Ferill 321. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 388  —  321. mál.




Frumvarp til laga



um ráðstafanir í ríkisfjármálum á árinu 1999.

(Lagt fyrir Alþingi á 123. löggjafarþingi 1998.)



Um breytingu á lögum nr. 83/1989, um Þjóðarbókhlöðu
og endurbætur menningarbygginga, með síðari breytingu.

1. gr.

    Þrátt fyrir ákvæði 1. tölul. 1. mgr. 2. gr., sbr. 3.–6. gr. laganna, sbr. 1. gr. laga nr. 154/1995, skulu tekjur af sérstökum eignarskatti umfram 462 m.kr. renna í ríkissjóð á árinu 1999.

Um breytingu á lögum nr. 66/1998, um dýralækna
og heilbrigðisþjónustu við dýr.

2. gr.

    Þrátt fyrir ákvæði 20. gr. laganna skulu ákvæði 1. og 5. mgr. 2. gr., 4. mgr. 5. gr., 6., 8. og 9. gr. laga nr. 77/1981, um dýralækna, með síðari breytingum, halda gildi sínu til 1. janúar 2000 og gildistöku 4. mgr. 9. gr., 11. og 12. gr. laga nr. 66/1998 frestað til sama tíma.

Um breytingu á lögum nr. 12/1952, um ráðstöfun erfðafjárskatts og erfðafjár
ríkissjóðs til vinnuheimila.

3. gr.

    Þrátt fyrir ákvæði 1. gr. laganna skulu tekjur af erfðafjárskatti á árinu 1999 umfram 235 m.kr. renna í ríkissjóð.

Um breytingu á lögum nr. 59/1992, um málefni fatlaðra,
með síðari breytingu.

4. gr.

    Þrátt fyrir ákvæði 40. gr. laganna, sbr. 4. gr. laga nr. 161/1996, um hlutverk Framkvæmda­sjóðs fatlaðra, greiðist á árinu 1999 af ráðstöfunarfé sjóðsins kostnaður við félagslega hæf­ingu og endurhæfingu samkvæmt 27. gr. laganna og kostnaður vegna starfsemi stjórnar­nefndar skv. 52. gr. laganna.

Um breytingu á lögum nr. 41/1992, um brunavarnir og brunamál,
með síðari breytingu.
5. gr.

    Þrátt fyrir ákvæði 23. gr. laganna, sbr. 5. gr. laga nr. 15/1997, skulu tekjur af brunavarnagjaldi umfram 89 m.kr. renna í ríkissjóð á árinu 1999.

6. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1999.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Að venju byggir frumvarp til fjárlaga á ákveðnum forsendum um að lögum verði breytt til að markmið þeirra nái fram að ganga. Í samræmi við þann hátt sem hafður hefur verið á, hefur öllum slíkum ákvæðum verið safnað í eitt frumvarp. Ákvæði þessa frumvarps eru þó miklu færri en oft áður. Það stafar einkum af því að á undanförnum árum hefur verið unnið að því að afnema þá tilhögun, sem fest hafði rætur alltof víða og fólst í því, að framlög og útgjöld til ýmissa viðfangsefna voru bundin í lög, ýmist með eða án sérstakra tekjustofna. Með slíkum ákvæðum er fjárveitingarvald Alþingis í raun fyrirfram bundið þegar að fjárlaga­gerðinni kemur, en það dregur um leið úr þeim áhrifum sem fjárstjórnarvaldi Alþingis er með fjárlögum ætlað að hafa á hagstjórn ríkisins, til að gæta aðhalds í ríkisrekstri og ná jafnvægi í ríkisbúskap. Ákvæði um lögmælt framlög er þó enn víða að finna og kunna að vera rétt­lætanleg og jafnvel æskileg að nokkru marki í ákveðnum tilvikum. Slík framlög verða þó að sæta þeim skerðingum sem markmið fjárlagafrumvarpsins setja, enda þótt þörf fyrir sérstakar aðgerðir sé minni nú en oft áður. Af þeim sökum eru í 1. gr. og 3. til 5. gr. frumvarpsins lagðar til tímabundnar skerðingar á ráðstöfun nokkurra lögbundinna gjalda og tekna, en þær hafa þegar verið kynntar í 6. gr. frumvarps til fjárlaga fyrir árið 1999, eins og 23. gr. laga nr. 88/1997, um fjárreiður ríkisins, gerir reyndar ráð fyrir. Í ljósi þess hvern áskilnað 1. mgr. 42. gr. stjórnarskrárinnar gerir um efni fjárlaga þykir hins vegar verða að leita eftir heimild til þessara skerðinga í almennum lögum jafnframt.
    Að auki er gert ráð fyrir að fresta gildistöku nokkurra ákvæða laga nr. 66/1998, um dýra­lækna og heilbrigðisþjónustu við dýr, sbr. nánar athugasemdir við 2. gr. frumvarpsins.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Samkvæmt lögum nr. 83/1989, um Þjóðarbókhlöðu og endurbætur menningarbygginga, rennur sérstakur eignarskattur, sem lagður er á samkvæmt lögunum, í sérstakan sjóð sem varið skal til að standa straum af kostnaði við endurbætur á húsakosti menningarstofnana o.fl. Á árinu 1999 er gert ráð fyrir að tekjur af sérstökum eignarskatti verði 542 m.kr. Hér er lagt til að af þessum tekjum renni 80 m.kr. í ríkissjóð.

Um 2. gr.


