnis­blað um verkefnið og þátt sinn í því. 17 Nefndin gerði grein fyrir ósk sinni um að könnunin yrði gerð þannig að eftirlitið yfirfæri sjálfstætt með könnun frumgagna stöðu umræddra mála. Að beiðni eftirlitsins gerði nefndin næsta dag skriflega grein fyrir hugmyndum sínum um hvernig staðið skyldi að könnuninni. 18 Vátryggingaeftirlitið vann könnunina án atbeina nefndarinnar. Gengu nokkur bréf á milli þess og nefndarinnar meðan á könnuninni stóð . 19 Niðurstöður Vátryggingaeftirlitsins bárust nefndinni með bréfum þess dags. 16. júní 20 og 6. júlí 1998 . 21 Í fyrra bréfinu kom fram að samkvæmt upplýsingum tryggingafélaganna væri heildarkostnaður vegna líkamstjóna á umræddu tímabili áætlaður 1181 millj. kr. og þar af hefðu 605 millj. kr. verið greiddar í árslok 1997 en áætlaðar eftirstöðvar væru 576 millj. kr. Í bréfinu tók eftirlitið fram að það legði ekki mat á hversu mikið af áætluðum eftirstöðvum kæmu til greiðslu og hve mikið fé losnaði úr tjónaskuld þegar uppgjöri væri lokið. Í síðara bréfi eftirlitsins kom fram að miðað við reynslutölur áranna 1989–92 mætti ætla að 280 millj. kr. væru ógreiddar vegna síðari hluta árs 1993. Í niðurlagi bréfsins var tekið fram að ekki væri unnt að draga þá ályktun að áætlanir félaganna væru tvöfalt það sem þyrfti til þess að mæta þeim greiðslum sem eftir væru.
    Að mati frumvarpshöfunda hefur ekki tekist að fá fram svör við þeim spurningum sem nefndin leitaði svara við, að þær upplýsingar sem að framan eru raktar nægi ekki til þess að álykta um iðgjaldaþörf bifreiðatrygginganna eftir setningu skaðabótalaganna. Niðurstaðan er því að ekki sé unnt að veita svar við því erindi allsherjarnefndar Alþingis.

V.

    Næst verður vikið að þeim atriðum sem allsherjarnefnd óskaði sérstakrar athugunar á:
     a.      Er rétt að víkja frá þeirri stöðlun bótareglna sem lögfest var 1993 með því að láta bætur frá öðrum en hinum bótaskylda hafa áhrif á skaðabótakröfu?
    Markmiðið með reglum skaðabótaréttar um bætur fyrir varanlega örorku er að leitast við að gera tjónþola jafnsettan fjárhagslega og hann var fyrir slys. Í þessu felst að meta þarf annars vegar til fjár það sem tjónþoli tapar vegna slyssins og taka hins vegar tillit til þess bótaréttar sem stofnast kann af sömu ástæðu. Lengst af hefur í þessu sambandi verið litið fram hjá bótarétti tjónþola sem til fellur vegna ráðstafana sem hann sjálfur hefur gert til þess að tryggja sig gegn áföllum og kostað sjálfur. Hins vegar hafa félagslegar greiðslur og tryggingabætur, sem tjónvaldur hefur greitt iðgjöld af, komið til frádráttar að fullu.
    Í skaðabótalögunum er að nokkru vikið frá þessum sjónarmiðum.Tjón er reiknað með því að nota fastan margföldunarstuðul sem er lægri en þeir tryggingafræðilegu stuðlar sem lengst af hafa verið notaðir til útreiknings á framtíðartekjutapi tjónþola. Á móti eru bætur ekki skertar sérstaklega vegna skattfrelsis og svonefnds eingreiðsluhagræðis. Þá er í ríkum mæli horft framhjá greiðslum frá þriðja manni, þ.e. bætur eru ekki lækkaðar vegna greiðslna sem tjónþoli fær frá þriðja manni vegna líkamstjóns, svo sem frá almannatryggingum, lífeyrissjóði eða vátryggingafélagi, sbr. 1. málsl. 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaganna, nema í ákveðnum tilvikum, sbr. 2.–4. málsl. 4. mgr. 5. gr. laganna. Þessi stöðlun bótareglnanna hefur leitt til einföldunar á bótauppgjörum, en á móti kemur að einstaklingsbundnum þáttum hefur verið vikið til hliðar í ríkum mæli.
    Það er skoðun frumvarpshöfunda að rétt sé auka vægi einstaklingsbundinna þátta í bóta­uppgjörum vegna varanlegrar örorku. Annars vegar beri að nota tryggingafræðilega stuðla við útreikning bótanna og hins vegar beri að skerða bætur sem nemi þeim félagslegu bóta­greiðslum sem koma í hlut tjónþola vegna hins bótaskylda atviks. Þessi skerðing komi til viðbótar frádrætti skv. 4. mgr. 5. gr. gildandi laga. Tillögur þessa efnis eru í 4. og 5. gr. frumvarpsins og er þar ítarlega gerð grein fyrir breytingartillögunum.

     b.      Er unnt að láta sömu meginreglur gilda við ákvörðun skaðabóta til tjónþola hvort sem þeir hafa aflað sér atvinnutekna fyrir slysið eða ekki og er rétt að lögfesta lágmarks­viðmiðun í því sambandi?
    Í meðfylgjandi frumvarpsdrögum er gert ráð fyrir þeirri meginreglu að við ákvörðun skaðabóta verði miðað við tekjur tjónþola síðustu þrjú almanaksárin fyrir tjónsatburð. Þó verði aldrei miðað við lægri árslaun en 1.200.000 kr. og ekki hærri en 4.500.000 kr. Nefndar fjárhæðir miðast við lánskjaravísitölu 1. júlí 1993, sbr. 13. gr. laganna. Við það er miðað að varanleg örorka allra sé metin á sama hátt, þ.e. miðað verði við svonefnda fjárhagslega örorku. Sérstök aldursleiðrétting er reiknuð inn í margfeldisstuðul laganna, sem að öðru leyti er byggður á bestu aðgengilegum upplýsingum um starfs-, örorku- og ævilíkur. Við það er miðað að atvinnuþátttöku ljúki í síðasta lagi við 75 ára aldur og framangreind lágmarkslaunaviðmiðun lækkar frá 67 ára aldri.

     c.      Er réttara að greiða örorkulífeyri út mánaðarlega í stað eingreiðslu skaðabóta þegar örorkustig er hátt og hinn bótaskyldi er fær um að taka á sig slíka skuldbindingu?
    Það hefur verið gildandi regla í íslenskum rétti að hinn bótaskyldi inni bótagreiðsluna af hendi í einu lagi. Í þeim tilvikum þar sem bætur eiga að mæta tjóni sem verður á löngum tíma, eins og gildir t.d. um bætur vegna varanlegrar örorku, hefur bótasumman fyrir alla starfsævina verið reiknuð til eingreiðslu og þá tekið tillit til þess hagræðis sem tjónþoli hefur af skattfrelsi bótanna, eingreiðslunni og þeim kostum sem hann á til ávöxtunar fjárins. Þessi uppgjörsaðferð hefur marga kosti. Það er kostur í sjálfu sér að málinu lýkur. Ekki er vafi á því að í mörgum tilvikum verður endanlegt og fyrirvaralaust bótauppgjör tjónþola mikil hvatning til sjálfsbjargar.
    Að jafnaði er tjónþoli háðari bótagreiðslum því hærra sem örorkustig hans er. Sé örorku­stig mjög hátt eru auknar líkur til þess að tjónþoli geti ekki framfleytt sér fjárhaglega án bótagreiðslna. Í slíkum tilvikum hafa kostir endanlegs bótauppgjörs minna vægi. Séu skaða­bætur greiddar sem mánaðarlegur örorkulífeyrir, samsvarandi tekjutapi tjónþola vegna slyssins, út starfsævi hans, verður tjónþoli eins settur fjárhagslega og slys hefði ekki orðið. Jafnframt hefur tjónþoli tryggingu fyrir því að bótagreiðslurnar endast út ætlaða starfsævi hans. Með lífeyrisgreiðslum í stað eingreiðslu er einnig unnt að endurmeta örorku tjónþola þegar slíkt á við og endurákvarða bætur á þeim grundvelli og jafnframt hverfa út óvissu­þættir sem gerðir eru upp á grundvelli líkinda við eingreiðslu, eins og t.d. ævilíkur, tekjuþró­un, ávöxtunarkostir og skattlagning tekna. Lífeyrisgreiðslur koma naumast til álita nema hinn greiðsluskyldi sé vátryggingafélag eða sambærilegur aðili. Enginn vafi getur leikið á því að íslensku vátryggingafélögin hafa fjárhagslegan styrk til þess að takast á við uppgjör slysabóta í formi lífeyrisgreiðslna. Að öllu þessu athuguðu er það mat frumvarpshöfunda að hyggja beri að breytingu á skaðabótalögunum í þá veru að heimila bótauppgjör við hátt örorkustig í formi lífeyris.
    Við mat á því hvort rétt sé að taka upp lífeyrisgreiðslur í stað eingreiðslu þegar örorku­stig er mjög hátt verður ekki framhjá því litið að samkvæmt gildandi lögum um tekjuskatt eru bætur fyrir varanlega örorku, sem greiðast í einu lagi, skattfrjálsar, en bætur sem greið­ast sem lífeyrir skattleggjast eins og aðrar tekjur. Vegna skattfrelsisins lækka eingreiðslu­bætur um þriðjung frá því sem ella væri. Að mati frumvarpshöfunda er skattalegt hlutleysi að þessu leyti forsenda þess að unnt sé að leggja til breytingu á skaðabótalögunum að þessu leyti.

     d.      Er eðlilegt að reikna framtíðartjón út frá nettóárslaunum fremur en heildarárslaunum?
    Í meðfylgjandi frumvarpsdrögum reiknast framtíðartjón út frá heildarárslaunum sem eru skert um þriðjung vegna skattfrelsis og eingreiðsluhagræðis. Augljós rök eru fyrir því að reikna framtíðartjón út frá nettóárslaunum, ef slíkt er unnt á einfaldan hátt. Það varð niðurstaða frumvarpshöfunda að í stöðluðu bótakerfi eins og byggt er á í skaðabótalögunum væri erfitt að koma við útreikningi framtíðartjóns á grundvelli nettóárslauna. Varð niður­staðan sú að skerða bætur um þriðjung vegna skattfrelsis og eingreiðsluhagræðis. Við þá ákvörðun var m.a. höfð hliðsjón af dómum Hæstaréttar um örorkubætur frá tímabilinu áður en skaðabótalögin tóku gildi.

     e.      Eru möguleikar á frambúðarávöxtun aðrir en Hæstiréttur gengur út frá í dómi sínum frá 30. mars 1995?
    Að mati frumvarpshöfunda hafa forsendur þær sem Hæstiréttur miðaði við í nefndum dómi ekki breyst þannig að ástæða sé til þess að breyta forsendu um ávöxtun framtíðartekna. Hins vegar hefur skattlagning fjármagnstekna breyst frá því dómurinn var kveðinn upp og leggst nú 10% skattur á vaxtatekjur. Margföldunarstuðullinn í 5. gr. frumvarpsins miðast við 4,5% ársávöxtun framtíðartekna auk þess sem inn í hann er reiknað álag til þess að mæta áhrifum fjármagnstekjuskattsins.


VI.

    Auk þess að kanna þá þætti sérstaklega sem raktir eru í köflunum hér á undan var nefndinni falið að yfirfara skaðabótalögin í heild sinni. Sú könnun hefur leitt til þess að frumvarpshöfundar gera ýmsar tillögur til breytinga á lögunum, sem ekki hefur verið gerð grein fyrir að framan. Þær helstu eru þessar:
     1.      Gerð er tillaga um breytt orðalag í 2., 3. og 4. gr. laganna um það tímamark þegar tímabundinni örorku lýkur. Um þessa tillögu vísast til skýringa við fyrstu grein frumvarps­ins.
     2.      Gerð er tillaga um að heimild til þess að ákveða álag á miskabætur skv. 4. gr. laganna verði rýmkuð, sbr. skýringar við 3. gr. frumvarpsins.
     3.      Gerð er tillaga um verulega breytingu á reglum um örorkunefnd í 10. gr. skaðabótalaganna. Meðal annars er lagt til að aðalreglan verði sú að málsaðilar afli sjálfir sérfræði­legra álitsgerða um örorku- og/eða miskamat, en hvor aðili hafi rétt til þess að skjóta slíkum álitsgerðum til örorkunefndar til endurmats. Örorkunefnd verði einungis mats­aðili á fyrsta stigi þegar málsaðilar óska þess sameiginlega. Um þessar breytingar vís­ast nánar til skýringa við 9. gr. frumvarpsins.
     4.      Gerð er tillaga um rýmkun miskabótareglunnar í 26. gr. laganna, sbr. skýringar við 13. gr. frumvarpsins.

