Ferill 278. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 318  —  278. mál.




Frumvarp til laga



um breyting á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 123. löggjafarþingi 1998–99.)


1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 2. mgr. 8. gr. laganna:
     a.      Við 1. tölul. bætist nýr málsliður er orðast svo: Þó skulu vextir af reikningum þar sem höfuðstóll og vextir eru bundnir til lengri tíma en 36 mánaða ekki teljast til tekna fyrr en þeir eru greiddir eða greiðslukræfir.
     b.      Við bætist nýr töluliður er orðast svo: Vextir, verðbætur og önnur ávöxtun af lífeyrissparnaði samkvæmt lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyris­sjóða teljast til tekna sem lífeyrir skv. A-lið 7. gr. þegar slíkar greiðslur eru greiddar út.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 9. gr. laganna:
     a.      Við 1. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Til arðs telst ekki úthlutun jöfnunarhlutabréfa samkvæmt lögum um einkahlutafélög og lögum um hlutafélög sem hafa ekki í för með sér breytta eignarhlutdeild hlutareiganda eða hluthafa í hlutafélagi og teljast því ekki til skattskyldra tekna hlutareigandans.
     b.      Við greinina bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                  Nú er félagi slitið án þess að um sameiningu félaga sé að ræða, sbr. 56. gr., og skal þá teljast til arðs úthlutun við félagsslit sem er umfram kaupverð bréfanna. Einnig telst til arðs lækkun hlutafjár, sem er greidd út til hluthafa, umfram kaupverð. Hafi aðili eign­ast hlutabréfin fyrir árslok 1996 er honum heimilt að miða við upphaflegt kaupverð hlutabréfanna þegar það hefur verið hækkað samkvæmt verðbreytingarstuðli skv. 26. gr. til ársloka 1996 eða jöfnunarverðmæti hlutabréfanna, sbr. 3. mgr. 17. gr., sé það hærra.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 17. gr. laganna:
     a.      Við 1. málsl. 2. mgr. bætist: sbr. þó 4. mgr.
     b.      Á eftir 2. mgr. koma tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
                  Jöfnunarverðmæti hlutabréfa hjá þeim félögum sem skráð voru, sbr. 1. tölul. 2. gr. í árslok 1996, skal vera nafnverð hlutabréfanna í árslok 1996 að viðbættri þeirri fjárhæð sem heimilt væri að gefa út af jöfnunarhlutabréfum samkvæmt þeim reglum sem giltu


Prentað upp.

         í árslok 1996. Hafi hlutafélag ekki gefið út jöfnunarhlutabréf eða, ef um einkahluta­félag er að ræða, tilkynnt nýtt nafnverð til hlutafélagaskrár, eða gert skattstjóra grein fyrir útreikningi jöfnunarverðmætis í síðasta lagi í árslok 1999, skal jöfnunarverðmætið við sölu bréfanna vera nafnverð hlutabréfanna í árslok 1996. Jöfnunarverðmætið skv. 1. og 2. málsl. skal árlega tilgreina á skattframtali hlutafélagsins og hlutafjármiðum.
                  Við sölu á hlutabréfum, sem seljandi hefur eignast fyrir árslok 1996, skal skattskyld­ur söluhagnaður vera söluverð bréfanna að frádregnu jöfnunarverðmæti þeirra, sbr. 3. mgr., eða upphaflegu kaupverði hlutabréfanna þegar það hefur verið hækkað samkvæmt verðbreytingarstuðli skv. 26. gr. til ársloka 1996 ef það er hærra.
     c.      3. mgr. fellur brott.

4. gr.

    Við 1. tölul. 28. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Þetta á þó ekki við um þann hluta lífeyrissparnaðar sem fellur til erfingja samkvæmt lögum um skyldutryggingu líf­eyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

5. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 30. gr. laganna:
     a.      3. tölul. A-liðar orðast svo: Tekjur skv. 4. tölul. A-liðar 7. gr. sem skattfrjálsar eru samkvæmt sérlögum eða vinninga í happdrættum sem fengið hafa leyfi dómsmálaráðuneytis­ins, enda sé öllum ágóða af þeim varið til menningarmála, mannúðarmála eða kirkju­legrar starfsemi og ríkisskattstjóri hefur staðfest að uppfylli skilyrði þessa töluliðar.
     b.      1. tölul. B-liðar orðast svo: Fé sem varið er til aukningar á fjárfestingu í innlendum hlutabréfum á árunum 1998–2002 samkvæmt þessum tölulið.
                  Frádráttur skv. 1. mgr. skal miðast við fjárfestingu á hverju ári og vera 60% af verð­mæti keyptra hlutabréfa umfram verðmæti seldra hlutabréfa, en þó aldrei hærri en 80.000 kr. hjá einstaklingi og 160.000 kr. hjá hjónum.
                  Til keyptra hlutabréfa skv. 2. mgr. teljast einungis hlutabréf í félögum sem uppfylla skilyrði 5. mgr. og ríkisskattstjóri hefur staðfest eða hlutabréf í félögum sem skráð eru á Verðbréfaþingi Íslands.
                  Það er skilyrði frádráttar skv. 1. mgr. að maður eigi viðkomandi hlutabréf yfir fimm áramót og geri árlega grein fyrir eignarhaldi þeirra. Þó skal skilyrðið um þriggja ára eignarhaldstíma samkvæmt lögum nr. 136/1996 halda gildi sína fyrir þá sem nutu frá­dráttar samkvæmt þeim lögum vegna fjárfestingar í atvinnurekstri. Selji hann bréfin inn­an þess tíma færist nýttur frádráttur til tekna á söluári viðkomandi hlutabréfa. Ekki skal þó beita ákvæði um tekjufærslu frádráttar ef maður kaupir á sama ári önnur hlutabréf í innlendu hlutafélagi fyrir a.m.k. sömu fjárhæð og söluverð hinna seldu hlutabréfa var og félagið uppfyllir skilyrði þessa töluliðar. Sé kaupverðið lægra skal ákvæði 2. málsl. eiga við um mismuninn. Reglur þessarar málsgreinar eiga jafnframt við um kaup og sölu hlutabréfa fyrir gildistöku laga þessara.
                  Frádráttur samkvæmt þessum tölulið er bundinn því skilyrði að um sé að ræða kaup á hlutabréfum í félagi með hlutafé a.m.k. að fjárhæð 22.000.000 kr., fjöldi hluthafa sé a.m.k. 25, engar hömlur séu lagðar á viðskipti með hlutabréf félagsins og ársreikningar þess öllum aðgengilegir. Hlutafélag, sem ekki er skráð á Verðbréfaþingi Íslands, skal innan fimm mánaða frá lokum hvers reikningsárs senda ríkisskattstjóra ársreikning sinn fyrir næstliðið reikningsár. Ríkisskattstjóri skal árlega veita þeim hlutafélögum stað­festingu um að skilyrðum þessa töluliðar sé fullnægt.
                  Ríkisskattstjóri getur heimilað frádrátt frá tekjum samkvæmt þessum tölulið þótt skilyrðum 5. mgr. hafi ekki verið fullnægt í árslok þegar um félag er að ræða sem stofn­að var á árinu og fyrir liggur yfirlýsing þess um að stefnt sé að því að skilyrðum verði fullnægt innan árs frá því að sala hlutabréfa hófst. Einnig getur ríkisskattstjóri heimilað frádrátt frá tekjum samkvæmt þessum tölulið þótt skilyrðum 5. mgr. sé ekki fullnægt þegar um er að ræða starfandi hlutafélag sem er að auka hlutafé sitt eða hluthafafjölda. Til að ríkisskattstjóri veiti slíku hlutafélagi staðfestingu þarf að liggja fyrir yfirlýsing frá stjórn hlutafélagsins og gögn er geri það líklegt að skilyrðum verði fullnægt innan árs frá því að ákvörðun var tekin um hlutafjáraukningu eða fjölgun hluthafa.
                  Reglur þessa töluliðar skulu gilda á sama hátt um samvinnuhlutabréf og stofnfjárbréf í sparisjóðum, enda sé útboð slíkra stofnfjárbréfa opið fyrir alla einstaklinga sem eiga lögheimili á starfssvæði viðkomandi sparisjóðs og það staðfest af ríkisskattstjóra.
                  Ekki er heimilt að flytja á milli ára og nýta sem frádrátt það sem fjárfest er umfram hámark á hverju ári skv. 2. mgr. þessa töluliðar.
                  Frádráttur samkvæmt þessum tölulið heimilast frá tekjum skv. A- og B-lið 7. gr.
                  Fjármálaráðherra getur með reglugerð sett nánari ákvæði um framkvæmd frádráttar samkvæmt þessum tölulið.

6. gr.

    Á eftir 57. gr. A laganna kemur ný grein, 57. gr. B, með fyrirsögninni Samsköttun hlutafélaga, svohljóðandi:
    Skattstjóri getur heimilað að eitt eða fleiri hlutafélög, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 2. gr., séu skattlögð saman. Skilyrði samsköttunar eru að eigi minna en 90% hlutafjár í dótturfélögum sé í eigu móðurfélagsins sem óskar samsköttunar eða annarra dótturfélaga sem einnig taka þátt í samsköttuninni. Jafnframt hafi öll hlutafélögin sama reikningsár og eignarhald hafi varað allt reikningsárið, nema þegar um nýstofnuð dótturfélög er að ræða eða slit á dóttur­félagi. Ef samsköttun er slitið er ekki heimilt að fallast á hana að nýju.
    Umsókn um samsköttun skal beint til skattstjóra í því skattumdæmi þar sem móðurfélag er heimilisfast eigi síðar en þrjátíu dögum fyrir lok framtalsfrests vegna þess tekjuárs sem óskað er eftir að verði samskattað.
    Við samsköttun skal tekjuskattur af sameiginlegum tekjuskattsstofni allra hlutafélaga sem taka þátt í samsköttuninni lagður á móðurfélagið en öll hlutafélögin bera sameiginlega ábyrgð á skattgreiðslum. Þó er skattstjóra heimilt að leggja tekjuskatt á hvert og eitt félag óski hlutafélögin í samsköttun sérstaklega eftir því.
    Tap sem verður á rekstri eins eða fleiri samskattaðra hlutafélaga má draga frá tekjum hinna áður en tekjuskattur er reiknaður. Þó skal viðkomandi tekjuár ávallt gert upp áður en tekið er tillit til yfirfæranlegs taps fyrri ára. Yfirfæranlegt tap hlutafélags sem stafar af rekstri frá því fyrir samsköttun má aðeins nýta í því félagi. Þó er heimilt að nýta yfirfæran­legt tap sem varð til fyrir samsköttun ef skilyrði 1. mgr. eru til staðar við gildistöku laga þessara og ef uppfyllt eru öll skilyrði 57. gr. A, um sameiningu félaga.
    Fjármálaráðherra er heimilt að setja í reglugerð nánari reglur um samsköttun móður- og dótturfélaga, svo sem um nýtingu taps á milli félaga.

7. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 3. mgr. 67. gr. laganna:
     c.      Orðin „t.d. við slit félags og lækkun hlutafjár“ í 3. málsl. falla brott.
     d.      Við málsgreinina bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Reglur 3. og 4. málsl. þessarar málsgreinar um hámörk og skatthlutfall skulu einnig gilda við ákvörðun skatts á arð sem greiddur er út við slit félags og lækkun hlutafjár.


