Ferill 344. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 444  —  344. mál.




Frumvarp til laga



um breyting á lögum nr. 79 26. maí 1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands.

(Lagt fyrir Alþingi á 123. löggjafarþingi 1998–99.)

1. gr.

    1. mgr. 7. gr. laganna orðast svo:
    Grásleppuveiðar skulu háðar sérstöku leyfi Fiskistofu. Ráðherra getur í reglugerð kveðið nánar á um skipulag veiðanna, þar á meðal um stærð báta er veiðarnar stunda og veiðitíma. Á sama hátt getur ráðherra ákveðið svæðisskiptingu veiðanna, svo sem að einungis bátar sem skráðir eru á tilteknum svæðum megi stunda þar veiðar.

2. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.


Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

    Frumvarp þetta er lagt fram sem fylgifrumvarp með frumvarpi til laga um breyting á lögum nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða. Eins og fram kemur í almennum athugasemdum með því frumvarpi eru grásleppuveiðar háðar sérstöku leyfi og eiga þeir bátar einir kost á slíku leyfi sem rétt áttu til leyfis á grásleppuvertíðinni 1997. Hefur hliðstætt fyrirkomulag gilt allt frá árinu 1978. Er ákvæði 7. gr. laga nr. 79/1997 hér að lútandi hliðstætt 5. gr. laga 38/1990, um stjórn fiskveiða, en Hæstiréttur taldi í dómi sínum 3. desember 1998, í máli nr. 145/1998, þá grein vera í andstöðu við jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar. Með þessu frumvarpi er lagt til að umræddu ákvæði 7. gr. laga nr. 79/1997 verði breytt til samræmis við niðurstöðu Hæstaréttar.
    Í frumvarpinu er lagt til að fellt verði úr gildi það ákvæði 7. gr. að þeir bátar einir eigi kost á leyfi til grásleppuveiða sem rétt áttu til leyfis á grásleppuvertíðinni 1997. Þó er gert ráð fyrir að ráðherra geti með reglugerð sett nánari ákvæði um skipulag og svæðaskiptingu veiðanna.


Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 79/1997,


um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands.


    Með frumvarpinu er lögð til hliðstæð breyting og ætlað er að gerð verði á lögum nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða, sem snertir stærð fiskiskipaflotans. Ekki verður séð að frum­varpið hafi áhrif á útgjöld ríkissjóðs.