Ferill 195. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 212  —  195. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um eflingu internetsamvinnu skóla á Vestur-Norðurlöndum.

Flm.: Ísólfur Gylfi Pálmason, Ásta R. Jóhannesdóttir, Svavar Gestsson,


Árni Johnsen, Ólafur G. Einarsson, Guðný Guðbjörnsdóttir.


    Alþingi ályktar að fela menntamálaráðherra Íslands, í samvinnu við menntamálaráðherra Færeyja og Grænlands, að hvetja til og beita sér fyrir aukinni samvinnu skóla í löndunum þremur varðandi samskipti og samvinnu á internetinu.

Greinargerð.


    Miklar vegalengdir hafa hingað til sett samvinnu Vestur-Norðurlandanna þröngar skorður. Samgöngur á milli Íslands, Færeyja og Grænlands hafa bæði verið stopular og kostnaðarsam­ar, sem háð hefur efnahagslegu og menningarlegu samstarfi þjóðanna. Þetta kann að vera að breytast. Samskiptatækni hefur beinlínis fleygt fram síðustu ár og gert að engu vegalengdir á láði og legi sem áður torvelduðu samskipti. Þetta gildir sérstaklega um Vestur-Norðurlönd, sem hafa í miklum mæli tileinkað sér þessa nýju tækni. Ný samskiptatækni felur því í sér möguleika á að styrkja samstarf landanna og vestnorræna vitund, m.a. með því að efla sam­starf skóla á Vestur-Norðurlöndum.
    Ljóst er að internetið er samskipta- og fjölmiðill sem mun hafa varanleg áhrif á komandi árum og ber vestnorræni samvinnu að færa sér það í nyt. Rökin fyrir því að efla internetsam­vinnu skóla á Vestur-Norðurlöndum eru fjölmörg. Með því að vinna sjálfstætt á internetinu læra nememdur að umgangast þessa nýju tækni og beita henni í leik og starfi. Á þann hátt vinnur skólinn gegn tölvufælni nemenda og ótta við tækninýjungar, og eykur færni þeirra í framtíðinni. Internetið býður enn fremur upp á nýja möguleika og aðferðir í kennslustarfi, sem auka fjölbreytni náms, bæði fyrir nemendur og kennara. Þá felast í internetinu tækifæri fyrir skólana til að komast í samband við aðra skóla í veröldinni og koma á fjölbreytilegu samstarfi.
    Hér er lagt til að vestnorræn skólasamvinna sé efld þannig að komið verði á sambandi þeirra skóla í löndunum sem óska eftir því að standa að samvinnuverkefni á internetinu um efni að eigin vali. Þannig mundi verkefnið geta aukið skilning og þekkingu nemenda á lífi og viðhorfum hvers annars, stuðlað að betri þekkingu á norrænum tungumálum og síðast en ekki síst leitt til þess að ungt fólk í löndunum hefði tækifæri til þess að kynnast og efla sam­skipti og vináttu sín á milli.
    Því er lagt til að menntamálaráðherrar Íslands, Færeyja og Grænlands hvetji til og beiti sér fyrir aukinni internetsamvinnu skóla í löndunum þremur.