8. gr.

    4. málsl. 2. mgr. A-liðar 68 gr. laganna orðast svo: Af þeim persónuafslætti sem þá er óráðstafað skal 10/ 38 hlutum ráðstafað til að greiða tekjuskatt sem lagður er á fjármagnstekjur, sbr. 3. mgr. 67. gr.


9. gr.

    120. gr. laganna fellur brott.

10. gr.

    Ákvæði til bráðabirgða XXV með lögunum, sbr. ákvæði til bráðabirgða II með lögum nr. 97/1996, orðast svo:
    Gera skal grein fyrir útreikningi jöfnunarverðmætis hlutabréfa skv. 3. mgr. 17. gr. í síð­asta lagi í árslok 1999. Skattstjóri skal staðfesta útreikninginn.
    Ríkisskattstjóri skal gefa út reglur og útbúa eyðublöð til notkunar við ákvörðun jöfnunar­verðmætis.

11. gr.

    Í stað orðanna „17., 30., 41.“ í ákvæði til bráðabirgða XXXVI með lögunum, sbr. f-lið 5. gr. laga nr. 65/1997, kemur: 17. gr., 2. tölul. B-liðar 30. gr., 41. gr.

12. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi og koma til framkvæmda við álagningu árið 1999 vegna tekna á árinu 1998. Þó skulu ákvæði 8. gr. koma til framkvæmda við álagningu árið 2000 vegna tekna á árinu 1999. Við gildistöku laganna falla úr gildi lög nr. 9/1984, um frádrátt frá skatt­skyldum tekjum vegna fjárfestingar manna í atvinnurekstri, með síðari breytingum.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


Inngangur.

    Í frumvarpi þessu eru lagðar til nokkrar breytingar á lögum um tekjuskatt og eignarskatt. Af þeim eru það einkum tvær sem telja má mikilvægar með tilliti til skattlagningar. Annars vegar eru það reglur sem snerta skattlagningu jöfnunarhlutabréfa þar sem lagt er til að af­nema ákvæði um skattlagningu við útgáfu bréfanna þegar ekki er um að ræða breytingu á eignarhlutdeild hlutareiganda eða hluthafa. Hins vegar eru ný ákvæði sem heimila samskött­un móður- og dótturfélaga innan ákveðinna marka. Auk þess eru í frumvarpinu tillögur um aðrar breytingar á lögunum, sem miða að því að færa ýmis ákvæði þeirra til betra horfs, m.a. með tilliti til breytinga sem orðið hafa að undanförnu á öðrum sviðum sem lögin snerta.

Afnám skattlagningar jöfnunarhlutabréfa.

    Á árunum 1921 til 1962 var úthlutun jöfnunarhlutabréfa skattlögð sem arður. Hagnaður af sölu lausafjár, þ.m.t. hlutabréfa, var þá undanþeginn skattlagningu ef eignin hafði verið í eigu manna í meira en þrjú ár og menn höfðu ekki eignast hana í því skyni að selja hana aftur með hagnaði. Með lögum nr. 70/1962 var úthlutun jöfnunarhlutabréfa fyrst undanþegin greiðslu tekjuskatts. Í athugasemdum með frumvarpi að lögunum segir: „Víðast hvar er nú heimilað að hlutafélög gefi út jöfnunarhlutabréf til hluthafa, án þess að það sé talið skattskylt hjá félaginu eða hluthöfum. Að sjálfsögðu byggist sú úthlutun á því, að verðmæti sé til fyrir henni í sjóðum félagsins eða öðrum eignum umfram skráð hlutafé, þegar úthlut­un fer fram. Með þessu móti er ekki verið að gefa hluthöfum nokkur verðmæti. Sérhver hluthafi á nákvæmlega jafnmikinn hlut í fyrirtækinu eftir sem áður.“
    Með lögum nr. 40/1978, en ákvæði þeirra voru tekin upp í lögum nr. 75/1981, voru jöfn­unarhlutabréf tekjuskattsfrjáls ef útgáfa þeirra var innan tiltekinna marka og útgáfan hafði ekki í för með sér breytta eignarhlutdeild í félaginu. Við útreikning á söluhagnaði var hlut­höfum einnig heimilt að miða við framreiknað kaupverð eða nafnverð hlutabréfa að viðbætt­um þeim jöfnunarhlutabréfum sem heimilt hefði verið að gefa út.
    Með lögum nr. 97/1996 var ákvæðum í 17. gr. laga nr. 75/1981, um útreikning á sölu­hagnaði hlutabréfa, breytt þannig að söluhagnaður hlutabréfa yrði söluverð að frádregnu kaupverði. Þeir sem eignast hafa hlutabréf sín fyrir 1. janúar 1997 mega þó miða við fram­reiknað kaupverð til ársloka 1996 eða jöfnunarverðmæti hlutabréfanna sé það hærra. Breyt­ing þessi leiddi til þess að útgáfa jöfnunarhlutabréfa hafði ekki lengur áhrif á útreikning söluhagnaðar. Með lögum nr. 95/1998, um breyting á lögum um tekjuskatt og eignarskatt, var frádráttarheimild vegna úthlutaðs arðs felld niður og hefur nafnverð hlutafjár því ekki lengur áhrif á frádráttarheimildir félags á móti tekjum. Allar hafa þessar breytingar leitt til þess að engin skattaleg rök hníga að því að takmarka heimildir til útgáfu jöfnunarhlutabréfa umfram það sem kveðið er á um í lögum um hlutafélög og einkahlutafélög. Með tilliti til þessa er því í a-lið 2. gr. frumvarpsins lagt til að útgáfa jöfnunarhlutabréfa verði í öllum til­vikum skattfrjáls ef úthlutunin hefur ekki í för með sér breytta eignarhlutdeild hlutareigenda eða hluthafa.