Reykjavík, 10. september 1998,

Guðmundur Jónsson,
fyrrv. hæstaréttardómari.

Gestur Jónsson
hæstaréttarlögmaður.


Fskj. 1.

(5 síður myndaðar)


Fskj. 2.


Athugun á áhrifum tillögu Gests Jónssonar og Gunnlaugs Claessens
til breytinga á skaðabótalögum á bótafjárhæðir vegna líkamstjóna
í lögboðnum bifreiðatryggingum.
(8. desember 1995.)


Gögn.
    Á vegum Sambands íslenskra tryggingafélaga var safnað upplýsingum um þau slys sem gerð hafa verið upp samkvæmt hinum nýju skaðabótalögum. Einnig var leitað eftir upplýsingum um öll þau slys sem urðu á síðari helmingi ársins 1993 og enn eru óuppgerð. Þeim var skipt í tvo hópa, annars vegar þau mál sem svo langt voru komin áleiðis í vinnslu að starfsmenn tjónadeilda töldu sér fært að áætla greiðslur á þær bótategundir sem greiðast samkvæmt skaðabótalögum, og hins vegar önnur tjón.
    Athugunin náði til rúmlega 90% af tryggingastofni í lögboðnum bifreiðatryggingum. Tjón á fyrri hluta árs munu að jafnaði yfir 20% hærri en tjón á síðari hluta árs.

1. Uppgerð tjón.
    Bætur í hverju máli fyrir sig voru hér umreiknaðar samkvæmt tillögu GJ og GC. Í þeim málum þar sem ekki hafði farið fram mat á fjárhagslegri örorku (vegna þess að um tjónþoli hefur verið tekjulaus), en tjónþola höfðu verið úrskurðaðar miskabætur var áætluð fjárhags­leg örorka út frá miskastigi, eftir meðaltali í þeim málum þar sem fyrir liggur bæði mat á fjárhagslegri örorku og miskastigi, þó þannig að ætlað var fremur lægra en reyndin hefur verið. Fjárhæðir eru á verðlagi uppgjörsdags hvers tjóns, en verðbreytingar innan þess tíma­bils sem hér um ræðir hafa verið litlar, og ekki ástæða til að ætla að þær skekki þá mynd sem fæst.
    Alls var hér um að ræða 244 mál, og reyndist hækkun á bótafjárhæðum samkvæmt tillögum GJ og GC vera um 46% frá því sem gildandi skaðabótalög segja fyrir um. Ef litið er einvörðungu á þau 119 tjón sem urðu á síðari hluta árs 1993, þar sem uppgjör mála með örorku er lengst komin, var hækkun þó nokkru meiri eða 50%.
    Í þeim málum sem hér eru talin er lítil óvissa um hver yrði bótafjárhæð eftir tillögum GJ og GC, og niðurstaða verður að teljast áreiðanleg.

2. Áætluð tjón frá síðari hluta 1993 þar sem fyrir lá skipting á einstaka bótaþætti.
    Varðandi þessi mál er að hluta byggt á mati starfsmanna tjónadeilda, og að hluta á gögnum sem lágu fyrir í heild, svo sem örorku- og miskamötum, upplýsingum um tekjur tjónþola, læknisvottorðum, þegar greiddum bótum o.s.frv. Tjón þessi voru einnig umreiknuð eftir þeim reglum sem um getur í tillögum GJ og GC, og sama aðferð og lýst er í 1. notuð ef um var að ræða tekjulausan einstakling sem metinn hafði verið miski.
    Í þessum flokki töldust 215 tjón og hækkun á bótafjárhæðum reiknast hér 50%, eða nokkru meira en í hópi uppgerðra tjóna. Meðaltjón er hér um 1,7 milljónir, á móti um 1 milljón í uppgerðum tjónum.

3. Önnur tjón frá síðari hluta ársins 1993.
    Í áætlun eru 587 tjón til viðbótar sem urðu á síðari hluta árs 1993, sem ekki eru svo langt komin í vinnslu að unnt hafi verið að skipta áætlun niður á bótaþætti. Meðaltjón í þessum flokki tjóna er áætlað um 1 milljón kr. sem er ekki fjarri því sem er um uppgerð tjón. Sýnist því eðlilegast að miða hér við hækkun sem samsvari hækkun uppgerðra tjóna að meðaltali.

4. Mat á áhrifum á iðgjald.
    Ef vegin er saman eftir bótafjárhæð hækkun hinna þriggja tjónahópa, uppgerðra tjóna ársins 1993 með 49%, áætluð tjón 1993 sem unnt var að sundurliða á bótaþætti með 50% hækkun, og önnur áætluð tjón 1993 með 46% hækkun, fæst mat á heildarhækkun slysabóta í lögboðnum bifreiðatryggingum sem er um 47%, eða ef reiknuð er bótafjárhæð á ársgrundvelli, úr 2.600 milljónum í 3.800 milljónir. Í lögboðnum bifreiðatryggingum hafa um 60% tjónabóta verið vegna líkamstjóna, þannig að munatjón reiknast 1.750 milljónir. Tjón myndu því samkvæmt ofansögðu hækka eftir tillögum GJ og GC frá uppgjörsreglum skaðabótalaga um nálægt 28% eða í um 5.550 milljónir úr 4.350 milljónum.
    Miðað við að iðgjöld ársins voru 3.935 milljónir á árinu 1993 yrði þá nauðsynleg iðgjaldshækkun til að afkoma félaganna versnaði ekki 30,5%. Er þá ekki er reiknað fyrir auknum kostnaði við að gera upp eftir breyttum reglum.
    Varðandi þau atriði sem vafi hefur leikið á er rétt að hafa í huga að áætlað hefur verið þannig að mat á hækkunaráhrifum tillagna yrði fremur lægra en hærra. Þykir mér að í ljósi fyrrgreindra útreikninga og forsendna megi áætla hækkunarþörf iðgjalda ekki minni en 30% til að vega upp áhrif þeirra breytinga sem lagðar eru til.

Bjarni Guðmundsson,
cand. act.



Fskj. 3.

(1 síða mynduð)


Virðingarfyllst,
Guðmundur Jónsson,
formaður skaðabótanefndar.


Fskj. 4.


(1 síða mynduð)

Virðingarfyllst,
Samband íslenskra tryggingafélaga.
Sigmar Ármannsson.


Fskj. 5.


(2 síður myndaðar)

Virðingarfyllst,
Samband íslenskra tryggingafélaga.
Sigmar Ármannsson.


Fskj.


(8 síður myndaðar)


Fskj. 6.


(3 síður myndaðar)

Virðingarfyllst,
Guðmundur Jónsson, fyrrv. hæstaréttardómari.
Gestur Jónsson hrl.
Sigrún Guðmundsdóttir hrl.


Fskj. 7.


(1 síða mynduð)

Virðingarfyllst,
Vátryggingaeftirlitið.
Rúnar Guðmundsson
skrifstofustjóri.


Fskj. 8.


(2 síður myndaðar)

Finnur Ingólfsson.
Halldór J. Kristjánsson.



Fskj. 9.


(1 síða mynduð)

Rúnar Guðmundsson
skrifstofustjóri.


Fskj. 10.


(1 síða mynduð)

Virðingarfyllst,
Guðmundur Jónsson.
Gestur Jónsson.
Sigrún Guðmundsdóttir.



Fskj. 11.


(1 síða mynduð)

Virðingarfyllst,
Guðmundur Jónsson.
Gestur Jónsson.
Sigrún Guðmundsdóttir.



Fskj. 12.


(1 síða mynduð)

Virðingarfyllst,
Vátryggingaeftirlitið.
Helgi Þórsson.

Fskj.


Afrit af kynningarbréfi til bifreiðatryggingafélaga.

(1 síða mynduð)

Virðingarfyllst,
Vátryggingaeftirlitið.
Helgi Þórsson.

Fskj. 13.


(1 síða mynduð)

Virðingarfyllst,
Guðmundur Jónsson, fyrrv. hæstaréttardómari.
Gestur Jónsson
hrl.
Sigrún Guðmundsdóttir
hrl.

Fskj. 14.


(1 síða mynduð)

Virðingarfyllst,
Vátryggingaeftirlitið.
Helgi Þórsson.

Fskj.


(4 síður myndaðar)


Fskj. 15.


(1 síða mynduð)

Virðingarfyllst,
Vátryggingaeftirlitið.
Helgi Þórsson.


Fskj. 16.


(1 síða mynduð)

Virðingarfyllst,
Sigurður Freyr Jónatansson cand. act.

Fylgiskjal II.


ÁLITSGERÐ
minni hluta nefndar sem skipuð var skv. 3. gr. laga nr. 42/1996.

I.
Inngangur.

    Með bréfi dags. 18. október 1996 var undirrituð skipuð í nefnd til að vinna að heildar­endurskoðun skaðabótalaga, sbr. ákvæði til bráðabirgða í 3. gr. laga nr. 42/1996. Með­nefndarmenn mínir eru Guðmundur Jónsson, fyrrv. hæstaréttardómari, og Gestur Jónsson hrl. Til þess var ætlast að nefndin lyki störfum í október 1997 en með bréfi dags. 15. september 1997 fóru nefndarmenn þess á leit við dómsmálaráðherra að hann hlutaðist til um að nefndin fengi lengri frest til að ljúka störfum sínum. Með lögum nr. 149/1997, um breyt­ingu á skaðabótalögunum, var ákvæði til bráðabirgða breytt þannig að í stað ártalsins 1997 kom 1998.
    Niðurstaðan mín af endurskoðun laganna er sú að í heild virðast skaðabótalögin viðun­andi. Þó eru lagðar til nokkrar breytingar, en helstu þeirra eru eftirfarandi.

1.     Greiðsla frá þriðja manni — ofbætur.
    Lagt er til að frá skaðabótakröfu verði dregnar bætur vegna sama tjónsatviks, að því leyti sem þær eru kostaðar af bótagreiðanda eða þriðja manni. Útreikningar sýna að á efri hluta örorkustigans er hlutfall skaðabóta og fjártjóns orðið mun hærra en eðlilegt má telja vegna þess hve bótaúrræðin skarast. Þannig verður sama tjónið tvíbætt. Á tíma dómvenjunnar voru t.d. örorkubætur samkvæmt lögum um almannatryggingar dregnar frá skaðabótakröfu og í sumum dómum tekið tillit til örorkubóta frá lífeyrissjóðum við ákvörðun heildarbóta.

2.     Skipting á 8. gr.
    Í 8. gr. gildandi laga eru teknir undir eitt mismunandi hópar tjónþola sem tæpast hafa allir samstöðu við ákvörðun örorkutjóns. Því er lagt til að greininni verði skipt upp í stærstu hópana.
    Lagt er til að ungmenni innan 18 ára aldurs verði tekin út úr 8. gr. en taki þó bætur eftir sama örorkustiga og nú er í lögunum. Bætur eru allt að helmingi hærri en í Danmörku og verulega hærri en í Noregi. Ekki er um að ræða neina tekjusögu hjá þessum hópi og ævistarf óráðið.
    Þá er lagt til að heimavinnandi tjónþolar verði settir í sérstaka nýja grein. Í 3. mgr. 1. gr. laganna segir að verðmæti vinnu við heimilisstörf skuli lagt að jöfnu við launatekjur. Eins og bent hefur verið á, m.a. af Vátryggingaeftirlitinu, hentar hér ekki að meta örorkutjónið út frá læknisfræðilega metinni örorku fyrir varanlegt mein. Fyrir tíma skaðabótalaganna var reynt að meta bætur út frá fjölskyldustærð miðað við tilteknar tekjur. Hér er haft til hliðsjónar mat tryggingastærðfræðinga á örorkubótum við þessar aðstæður, svo og dómar sem gengið hafa, t.d. hrd.: 1996:503 (517–518), 1002 (1005) og 1059 (1063). Í dóminum á bls. 503 er byggt á mati tryggingastærðfræðings, en í hinum dómunum koma fram sérstök atriði sem valda annarri niðurstöðu.
    Undir 8. gr. falla þá ýmsir ósamstæðir tjónþolar sem ekki eiga sér marktæka tekjusögu. Reglan í 6. gr. laganna um að meta fjártjón vegna örorku á grundvelli tekna í fortíðinni er talin aðalregla og regla 8. gr. því undantekningarregla frá henni, sem ber að skýra þröngt. Í lagatexta er mjög erfitt að staðla til fullnustu bætur fyrir þennan hóp. Þó er lagt til að núverandi örorkustigi 8. gr. standi óbreyttur, en með þeim fyrirvara að tjónþoli og bótagreiðandi eigi jafnan kost á að fá einstaklingsbundið mat á bótum óbundið af honum, miðað við allar aðstæður.
    Þegar um er að ræða mjög lítið tjón þykir rétt að fjártjónsbætur verði ekki ákveðnar eftir huglægu mati og ekki fyrr en tjón er komið fram. Óvissan um fjártjón í slíkum málum er það mikil að þörf er öruggra sannana. Jafnframt er lagt til að lágmörk og hámörk verði felld niður.

