Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 589, 123. löggjafarþing 122. mál: siglingalög (björgun).
Lög nr. 133 23. desember 1998.

Lög um breytingu á siglingalögum, nr. 34 19. júní 1985, með síðari breytingum.


1. gr.

     163. gr. laganna orðast svo:
     Í þessum kafla hafa eftirfarandi hugtök svofellda merkingu:
  1. Björgun: sérhver athöfn sem hefur það að markmiði að hjálpa skipi eða öðru lausafé sem farist hefur eða er statt í hættu á hvaða haf- eða vatnasvæði sem er.
  2. Skip: sérhvert skip eða far eða önnur smíð sem er fær til siglinga.
  3. Lausafé: sérhver hlutur sem ekki er varanlega við ströndina skeyttur.
  4. Umhverfistjón: umtalsvert tjón á heilsu manna, eða lífi eða auðlindum í ám eða vötnum, við ströndina og á nálægum svæðum eða í íslensku efnahagslögsögunni, af völdum mengunar, elds, sprengingar eða annarra sambærilegra alvarlegra atvika.


2. gr.

     164. gr. laganna orðast svo:
     Ákvæðum þessa kafla skal beitt um björgunarmál sem höfðað er fyrir íslenskum dómstóli eða gerðardómi.
     Ákvæði þessa kafla gilda jafnt þótt það skip sem bjargaði sé eign sama manns og hitt er bjargað var. Þá gilda ákvæðin einnig um björgun sem framkvæmd er af skipi í eigu ríkisins.
     Þótt björgunaraðgerðir fari fram undir stjórn eða séu framkvæmdar af stjórnvöldum í skjóli valdheimilda þeirra fer um rétt þeirra sem tekið hafa þátt í slíkum björgunaraðgerðum samkvæmt ákvæðum þessa kafla.
     Ákvæði þessa kafla gilda ekki um skip eða lausafé sem falla undir III. kafla þjóðminjalaga.

3. gr.

     165. gr. laganna orðast svo:
     Ákvæðum þessa kafla skal þá aðeins beita að ekki sé um annað samið. Óheimilt er að semja um takmörkun á skyldu til að koma í veg fyrir eða draga úr umhverfistjóni.
     Skipstjóri hefur umboð til að gera samning fyrir hönd eiganda skips. Eigandi skips, útgerðarmaður og skipstjóri hafa hver um sig umboð til að gera samning um björgun fyrir hönd eigenda þess lausafjár sem er eða hefur verið um borð í skipinu.
     Björgunarsamningi má víkja til hliðar í heild eða að hluta eða breyta ef hann er gerður meðan hættan stóð yfir eða undir áhrifum hennar og það yrði talið ósanngjarnt að bera hann fyrir sig. Samningi um upphæð björgunarlauna eða sérstakrar þóknunar skv. 170. gr. a má víkja til hliðar eða breyta ef krafan er ekki í eðlilegu samræmi við umfang vinnu að björgun.

4. gr.

     166. gr. laganna orðast svo:
     Skylt er sjófarendum að leitast við að bjarga mönnum úr hættu verði það gert án þess að björgunarmönnum eða skipi þeirra sé stefnt í háska.
     Björgunarmaður er skyldur til þess gagnvart eiganda og útgerðarmanni skips og eigendum annars lausafjár sem reynt er að bjarga að:
  1. sýna aðgát við framkvæmd björgunar og reyna að koma í veg fyrir eða draga úr umhverfistjóni,
  2. leita aðstoðar annarra björgunarmanna þegar aðstæður krefjast þess og
  3. samþykkja íhlutun annarra björgunarmanna þegar útgerðarmaður, skipstjóri eða eigandi annars lausafjár sem í hættu er krefst þess og krafan telst sanngjörn; björgunarlaun skulu þó ekki lækka ef krafan er ósanngjörn.

     Eiganda skips, útgerðarmanni eða skipstjóra, ásamt eigendum annars lausafjár sem reynt er að bjarga, ber gagnvart björgunarmanni skylda til að:
  1. veita honum liðsinni við björgunina,
  2. sýna aðgát meðan björgunaraðgerðir standa yfir og reyna að koma í veg fyrir eða draga úr umhverfistjóni og
  3. taka við hinu bjargaða eftir að því hefur verið komið á öruggan stað og björgunarmaður leggur fram sanngjarna kröfu þess efnis.


5. gr.