Samsköttun móður- og dótturfélaga.

    Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar sem fela í sér heimild til samsköttunar móður- og dótturfélags að uppfylltum vissum skilyrðum. Markmiðið með þessari breytingu er að gera móður- og dótturfélögum kleift að vera ein skattaleg eining þannig að heildartekjuskattur allra félaganna verði ekki hærri en hann hefði orðið ef öll starfsemi félaganna hefði verið rekin í einu félagi. Þannig mun við samsköttun verða unnt að nýta hagnað sem verður á rekstrarárinu hjá einu félaganna til að jafna tap sem verður hjá öðru félagi á sama rekstrarári. Eru þær reglur sem lagðar eru til að mestu leyti sniðnar eftir dönskum reglum um sama efni.

Aðrar breytingar.

    Í fyrsta lagi er lögð til breyting í þá veru að ávöxtun langtímasparnaðar í formi innlánsreikninga verði skattlögð í lok binditíma sparnaðarins en ekki á því tímamarki þegar vextir eða önnur ávöxtun er færð eiganda reiknings til eignar. Þessi regla gildir nú við skattlagn­ingu ávöxtunar á kúlubréfum. Með þessu ákvæði er afnumin sú mismunun sem núgildandi lög hafa leitt til að því er tímamark skattlagningar á fjármagnstekjurnar varðar.
    Í öðru lagi er lagt til að það verði tekið fram í lögunum að greiðslur til erfingja samkvæmt lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda, séu skattlagðar hjá erfingjum. Þar sem greiðslur í sjóðina eru frádráttarbærar frá skattskyldum tekjum er eðlilegt að þær greiðslur verði skattlagðar hjá móttakanda þegar þær koma til útborgunar.
    Í þriðja lagi er lagt til að breytt verði reglum um undanþágu vinninga í happdrætti frá skattskyldu þegar allur ágóði af happdrættinu rennur til menningarmála, mannúðarmála eða kirkjulegrar starfsemi. Í stað þess að hafa í lögum heimild fjármálaráðherra til niðurfellingar er lagt til að í lögunum verði kveðið á um að vinningar í happdrætti, sem uppfylla skilyrði laganna, verði frádráttarbærir frá tekjum.
    Í fjórða lagi eru breytingar sem snerta frádrátt frá tekjum vegna fjárfestingar manna í hlutabréfum. Á árinu 1996 var ákveðið að fella niður í áföngum sérstakan afslátt frá skatt­skyldum tekjum vegna hlutabréfakaupa einstaklinga. Með óbreyttum reglum mun frádráttur­inn heyra sögunni til eftir árið 2000. Hlutabréfaafslátturinn var frá upphafi hugsaður sem tímabundin ívilnun til að efla íslenska hlutabréfamarkaðinn og áhuga almennings á hluta­bréfaeign. Talið er að sem tímabundin aðgerð geti hlutabréfaafsláttur orðið til að efla tengsl almennings og atvinnulífs og stuðlað að auknum sparnaði. Því er hér lagt til að afslátturinn verði framlengdur til ársloka 2002. Helstu breytingar sem gerðar eru frá núgildandi reglum eru að nú þarf eignarhald keyptra hlutabréfa að vara í fimm ár í stað þriggja og heimilt er að draga frá 60% af verðmæti keyptra hlutabréfa í stað 40% og er því fallið frá lækkun frádrátt­arins í áföngum eins og áformað var með 3. gr. laga nr. 137/1996. Meginástæðan fyrir því að lengja eignarhaldstíma frá því sem nú gildir er að rétt þykir að hvetja menn til lengri tíma sparnaðar.
    Í fimmta lagi er lögð til breyting sem snertir skattlagningu við slit félaga og lækkun hluta­fjár. Er gert ráð fyrir að færa það ákvæði í sama horf og það var í fyrir gildistöku laga um fjármagnstekjuskatt, þ.e. að líta á úthlutun sem arðgreiðslu en ekki söluhagnað. Þó er gert ráð fyrir sömu skattlagningarreglum og gilda um söluhagnað þannig að breytingin hefur ekki áhrif á skattskyldu innlendra aðila en leiðir til þess að erlendur aðili yrði við félagsslit og lækkun hlutafjár skattskyldur hér á landi á sama hátt og hann hefði orðið vegna arðgreiðslu.
    Í sjötta lagi eru lagðar til breytingar á meðferð ónýtts persónuafsláttar að því er snertir ráðstöfun hans til greiðslu fjármagnstekjuskatts í þeim tilgangi að skattleysismörk verði hin sömu hvort sem um er að ræða fjármagnstekjur eða aðrar tekjur.
    Að lokum er lagt til að bráðabirgðaákvæði sem sett voru með lögum um fjármagnstekju­skatt verði færð inn í lögin, svo og þau ákvæði sem varanleg eru og eiga eðlilega heima þar, og er bráðabirgðaákvæðinu breytt til samræmis.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Í a-lið greinarinnar er lagt til að ekki þurfi að tekjufæra vexti af reikningum í innláns­stofnunum sem bundnir eru til lengri tíma en 36 mánaða fyrr en þeir eru lausir til ráðstöfunar eiganda reikningsins, en samkvæmt núgildandi lögum eru vextir taldir til tekna um leið og þeir eru færðir eiganda til eignar jafnvel þó að þeir séu bundnir til lengri tíma.
    Í b-lið er kveðið beint á um meðferð á vöxtum, verðbótum og annarri ávöxtun lífeyris­sparnaðar samkvæmt lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Í þeim lögum er gert ráð fyrir margbreytilegu formi lífeyrissparnaðar sem m.a. gæti verið á sérstökum reikningum í bankastofnunum. Með frumvarpinu er lagt til að kveði verið skýrt á um að 1. tölul. 2. mgr. 8. gr. eigi ekki við í þessu tilviki heldur komi tekjur þessar ekki til skattlagningar fyrr en við útborgun á lífeyri og teljast þær þá til tekna á skv. A-lið 7. gr. og skattleggjast í almennu skatthlutfalli en ekki sem fjármagnstekjur.