II.     
Nýlegir dómar Hæstaréttar.

    Á undanförnum vikum hafa gengið dómar Hæstaréttar er þýðingu hafa varðandi túlkun og skýringu skaðabótalaganna. Á það bæði við um einstök ákvæði þeirra, svo og um gildi laganna gagnvart stjórnarskránni. Jafnframt hafa fengist svör við ýmsum atriðum sem gagnrýnd hafa verið í lögunum ásamt greinargóðu yfirliti um ástæður fyrir setningu laganna.
    Í dómi Hæstaréttar frá 22. maí 1998 í málinu nr. 311/1997: Andrés Andrésson gegn Ásmundi Ólafssyni og Sjóvá-Almennum tryggingum hf. og íslenska ríkinu er samandregið yfirlit yfir helstu ástæður lagasetningarinnar o.fl., en í dóminum segir svo:
    „Fram að gildistöku skaðabótalaga naut ekki við lögfestra reglna um bætur vegna líkamstjóns. Myndast hafði dómvenja um útreikning bóta, sem einkum var byggður á læknisfræðilegu örorkumati og var á grundvelli þess reynt að sannreyna raunverulegt tjón. Þó var ljóst að áætlun þess hlaut ætíð að vera mörgum vafaatriðum undirorpin og að tjónsfjárhæð yrði að verulegu leyti háð mati, sem á margan hátt var óvisst.
    Með hinum nýju skaðabótalögum voru sett ákvæði, sem samkvæmt greinargerð með frumvarpi að lögunum höfðu meðal annars þann megintilgang að endurbæta reglur um ákvörðun bóta fyrir tjón á mönnum, þar á meðal tjón vegna missis framfæranda, og að færa til nútímahorfs reglur um tengsl skaðabótaréttar og annarra bótaúrræða. Samkvæmt greinargerðinni var og að því stefnt að gera lögin þannig úr garði að tjónþoli fengi almennt, auk hæfilegra miskabóta, fullar bætur fyrir raunverulegt fjártjón sitt. Einnig var þar sagt að hinar nýju reglur ættu að draga úr vafa og ósamræmi og vera einfaldari og skýrari en áður hefði tíðkast. Þetta ætti að leiða til sparnaðar og hagræðingar, greiða fyrir málsmeðferð og flýta fyrir því að tjónþolar fengju bótafé í hendur. Ákvæði laganna ættu því að vera til þess fallin að efla réttaröryggi, þannig að tjónþoli og hinn bótaskyldi ættu auðveldara með að gera sér grein fyrir því hve miklar skaðabætur skyldi greiða vegna líkamstjóns, sem orðið hefði.
    Hin nýju lög fela í sér gerbreytingu á reglum um örorkumat. Er þar tekið upp fjárhags­legt mat í stað læknisfræðilegs og var megintilgangurinn sá að fá raunhæfari grundvöll til að miða varanlegt tekjutap við. Þá eru í lögunum ákvæði um að bótafjárhæðir verði í ríkum mæli staðlaðar, svo og ákvæði um lágmark og hámark bóta í nánar greindum til­vikum. Í 6. gr. laganna er almenn regla um útreikning bóta fyrir varanlega örorku. Er þar miðað við að árslaun tjónþola verði margfölduð með stuðli, sem við gildistöku laganna var 7,5 en var með lögum nr. 42/1996 hækkaður í 10. Sú fjárhæð, sem þannig fæst, skal síðan margfölduð með örorkustigi. Í greinargerð með frumvarpi að lögum nr. 50/1993 segir að rökin fyrir föstum stuðli séu tvíþætt. Annars vegar að einfalda ákvörðun bótafjár­hæðar og hins vegar að komast hjá miklum og tíðum sveiflum á bótafjárhæðum vegna breytinga á vöxtum. Ástæða þess að margföldunarstuðullinn var ekki hærri en 7,5 var meðal annars sögð sú að ekki væri nú gert ráð fyrir því að greiðslur frá þriðja manni, til dæmis bætur almannatrygginga, vátryggingarfé o.fl., væru dregnar frá skaðabótakröfu. Lágur margföldunarstuðull vegi á móti því hagræði sem tjónþoli hafi af því að þessar greiðslur dragist ekki frá skaðabótakröfu hans. Í greinargerð með frumvarpi því, sem varð að lögum nr. 42/1996, sagði að ljóst væri að þágildandi margföldunarstuðull væri ekki nægilega hár til þess að slasað fólk fengi fullnægjandi bætur fyrir fjártjón, sem leiddi af varanlegri örorku. Lög nr. 42/1996 tóku gildi 1. júlí 1996. Í 3. gr. þeirra var ákvæði til bráðabirgða þess efnis að dómsmálaráðherra skyldi skipa nefnd til að vinna að heildar­endurskoðun skaðabótalaga. Átti frumvarp að breytingum á lögunum að leggjast fyrir Al­þingi eigi síðar en í október 1997, en með lögum nr. 149/1997 var þessi frestur framlengd­ur um eitt ár.“

    Hér til viðbótar er rétt að benda á að tjónadreifingin eftir örorkustigi skipti einnig máli varðandi lagasetninguna. Í athugasemdum með frumvarpi að skaðabótalögunum segir að frumvarpið geri ráð fyrir að örorkubætur fyrir minni háttar „læknisfræðilega“ örorku lækki almennt eða falli niður, en bætur fyrir mikla örorku hækki. Þannig mun fyrir setningu skaða­bótalaga (árin 1989–91) verulegur meiri hluti þeirra örorkutjónsmála sem upplýsingar lágu fyrir um vera metin með 15% örorku eða lægri. Í athugasemdum Jóns Erlings Þorlákssonar tryggingastærðfræðings til allsherjarnefndar Alþingis, frá 5. desember 1995, segir svo:
    „Þegar íslensku skaðabótalögin voru undirbúin og samþykkt á Alþingi mun það hafa verið skoðað sem megintilgangur þeirra að breyta upphæðum bóta fyrir slysatjón frá því sem áður var. Það var skoðun manna, sem um þau mál fjölluðu, að bætur fyrir minni hátt­ar tjón hefðu verið óþarflega háar, en aftur á móti þyrftu bætur fyrir hin stærstu tjón að hækka. Munur milli kynja var einnig talinn óeðlilegur. Um þessi markmið hygg ég að hafi verið nokkuð almenn samstaða“
    Í tilvitnuðum hæstaréttardómi segir enn fremur:
    „Með skaðabótalögum, nr. 50/1993, var bætt úr brýnni þörf fyrir lögfestar reglur á þessu sviði. Með lögunum var aðferðum við útreikning tjóns vegna varanlegrar örorku breytt í verulegum atriðum. Leitast var við að setja skýrari og einfaldari reglur um ákvörðun bótafjárhæða, sem til þess væru fallnar að draga úr vafa og leiða til skjótari og ódýrari málsmeðferðar. Hins vegar er ljóst að eftir sem áður verða bætur ekki ætíð ákveðnar þannig að óyggjandi sé. Þó verður að telja að hinar stöðluðu reglur laganna leiði til frekara samræmis í bótaákvörðunum og stuðli að jafnræði. Samanburður milli hins nýja bótakerfis og þess, sem áður gilti, er örðugur og getur ekki gefið einhlít svör um það, hvort hin nýju lög fullnægi því markmiði að tryggja tjónþolum fullar bætur fyrir fjártjón. Slíkt mat er torvelt og verður að ætla löggjafanum nokkurt svigrúm í þessum efnum, enda er það hlutverk hans að setja almennar reglur um forsendur bótaákvarðana, þegar þess er þörf. Ekki verður annað séð en að þau ákvæði skaðabótalaganna, sem hér er um fjallað, þ.e. 5.–7. gr., eins og þau voru við setningu laganna 1993, hafi stuðst við málefnaleg sjónarmið og ekki falið í sér mismunun. Að öllu athuguðu verður að telja að ekki hafi verið sýnt fram á það í málinu, að lögin hafi ekki getað þjónað ofangreindu markmiði og verði því ekki beitt um tjón áfrýjanda. Í þeim fólst skýrt og ótvírætt mat löggjafans, sem við svo búið verður ekki haggað af dómstólum.“
    Í þessum dómi Hæstaréttar kemur skýrt fram að 5.–7. gr. skaðabótalaganna fara ekki í bág við stjórnarskrána og jafnframt að almenni löggjafinn getur sett reglur um hvernig ákvarða skuli bætur þegar aflahæfi manna er skert, enda sé stuðst við málefnaleg sjónarmið og þær feli ekki í sér mismunun.
    Af öðrum dómum Hæstaréttar sem þýðingu hafa má nefna dóm frá 7. maí 1998 í málinu nr. 281/1997: Birnir Bergsson gegn Tryggingamiðstöðinni hf., dóm frá 22. maí 1998 í málinu nr. 312/1997: Sigurður Davíðsson gegn Vátryggingafélagi Íslands hf. o.fl. og dóm frá 4. júní 1998 í málinu nr. 317/1997: Elfa Þöll Grétarsdóttir gegn Vátryggingafélagi Íslands hf. Dómar þessir gefa vísbendingar um kröfur sem gera verður til skaðabótalaganna.

III.
Athugasemdir með frumvarpi að lögum nr. 42/1996.

    Í athugasemdum með frumvarpi til laga nr. 42/1996 er gerð grein fyrir gagnrýni sem fram hafi komið á tillögur Gests Jónssonar og Gunnlaugs Claessen. Einkum var um að ræða gagnrýni á þrjú atriði, þ.e.:
     1.      á tillögur um ákvörðun lágmarkslauna til viðmiðunar við bótaútreikning og um afmörkun bótaréttar fyrir varanlega örorku við aldur,
     2.      að tillögurnar leiði í ýmsum tilvikum til ofbóta, þ.e. að heildarbætur til hins slasaða verði hærri en nemur tekjutjóni hans, þar sem áfram verði í gildi reglur laganna um að bætur frá þriðja aðila dragist ekki frá bótakröfu,
     3.      að aukinn bótaréttur gæti leitt til umtalsverðrar hækkunar iðgjalda.
    Fór allsherjarnefnd ítarlega yfir málið út frá tillögunum. Vöknuðu ýmsar spurningar hjá nefndinni við þá athugun, svo sem hvort rétt sé að víkja frá þeirri stöðlun bótareglna sem lögfest var 1993 með því að láta bætur frá öðrum en hinum bótaskylda hafa áhrif á skaðabótakröfu; hvort unnt sé að láta sömu meginreglur gilda við ákvörðun skaðabóta til tjónþola hvort sem þeir hafa aflað sér atvinnutekna fyrir slysið eða ekki og hvort rétt sé að lögfesta lágmarksviðmiðun í því sambandi; hvort réttara sé að greiða örorkulífeyri út mánaðarlega í stað eingreiðslu skaðabóta þegar örorkustig er hátt og hinn bótaskyldi er fær um að taka á sig slíka skuldbindingu; hvort eðlilegra sé að reikna framtíðartjón út frá nettóárslaunum fremur en heildarárslaunum; hvort möguleikar frambúðarávöxtunar séu aðrir en Hæstiréttur gengur út frá í dómi sínum 30. mars 1995. Fram kemur að fleiri spurningar hafi vaknað við meðferð málsins fyrir allsherjarnefnd sem ekki eru raktar í greinargerðinni. Telur nefndin of mörgum spurningum ósvarað enn til þess að hægt sé að gera að sinni allar þær lagabreytingar sem fram komu í tillögum Gests og Gunnlaugs.