     167. gr. laganna orðast svo:
     Björgunarmaður á rétt til björgunarlauna beri björgunaraðgerðir árangur. Að frátöldum vaxta- og málskostnaði má ekki ákvarða björgunarlaun hærri en sem nemur verðmæti þess sem bjargað var.
     Björgun mannslífa veitir ekki rétt til björgunarlauna. Sá sem bjargar mannslífi við framkvæmd björgunar á þó rétt á sanngjarnri hlutdeild í björgunarlaunum eða í sérstakri þóknun skv. 170. gr. a.
     Ákvæði 1. mgr. kemur ekki í veg fyrir að hægt sé að krefjast sérstakrar þóknunar skv. 170. gr. a.

6. gr.

     168. gr. laganna orðast svo:
     Björgunarlaun skal ákvarða með það í huga að hvetja til björgunar. Við ákvörðunina skal þessa gætt:
  1. verðmætis þess sem bjargað var,
  2. verklagni þeirrar og atorku sem björgunarmenn beittu við björgun skips, annars lausafjár og mannslífa,
  3. verklagni og atorku björgunarmanna við að koma í veg fyrir eða draga úr umhverfistjóni,
  4. að hve miklu leyti björgunin tókst,
  5. eðlis og umfangs hættunnar,
  6. hve langan tíma björgunaraðgerðir tóku ásamt útgjöldum og tjóni því sem björgunarmenn urðu fyrir,
  7. hve skjótt hjálpin var veitt,
  8. áhættu björgunarmanna að verða skaðabótaskyldir gagnvart þriðja manni og annarrar hættu sem björgunarmönnum eða eigum þeirra var stofnað í,
  9. að björgunarskip eða annar búnaður var notaður eða var til reiðu við framkvæmd björgunarinnar,
  10. umfangs björgunarviðbúnaðar, afkastagetu og verðmætis búnaðar björgunarmanna.

     Nú var skip það sem bjargað var eigi statt í yfirvofandi hættu en gat þó eigi komist til hafnar fyrir eigin vélarafli og skal þá atriða b–j-liða 1. mgr. einkum gætt við ákvörðun björgunarlauna.

7. gr.

     169. gr. laganna orðast svo:
     Eigandi skips og eigendur annars lausafjár sem bjargað var eru ábyrgir fyrir greiðslu björgunarlauna í hlutfalli við verðmæti hinna björguðu eigna þeirra.

8. gr.

     170. gr. laganna orðast svo:
     Við skiptingu björgunarlauna milli tveggja eða fleiri björgunarmanna skal viðmiða 1. mgr. 168. gr. gætt.

9. gr.

     Við lögin bætast sjö nýjar greinar, 170. gr. a–g, og orðast svo:
     
     a. (170. gr. a.)
     Ef björgunarmaður hefur unnið að björgun skips sem eitt sér eða ásamt farmi hefur falið í sér hættu á umhverfistjóni getur hann krafið eiganda skips og útgerðarmann um sérstaka þóknun sem er jafnhá kostnaði hans við björgunarvinnuna. Aðeins er hægt að krefjast sérstakrar þóknunar í þeim mæli sem hún er hærri en björgunarlaun ákvörðuð skv. 1. mgr. 168. gr.
     Hafi björgunarmaður komið í veg fyrir eða dregið úr umhverfistjóni er heimilt að hækka hina sérstöku þóknun um allt að 30% af kostnaði björgunarmanns. Sé það talið sanngjarnt, þegar horft er til þeirra atriða sem nefnd eru í 1. mgr. 168. gr., má hækkunin nema allt að 100%.
     Með kostnaði björgunarmanns er átt við bein og hæfileg útgjöld björgunarmanns vegna björgunaraðgerða auk sanngjarns endurgjalds fyrir notkun búnaðar og mannafla. Við ákvörðun þess endurgjalds ber að líta til atriða sem nefnd eru í g-, i- og j-liðum 1. mgr. 168. gr.
     Ef björgunarmaður hefur vegna gáleysis vanrækt að koma í veg fyrir eða draga úr umhverfistjóni má lækka eða fella niður hina sérstöku þóknun.
     