    Lagt er til að frestað verði gildistöku nokkurra ákvæða laga nr. 66/1998, um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr, þar sem ákveðnir óvissuþættir eru enn um hvernig eigi að hrinda þeim í framkvæmd. Í 12. gr. laga nr. 66/1998 er gert ráð fyrir að fjármálaráðuneytið og landbúnaðarráðuneytið semji við Dýralæknafélag Íslands um greiðslur fyrir vaktþjónustu. Samningaviðræður hafa farið fram en samningar ekki tekist. Því ríkir veruleg óvissa um fram­kvæmd vaktþjónustunnar og þann kostnað sem af henni kann að hljótast. Jafnframt hefur ekki unnist nægur tími til að ganga frá nýrri gjaldskrá fyrir eftirlitsstörf héraðsdýralækna skv. 7. mgr. 11. gr. laganna en nauðsynlegt er að vandað sé til gerðar hennar. Órjúfanleg tengsl eru milli vaktþjónustu dýralækna og breytinga sem verða á umdæmamörkum héraðsdýralækna og starfsskyldum þeirra. Er því lagt til að frestað verði í eitt ár gildistöku ákvæða laga nr. 66/1998 um vaktþjónustu dýralækna, gerð gjaldskrár fyrir eftirlitsstörf héraðsdýralækna, umdæmamörk og starfsskyldur héraðsdýralækna til að unnt verði að ljúka samningum um greiðslur fyrir vaktþjónustu og gerð gjaldskrár fyrir eftirlitsstörf héraðsdýralækna áður en framangreind ákvæði laganna koma að fullu til framkvæmda. Jafnframt er lagt til að sam­svarandi ákvæði eldri laga nr. 77/1981 haldi gildi sínu í sama tíma.

Um 3.–4. gr.


    Hér er lagt til að tekjur Framkvæmdasjóðs fatlaðra af erfðafjárskatti verði 235 m.kr. á árinu 1999 og 245 m.kr. af skattinum renni í ríkissjóð. Þá er lagt til að sjóðurinn standi undir kostnaði við félagslega hæfingu og endurhæfingu og kostnaði við starfsemi stjórnarnefndar á árinu 1999 eins og undanfarin ár.

Um 5. gr.


    Samkvæmt lögum nr. 41/1992, um brunavarnir og brunamál, skal verja tekjum af bruna­varnagjaldi til Brunamálastofnunar ríkisins. Tekjur af gjaldinu árið 1999 eru áætlaðar 100 m.kr. Hér er lagt til að tekjur af brunavarnagjaldi umfram 89 m.kr. renni í ríkissjóð á árinu 1999.

Um 6. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.


Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um
ráðstafanir í ríkisfjármálum á árinu 1999.

    Í frumvarpinu eru lagðar til nauðsynlegar lagabreytingar til að áform í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 1999 nái fram að ganga. Verður fjallað um greinar frumvarpsins og lagt mat á áhrif þeirra á tekjur og gjöld ríkissjóðs.
    1. gr. Samkvæmt lögum nr. 83/1989, um Þjóðarbókhlöðu og endurbætur menningar­bygginga, rennur sérstakur eignarskattur í sjóð sem varið skal til að standa straum af kostnaði við endurbætur á húsakosti menningarstofnana o.fl. Á árinu 1999 er gert ráð fyrir að tekjur af sérstökum eignarskatti verði 542 m.kr. Í frumvarpinu er lagt til að tekjur umfram 462 m.kr. af skattinum, eða um 80 m.kr., renni í ríkissjóð.
    2. gr. Lagt er til að gildistöku ákvæða um framkvæmd vaktþjónustu dýralækna og breyt­inga á umdæmismörkum héraðsdýralækna verði frestað. Áætlað er að kostnaður við vakt­þjónustu dýralækna samkvæmt gildandi lögum um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr sé um 31 m.kr. á ári. Í kostnaðarumsögn fjármálaráðuneytisins um frumvarp til laga um dýra­lækna og heilbrigðisþjónustu við dýr sem samþykkt voru sem lög og ganga í gildi 1. janúar 1999 kemur fram að ekki séu forsendur til að meta áhrif breytinga á vaktþjónustunni til kostn­aðar. Því er gengið út frá að kostnaður á hverja vakt verði sambærilegur við það sem hafði verið. Fulltrúar Dýralæknafélags Íslands hafa síðan sett fram tillögur um fyrirkomulag vakta sem ekki hefur náðst samkomulag um.
    3.–4. gr. Lagt er til að tekjur Framkvæmdasjóðs fatlaðra af erfðafjárskatti verði 235 m.kr. á árinu 1999 og það sem fer umfram það renni í ríkissjóð, eða 245 m.kr. miðað við áætlaðar tekjur árið 1999. Þá er lagt til að sjóðurinn standi undir kostnaði við félagslega hæfingu og endurhæfingu og kostnaði við starfsemi stjórnarnefndar á árinu 1999 eins og undanfarin ár.
    5. gr. Samkvæmt lögum nr. 41/1992, um brunavarnir og brunamál, skal verja tekjum af brunavarnagjaldi til Brunamálastofnunar ríkisins. Tekjur af gjaldinu árið 1999 eru áætlaðar 100 m.kr. Lagt er til að tekjur af brunavarnagjaldi umfram 89 m.kr. renni í ríkissjóð á árinu 1999.
    Samanlagt hefur frumvarpið þau áhrif að greiðslur úr ríkissjóði á árinu 1999 verða 336 m.kr. lægri en annars hefði orðið. Ekki er gert ráð fyrir að kostnaður vegna 2. gr. aukist um­fram þær 31 m.kr. sem þegar er áætlað fyrir í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 1999.