IV.
Um breytingar á skaðabótalögunum.

    Hér á eftir verður leitast við að svara þeim spurningum sem varpað er fram í athugasemd­um með frumvarpi sem varð að lögum nr. 42/1996. Jafnframt verður sett fram frumvarp til breytinga ásamt athugasemdum við það.
    Það mátti vera ljóst þegar bótum fyrir líkamstjón var breytt frá reglum mótuðum af dómvenju í lögbundnar reglur að skynsamlegt væri að sjá hver reynslan yrði af þeirri breytingu og endurskoða síðan bótakerfið í heild sinni. Varhugavert er að taka einstök atriði út úr vegna þess að reglurnar grípa hver inn í aðra og eru samtengdar í kerfi (sjá síðar varðandi greiðslur frá þriðja manni og mat á vinnu tjónþola við heimilisstörf). Í heild sinni eru lögin viðunandi og er aðeins þörf breytinga á fáum atriðum. Í ljósi þessa eru takmark­aðar breytingar á lögunum lagðar til.

1.     Stöðlun bóta — tíföldunin.
    Ein meginbreytingin sem varð með tilkomu skaðabótalaganna var að margfalda árslaun með ákveðnum stuðli. Í fyrsta frumvarpinu sem lagt var fram var notaður stuðullinn 6. Hann varð 7,5 skv. 6. gr. skaðabótalaganna sem tóku gildi 1. júlí 1993 og var síðan hækkaður í 10, sbr. lög nr. 42/1996. Í tilvitnuðum dómi Hæstaréttar frá 22. maí 1998 er tilgreint að ákvæði 5.–7. gr. skaðabótalaganna hafi stuðst við málefnaleg sjónarmið og ekki falið í sér mismunun.
    Þegar dómar í slysamálum eru skoðaðir sést að stöðlun bóta er í raun ekki vandkvæðum bundin vegna þess hve lík þau eru í aðalatriðum, þótt afleiðingarnar geti verið ólíkar. Eigi tjónþoli sér tekjusögu er fyrir hendi grundvöllur til að byggja framtíðarvinnutekjutjón á. Sé tekjureynslan ekki til staðar sýnist ekkert því til fyrirstöðu að staðla bætur, en á þessu sviði geta atvik verið mjög margbreytileg þannig að rétt kann að vera að rýmka heimild aðila til að fá einstaklingsbundið mat frá því sem nú er. Í hæstaréttarmálinu nr. 317/1997: Elfa Þöll Grétarsdóttir gegn Vátryggingafélagi Íslands hf., sem dæmt var 4. júní sl., var niðurstaðan að skipting tjónþola í tvo hópa eftir því hvort þeir ættu sér tekjusögu eða ekki væri málefna­leg og fæli ekki í sér mismunun.
    Í forsendum fyrir tíföldun árslauna er tekið tillit til skattgreiðslna, eingreiðslu-hagræðis og afvöxtunarprósentu. Ekki er lögð til breyting á þessum stuðli. Helstu ástæður þess eru eftirfarandi.
    Í fskj. 1 (tafla 2.40.70.1.SK) er að finna einföld dæmi um samanburð á núvirtu tapi eftir tryggingafræðilegum stuðli til 70 ára aldurs sem tryggingastærðfræðingar hafa notað og bótum miðað við tífaldan margföldunarstuðul eins og hann er nú samkvæmt skaðabóta­lögunum. Á bilinu þar sem örorkustig er 7% og upp undir 50% er gott samræmi milli núvirts taps og bóta. Bætur sem hlutfall af tapinu eru aðeins hærri eða 101,3%. Það segir raunar að ekki sé um verulega breytingu að ræða frá tíma dómvenjunnar. Þetta snarbreytist þegar örorkustigið nálgast 50%. Þá verða bætur af núvirtu tapi frá 226% til 320%, tíðast á bilinu 226% til um 260%. Þetta stafar af því að inni í ráðstöfunartekjur eftir tjónsatburð er kominn örorkulífeyrir frá þriðja aðila vegna sama tjónsatviks. Þar sem svo verulegur munur er á núvirtu tjóni eftir tryggingafræðilegum reglum og bótum liggja öll rök til þess að minnka bilið milli bóta og núvirts tjóns og er fjallað um það í athugasemdum um greiðslur frá þriðja aðila.
    Varðandi afvöxtunarprósentuna þá var með dómi Hæstaréttar frá 30. mars 1995 ákveðið að miða framtíðarávöxtun við 4,5% vaxtafót. Vaxtafóturinn hafði áður verið 6% samkvæmt dómi Hæstaréttar 10. júlí 1984. Lækkunin nam þannig 25%. Á fjármagnsmarkaðinum eru við lýði fjölmörg vaxtastig (vaxtafætur) sem taka breytingum í sífellu. Óhentugt er í skaða­bótamálum að miða við óstöðugt vaxtastig, bæði hvað varðar afvöxtunarprósentu og vexti af bótum, en í 16. gr. skaðabótalaganna er stefnt að stöðugum vöxtum.
    Afvöxtunarprósentan, 4,5%, samrýmist vel margföldunarstuðlinum 10, sbr. fskj. 1. Ekki er lagt til að breytt verði viðmiðun við vaxtafótinn 4,5%. Eðlilegt er að hafa við mat á honum ávöxtun af kröfum til nokkuð langs tíma (nokkurra ára). Þegar athugaðir eru algengir og auðveldir kostir á kaupum á verðbréfum og bankainnstæðum á undanförnum árum sést að vextir hafa yfirleitt verið yfir 4,5% auk fullrar verðtryggingar. Síðan eru aðrir öruggir kostir á fjármagnsmarkaðinum sem gefa af sér mun meiri ávöxtun. Þegar á allt þetta er litið sýnist hinn nýi fjármagnstekjuskattur 10% ekki gefa sérstakt tilefni til breytinga á margföldunarstuðlinum, enda hafa orðið meiri breytingar á vöxtum innbyrðis án þess ástæða þætti til breytinga. Það er grundvallaratriði að stuðullinn getur aldrei verið nákvæmur; hann er ekkert annað en nálgun. Ófært er að hafa stuðulinn þannig að hann taki breytingum við hverja vaxtabreytingu eða skattabreytingu. Til samanburðar má nefna að samkvæmt nýlegum norskum hæstaréttardómi (Rt. 1994:1524) var ávöxtunarprósentan þar í landi ákveðin 5% (sjá NOU 1994, bls. 36).
    Því er niðurstaðan sú að margföldunarstuðullinn 10 sé í góðu samræmi við núvirðingu tjóns eftir tryggingafræðilegum reglum á þeim hluta örorkustigans sem er undir 50%, en um það bil verður veruleg breyting á vegna greiðslna frá þriðja aðila. Lögin bættu strax hag þeirra sem fyrir stórum tjónum urðu, en hækkun stuðulsins í 10 hefur síðan aukið þar á, svo spurningin er nú orðin mun áleitnari, hvort ekki sé komið út í verulegar ofbætur þar sem bótaúrræðin eru farin að skarast svo mjög og verður fjallað um það hér á eftir.     

2.     Greiðslur frá þriðja aðila — ofbætur.
    Eins og að framan greinir hefur margföldunarstuðull laganna hækkað úr 6 í 10 frá því að frumvarp til skaðabótalaga var fyrst lagt fram og þar til nú. Aftur á móti hefur reglum um frádrátt á greiðslum þriðja aðila ekki verið breytt. Leiðir þetta til breyttra viðhorfa gagnvart þessum greiðslum, þannig að eðlilegt er að þær komi að einhverju eða öllu leyti til frádráttar bótum.
    Í þessu sambandi er til fróðleiks rétt að líta til hinna norrænu landanna og athuga hvernig farið er með greiðslur frá þriðja aðila í löggjöf þeirra.
    Í dönsku skaðabótlögunum eru þær ekki dregnar frá fjártjónskröfu en margföldunarstuð­ullinn hafður þeim mun lægri, sexfaldur. Hefur þetta trúlega verið gert vegna stöðlunar og einföldunar. Frumvarpið til skaðabótalaga var í fyrstu sniðið eftir dönsku lögunum með mjög þröngum heimildum til frádráttar á þriðja manns greiðslum og lágum margföldunar­stuðli.
    Í 3. mgr. gr. 3-1 norsku skaðabótalaganna, nr. 26/1969, um skaðabætur fyrir líkamstjón segir:
    „Við ákvörðun skaðabóta dragast frá laun á veikindatíma og samsvarandi greiðslur, almannatryggingabætur og bætur úr lífeyrissjóði samkvæmt ráðningarskilmálum, svo og vátryggingabætur að því tilskildu að hinn skaðabótaskyldi hafi greitt iðgjaldið. Enn fremur má taka tillit til vátryggingabóta sem ekki falla undir málsliðinn hér á undan, annars verulegs fjárstuðnings sem tjónþoli hefur fengið eða kemur til með að fá vegna tjónsins og annarra aðstæðna.“
    Í sænsku skaðabótalögunum frá 2. júní 1972, 5. kafla, 3. gr., segir:
    „Við ákvörðun bóta fyrir tekjumissi eða missi framfæranda dragast frá þær bætur sem tjónþoli fær greiddar vegna missisins í formi:
     1.      bóta vegna skyldutryggingar (1962:381) samkvæmt lögum um almannatryggingar, laga um vinnutjónatryggingar (1976:380) eða þess háttar bóta,
     2.      launa á veikindatíma eða lífeyris, sem vinnuveitandi greiðir á grundvelli ráðningarsamnings,
     3.      lífeyris, sem greiddur er vegna lífeyristryggingar samkvæmt heildarkjarasamningi,
     4.      tímabundinnar greiðslu vegna slysa- eða veikindatryggingar samkvæmt heildarkjarasamningi. Lög 1977:272, sem tóku gildi 1. júlí sama ár.“
    Af framangreindu verður vart annað ráðið en allar bætur frá lífeyrissjóði komi til frádráttar og eins þótt þær séu byggðar á heildarkjarasamningi. Annars munu bætur í Sví­þjóð tíðast vera greiddar út í formi lífeyris.
    Eins og fram kemur í fskj. 1 (tafla 2.40.70.1.SK) og vikið er að hér að framan er gott samræmi á milli núvirts taps og bóta á því bili örorkustigans sem liggur á milli 7% og 50%. Þegar ofar kemur breytast hlutföllin. Þetta stafar af öðrum bótum vegna örorkutrygginga. Hér sýnast einkum tvær leiðir fyrir hendi sem velja þarf á milli. Hvor leiðin verður fyrir valinu er komið undir hreinu löggjafarmati.
    Önnur leiðin er að draga bæturnar frá að fullu, sbr. útreikning á fskj. 1 (tafla 2.40.70.A100.1.SK). Hér næst gott samræmi í bótum, þegar frá eru taldar 100 þús. kr. tekjur á mánuði. Rök eru einkum þau að með henni fæst að mestu nokkuð samfelldur stigi eftir tekjuhæð.
    Hin leiðin er sú að draga frá bótum þann hluta örorkutyggingarinnar sem vinnuveitandi eða þriðji aðili hafa kostað. Þetta er reiknað á fskj. 1 (10, tafla 2.40.70.A60.1.SK). Niður­staðan er sú að bætur eftir margföldunarstuðlinum 10, sem hlutfall af núvirði taps, nema 154,2% og allt upp undir 200% á tekjubili 150 þús. kr. og hærra, lækkandi eftir því sem tekjur hækka. Aðalrökin varðandi lífeyrissjóðina eru þau að tjónþolinn hafi sjálfur lagt fram iðgjald til þeirra og því sé ekki sanngjarnt að draga frá þá hlutdeild í bótunum. Hér má einn­ig líta til þess að tilgangurinn með skaðabótalögunum var m.a. sá að bæta hlut þeirra er urðu fyrir stóru líkamstjónunum. Gert er ráð fyrir þessari leið í frumvarpi því sem hér fylgir.
    Í nýlegum dómi Hæstaréttar (þiggja manna dómur) frá 7. maí sl. í málinu nr. 281/1997: Birnir Bergsson gegn Tryggingamiðstöðinni hf. reyndi á frádrátt vegna greiðslu þriðja manns, þ.e. túlkun á 2. mgr. 2. gr. skaðabótalaganna. Málavextir voru í sem stystu máli þeir að tjónþolinn og bótagreiðandinn höfðu komið sér saman um fjárhæð hins tímabundna atvinnutjóns. Tjónþolinn hafði fengið greiddar rúmar 2,2 millj. kr. vegna þess úr þremur lífeyrissjóðum og einum sjúkrasjóði. Bótagreiðandi taldi að draga ætti fjárhæðina, 2,2 millj. kr., frá umsaminni bótafjárhæð. Hæstiréttur leit svo á að skýlausa lagaheimild fyrir frádrættinum væri ekki að finna í 2. mgr. 2. gr. skaðabótalaganna, hvorki að því er varðaði fjárhæðina í heild né hluta hennar. Í dóminum segir svo:
    „ Í málinu liggja fyrir reglugerðir fyrir þá lífeyrissjóði og þann sjúkrasjóð, sem áfrýjandi naut greiðslna frá á meðan hann var óvinnufær af völdum fyrrnefnds slyss. Af reglu­gerðum þessum er ótvírætt að réttur áfrýjanda til greiðslna réðst af framlögum í þágu hans til hlutaðeigandi sjóða. Þótt slík framlög hafi að nokkru verið greidd af vinnuveitendum áfrýjanda breytir það ekki því að þau voru hluti af þeim heildarlaunakjörum, sem hann naut eftir lögum og kjarasamningum. Svarar þetta því til þess að áfrýjandi hafi unnið rétt til umræddra greiðslna með endurgjaldi úr eigin hendi.“
    Ekki verður hjá því komist að viðurkenna að tjónþoli hafi fengið tjón sitt tvíbætt, að því er tekur til hinnar umdeildu fjárhæðar. Sjónarmið Hæstaréttar er að tjónþoli hafi „unnið rétt til umræddra greiðslna með endurgjaldi úr eigin hendi“. Þetta sama má raunar segja um alla frádráttarliðina sem taldir eru í 2. mgr. 2. gr. Laun í slysaforföllum eru nánast tryggingarlegs eðlis, til að tryggja tjónþolanum tekjur í því falli, en ekki endurgjald fyrir vinnu sem látin er af hendi. Slysadagpeningar fyrir tímabundið vinnutekjutap, hvort heldur er frá opinberum tryggingum eða atvinnuslysatryggingu vátryggingafélags, eru beinlínis til að bæta tímabund­inn tekjumissi. Erfitt er að koma auga á efnisleg rök fyrir því að um hliðstæðar bætur frá lífeyris- og stryktarsjóðum eigi ekki að gilda sömu reglur varðandi frádrátt frá skaðabóta­kröfu, enda hafi vinnuveitandi eða þriðji maður greitt iðgjöldin í framangreindum tilvikum. Hér sýnist eðlilegast að miða við þá efnisreglu hver hafi keypt og kostað kaupin á trygging­unni en ekki hvernig um hana hefur verið samið, hvort heldur það er í heildarskjarasamningi eða með öðrum hætti. Eins og að framan greinir er niðurstaða Hæstaréttar sú að „skýlaus lagaheimild“ sé ekki fyrir frádrættinum. Því er það hreint löggjafaratriði að bæta hér úr og setja skýra reglu um frádrátt, hvert sem hlutfall þess frádráttar verður.