Um 2. gr.

    Í a-lið greinarinnar er lögð til breyting á reglum um skattalega meðferð jöfnunarhluta­bréfa. Er lagt til að öll útgáfa jöfnunarhlutabréfa á grundvelli laga um hlutafélög og laga um einkahlutafélög verði skattfrjáls. Um forsendur vísast til almennra athugasemda.
    Í b-lið greinarinnar er lagt til að ákvæði um slit hlutafélags verði í 9. gr. sem fjallar um skattskyldan arð og falli þannig að þeim reglum sem lúta að skattlagningu arðs í stað þess að teljast með söluhagnaði. Samkvæmt frumvarpinu er því gert ráð fyrir að hagnaður sem greiddur er hluthöfum við slit félags verði skattlagður sem arður, sbr. 3. mgr. 67. gr., sbr. 8. gr. laganna.

Um 3. gr.

    Hér eru ekki lagðar til efnislegar breytingar á gildandi reglum að öðru leyti en því að frestur til útreiknings á jöfnunarverðmæti er framlengdur til ársloka 1999 og ákvæði til bráðabirgða II verði fært í meginmál laganna. Lagt er til að reglur bráðabirgðaákvæðisins verði færðar í 17. gr. laganna þar sem ljóst er að þær muni hafa töluverða þýðingu á næstu árum og áratugum þar sem hlutabréf eru oft langtímafjárfesting. Þar sem jöfnunarverðmæti hlutabréfa miðast við árslok 1996 skal á hlutafjármiðum og skattframtali tilgreina jöfnunar­verðmæti hlutabréfa sem voru í eigu hluthafa í árslok 1996. C-liður snertir slit á félagi og lækkun hlutafjár en í frumvarpinu er lagt til að ákvæðið verði flutt yfir í 9. gr. laganna og útborgun sem greidd er til hluthafa við félagsslit eða lækkun hlutafjár umfram kaupverð verði skattlögð sem arður. Um nánari skýringar við c-lið vísast til athugasemda við 2. gr. frumvarpsins.

Um 4. gr.

    Með þessari grein er lagt til að í lögunum verði kveðið á um hvernig fara beri með skatt­lagningu tekna úr lífeyrissjóðum, þ.m.t. séreignasjóðum, þegar um arftöku er að ræða. Ið­gjöld vegna lífeyrissparnaðar eru frádráttarbær frá skattskyldum tekjum, sbr. A-lið 30. gr. laganna, og því hefur verið litið svo á í framkvæmd að greiða skuli tekjuskatt við útborgun lífeyris til rétthafa. Hér er því ekki verið að leggja til nýja reglu eða gera breytingu á gild­andi rétti.

Um 5. gr.

    Í 120. gr. núgildandi laga sem fjallar um heimild ráðherra til að undanþiggja skattlagningu vinninga í happdrættum er lagt til að í lögunum verði kveðið beint á um að vinningar í happ­drættum þar sem ágóða er varið til menningarmála, mannúðarmála eða kirkjulegrar starfsemi séu frádráttarbærir frá tekjum einstaklinga. Gert er ráð fyrir að settar verði reglur um hvaða happdrætti teljast falla undir skilyrði laganna.
    Miðað er við að ríkisskattstjóri taki afstöðu til þess áður en happdrættismiðar eru gefnir út hvort uppfyllt séu skilyrði laganna og þá um leið hvort heimilt sé að draga vinninga í til­teknum happdrættum frá tekjum einstaklinga. Þannig þurfa þeir sem standa að happdrættum þar sem hagnaði er varið til þeirra verkefna sem tilgreind eru í þessum tölulið að fá úrskurð ríkisskattstjóra um hvort happdrætti uppfylli skilyrði hans samfara leyfi dómsmálaráðuneyt­isins.
    Í b-lið greinarinnar er lagt til að breytt verði reglum um frádrátt frá tekjum vegna fjár­festinga manna í atvinnurekstri og hann framlengdur til ársins 2002. Lagt er til að núgildandi reglur 1. tölul. B-liðar 30. gr. verði afnumdar ásamt lögum nr. 9/1984, um frádrátt frá skatt­skyldum tekjum vegna fjárfestingar manna í atvinnurekstri, með áorðnum breytingum. Í stað þess er lagt til að settar verði einfaldar og markvissar reglur.
    Í 2. mgr. er lagt til að heimilt verði að draga frá tekjum allt að 60% af verðmæti keyptra hlutabréfa, en þó með ákveðnu hámarki sem er 80.000 kr. fyrir einstaklinga og 160.000 kr. fyrir hjón. Hér er um fasta fjárhæð að ræða sem ekki er gert ráð fyrir að breytist á næstu fimm árum. Þó er gert ráð fyrir að þeir sem nutu frádráttar samkvæmt eldri reglum um þriggja ára binditíma haldi rétti sínum. Samkvæmt gildandi reglum er nú heimilt að draga frá 40% af verðmæti keyptra hlutabréfa, að hámarki 79.890 kr. hjá einstaklingi og 159.780 kr. hjá hjónum.
    Í 3. mgr. er gert ráð fyrir að ríkisskattstjóri veiti staðfestingu á því að félög uppfylli skil­yrði laganna, að undanskildum félögum sem skráð eru á Verðbréfaþingi Íslands, en um þau félög gilda strangari reglur en greinir í 5. mgr. Því er ekki talin þörf á að leita staðfestingar ríkisskattstjóra vegna þeirra.
    Í 4. og 5. mgr. er fjallað nánar um skilyrði frádráttar. Meðal annars er skilyrði fyrir frá­drætti að maður eigi viðkomandi hlutabréf yfir fimm áramót og geri árlega grein fyrir eignar­haldi þeirra. Verði bréfin seld innan þess tíma færist nýttur frádráttur til tekna á söluári við­komandi hlutabréfa. Kaupi maður hins vegar bréf innan ársins fyrir sömu fjárhæð skal þó ekki tekjufæra frádráttinn. Lagt er til að reglur þessara málsgreina gildi einnig um hlutabréf sem voru keypt og seld fyrir gildistöku laga þessara nema að því er varðar eignarhaldstíma sem var áður þrjú ár.
    Í 6. mgr. eru ákvæði sem heimila ríkisskattstjóra að víkja frá skilyrðum 4. og 5. mgr. um hlutafé og hluthafafjölda þegar um er að ræða ný félög eða þegar um er að ræða starfandi hlutafélög sem er að auka hluthafafjölda eða hlutafé sitt. Ákvæðið er samhljóða 26. gr. laga nr. 9/1984, um frádrátt frá skattskyldum tekjum vegna fjárfestingar manna í atvinnurekstri, sem lagt er til að felld verði úr gildi með lögum þessum.
    Í 7. og 8. mgr. er ekki um efnisbreytingar að ræða, heldur er einungis verið að árétta gild­andi reglur á þessu sviði.