     b. (170. gr. b.)
     Nú hefur einhver samkvæmt samningi tekist á hendur verk áður en hætta skapast og á hann þá aðeins rétt á björgunarlaunum eða sérstakri þóknun að því leyti sem talið verður að veitt aðstoð hafi verið umfram skyldu samkvæmt samningnum.
     Nú tekur einhver þátt í vinnu að björgun gegn beru og réttmætu banni eiganda skips, útgerðarmanns eða skipstjóra og á hann þá engan rétt til björgunarlauna eða sérstakrar þóknunar. Sama á við um bann eiganda annars lausafjár sem er í hættu en hefur hvorki verið né er um borð í skipi.
     Lækka má eða fella niður björgunarlaun eða sérstaka þóknun ef mistök björgunarmanns eða vanræksla hefur gert björgunina nauðsynlega eða erfiðari en ella, eða björgunarmaður hefur gerst sekur um svik eða aðra óheiðarlega háttsemi.
     
     c. (170. gr. c.)
     Nú hefur skip sem er skrásett á Íslandi bjargað einhverju á ferð og skal þá fyrst af björgunarlaununum bæta það tjón sem varð á því skipi, farmi þess eða á öðrum fjármunum sem á skipinu voru, ásamt útgjöldum vegna eldsneytis og launa skipstjóra og skipshafnar sem af björgunarstarfinu leiddi. Af óskiptum björgunarlaunum skal einnig greiða þóknun skv. 3. mgr.
     Því sem þá er eftir af björgunarlaununum skal skipt þannig að þrír fimmtu hlutar falli til útgerðarinnar en tveir fimmtu hlutar til áhafnarinnar. Hlut áhafnar skal skipt á þann veg að skipstjóri fái einn þriðja hluta en hin eiginlega skipshöfn tvo þriðju hluta. Milli skipshafnar skal skipt að réttri tiltölu miðað við föst laun hvers og eins eða hlutaskiptareglur, eftir því sem við á. Hlutur skipstjóra skal þó aldrei vera lægri en tvöfaldur hlutur þess skipverja sem hæst björgunarlaun fær. Leiðsögumaður um borð í skipi því sem bjargar fær skiptahlut í hluta skipshafnarinnar þótt hann sé ekki ráðinn hjá útgerðinni. Skal skiptahlutur hans vera jafn hæsta stýrimannshlut. Á skipum þar sem tekjur skipstjóra og skipshafnar miðast hvorki við föst laun né tiltekinn hlut skulu allir skipverjar, að skipstjóra meðtöldum, eiga jafna hlutdeild í björgunarlaunum.
     Nú hefur einhver björgunarmanna skarað fram úr við björgunarstörfin, t.d. náð þar sérstaklega ríkum árangri eða stofnað sér í hættu umfram aðra, og má þá veita honum sérstaka aukaþóknun af þeim sökum. Útgerðarmaður getur greitt þessa þóknun ótilkvaddur en að öðrum kosti þarf rökstudd beiðni að hafa borist honum áður en mánuður er liðinn frá því að björgun lauk. Hafi skipverji, án nægra ástæðna, látið hjá líða að hlýðnast réttmætum fyrirmælum yfirmanns síns um að taka þátt í björgunarstörfum verður hann að hlíta því að hlutdeild hans í björgunarlaunum kunni að vera lækkuð eða jafnvel felld niður ef nægar ástæður eru og hækkar þá að sama skapi heildarskiptahlutur annarra skipverja, að skipstjóra frátöldum.
     Jafnskjótt og björgunarlaun hafa verið ákvörðuð með samningi eða endanlegum dómi skal útgerðarmaður senda hverjum þeim sem á hlutdeild í björgunarlaununum tilkynningu um upphæð þeirra ásamt áætlun um skiptingu. Mótmæli gegn skiptaáætlun útgerðarmanns skulu hafa borist honum áður en einn mánuður er liðinn frá því að framangreind tilkynning var send.
     Samningsákvæði, sem mæla fyrir um að skipstjóri eða skipshöfn skuli hafa minni hlut í björgunarlaunum en 2. mgr. mælir fyrir um, skulu vera ógild nema viðkomandi hafi verið ráðinn á skip til björgunarstarfa eða á skip sem sérstaklega var búið til björgunar eða samningurinn hafi verið gerður við ráðninguna og þá vegna tiltekinnar björgunaraðgerðar.
     Ákvæði 1.–5. mgr. gilda einnig um skiptingu sérstakrar þóknunar skv. 2. mgr. 170. gr. a.
     Nú er skip sem bjargar ekki skráð á Íslandi og gildir þá löggjöf þess lands þar sem skipið er skráð.
     Ef það er ekki skip sem bjargar skal um skiptingu björgunarlauna fara eftir þeirri löggjöf sem gildir um réttarsambandið milli björgunarmanns og starfsmanna hans.
     