3.     Tekjulausir tjónþolar.
    Gagnrýni hefur komið fram á 8. gr. skaðabótalaganna og tengsl hennar og 5.–7. gr. Nefnt hefur verið að óskýrt sé hvort tjónþolar falli undir hana eða 6. gr. og þeim sé mismunað eftir því undir hvorri þeir eigi heima. Því hefur verið haldið fram að ákveða þurfi örorkubætur til allra eftir sömu reglunum, þ.e. sama staðli. Í dómi Hæstaréttar frá 4. júní 1998 í málinu nr. 317/1997: Elfa Þöll Grétarsdóttir gegn Vátryggingafélagi Íslands hf. kemur fram að 1. mgr. 8. gr. sé reist á málefnalegum forsendum og að hún gangi ekki í berhögg við stjórnar­skrárbundin réttindi. Þannig hefur verið svarað þeirri gagnrýni að um mismunun sé að ræða eftir því hvor aðferðin eigi við.
    Hjá þeim hópi tjónþola sem hafa engar eða takmarkaðar vinnutekjur og falla því undir 8. gr. skaðabótalaganna verður vart séð hvernig framkvæma á fjárhagslegt örorkumat. Til þess skortir efnislegar viðmiðanir. Því virðist slíkt mat ekki eiga við. Í athugasemdum við 5. gr. að lögunum segir að til þess að gera það verði hverju sinni að afla upplýsinga um atvinnu tjónþola fyrir og eftir tjónsatvik. Það verður ekki gert hjá þeim sem ekki hafa vinnutekjur, en það er vinnutekjutapið sem bæturnar snúast um. Ekki er mögulegt að gera sér grein fyrir hvernig örorkunefnd eða annar matsaðili gæti brugðist við í þeirri stöðu. Því verður ekki lagt til grundvallar hér að unnt sé að hafa einn skala fyrir alla tjónþola. Meðal annars í ljósi þessa eru aðrar leiðir taldar heppilegri, sbr. síðar.
    Varðandi það atriði undir hvorn flokkinn tjónþolar falla þá hefur verið staðfest í dómum að ákvæði 6. gr. sé aðalregla en 8. gr. undantekningarregla frá 6. gr., sem ber því að skýra þröngt. Það er svo að sá hópur tjónþola sem nú fellur undir 8. gr. er auk barna t.d. heima­vinnandi fólk, hvort sem um er að ræða fólk sem hefur aflað sér sérmenntunar og er tímabundið að sinna uppeldi ungbarna eða fólk sem hefur allt sitt líf helgað sig heimilis­störfum. Þá má nefna námsmenn yfir 17 ára aldri sem geta verið í sérfræðinámi og eru tekjulitlir langtímum saman eða tekjulausir. Einnig þeir sem eru tímabundið tekjulausir/tekjulágir vegna náms- eða rannsóknarstarfa. Síðan má nefna þann flokk tjónþola sem ekki hefur haft atvinnutekjur af persónulegum ástæðum, t.d. vegna óreglu, sjúkdóma o. fl. Þetta á einnig við um þá sem eru öryrkjar að einhverju leyti áður en tjónsatburður á sér stað. Enn má nefna þá tjónþola sem lifa á eignum sínum og hafa litlar eða engar atvinnutekjur, t.d. maður sem leigir húseignir eða hefur tekjur af hlutdeild sinni í atvinnurekstri.
    Ljóst er að ýmsar ástæður valda því að sumir tjónþolar eiga sér ekki tekjusögu. Því kann að vera hæpið að staðla örorkubætur til þeirra alfarið út frá miskastigi einu sér samkvæmt 4. gr. laganna. Því er hér lagt til að út úr 8. gr. verði tekin ungmenni innan 18 ára aldurs og heimavinnandi tjónþolar. Hjá ungmennum er ekki um neina marktæka tekjusögu að ræða eða ævistarf ráðið. Spá um framtíðartekjur verður því ekki byggð á neinum haldbærum forsend­um og því ekki um neitt betra að velja til stöðlunar en hið læknisfræðilega örorkumat.
    Varðandi heimavinnandi tjónþola þá má ákveða bætur miðað við tekjur einhverrar sam­bærilegrar stéttar að teknu tilliti til fjölskyldustærðar. Þetta er sú aðferð sem notuð hefur verið í stórum dráttum. Þessi mælikvarði á betur við en að mæla bætur eftir miskastigi. Ábendingar um þetta komu fram frá Vátryggingaeftirlitinu strax og frumvarp að skaðabóta­lögum var lagt fram í fyrra skiptið á 115. löggjafarþingi 1991–92, sjá ársskýrslu þess 1987–95, bls. 127–135. Á bls. 130, í 7. tölul., segir: „Eðlilegra væri að jafna heimilisstörf við til­tekin laun en ekki staðlaða viðmiðun um varanlegt mein.“ Á bls. 135 (fskj. 2) eru örorkubætur fyrir varanlegt mein skv. 8. gr. reiknaðar til samsvarandi árslauna og mánaðarlauna. Athuga þarf að margföldunarstuðull fór úr 6 í 10. Miðað við tífaldan stuðul væru samsvar­andi árslaun fyrir 15% orkuskerðingu um 520 þús. kr., 20% um 600 þús. kr., 30% um 640 þús. kr., 50% um 800 þús. kr., 75% um 1.300 þús. kr. og 90–100% um 1.600 þús. kr. Ljóst er að borið saman við útivinnandi tjónþola er viðmiðunin alltof lág langt upp eftir örorku­stiganum. Bent er á að fyrst beindist gagnrýni að því að tjón heimavinnandi tjónþola væri mun hærra metið en útivinnandi tjónþola í ýmsum tilvikum. Nú sýnist þessu vera öfugt farið vegna hækkunar á margföldunarstuðlinum. Þetta er dæmi um hve varhugavert er að breyta einstökum atriðum í skaðabótalögunum án þess að gæta heildarinnar.
    Þá er sanngjarnt að taka tillit til fjölskyldustærðar og er það eftir reglunni í 3. mgr. 1. gr., hvernig verðmæti vinnu við heimilsstörf skuli meta. Með öllu er óeðlilegt að meta að jöfnu vinnu heimavinnandi maka sem annast tveggja manna fjölskyldu og þeirrar sem annast fimm til sex manna fjölskyldu. Þótt íslensk dómvenja sé um sumt óljós um þetta verður þó að álykta að hún feli í sér framangreinda aðalreglu. Hér er vísað til hrd: 1996:503. Því er lagt til að tekin verði upp sú regla að miða matið á vinnutekjutapinu við fjölskyldustærð.
    Fjölmennur flokkur þeirra sem undir 8. gr. falla er námsfólk, 18 ára og eldra. Oftast er það tekjulágt eða tekjulaust svo við mat á bótum verður ekki stuðst við tekjusögu þess. Jafnframt eru námsmenn á þessu aldursskeiði tíðast óráðnir um ævistarf og það eigi fyrir séð. Verður slíkur tjónþoli því að taka örorkubætur eftir bótaskalanum í 8. gr. Þegar nem­endur eru komnir í háskóla eða sérskóla og sér fyrir endann á námi er lagt til að þeim verði gefinn kostur á að velja á milli bóta skv. 8. gr. og 6. gr., sbr. 2. málsl. 2. mgr. hennar. Með þessu fengist nokkuð skýr afmörkun á milli greinanna. Í þeim tilvikum er sjaldnast marktæk tekjusaga fyrir hendi og yrði þá að byggja áætlun framtíðartekna á meðaltekjum í viðkom­andi grein. Um aðra tjónþola sem 8. gr. tekur til og hér að framan voru nefndir er erfitt að setja nánari reglur í lagatexta en skalann sjálfan, sem þó þarf að vera frávíkjanlegur.

4.     Hámörk og lágmörk felld niður.
    Í 4. gr. skaðabótalaganna er ákvæði sem segir að sé miski metinn minna en 5% skuli ekki greiða bætur. Hliðstætt ákvæði var í 8. gr. þeirra er sagði að örorkubætur skyldi ekki greiða ef miskastig væri minna en 15% (10%). Með dómi Hæstaréttar 4. júní sl. í málinu Elfa Þöll Grétarsdóttir gegn Vátryggingafélagi Íslands hf. var talið að þetta færi í bága við jafnræðis­ákvæði 65. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 72. gr.
    Í 7. gr. laganna segir að bætur skuli ekki miða við hærri árslaun en 4.500.000 kr. Tillögur hafa komið fram um að minnstu bætur verði miðaðar við ákveðin lágmarksárslaun. Hefur fjárhæðin 1.400.000 kr. verið nefnd fyrir tjónþola 66 ára og yngri og 1.100.000 kr. fyrir 69 ára tjónþola. Sömu reglu var þá ætlað að gilda bæði fyrir þá er höfðu tekjusögu og hina sem ekki höfðu hana.
    Til skýringar á réttarstöðunni þykir rétt að vísa til eftirfarandi úr framangreindum dómi Hæstaréttar:
     „Sú tilhögun, að engar örorkubætur verði greiddar upp að ákveðnu lágmarki miskastigs, mun einkum vera rökstudd þannig, að minni háttar örorka leiði yfirleitt ekki til raunverulegs fjártjóns eða skerðingar á aflahæfi. Að því er þó að hyggja, að í aflahæfi manna eru fólgin eignarréttindi, sem njóta verndar eignarréttarákvæðis stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33 /1944, áður 67. gr. en nú 72. gr., sbr. 10. gr. stjórnskipunar­laga, nr. 97/1995. Löggjafinn hefur engu síður heimild til að setja reglur um það, hvernig ákveða skuli bætur, þegar aflahæfi manna er skert, enda sé það markmið slíkra reglna, að fullar bætur komi fyrir. Við setningu þeirra verður að gæta lögmæltra skilyrða, er meðal annars lúta að jafnræði borgaranna, sbr. núgildandi 65. gr. stjórnarskrárinnar og þær ólögfestu meginreglur á þessu sviði, sem áður giltu.“
    Þegar framangreindar takmarkanir eru skoðaðar í þessu ljósi sýnist vafasamt að þær fái staðist. 5% takmörkunin mun í reynd skipta mjög litlu máli en ætla má að fyrir geti komið tilvik sem réttlæti greiðslu miskabóta á þessu sviði.
    Þegar um er að ræða bótamarkið 4.500.000 kr. vandast málið meira. Í dóminum er því slegið föstu að aflahæfið njóti verndar 72. gr. stjórnarskrárinnar. Samrýmist það þessu ákvæði t.d. að bæta tjónþola með árslaun 9 millj. kr. aðeins með bótum sem svara til 5 millj. kr. árslauna? Framangreind tilvísun sýnist benda til þess að spurningunni verði að svara neitandi.
    Í forsendum dóms Hæstaréttar frá 7. maí 1998 í málinu nr. 281/1997: Birnir Bergsson gegn Tryggingamiðstöðinni hf. er vísað til þeirrar meginreglu skaðabótaréttarins að tjónþoli eigi ekki rétt á hærri bótum en sem svarar raunverulegu fjártjóni hans. Bótaréttur og skaðabótaskylda hljóta að haldast í hendur eftir þessari meginreglu. Álykta verður að í þeim tilvikum sem bótaákvörðun er byggð á fortíðartekjum mundi lögleiðing almennrar reglu um lágmarksviðmiðunarlaun leiða til þess að bótagreiðandi yrði í ýmsum tilvikum látinn bæta meira tjón en hann olli. Færi það í bága við þær ólögfestu meginreglur á þessu sviði sem áður giltu. Slík regla rúmast ekki innan skaðabótaréttarins og sýnist brot á jafnræði málsað­ila. Áhrif viðmiðunarlauna á bætur til þeirra sem ekki hafa tekjusögu ákvarðast að sjálf­sögðu eftir því hve há árslaun til viðmiðunar eru valin. Á stærstu tjónunum breyta 1.200.000 kr. árslaun engu verulegu frá gildandi lögum, en 1.000.000 kr. árslaun lækka bætur talsvert. Þegar neðar dregur í örorkustigann hækka bætur stórlega og því meira sem neðar dregur. Þessi tilhneiging er andstæð því sem skaðabótalögunum var ætlað í upphafi, þ.e. að draga úr bótum fyrir litlu tjónin en auka bætur fyrir þau stærri.

