Ferill 223. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 250  —  223. mál.




Frumvarp til laga



um breytingar á lögum um Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins, nr. 61/1997, með síðari breyting­um.

(Lagt fyrir Alþingi á 123. löggjafarþingi 1998–99.)

1. gr.

    Við 7. gr. laganna bætist ný málsgrein sem orðast svo:
    Eigið fé vöruþróunar- og markaðsdeildar Nýsköpunarsjóðs skal varðveitt í sérstakri deild sem haldið skal aðgreindri í bókhaldi og reikningum sjóðsins. Deildin skal veita framlög til þróunar- og markaðsverkefna samkvæmt reglum sem stjórn sjóðsins setur og staðfestar eru af ráðherra. Þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. 9. gr. er árlega heimilt að verja hluta höfuðstólsins til sömu verkefna.

2. gr.

    5. mgr. ákvæðis til bráðabirgða með lögunum fellur brott.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Markmiðið með sérstakri varðveislu vöruþróunar- og markaðsdeildar hjá Nýsköpunar­sjóði var að koma til móts við sjónarmið iðnaðarins um eignarhald á því fé sem innheimt hafði verið með iðnlánasjóðsgjaldi um margra ára skeið og varðveitt var í vöruþróunar- og markaðsdeild Iðnlánasjóðs. Gert var ráð fyrir að á fyrstu þremur starfsárum Nýsköpunar­sjóðs yrði þessum eignum deildarinnar ráðstafað í sérstök framlög til vöruþróunar- og mark­aðsaðgerða samkvæmt ákveðnum reglum. Að þeim tíma liðnum yrði deildin lögð niður og óráðstafaðar eignir lagðar til almennrar starfsemi Nýsköpunarsjóðsins.
    Sú reynsla sem fengin er af starfsemi Nýsköpunarsjóðs og vöruþróunar- og markaðsdeild­ar hans sérstaklega hefur sýnt að veruleg ástæða er til að efla þann hluta starfseminnar sem lýtur að stuðningi við hagnýtar rannsóknir, frumstig vöruþróunar og forkönnun markaðssetn­ingar. Slíkar stuðningsaðgerðir hafa einkum reynst vel þegar um þær hefur verið búið í sér­hæfðum verkefnum sem hafa skýr markmið og verklagsreglur. Verkefni af þessu tagi eru þess
eðlis að ekki er að vænta af þeim beins arðs eða endurgreiðslu fjárframlaga, enda þótt ætla megi að þau leiði til arðsamra fjárfestinga eða framleiðslu síðar meir.



Prentað upp.

    Vöruþróunar- og markaðsdeild Nýsköpunarsjóðs hefur stutt samstarfsverkefni á vegum opinberra aðila og annarra sem markvisst vinna að framgangi nýsköpunar í atvinnulífinu. Ekki er gert ráð fyrir að breyting verði á því og áfram verði ráðstöfun framlaga sjóðsins til verkefna af þessu tagi fyrst og fremst í höndum annarra aðila eða í samvinnu við þá.
    Reynslan af rekstri sérsniðinna stuðningsverkefna fyrir atvinnulífið er mjög góð, einkum þegar saman fer fagleg leiðsögn, þekkingarmiðlun og stuðningsfé. Skiptir þá beinn fjárstuðn­ingur, við fyrirtæki eða einstaklinga, oft ekki meginmáli en er engu síður mjög mikilvægur þáttur í því að tryggja farsæla niðurstöðu stuðningsaðgerðanna.
    Í ljósi þessa er talið mikilvægt að áfram verði unnt að reka sérhæfðar stuðningsaðgerðir fyrir atvinnulífið með því fé sem verið hefur til ráðstöfunar til þessa málaflokks í sjóðum at­vinnuveganna á síðastliðnum árum. Þrátt fyrir sérstaka forsögu vöruþróunar- og markaðs­deildar er ekki gert ráð fyrir að ráðstöfun fjár úr deildinni einskorðist við verkefni sem tengj­ast iðnaði. Megináhersla verði lögð á frjó verkefni er leitt geti til raunverulegrar nýsköpunar í atvinnulífinu og bætt stöðu þess í alþjóðlegu samkeppnisumhverfi.
    Með hliðsjón af framansögðu er lagt til að horfið verði frá fyrri áformum um að ráðstafa eigin fé deildarinnar á þremur árum, en í stað þess við það miðað að um óákveðinn tíma verði höfuðstóll deildarinnar ávaxtaður með hámarksávöxtun. Árlegt ráðstöfunarfé deildar­innar verði fyrst og fremst arður af höfuðstól hennar, en auk þess hluti höfuðstólsins sem stjórn ákveður á hverjum tíma að verja til sérstakra stuðningsaðgerða fyrir atvinnulífið.
    Þrátt fyrir þessa breytingu á vöruþróunar- og markaðsdeild Nýsköpunarsjóðs er ekki gert ráð fyrir að breytingar verði á þeirri starfsemi stofnsjóðs Nýsköpunarsjóðs að veita sérstaka styrki til forathugana, þróunarverkefna og kynningarverkefna. Frekar er um það að ræða að treysta í sessi það samstarf sem verið hefur á milli stofnsjóðsins og vöruþróunar- og mark­aðsdeildarinnnar.
    Í 1. gr. frumvarpsins er kveðið á um ótímabundið hlutverk deildarinnar. Veitt er heimild til að víkja frá almennum ákvæðum um varðveislu fjár Nýsköpunarsjóðs, en í 2. mgr. 9. gr. laga um Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins er tekið fram að sjóðnum sé óheimilt að ganga á stofnfé sitt. Verkefnisstjórn vöruþróunar- og markaðsdeildarinnar og stjórn Nýsköpunar­sjóðs geta sameiginlega ákveðið að árlegt ráðstöfunarfé deildarinnar sé ekki bundið við ávöxtun höfuðstólsins heldur hvort og hversu hratt verði gengið á þann höfuðstól. Ástæðan fyrir þessu er einkum sú að þörfin fyrir stuðning deildarinnar getur verið breytileg frá ári til árs. Það getur m.a. verið háð því hversu frjótt nýsköpunarstarfið er í þjóðfélaginu á hverjum tíma og einnig öðrum þeim stuðningi sem fyrirtækjum og einstaklingum stendur til boða.
    Í 2. gr. frumvarpsins er 5. mgr. ákvæðis til bráðabirgða felld brott en ákvæðið stendur að öðru leyti óbreytt. Í þessu felst að horfið er frá því að stjórn vöruþróunar- og markaðsdeildar Nýsköpunarsjóðs ráðstafi eignum deildarinnar í þrjú ár og deildin lögð niður að þeim tíma liðnum.

Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Frumvarp til laga um breytingar á lögum um Nýsköpunarsjóð
atvinnulífsins, nr. 61/1997, með síðari breytingum.

    Með frumvarpinu er tímabundið ákvæði um vöruþróunar- og markaðsdeild gert varanlegt. Í stað þess að óráðstafaðar eignir deildarinnar verði lagðar til almennrar starfsemi Nýsköp­unarsjóðs er ráðgert að höfuðstóll deildarinnar verði ávaxtaður og arðinum, auk hluta af höf­uðstól, verði ráðstafað til stuðningsaðgerða fyrir atvinnulífið. Frumvarpið mun ekki hafa bein áhrif á útgjöld ríkissjóðs, en eigið fé Nýsköpunarsjóðs mun verða minna en nemur ráð­stöfun á höfuðstól deildarinnar.