Ferill 243. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 373  —  243. mál.




Svar



viðskiptaráðherra við fyrirspurn Tómasar Inga Olrich um samskipti smásala og framleiðenda á neytendavörumarkaði.

     1.      Hefur ráðherra eða Samkeppnisstofnun látið kanna hvaða áhrif samþjöppun á smásölumarkaði neytendavöru, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu, hefur á samband og við­skiptakjör framleiðenda og smásala? Hafi það verið gert, hverjar eru helstu niðurstöður hennar? Hafi slík könnun ekki verið gerð, hyggst ráðherra beita sér fyrir henni?
    Árið 1994 gerði Samkeppnisstofnun athugun á samkeppnisháttum á matvörumarkaðnum. Meginniðurstaðan var sú að ekki var talin ástæða til íhlutunar af hálfu samkeppnisyfirvalda.

     2.      Fylgjast samkeppnisyfirvöld sérstaklega með háttsemi markaðsráðandi verslanakeðja til þess að koma í veg fyrir að þær misbeiti ráðandi markaðsstöðu sinni?
    Samkeppnisyfirvöld hafa fylgst með þróun á matvörumarkaði og þar á meðal þróun vöru­verðs og hafa til þessa ekki talið ástæðu til sérstakra aðgerða.

     3.      Er ráðherra kunnugt um að fyrir liggi upplýsingar hjá Samkeppnisstofnun um að markaðsráðandi fyrirtæki selji vörur um lengri eða skemmri tíma án álagningar og í sumum tilfellum langt undir kostnaðarverði? Hyggst ráðherra beita sér fyrir því að markaðs­ráðandi fyrirtækjum verði bannað að selja vörur undir kostnaðarverði?
    Í athugun sem Samkeppnisstofnun gerði árið 1994 og fyrr er vitnað til kom fram að ýmsar vörur voru seldar með lágri álagningu, án álagningar eða jafnvel undir innkaupsverði. Það átti ekki sérstaklega við um markaðsráðandi fyrirtæki. Það var mat samkeppnisyfirvalda þá að þessir viðskiptahættir sköðuðu ekki samkeppni á þessum markaði.
    Engin áform eru um að banna markaðsráðandi fyrirtækjum að selja vörur undir kostnaðar­verði. Þó má benda á að samkvæmt samkeppnislögum er mögulegt að setja á slíkt bann sé sala undir kostnaðarverði talin skaðleg samkeppni og til skaða fyrir neytendur. Mat á því hve­nær sala undir kostnaðarverði er skaðleg fyrir samkeppnina er mjög erfitt og eins og að fram­an greinir hafa samkeppnisyfirvöld a.m.k. ekki enn sem komið er talið næg tilefni til beinnar íhlutunar.

     4.      Hefur verið kannað hvernig afsláttur framleiðenda til smásala skilar sér til neytenda?
    Eftir því sem best er vitað hefur ekki verið kannað sérstaklega hvernig afsláttur framleið­enda til smásala skilar sér til neytenda að öðru leyti en því að fylgjast með því hvernig verð­lag á þessum markaði hefur þróast í gegnum tíðina. Sú þróun gefur fyllsta tilefni til að ætla að neytendur hafi í ríkum mæli notið þeirrar samkeppni sem ríkt hefur á þessum markaði.

     5.      Hefur verið kannað hvort álagning á íslenskar framleiðsluvörur er að jafnaði hærri hjá smásölum en á innfluttar vörur?
    Ekki hefur farið fram sérstök könnun á því hvort álagning á íslenskar framleiðsluvörur er að jafnaði hærri hjá smásölum en á innfluttum vörum.

     6.      Hyggst ráðherra beita sér fyrir endurskoðun samkeppnislaga sem eru orðin fimm ára? Ef svo er, verður í þeirri endurskoðun hugað sérstaklega að því að herða eftirlit með háttsemi markaðsráðandi fyrirtækja?
    Liðlega fimm ár eru liðin frá setningu samkeppnislaga en þau tóku gildi 1. mars 1993. Í ljósi þeirra breytinga sem orðið hafa á viðskiptaumhverfi íslensks atvinnulífs síðan lögin tóku gildi hefur verið skipuð nefnd sem ætlað er að meta hvort þessar breytingar kalli á endurskoð­un á samkeppnisákvæðum laganna.