5.     Iðgjaldabreyting.
    Hlutverk vátryggingafélaga er að dreifa áhættu sem þau gera með töku iðgjalda hjá vá­tryggingartökum. Einn þátturinn við ákvörðun iðgjaldanna er að sjálfsögðu reglurnar um tjónabætur en ekki síður er ákvarðandi um iðgjaldaþörfina tíðni og stærð tjóna. Það liggur í eðli vátryggingarsamningsins að áhættan við gerð hans er alltaf ófyrirséð. Svars við spurn­ingunni er því aðeins að nokkru að leita á sviði skaðabótaréttarins, þ.e. lög nr. 50/1993. Frekar verður að líta til laga um vátryggingastarfsemi, nr. 60/1994, og reglna settra sam­kvæmt þeim.
    Síðustu birtar tölur um afkomu vátryggingargreinanna eru fyrir árið 1996. Í fskj. 3 er ljósrit úr ársskýrslu Vátryggingaeftirlitsins 1996, nr. 23, sem sýnir niðurstöður einstakra greinaflokka eftir að fjármagnstekjum hafði verið skipt milli þeirra. Niðurstöðurnar sýna að verulega skortir á jafnvægi milli tjónakostnaðar og iðgjalda í einstökum greinaflokkum, þegar yfir lengri tíma er litið. Ekki er við því að búast að vátryggingafélögin hafi á valdi sínu að jafna hvert einstakt ár, en sé yfir lengri tíma litið ætti það að vera gerlegt, enda sýnir reynslan að þegar misvísunin vex úr hófi hækka iðgjöldin. Ef litið er á hallann á lögboðnu ökutækjatryggingunum sést að frjálsu ökutækjatryggingarnar (framrúðu- og húftrygging) standa undir honum ásamt hagnaði af öðrum greinum. Þetta getur vart gengið til lengdar. Þá ber einnig að hafa í huga að hækkun á margföldunarstuðli skaðabótalaganna úr 7,5 upp í 10 tók ekki gildi fyrr en um mitt ár 1996 og er því að líkindum aðeins að óverulegu leyti komin fram.
    Niðurstaðan er sú að tillögur til breytingar á skaðabótalögunum sem hér eru gerðar eru ekki líklegar til að valda umtalsverðri hækkun iðgjalda. Hins vegar er hugsanlegt að meiri jöfnuður í afkomu vátryggingagreina leiði til hækkunar iðgjalda á lögboðnum ökutækja­tryggingum ásamt því að miðað við birtar afkomutölur er líklegt að hækkun margföldunar­stuðulsins úr 7,5 í 10 sé ekki nema að litlu leyti komin fram. Að öðru leyti vísast til ítarlegr­ar greinargerðar í ársskýrslum Vátryggingaeftirlitsins, nr. 14–22 og nr. 23.

V.
Frumvarp til laga um breytingu á skaðabótalögum, nr. 50/1993.

1. gr.

    3. mgr. 1. gr. laganna orðast svo:
    Verðmæti vinnu við heimilisstörf skal lagt að jöfnu við launatekjur, sbr. 2. og 7. gr.

2. gr.

    Við 2. mgr. 2. gr. laganna bætist: svo sem bætur úr lífeyrissjóðum og styrktarsjóðum, að því marki sem vinnuveitandi og aðrir hafa hlutfallslega greitt iðgjöld til þeirra.     

3. gr.

    2. mgr. 3. gr. laganna orðast svo:
    Um greiðslur frá þriðja aðila fer eftir ákvæðum 4. mgr. 5. gr.


4. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 4. gr. laganna:
     a.      Í stað upphæðarinnar „6.000.000 kr.“ í 5. málsl. 1. mgr. kemur: 50%.
     b.      6. málsl. 1. mgr. fellur brott.
     c.      2. og 3. mgr. orðast svo:
                  Hafi tjónþoli verið 50 ára eða eldri þegar tjón varð lækka bætur sem ákveðnar eru eftir 1. mgr. um 1.5% fyrir hvert aldursárs tjónþola umfram 49 ár. Bætur lækka þó ekki frekar eftir 69. aldursár tjónþola.
                  Um greiðslur frá þriðja aðila fer eftir ákvæðum 4. mgr. 5. gr.

5. gr.

    4. mgr. 5. gr. laganna orðast svo:
    Njóti tjónþoli lífeyrisgreiðslna vegna varanlegrar örorku eftir lögum um almanna­tryggingar, ákvæðum reglugerða lífeyrissjóða eða vátryggingabóta, sem hinn skaðabóta­skyldi eða aðrir hafa keypt til hagsbóta fyrir tjónþola, svo og bóta frá slysatryggingu öku­manns eftir umferðarlögum og bóta frá sams konar slysatryggingu manns sem slasast sem farþegi í eigin ökutæki, skal draga þær frá fjárhæð örorkutjónsins og margfalda síðan niður­stöðu með stuðli skv. 6. gr. Að lokum skal draga frá eingreiðslu bóta sem af sömu rótum eru runnar. Hafi tjónþoli sjálfur greitt iðgjald til lífeyrissjóða, styrktarsjóða eða annarra þvílíkra bótagreiðanda skal aðeins draga frá örorkutjóni þann hluta sem svarar til iðgjalda sem vinnuveitandi eða aðrir hafa greitt til þeirra.

6. gr.

    6. gr. laganna orðast svo:
    Bætur skal meta til fjárhæðar sem nemur tíföldum árslaunum tjónþola margfölduðum með örorkustigi skv. 3. mgr. 5. gr., sbr. 9. gr.
    Árslaun til ákvörðunar bóta skulu teljast meðaltal heildarvinnutekna tjónþola á síðustu þremur almanaksárum áður en tjónsatburður varð, leiðrétt með launavísitölu þess tíma. Árslaunin skulu þó metin sérstaklega þegar óvenjulegar aðstæður eru fyrir hendi, t.d. breytingar á tekjum eða atvinnuhögum.
    Bótafjárhæð skal greidd í einu lagi.

7. gr.

    7. gr. laganna orðast svo:
    Tjónþolar sem vinna heimilisstörf eiga rétt til bóta fyrir varanlega örorku, sem ákveðnar skulu miðað við föst mánaðarlaun grunnskólakennara í 6. þrepi launaflokks 150. Laun þessi miðast við heimilisstörf fyrir fimm manna fjölskyldu en bæta skal við 10% fyrir hvern fjölskyldumeðlim sem umfram er, en draga frá 20% fyrir hvern þann sem skortir á þann fjölda. Einstakling sem er einn í heimili skal ekki telja sem heimavinnandi.
    Vinni tjónþoli utan heimilis skal bæta við þann tíma (vinnuvikum) reiknuðum tekjum fyrir heimilisstörf skv. 1. mgr. þessarar greinar, eins og við á eftir 2. mgr. 6. gr., þannig að út komi tekjur fyrir heilsársstarf.
    Ekki verða bætur fyrir annað fjártjón skv. 1. gr. greiddar jafnframt bótum fyrir heimilisstörf samkvæmt þessari grein nema til einstaklings á heimili.
    Um útreikning og greiðslu bóta fer eftir reglum 6. gr., sbr. 4. mgr. 5. gr.

8. gr.

    Á eftir 7. gr. laganna kemur ný grein, 7. gr. a, sem orðast svo:
    Bætur til ungmenna innan 18 ára aldurs sem hafa engar eða takmarkaðar vinnutekjur skal ákvarða á grundvelli miskastigs skv. 4. gr. Bætur skulu ákveðnar sem hundraðshluti af bótum fyrir varanlegan miska eftir reglum 1.–4. málsl. 1. mgr. 4. gr.
    Þegar miskastig er 10% eða lægra, 12%, 15%, 18% og 20% skulu örorkubætur vera 120%, 125%, 130%, 135% eða 140% af bótum fyrir varanlegan miska.
    Þegar miskastig er 25% eru örorkubætur 150% af bótum fyrir varanlegan miska. Þegar miskastig er 30%, 35%, 40%, 45% eða 50% skulu örorkubætur vera 160%, 170%, 180%, 190% eða 200% af bótum fyrir varanlegan miska.
    Þegar miskastig er 55% eru örorkubætur 225% af bótum fyrir varanlegan miska. Þegar miskastig er 60%, 65%, 70%,75%, 80% eða 85% skulu örorkubætur vera 250%, 275%, 300%, 325%, 350% eða 375% af bótum fyrir varanlegan miska. Þegar miskastig er 90%, 95% eða 100% skulu örorkubætur vera 400% af bótum fyrir varanlegan miska.

9. gr.

    8. gr. laganna orðast svo:
    Örorkubætur til annarra en tjónþola er starfa að heimilsstörfum, sbr. 7. gr., og ungmenna, sbr. 7. gr. a, sem hafa engar eða takmarkaðar vinnutekjur, skal ákveða eftir 2.–4. mgr. 7. gr. a. Stefni tjónþoli að ákveðnu ævistarfi sem hann hefur búið sig undir með sérstakri menntun eða öðrum sambærilegum hætti og sjá má að það muni ganga eftir á hann þess kost að fá bætur metnar eftir 6. gr. með hliðsjón af meðaltekjum í viðkomandi starfsgrein.
    Leiði bætur eftir 2.–4. mgr. 7. gr. a til óeðlilegrar eða ósanngjarnar fjárhæðar bóta að marki eiga bæði tjónþoli og bótagreiðandi rétt á að fá bætur metnar óbundið miðað við allar aðstæður.
    Um greiðslur frá þriðja aðila skal fara eftir 4. mgr. 5. gr.
    Þegar læknisfræðileg örorka í málum skv. 6., 7. og 8. gr. er metin 10% eða lægra skal því aðeins greiða bætur fyrir varanlega örorku að framtíðarfjárhagstjón vegna vinnutekjutaps sé hlutlægt sannað og fram komið þegar ekki er að vænta frekari bata. Komi það síðar fram skal fara með það eftir 11. gr.
    

10. gr.