Um 6. gr.

    Með þessu ákvæði er opnað fyrir þann möguleika að hlutafélög sem stofnað hafa eitt eða fleiri dótturfélög geti fengið sameiginlega skattlagningu tekjuskatts á öll félögin. Af ýmsum rekstrarlegum ástæðum getur verið hagkvæmt fyrir fyrirtæki að vera með atvinnustarfsemi í fleiri en einu félagi. Getur það verið af stjórnunarlegum ástæðum, atriðum sem snerta fjár­mögnun, áhættu eða annað. Reksturinn getur verið nátengdur en kostnaður sem verður til í einu eða fleiri félaganna nýtist ekki þegar um taprekstur í einu félaganna er að ræða þar sem ekki er samkvæmt gildandi reglum heimilt að flytja tap á milli hlutafélaga. Verði breyting þessi að lögum verður unnt að nýta tap af rekstri í einu félaganna á samsköttunartímanum á móti hagnaði hjá hinum. Lagt er til að samsköttun verði ekki heimiluð að nýju eftir slit hennar. Er það gert til að koma í veg fyrir að félög nýti sér eingöngu þann ávinning af sam­sköttun sem næst með því að velja á milli samsköttunar og sérsköttunar eftir því sem við á hverju sinni. Sama gildir um meðferð taps á milli félaganna. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að draga megi tap sem verður á rekstri eins eða fleiri félaga í samsköttun frá hagnaði hinna áður en tekjuskattur er reiknaður. Einnig er gert ráð fyrir að yfirfæranlegt tap af rekstri hlutafélags sem stafar af rekstri fyrir samsköttun megi einungis nýta hjá því félagi sem myndaði tapið. Er það gert til að koma í veg fyrir misnotkun á samsköttunarreglunni þannig að móðurfélag kaupi annað dótturfélag með miklu uppsöfnuðu tapi og sæki um samsköttun og búa þannig til rétt til frádráttar á eigin hagnaði með því að draga frá honum tap dóttur­félagsins frá fyrri árum. Þó verður heimilt að nýta yfirfæranlegt tap sem myndast fyrir sam­sköttun milli móður- og dótturfélags ef uppfyllt eru öll skilyrði 57. gr. A um sameiningu félaga og skilyrði til samsköttunar eru til staðar við gildistöku laga þessara. Gert er ráð fyrir að sett verði reglugerð um meðferð taps og hagnaðar á milli félaga í samsköttun.
    Í samsköttun skal viðkomandi tekjuár gert upp áður en tekið er tilliti til taps eldri ára, þ.e. tap eins eða fleiri félaga deilist hlutfallslega á félög með hagnað áður en uppsafnað tap fyrri ára, í samsköttun, er reiknað á móti hagnaði. Í samsköttun skal tap í einu eða fleiri félögum deilast hlutfallslega miðað við hagnað á þau félög sem eru með hagnað viðkomandi ár. Nýt­ist tapið ekki til fulls yfirfærist það á næstu ár. Félag, sem gengur í samsköttun og á yfirfær­anlegt tap við upphaf samsköttunar, getur ekki nýtt tapið fyrr en hagnaðurinn hefur verið lækkaður með tapi annarra félaga í samsköttun innan sama tekjuárs. Reglan um að geta ekki nýtt uppsafnað tap fyrir samsköttun er sett til að koma í veg fyrir að samsköttunarreglan verði misnotuð og reynt þannig að koma í veg fyrir að félög „kaupi tap“ annarra félaga og dragi frá hagnaði í samsköttun. Jafnframt er gengið út frá því að yfirfæranlegt tap fyrri ára sem myndast hafa í samsköttun geti ekki dregist frá hagnaði nýstofnaðs dótturfélags sem bætist við þau félög sem fyrir eru í samsköttun. Til að sýna hvernig tap er flutt á milli félaga og skattur í samsköttun er reiknaður út er sett fram eitt dæmi. (Sjá fylgiskjal I.)