     d. (170. gr. d.)
     Krefjist björgunarmaður þess skal sá sem ábyrgð ber á greiðslu björgunarlauna eða sérstakrar þóknunar leggja fram fullnægjandi tryggingu fyrir greiðslu að meðtöldum vöxtum og kostnaði björgunarmanns. Þegar trygging hefur verið sett getur björgunarmaður ekki gengið að sjóveði sínu vegna björgunarlauna.
     Eigandi og útgerðarmaður skips þess sem bjargað var skulu gera sitt ýtrasta til að eigandi farms leggi fram fullnægjandi tryggingu vegna ábyrgðar gagnvart björgunarmanni, áður en honum er afhentur farmurinn.
     Þar til sett hefur verið trygging skv. 1. mgr. er óheimilt án samþykkis björgunarmanns að flytja skip eða lausafé sem bjargað var frá þeim stað þar sem því var komið fyrir eftir björgunina.
     
     e. (170. gr. e.)
     Dómstóll sá eða gerðardómur sem dæma skal um kröfu björgunarmanna getur ákveðið að greiða skuli fyrir fram hluta björgunarlauna eða sérstakrar þóknunar. Setja má það sem skilyrði fyrir fyrirframgreiðslu að björgunarmaður setji tryggingu.
     
     f. (170. gr. f.)
     Dómsmál um ákvörðun eða skiptingu björgunarlauna eða sérstakrar þóknunar má höfða fyrir dómstóli í því umdæmi þar sem björgunin fór fram eða þar sem hið bjargaða var flutt að landi. Mál um skiptingu skv. 170. gr. c má höfða fyrir dómstóli í heimahöfn þess skips sem bjargaði eða þar sem mál um ákvörðun björgunarlauna eða sérstakrar þóknunar eða um skiptingu skv. 170. gr. er höfðað.
     Þegar björgun er lokið getur útgerð þess skips sem bjargaði krafist kyrrsetningar allra hinna björguðu verðmæta. Um kyrrsetninguna gilda lög um kyrrsetningu, lögbann o.fl. Frestur til málshöfðunar skv. 1. mgr. 36. gr. þeirra laga skal vera átta vikur frá lokum gerðar. Til gerðarinnar nægir að boða skipstjóra fyrir hönd allra gerðarþola.
     Ef mál ef höfðað til að fá leyst úr ágreiningi um skiptingu björgunarlauna skal stefna öllum þeim aðilum sem kröfu eiga til hlutdeildar. Stefndu geta gert sjálfstæðar kröfur án þess að höfða gagnsök. Að öðru leyti gilda ákvæði laga um meðferð einkamála. Sé ekki öllum aðilum stefnt skal málinu vísað frá dómi.
     
     g. (170. gr. g.)
     Ákvæði þessa kafla gilda ekki um herskip eða önnur skip sem ekki eru rekin í viðskiptalegum tilgangi, eru í eigu erlends ríkis og njóta á björgunarstundu friðhelgi samkvæmt reglum þjóðaréttar, nema hlutaðeigandi ríki ákveði annað.
     Ákvæði þessa kafla veita ekki heimild til kyrrsetningar eða annarrar tímabundinnar réttaraðgerðar ef farmur er í eigu ríkisins og er ekki fluttur í viðskiptalegum tilgangi. Þetta gildir ekki ef kyrrsetning eða önnur tímabundin réttaraðgerð er í samræmi við reglur þjóðaréttar.
     Ákvæði þessa kafla veita ekki heimild til kyrrsetningar eða annarrar tímabundinnar réttaraðgerðar ef farmur er ætlaður til mannúðarmála og það ríki sem gefið hefur farminn fellst á að greiða björgunarlaun eða sérstaka þóknun vegna farmsins.

10. gr.

     1. tölul. 175. gr. laganna orðast svo: kröfu um björgunarlaun, kröfu um sérstaka þóknun skv. 170. gr. a, framlags til sameiginlegs sjótjóns eða endurgjalds samkvæmt samningi vegna úrræða sem greind eru í 4., 5. eða 6. tölul. 1. mgr. 174. gr.

11. gr.

     1. tölul. 215. gr. laganna orðast svo: Krafa um björgunarlaun og sérstaka þóknun: innan tveggja ára frá því að björgunarstarfi lauk.

12. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1999.

13. gr.

      14. gr. laga um bátaábyrgðarfélög, nr. 18 23. apríl 1976, fellur brott.

Samþykkt á Alþingi 19. desember 1998.