    10. gr. laganna orðast svo:
    Þegar fyrir liggur sérfræðilegt álit um örorku- og/eða miskastig tjónþola, eða þá læknisfræðilegu þætti skv. 2. og 3. gr., sem meta þarf til þess að uppgjör bóta samkvæmt lögum þessum geti farið fram, getur hvor um sig, tjónþoli eða sá sem krafinn er bóta, borið álitið undir örorkunefnd. Heimilt er að óska álits örorkunefndar um ákvörðun örorku- og/eða miskastigs, án þess að fyrir liggi sérfræðilegt álit, ef málsaðilar standa sameiginlega að slíkri beiðni.
    Í örorkunefnd eiga sæti þrír menn sem skipaðir eru af dómsmálaráðherra til sex ára í senn. Skulu tveir nefndarmanna vera læknar, en einn lögfræðingur og er hann formaður nefndarinnar. Formaður skal fullnægja skilyrðum laga til að hljóta skipun í embætti hæsta­réttardómara. Ráðherra skipar varamenn eftir sömu reglum og aðalmenn. Ráðherra er heimilt að ósk nefndarinnar að fjölga nefndarmönnum tímabundið, í því skyni að tryggja að afgreiðsla mála dragist ekki. Um hæfi nefndarmanna til þess að fara með mál skal fara eftir reglum laga um sérstakt hæfi.
    Örorkunefnd skal semja töflur um miskastig.
    Ráðherra setur reglugerð um starfsháttu örorkunefndar. Í reglugerðinni skal m.a. vera heimild fyrir nefndina til þess að kveðja lækna og aðra sérfróða menn til starfa í þágu nefndarinnar og jafnframt ákveðið hvernig staðið skuli að birtingu helstu álita hennar. Í reglugerð skal og kveða á um gjald fyrir matsgerðir sem nefndin gerir.

11. gr.

    Á eftir orðinu „ófyrirsjáanlegar“ í 2. málsl. 11. gr. laganna kemur: sbr. þó 4. mgr. 8. gr.

12. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 15. gr. laganna:
     a.      Tilvísunin „3. mgr. 7. gr.“ í 1. málsl. 1. mgr. fellur brott.
     b.      Lokamálsliður 2. mgr. fellur brott.

13. gr.

    1. mgr. 16. gr. laganna orðast svo:
    Bætur fyrir þjáningar, varanlegan miska, tímabundið atvinnutjón og missi framfæranda ber vexti frá því tjón varð. Bætur fyrir varanlega örorku bera vexti frá upphafsdegi metinnar örorku skv. 5. gr. Vextir skulu nema 4,5% á ári.

14. gr.

    26. gr. laganna orðast svo:
    Heimilt er að láta þann sem af ásetningi eða stórfelldu gáleysi veldur líkamstjóni eða ábyrgð ber á ólögmætri meingerð gegn frelsi, friði, æru eða persónu annars manns greiða miskabætur til þess sem misgert var við.
    Þann sem af ásetningi eða stórfelldu gáleysi veldur dauða annars manns má dæma til þess að greiða maka, börnum eða foreldrum miskabætur.
    

15. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1999 og eiga við um skaðabótaábyrgð vegna tjóns sem rakið verður til bótaskylds tilviks eftir gildistöku laganna.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Hér er einungis um að ræða breytingar á tilvísun til annarra greina í lögunum.

Um 2. gr.

    Hér er lagt til að tjónþolinn fái tímabundið atvinnutjón sitt að fullu bætt en hvorki meira né minna. Frádráttur á greiðslu þriðja aðila miðist við það hvaðan féð er komið. Hafi tjónþolinn sjálfur lagt það fram rýrir það ekki bætur vegna hins bótaskylda tjónsatburðar. Sé það á hinn bóginn runnið frá vinnuveitenda eða þriðja aðila skerðir það bæturnar, allt með tilliti til þess að tjónið verði fullbætt í samræmi við reglu skaðabótaréttarins.
    Nánar er vísað til athugasemdar við 4. mgr. 5. gr.
    

Um 3. gr.

    Þessa breytingu leiðir sjálfkrafa af breyttri tilhögun á greiðslum frá þriðja aðila.

Um 4. gr.

    Samkvæmt gildandi lögum er heimilt að ákveða bætur hærri en 4.000.000 kr. þó ekki hærri en 6.000.000 kr. Túlkun á þessu ákvæði hefur verið þröng og bundin við að tjónþolar hafi í raun meira en 100% örorku. Lögð er til rýmkun á þessu ákvæði þannig að þegar um sérstaka hækkun er að ræða sé hún ekki bundin við tjónþola sem hafa 100% örorku. Við lægra örorkustig skuli heimilt að ákveða hærri bætur þó ekki meira en 50% hærri en bætur samkvæmt metnu örorkustigi eru. Gert er ráð fyrir að heimild þessi sé notuð í undantekning­artilfellum og eru þá sérstaklega höfð í huga þau tilvik þegar um sérstaklega mikinn miska er að ræða, svo sem þegar brunaslys verða eða andlitslýti o.þ.h.
    Þá er lagt til að 5% lágmarkið í greininni verði fellt niður. Telji örorkunefnd að hægt sé að meta miska minni en 5% þá verður að telja rétt að bæta miska er af því leiðir.
    Í 2. mgr. 4. gr. gildandi skaðabótalaga segir að hafi tjónþoli verið 60 ára eða eldri þegar tjón varð skuli lækka bætur sem ákveðnar eru eftir 1. mgr. greinarinnar um 5% fyrir hvert aldursár tjónþola umfram 59, en bætur lækki þó ekki frekar eftir 69. aldursár tjónþola.
    Telja verður rök fyrir því að aldur tjónþola hafi áhrif á ákvörðun miskabóta. Hins vegar sýnist tæpast eðlilegt að lækkun bótanna fari fram á svo stuttu árabili og miða fremur við 50 ára aldur.
    Sé miðað við 50 ára aldur verður lækkunin nokkru minni en hún er nú eftur lögunum. Samkvæmt gildandi lögum eru miskabætur hjá 69 ára tjónþola með 100% örorku 2.000.000 kr. en yrðu 2.800.000 kr. miðað við tillöguna. Ef skerðingarprósentan væri 2% fyrir hvert ár yrðu miskabæturnar 2.400.000 kr. Væri skerðingarprósentan 1% fyrir hvert ár yrðu miskabæturnar við 70 ára aldur 3.200.000 kr.

Um 5. gr.

    Samræmi verður að vera á meðferð frádráttar á greiðslum þriðja manns frá bótum fyrir tímabundið atvinnutjón og bótum fyrir varanlega örorku. Sjónarmiðið sem hér er byggt á er hvaðan féð sem stendur undir bótunum er komið. Hafi tjónþolinn keypt trygginguna sjálfur kemur frádráttur á henni frá bótum ekki til, en sé hún keypt af vinnuveitanda eða þriðja aðila til hagsbóta tjónþola dregst hún frá. Þannig yrði það hlutfallið milli iðgjaldagreiðslna til lífeyrissjóðs eða sjúkrasjóða sem ákvarðaði þá hlutdeild í heildarbótum frá sjóðunum sem frá bótum fyrir varanlega örorku dragist. Hjá SAL-sjóðunum mun vinnuveitandi tíðast greiða 60% iðgjalds og launþegi 40%. Þetta yrði skiptihlutfallið í þessu dæmi. Upplýsingar um annað skiptihlutfall eiga jafnan að vera auðfengar.
    Til skýringar tillögunni í frumvarpsgreininni er rétt að taka fram: Samkvæmt tillögu að 6. gr. ber að miða bætur fyrir varanlega örorku sem aðalreglu við þriggja ára meðaltal vinnutekna. Þegar það er fengið skal frá því draga bætur frá lífeyrissjóði fyrir eitt ár eins og þær eru á útreikningsdegi. Þetta á aðeins við um örorkulífeyri en ekki þegar bætur eru greiddar með eingreiðslu. Síðan skal reikna út bætur fyrir örorku með viðkomandi margföldunarstuðli. Hafi lífeyrissjóðurinn eða viðkomandi aðili, t.d. almannatryggingar greitt bæturnar með eingreiðslu dregst hún frá þeirri fjárhæð bóta sem fékkst eftir margföld­un með stuðlinum.
    Þær nýju bætur sem lagt er til að dregnar verði frá örorkubótum samkvæmt skaðabótalög­unum eru fyrst og fremst bætur frá framangreindum sjóðum auk bóta samkvæmt lögum um almannatryggingar, nr. 117/1993, einkum 12. og 29. gr., svo og aðrar bætur sem jafna má til framangreinda bóta.
              

Um 6. gr.

    Hér er lagt til að skilgreining á árslaunum skv. 7. gr. gildandi laga verði færð inn í 6. gr. Samkvæmt gildandi lögum er ákveðið að árslaun teljist vera heildarvinnutekjur tjónþola á næst liðnu ári fyrir þann dag er tjón varð. Lagt er til að þessari viðmiðun verði breytt á þann veg að miðað verði við meðaltal heildarvinnutekna þriggja síðustu almanaksára fyrir tjón að teknu tilliti til launavísitölu. Rökin fyrir þessu eru þau að hjá venjulegum launþegum er þriggja ára viðmiðun öruggari mælikvarði til að meta framtíðartjón en eitt ár fyrir tjónsatburð. Sama heimild er í 2. málsl. 2. mgr. 6. gr. frumvarpsins og nú er í gildandi lögum til að taka tillit til breyttra tekna við ákvörðun árslauna til útreiknings bóta. Þegar líður á starfsævi fólks má búast við lækkandi tekjum, en til þessa er tekið tillit í 9. gr. laganna. Þriggja ára viðmiðun er einnig betur til þess fallin að jafna út tímabundnar sveiflur í tekjum tjónþola en eins árs viðmiðun fyrir tjónsatburð.
    Varðandi vinnutekjur telst rétt að fella hámarkið, 4.500.000 kr., niður með því að það samræmist miður skaðabótasjónarmiðum.

Um 7. gr.

    Með þessari frumvarpsgrein er ætlað að lögfesta nokkur meginsjónarmið við ákvörðun örorkubóta til heimavinnandi tjónþola, sem síðan yrðu skýrð og fyllt m.a. af dómstólum. Meginsjónarmiðið er að falla frá því að miða örorkubætur við varanlegan miska, en í stað þess að miða við laun ákveðinnar starfstéttar og fjölskyldustærð. Er það í betra samræmi við 3. mgr. 1. gr. laganna. Hér er lagt til að miðað verði við laun grunnskólakennara. Þessi viðmiðun ætti að jafnaði að vera nokkuð skýr. Álitaefni kann að vera við hvaða stétt beri að miða og er þetta hærri viðmiðun en notuð hefur verið í dómum. Ástæða þess er m.a. sú að uppeldisstarfið hefur síaukna þýðingu ásamt því að viðmiðunin í dómunum hefur verið lág. Þá má á það benda að þegar heimavinnandi tjónþolar hafa alið upp börn sín eru þeir alloft komnir á miðjan aldur og eiga ekki margra kosta völ á vinnumarkaðinum og síst af öllu ef þeir hafa orðið fyrir slysi.
    Viðmiðunin við föst laun grunnskólakennara miðast við ríflega meðalfjölskyldustærð eða fimm manns í heimili. Frávik varðandi þá stærð ber að meta til hækkunar eða lækkunar eins og segir í frumvarpsgreininni, fjögurra manna fjölskylda fengi bætur miðað við 80% af launum kennara, þriggja manna 60% og tveggja manna 40%. Ekki þykir gerlegt að taka hér með einstakling. Telst eðlilegast að draga mörkin eftir því hvort tjónþolinn hafi aðra en sjálfan sig að annast. Ekki er gert ráð fyrir að bætt verið meira en heilt ársstarf.
    Til hliðsjónar hér eru hafðir dómar og möt tryggingafræðinga, t.d. hrd: 1996:503 (517–518), 1002 (1005) og 1059 (1063).

Um 8. gr.

    Eins og í 7. gr. er hér reynt að skipta upp 8. gr. gildandi laga. Er það gert með því að taka ungmenni innan 18 ára aldurs í sérákvæði. Bætur til þeirra fari alveg eftir stöðlunum í núgildandi lögum, en bætur til ungmenna t.d. í Noregi eru staðlaðar. Rökrétt þykir að fella niður 10% lágmarkið á miskastig til samræmis við aðrar tillögur til breytinga á lögunum. Ekki teljast efni til að hafa hinar stöðluðu bætur ungmenna mismunandi eftir aldri þegar tjón á sér stað, þannig að t.d. fimm ára tjónþoli fengi lægri bætur en fimmtán ára tjónþoli vegna meiri ávöxtunarmöguleika þess yngra. Hér er á það að líta að yngri tjónþolinn yrði að öðru jöfnu að bera sitt tjón tíu árum lengur en sá eldri.
    

Um 9. gr.