    Í 1. mgr. er það gert að skilyrði að félög í samsköttun séu með sama reikningsár. Það hef­ur í för með sér að reikningsár þeirra byrja og enda á sama tíma. Móðurfélagið þarf að hafa átt a.m.k. 90% hlutafjár í dótturfélaginu allt reikningsárið. Samsköttun yrði hafnað ef móð­urfélag keypti dótturfélag á miðju reikningsári. Þó getur verið undantekning frá meginregl­unni um sama reikningsár. Er það í þeim tilvikum þegar móðurfélag stofnar dótturfélag innan reikningsársins og þegar dótturfélagi er slitið innan reikningsársins. Þá er það skilyrði að sé dótturfélag stofnað á miðju ári ljúki reikningsári félaganna í samsköttun á sama tíma og jafnframt að ef félagi er slitið á miðju ári byrji það á sama tíma.
    Eins og fram kemur í 2. málsl. 1. mgr. er það gert að skilyrði að hlutafé í dótturfélögum sé eigi minna en að 90% í eigu móðurfélagsins eða annarra dótturfélaga sem taka þátt í sam­sköttuninni. Megininntak samsköttunar er að móðurfélag og dótturfélag í 90–100% eigu móðurfélagsins skattleggjast saman. Jafnframt er gert ráð fyrir að samsköttunin nái einnig til þeirra tilvika þegar móðurfélag á 90–100% hlut í dótturfélagi og þau eiga svo sameigin­lega 90–100% hlutabréfa í þriðja félaginu. Sama gildir um t.d. fjögur félög þar sem móðurfélagið á hlutabréfin í dótturfélagi og dótturfélagið á hlutabréfin í eigin dótturfélagi, og móður- og dótturfélagið eiga svo saman bréf í fjórða félaginu. Vegna kröfunnar um a.m.k. 90% eignarhald og sameignlegt eignarhald móður- og dótturfélags á þriðja félaginu verða félögin að gera nákvæma grein fyrir því í ársreikningi eða með öðrum skýrum hætti hvernig eignarhaldi þeirra er háttað. Jafnframt verður að gera ráð fyrir að félög tilkynni skattyfir­völdum ef einhver breyting verður þar á sem hefði áhrif á skilyrði samsköttunar.
    Í 2. mgr. er gert ráð fyrir að sá sem óskar eftir samsköttun skuli beina umsókn sinni til skattstjóra í því skattumdæmi þar sem hann er heimilisfastur. Lagt er til að umsóknir berist skattyfirvöldum í síðasta lagi þrjátíu dögum fyrir lok framtalsfrests viðkomandi gjaldárs. Tímamörk þau sem lögð eru til grundvallar taka mið af því að skattyfirvöld hafi nægan tíma til að meta hvort öll skilyrði samsköttunar séu uppfyllt svo að fallast megi á hana. Berist umsókn eftir að fresturinn er liðinn verður ekki fallist á hana.
    Í 3. mgr. er lagt til að tekjuskattur sem til álagningar er hverju sinni í samsköttun verði lagður á móðurfélagið, að teknu tilliti til millifæranlegs taps eða hagnaðar, en öll hlutafé­lögin bera sameiginlega ábyrgð á skattgreiðslunum. Þó er heimilt að leggja skatt á hvert og eitt félag í samsköttun ef félögin óska eftir því sérstaklega.
    Óski félög í samsköttun eftir því að henni ljúki ber þeim að tilkynna skattyfirvöldum það eigi síðar en fyrir lok framtalsfrests. Ef það er ekki gert verður litið svo á að samsköttun verða áfram við lýði. Ef óskað er eftir að samsköttun ljúki hefur það aftur á móti þau áhrif að félög geta ekki sótt aftur um samsköttun.
    Ef dótturfélagi er slitið eru forsendur fyrir áframhaldandi samsköttun brostnar. Aftur á móti er hægt að skattleggja móður- og dótturfélag saman hvað varðar tekjuár þegar dóttur­félaginu er slitið. Tap sem myndast hefur í dótturfélaginu fram að slitum þess er því nýtan­legt í samsköttun á því tekjuári. Einnig yrði hægt að nýta uppsafnað tap dótturfélags í sam­sköttun.
    Ef samsköttun er lokið á annan hátt, t.d. ef félögin óska ekki lengur eftir samsköttun, getur yfirfæranlegt tap, sem myndaðist í samsköttun, í hverju félagi fyrir sig nýst hjá því félagi sem myndaði tapið þegar það verður skattlagt í sérsköttun.

