Ferill 300. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 360  —  300. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um almannavarnir, nr. 94/1962, með síðari breytingum.

Flm.: Hjálmar Árnason, Ólafur Örn Haraldsson, Kristinn H. Gunnarsson.



1. gr.


    2. málsl. 2. mgr. 4. gr. laganna orðast svo: Í ráðinu eiga sæti forstjóri Landhelgisgæslunn­ar, landlæknir, ríkislögreglustjóri, forstjóri Landssíma Íslands hf., vegamálastjóri, fulltrúi Landsbjargar, fulltrúi Rauða kross Íslands, fulltrúi Slysavarnafélags Íslands og fulltrúi menntamálaráðuneytis.

2. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Meginhlutverk almannavarnaráðs er að hafa yfirumsjón með björgunaraðgerðum þegar alvarlega vá ber að höndum, svo sem náttúruhamfarir eins og jarðskjálfta og snjóflóð. Á slík­um örlagastundum hefur samkennd þjóðarinnar verið afar styrk. Þáttur sjálfboðaliðasamtaka á borð við Landsbjörg (Landssamband björgunarsveita), Slysavarnafélag Íslands og Rauða krossinn hefur verið ómetanlegur hvað varðar björgun mannslífa og mannvirkja, oft við ótrú­lega erfið skilyrði.
    Á fjórða landsþingi Landsbjargar var eftirfarandi ályktun samþykkt: „Landsþingið fer þess á leit við Alþingi Íslendinga að lögum um Almannavarnir ríkisins verði breytt á þann veg að fulltrúar frá Landsbjörg, Slysavarnafélagi Íslands og Rauða krossi Íslands fái fulla aðild að almannavarnaráði.“ Ályktunin getur vart talist annað en sanngjörn þar sem sjálfboðaliðasam­tökin gegna lykilhlutverki við björgunaraðgerðir og eru í raun eina aflið hérlendis sem hefur á að skipa fjölda sérþjálfaðra og hæfra einstaklinga til að sinna þessum mikilvæga þætti. Spyrja má hvernig þjóðin væri sett við náttúruhamfarir ef ekki nyti hjálpar fyrrgreindra sam­taka. Þess vegna hlýtur í alla staði að teljast rökrétt að fulltrúar þeirra fái fulla aðild að al­mannavarnaráði. Með þeirri skipan væri verið að viðurkenna í reynd gildi samtakanna fyrir þjóðfélagið og öryggi þess, ásamt því að tryggja samskipti og samráð þeirra sem almanna­varnir mæða á.
    Þá er í frumvarpinu gert ráð fyrir að fulltrúi menntamálaráðuneytis eigi einnig sæti í al­mannavarnaráði. Rökin fyrir því eru einföld. Reynslan sýnir að fátt er mikilvægara byggðum sem illa hafa orðið úti af völdum náttúruhamfara en að koma daglegu lífi sem fyrst í eðlilegt horf. Hvað flestar fjölskyldur snertir skiptir starf skólanna þar miklu máli, þ.e. að börn geti aftur komið saman í skóla og tekist áfram á við lífið þrátt fyrir undangengnar hörmungar. Þess vegna er mikilvægt að fulltrúi menntamálaráðuneytis eigi sæti í almannavarnaráði. Full­trúi þess þarf að geta haft aðgang að menntuðu fólki til að byggja upp skólastarf að nýju sem fyrst svo að líf skólabarna og fjölskyldna geti fljótt tekið á sig eðlilega mynd.
    Samhliða þessum viðbótum í almannavarnaráð er lögð til sú breyting að forstjóri Lands­síma Íslands hf. sitji í ráðinu í stað póst- og símamálastjóra, enda er sú staða ekki lengur til.