    Það liggja margvíslegar ástæður til þess að fólk á enga eða takmarkaða tekjusögu og ógerningur er að sjá fyrir öll tilvik þar að lútandi. Staðlaðar bætur leiða ekki til hlutlægrar niðurstöðu í sumum tilvikum. Því er með ákvæðinu í 2. mgr. verið að opna leið, bæði fyrir tjónþola og tjónvald, til að fá einstaklingsbundið mat á bótum. Við mat bóta í slíkum tilvikum ber að taka tillit til allra aðstæðna.
    Ákvæði 4. mgr. greinarinnar er ætlað að stuðla að skýrari vinnubrögðum varðandi framtíðartekjutap sem afleiðingu af læknisfræðilega metinni örorku. Verulegur fjöldi bættra örorkutjóna eru lítil tjón. Þegar litið er til fylgni á milli hins læknisfræðilega örorkumats og vinnutekjutapsins þá minnkar hún verulega eftir því sem neðar dregur í örorkustiganum. Maður sem orðið hefur fyrir litlu örorkutjóni heldur gjarnan óbreyttum vinnutekjum þrátt fyrir það. Miska- og þjáningarbótum er ætlað að bæta aðrar afleiðingar en vinnutekjutap. Í dómum má víða lesa þá staðhæfingu að hafi örorkutap reiknað læknisfræðilega orðið um einhver prósent hafi aflahæfið rýrnað að sama skapi. Um of mikla alhæfingu er að ræða eins og erlendar rannsóknir muna sýna, sbr. einnig greinargerð með skaðabótalögunum. Þessu hefur verið svarað með því að setja reglur um að bæta ekki tjón fyrir ákveðna lágmarks­örorku og mati á fjárhagslegri örorku. Lágmarksreglan hefur ekki verið talin standast í öllum tilvikum, sbr. hrd. 4. júní 1998 í málinu nr. 317/1997. Að sjálfsögðu er þess að gæta að lítil læknisfræðileg örorka getur og hefur stundum haft áhrif á vinnutekjur tjónþola til lækkunar.
    Hér er lagt til að breytt verði að nokkru um verklag. Þegar læknisfræðileg örorka er 10% eða lægri verði því aðeins greitt fyrir framtíðarvinnutekjutap ef það er framkomið þegar ekki er að vænta frekari bata og fyrir liggi hlutlæg sönnun þar um en ekki verði byggt á huglægu mati hvort heldur er læknis eða annarra. Með hlutlægri sönnun er einkum litið til skoðunar læknis á þeim þáttum sem má mæla, mynda eða staðreyna með endurtekningu og ætti við um gróanda sára, beina, hreyfanleika liða, stærð og styrk vöðva og fleira af þessum toga. Komi vinnutekjutap síðar í ljós verði málið endurupptekið skv. 11. gr. Gagnvart tjónþola er það ekki ósanngjarnt þótt hann fái ekki tjónið bætt fyrir en það er áfallið.
    Varðandi 10% markið er m.a. höfð til hliðsjónar vegna lagasamræmis 6. mgr. 29. gr. laga nr. 117/1993 og 8. gr. skaðabótalaganna.

Um 10. gr.

    Örorkunefnd tók til starfa eftir gildistöku skaðabótalaganna árið 1993. Málum sem skotið er til nefndarinnar hefur stöðugt fjölgað. Vegna málafjöldans hefur álag á nefndina verið mjög mikið og afgreiðslutími mála lengst. Miklu skiptir fyrir málsaðila að enginn ónauðsynlegur dráttur verði á því að mat á afleiðingum líkamstjóns geti legið fyrir.
    Í því skyni að létta álagi af örorkunefnd er lagt til að 1. mgr. 10. gr. verði breytt þannig að horfði verið frá þeirri meginreglu að örorkunefnd sé matsaðili á fyrsta stigi. Aðalreglan verði sú að málsaðilar afli sjálfir sérfræðilegs álits um örorku- og/eða miskastig og þá læknisfræðilegu þætti sem meta þarf skv. 2. og 3. gr. laganna til þess að ljúka megi bótauppgjöri. Sérfræðilegt mat, sem annar málsaðila aflar, geti tjónþoli eða sá sem krafinn er bóta borið undir örorkunefnd. Með þessu breytist hlutverk örorkunefndar og verður hún fyrst og fremst matsaðili á síðari stigi. Áfram verður það meginhlutverk örorkunefndar að stuðla að því að viðunandi samræmi geti fengist um matsniðurstöður. Ætla má að til nefnd­arinnar verði einkum skotið þeim málum sem eru á einhvern hátt sérstök eða fordæmis­gefandi. Sætti annar málsaðili sig ekki við niðurstöður örorkunefndar getur hann freistað þess að fá henni breytt eða hrundið með því að leita til dómstóla.
    Þá er í frumvarpsgreininni jafnframt heimilað að skjóta til örorkunefndar sérfræðilegu áliti um þá læknisfræðilegu þætti sem um er getið í 2. og 3. gr. laganna. Slík heimild hefur ekki verið fyrir hendi til þessa.
    Frá aðalreglunni um að örorkunefnd komi ekki að málum á fyrsta stigi er gerð sú undantekning að málsaðilar geta sameiginlega óskað álits örorkunefndar um ákvörðun örorku- og/eða miskastigs án þess að áður liggi fyrir sérfræðilegt álit.
    Lagt er til að við 2. mgr. 10. gr. verði bætt heimild til ráðherra, að fenginni ósk örorku­nefndar, að fjölga tímabundið í nefndinni, í því skyni að tryggja að afgreiðsla mála dragist ekki. Málsgreinin er að öðru leyti óbreytt.
    Til þess að tryggja að örorkunefnd geti sem best sinnt samræmingarhlutverki sínu er nauðsynlegt að helstu niðurstöður verði gerðar aðgengilegar með birtingu. Gerð er tillaga um viðbót við 4. mgr. 10. gr. þess efnis að ráðherra skuli ákveða í reglugerð hvernig staðið skuli að birtingu helstu álitsgerða nefndarinnar.     

Um 11. gr.

    Varðandi skýringu á ákvæði þessu vísast til 8. gr.

Um 12. gr.

    Niðurfelling á tilvísun til 3. mgr. 7. gr. þarfnast ekki skýringar. Í ljósi breytinga á 6. gr. er lagt til að lokamálsliður 2. mgr. falli brott.

Um 13. gr.

    Lagt er til að vextir verði þeir sömu og miðað er við í afvöxtun margföldunarstuðulsins skv. 6. gr., þ.e. 4,5% á ári. Vakin skal athygli á því að vextir reiknast ekki af bótum fyrir varanlega örorku fyrr en frá upphafsdegi metinnar örorku, þ.e. því tímamarki þegar tímabundnu ástandi lýkur og við tekur mat á varanlegri örorku. Réttur til dráttarvaxta verður áfram samkvæmt vaxtalögum, sbr. 2. mgr. 16. gr. laganna.

Um 14. gr.

    Lögð er til breyting á 26. gr. gildandi skaðabótalaga. Megintilgangur með breytingu þessari er að gera rétt tjónþola til bóta vegna ófjárhagslegs tjóns skýrari, þannig að tjónþoli geti átt rétt á miskabótum vegna líkamstjóns óháð því hvernig atvik áttu sér. Nú sem í gildandi lögum þarf meingerð ekki að vera refsiverð né drýgð af illfýsni.
    Ákvæði norsku skaðabótalaganna eru höfð hér til hliðsjónar. Skilyrði bótaábyrgðarinnar samkvæmt ákvæðinu eru fremur þröng. Í fyrsta lagi verður tjónið að vera framið af ásetningi eða stórfelldu gáleysi. Einfalt gáleysi dugir ekki. Í öðru lagi er tjónvaldur einn ábyrgur fyrir greiðslu bótanna. Þannig kemur ekki til vinnuveitendaábyrgðar ef starfsmaður veldur tjóni. Í þriðja lagi er það tjónþoli sjálfur sem á rétt til greiðslu bótanna. Sé hann látinn geta börn hans, foreldrar eða maki/sambúðarmaki krafist bótanna.
    Séu skilyrði bótaábyrgðar fyrir hendi getur tjónþoli hvort sem er átt rétt á bótum sjálfstætt samkvæmt ákvæði þessu eða til viðbótar bótum skv. 3. og 4. gr. skaðabótalaganna.
    Fjárhæð bóta er matskennd og fer eftir hvað sanngjarnt þykir í hverju tilfelli. Þá skal meðal annars hafa í huga umfang tjónsins, sök tjónvaldsins og fjárhagslega getu hans. Séu börn fórnarlömb kynferðisbrota ber að líta til þess hversu alvarlegar afleiðingar brot hafa fyrir þau, svo og eðli verknaðarins, hversu lengi misnotkunin hefur varað og hvort um misnotkun ættartengsla eða trúnaðartengsla eða þess háttar sé að ræða. Slíkt á ekki að verka til lækkunar bóta.
    Í 2. mgr. ákvæðisins er það nýmæli að maki og börn geta átt rétt á bótum úr hendi þess sem valdur er að dauða annars manns með ásetningi eða stórfelldu gáleysi. Sé þeim ekki til að dreifa geta foreldrar átt rétt. Varðandi fjárhæð bóta er gert ráð fyrir því að henni sé stillt í hóf þar sem taka verður tillit til fjárhagslegrar getu tjónsvalds auk þess sem augljóst er að aldrei er með peningum hægt að bæta aðstandendum miska þann sem hér um ræðir.

Um 15. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Reykjavík 31. ágúst 1998
Sigrún Guðmundsdóttir hrl.



Fskj. 1.


(1 síða mynduð)

Beztu kveðjur,
Bjarni Þórðarson
tryggingastærðfræðingur.

(11 síður myndaðar)


Fskj. 2.

Úr ársskýrslu Vátryggingaeftirlitsins 1987–95, nr. 14–22.
(Mars 1996.)

(2 síður myndaðar)



Fskj. 3.



Úr ársskýrslu Vátryggingaeftirlitsins 1996, nr. 23.
(Desember 1997.)


(1 síða mynduð)


Fylgiskjal III.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu
á skaðabótalögum, nr. 50 19. maí 1993, sbr. lög nr. 42 13. maí 1996.

    Samkvæmt lögum er dómsmálaráðherra skylt að láta fara fram endurskoðun á skaðabótalögum. Frumvarp þetta er samið af ráðherraskipaðri nefnd sem falið var það hlutverk.
    Breyting á bótafjárhæðum samkvæmt skaðabótalögum getur haft óbein áhrif á útgjöld ríkissjóðs vegna tryggingaiðgjalda. Að mati nefndarinnar munu bótafjárhæðir hækka en ekki er ljóst hvort það muni leiða til breytinga á iðgjöldum. Nefndinni hefur ekki tekist að fá tryggingafræðilegt mat á því vegna skorts á upplýsingum.
    Í 9. gr. frumvarpsins eru lagðar til breytingar á starfi örorkunefndar sem leiða munu til þess að færri mál verða til meðferðar hjá nefndinni og þar með lægri kostnaðar. Skylt er að greiða fyrir mat nefndarinnar og hafa þau gjöld staðið undir kostnaði við starf hennar. Framangreindar breytingar munu valda því að tekjur lækka og eru heildaráhrif því engin á ríkissjóð.
     1 Dr. Atli Þór Ólason, Tímarit lögfræðinga, 4. hefti 1997, bls. 259–285.
     2 Jón Erlingur Þorláksson, Slysabætur og íslensk skaðabótalög, bls. 42–43.
     3 Margfeldisstuðullinn í frumvarpinu er reiknaður út af Sigurði Frey Jónatanssyni cand. act. Forsendur útreikningsins koma nánar fram í bréfi hans til nefndarinnar á fskj. 16.
     4 Um aldursleiðréttingarstuðulinn vísast til álitsgerðar Gests Jónssonar og Gunnlaugs Claessen frá árinu 1995, Alþingistíðindi 1995–96, A-deild, bls. 3294 o.áfr.
     5 Alþingistíðindi 1995–96, A-deild, bls. 3341 .
     6 Viðar Már Matthíasson prófessor, Úlfljótur 2. tbl. 1998, bls.192.
     7 Alþingistíðindi 1992–93, A-deild, bls. 3622.
     8 Álitsgerðin er birt í heild sinni ásamt lagafrumvarpinu sem fylgiskjal með frumvarpi til laga nr. 42/1996, um breytingu á skaðabótalögum. Alþingistíðindi 1995–96, A-deild, bls. 3294 o.áfr.
     9 Upplýsingar örorkunefndar frá 31. ágúst 1998, sjá fskj. 1.
     10 Sjá fskj. 2.
     11 Sjá fskj. 3.
     12 Sjá fskj. 4.
     13 Sjá fskj. 5.
     14 Sjá fskj. 6.
     15 Sjá fskj. 7.
     16 Sjá fskj. 8.
     17 Sjá fskj. 9.
     18 Sjá bréf dags. 15. janúar 1998, fskj. 10.
     19 Sjá bréf dags. 13. febrúar 1998, 18. febrúar 1998 og 31. mars 1998, fskj. 11–13.
     20 Sjá fskj. 14.
     21 Sjá fskj. 15.