Um 7. gr.

    Ákvæði þessarar greinar eru sett í tengslum við þá reglu sem lögð er til í b-lið 3. gr. frumvarpsins sem snertir skattlagningu við slit félags og lækkun hlutafjár. Í a-lið greinar­innar er lögð til breyting á núgildandi fyrirkomulagi, þ.e. litið er á úthlutun verðmæta við slit hlutafélaga og lækkun hlutafjár sem söluhagnað. Þess í stað er lagt til að farið verði með úthlutun hlutafjár við slit á félögum og lækkun hlutafjár eins og arðgreiðslur. Þetta hefur m.a. áhrif á skattlagningu í tengslum við tvísköttunarsamninga þannig að skattur af úthlutun úr hlutafélögum við slit skattleggst á Íslandi þegar eigandi hlutabréfanna er erlendur aðili. Í b-lið greinarinnar er lagt til að ákvæði um hámark og skatthlutfall í 3. mgr. 67. gr. laganna taki einnig til úthlutunar arðs til hluthafa við slit félaga og lækkun hlutafjár.

Um 8. gr.

    Hér er lögð til breyting sem snertir meðferð ónýtts persónuafsláttar að því er varðar ráðstöfun hluta hans til greiðslu fjármagnstekjuskatts. Við upptöku þess skatts var ákveðið að persónuafsláttur, sem ekki hefði nýst á móti almennum tekjuskatti, útsvari og eignarskatti, skyldi koma viðkomandi til góða á móti fjármagnstekjuskatti sem á hann kynni að verða lagður. Tilgangurinn var að tryggja að ekki yrði lagður skattur á tekjur neðan skattleysis­marka óháð því hvort um væri að ræða almennar tekjur eða fjármagnstekjur. Sú aðferð sem til þess var valin, þ.e. að láta ónýttan persónuafslátt ganga að fullu á móti álögðum fjár­magnstekjuskatti, hefur þann ókost að hún felur í sér mikið hærri skattleysismörk gagnvart fjármagnstekjum en öðrum tekjum. Persónuafsláttur á tekjuárinu 1999 verður 279.948 kr. Að óbreyttu útsvari verður samanlagt tekjuskatts- og útsvarshlutfall 38,02% og skattleysis­mörk gagnvart launatekjum og öðrum almennum tekjum 736.318 kr. á ári. Gagnvart fjár­magnstekjum yrðu skattleysismörkin aftur á móti 2.799.480 kr. á ári. Með þeirri breytingu, sem lögð er til, yrði þetta misræmi afnumið og skattleysismörk gagnvart fjármagnstekjum yrði áþekkt því sem á við um aðrar tekjur eða 736.705 kr. í því dæmi sem nefnt er að framan.

Um 9. gr.

    Hér er lagt til að felld verði niður heimild fjármálaráðherra til að undanþiggja vinninga í happdrættum frá skattskyldum tekjum þar sem vafi leikur á því hvort slík heimild stjórn­valda uppfylli skilyrði til skattlagningarheimilda í ljósi þeirra breytinga sem gerðar voru á stjórnarskránni með 15. og 16. gr. stjórnskipunarlaga, nr. 97/1995. Um frekari skýringu vís­ast til athugasemda við 6. gr. frumvarpsins.


Um 10. gr.

    Með frumvarpi þessu eru mörg ákvæði úr bráðabirgðaákvæði með lögum nr. 97/1996 flutt í 9. og 17. gr. laganna. Tímabundna heimild til útreiknings jöfnunarverðmætis þykir þó rétt að hafa áfram í bráðabirgðaákvæði ásamt ákvæði um að gera skuli grein fyrir jöfnunarverð­mæti á skattframtali félagsins.

Um 11. gr.

    Í 5. gr. frumvarpsins er lagt til að hámarksfjárhæðir vegna fjárfestingar í hlutabréfum verði fastar. Því er lagt til hér að þær taki ekki hlutfallshækkun samkvæmt ákvæðum til bráðabirgða sem sett voru með lögum nr. 65/1997, sbr. f-lið 5. gr. þeirra laga.

Um 12. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.





Fylgiskjal I.


    Félögin A, B, C og D hafa verið samsköttuð í nokkur ár og er félagið A móðurfélag. Jafn­framt á félagið A uppsafnað tap fyrir samsköttun að fjárhæð 15.000 kr.

Tekjuárið 1999.

Félög Hagnaður/
tap ársins
Skipting hagn­aðar/taps Yfirfærsla taps til næsta árs
A - 100.000 + 20.000 - 80.000
B - 50.000 + 10.000 - 40.000
C + 25.000 - 25.000 0
D + 5.000 - 5.000 0
Samtals - 120.000 0 - 120.000


Tekjuárið 2000 — samsköttun.

Félög Hagnaður/
tap ársins
Skipting hagnaðar/
taps
Hagnaður/
tap ársins eftir skipt­ingu taps
Nýting taps í eigin félagi Ráðstöfun yfirfæran­legs taps frá öðrum félögum fyrra árs Skattskyldur hagnaður eftir milli­færslu taps
A + 24.000 - 11.200 + 12.800 - 12.800 0
B - 40.000 + 35.000 - 5.000 0 0
C + 30.000 - 14.000 + 16.000 0 - 16.000 0
D + 21.000 - 9.800 + 11.200 0 - 11.200 0
Samtals + 35.000 0 + 35.000 - 12.800 - 27.200 0

Yfirlit yfir nýtingu taps.

Félög Tap frá fyrri árum Nýting taps í eign félagi Tap til skipta Skipting taps vegna annarra félaga Tap yfirfært til næsta árs
A - 80.000 + 12.800 - 67.200 + 16.291 - 50.909
B - 45.000 0 - 45.000 + 10.909 - 34.091
C 0 0 0 0 0
D 0 0 0 0 0
Samtals - 125.000 + 12.800 - 112.200 + 27.200 - 85.000

Tekjuárið 2001 — samsköttun.

Félög Hagnaður/
tap ársins
Yfirfært tap eigin félags fyrri ára Nettó hagnaður ársins Tap frá öðr­um félögum fyrri ára (frá félagi B) Uppsafnað tap fyrir samsköttun Skattskyldur hagnaður eftir milli­færslu taps
A + 100.000 - 50.909 + 49.091 - 8.746 - 15.000 + 25.345
B + 20.000 - 20.000 0 0 0 0
C 0 0 0 0 0 0
D + 30.000 0 + 30.000 - 5.345 0 + 24.655
Samtals + 150.000 - 70.909 + 79.091 - 14.091 - 15.000 + 50.000

    Tekjuskattur félaganna A, B, C og D er því að fjárhæð 15.000 kr. (50.000 kr. x 30%) sem annaðhvort yrði lagður á móðurfélagið A að öllu leyti eða 7.603 kr. á félagið A og 7.397 kr. á félagið D ef lagt yrði á hvert og eitt félag innan samsköttunar.

Fylgiskjal II.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 75/1981,
um tekjuskatt og eignarskatt.

    Í frumvarpinu eru lagðar til nokkrar breytingar á lögum um tekjuskatt og eignarskatt, m.a. skattlagningu jöfnunarhlutabréfa, samsköttun móður- og dótturfélaga og skattlagn­ingu langtímasparnaðar og tekna af honum. Frumvarpið snýr að breytingum á teknahlið ríkissjóðs og hefur ekki áhrif á gjaldahliðina.