Ferill 414. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 687  —  414. mál.




Frumvarp til laga



um alþjóðleg viðskiptafélög.

(Lagt fyrir Alþingi á 123. löggjafarþingi 1998–99.)

I. KAFLI
Almenn ákvæði. Skilgreiningar.
1. gr.

    Lög þessi gilda um alþjóðleg viðskiptafélög.
    Með alþjóðlegu viðskiptafélagi er í lögum þessum átt við félag sem stofnað er og skráð hér á landi, hefur starfsleyfi skv. II. kafla þessara laga og stundar viðskipti sem kveðið er á um í III. kafla.
    Alþjóðlegum viðskiptafélögum er einungis heimilt að stunda starfsemi sem kveðið er á um í III. kafla.
    Alþjóðlegum viðskiptafélögum er skylt og einum heimilt að hafa í heiti sínu orðin alþjóð­legt viðskiptafélag eða skammstöfunina a.v., a/v eða av.

2. gr.

    Í lögum þessum hafa eftirfarandi orð og hugtök merkingu sem hér segir:
    Atvinnufyrirtæki erlendis er félag sem skráð er erlendis og er að öllu leyti með atvinnustarfsemi sína erlendis.
    Erlendur aðili
er einstaklingur, búsettur erlendis, án tillits til ríkisfangs, félag, stofnun, sjóður eða annar lögaðili sem á heimili erlendis. Einstaklingur telst búsettur erlendis ef hann á lögheimili erlendis samkvæmt skilgreiningu lögheimilislaga. Lögaðili telst eiga heima er­lendis ef hann er skráður til heimilis erlendis eða telur heimili sitt erlendis samkvæmt sam­þykktum sínum.
    Innlendur aðili er einstaklingur, búsettur hér á landi, án tillits til ríkisfangs, félag, stofnun, sjóður eða annar lögaðili sem á heimili hér á landi. Einstaklingur telst búsettur hér á landi ef hann á lögheimili sitt hér á landi samkvæmt skilgreiningu lögheimilislaga. Lögaðili telst eiga heimili sitt hér á landi ef hann er skráður hér á landi eða ef hann telur heimili sitt hér á landi samkvæmt samþykktum sínum.
    Íslensk lögsaga er efnahagslögsaga Íslands eins og hún er skilgreind í lögum á hverjum tíma.

II. KAFLI
Stofnun og starfsleyfi.
3. gr.

    Alþjóðlegt viðskiptafélag verður einungis stofnað sem hlutafélag eða einkahlutafélag. Til að hefja starfsemi alþjóðlegs viðskiptafélags þarf starfsleyfi nefndar skv. 4. gr. laganna. Skráning félags sem fyrirhugar að sækja um starfsleyfi sem alþjóðlegt viðskiptafélag í hluta­félagaskrá veitir félaginu ekki sjálfkrafa rétt til að hefja slíka starfsemi.


4. gr.

    Sérstök fimm manna nefnd, starfsleyfisnefnd, veitir starfsleyfi samkvæmt lögum þessum. Viðskiptaráðherra skipar nefndina og skulu dómsmálaráðherra, samgönguráðherra, sjávar­útvegsráðherra og utanríkisráðherra tilnefna sinn manninn hver, en sá fimmti skal skipaður án tilnefningar og skal hann vera formaður nefndarinnar. Varamenn skulu skipaðir á sama hátt.
    Viðskiptaráðherra lætur nefndinni í té starfsaðstöðu og greiðir kostnað af starfi hennar. Ráðherra ákveður þóknun nefndarmanna.

5. gr.

    Umsókn um starfsleyfi skal vera skrifleg. Henni skal fylgja lýsing á starfseminni þar sem fram kemur, meðal annars, hvaða starfsemi ætlunin er að stunda og viðskiptaáætlun. Jafn­framt skulu fylgja upplýsingar um stofnendur, hluthafa og stjórnarmenn og aðra stjórnendur auk annarra upplýsinga og gagna sem starfsleyfisnefnd ákveður. Félagssamþykktir skulu fylgja umsókn um starfsleyfi alþjóðlegs viðskiptafélags.
    Stofnendur, hluthafar, stjórnarmenn og aðrir stjórnendur félags sem sækir um starfsleyfi alþjóðlegs viðskiptafélags skulu vera lögráða og fjár síns ráðandi og mega ekki á síðustu þremur árum hafa hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað samkvæmt almennum hegningarlög­um eða lögum um hlutafélög, einkahlutafélög, bókhald, ársreikninga, gjaldþrot eða opinber gjöld eða samkvæmt sambærilegum erlendum lögum eða tengjast með einhverjum hætti refsi­verðri starfsemi.
    Starfsleyfisnefnd kannar umsókn og þær upplýsingar og gögn sem henni fylgja eða nefnd­in aflar sjálf. Ákvörðun nefndarinnar um veitingu starfsleyfis skal tekin svo fljótt sem unnt er eftir að fullbúin umsókn ásamt þeim upplýsingum og gögnum sem umsókn eiga að fylgja berast nefndinni.
    Nefndin skal synja um starfsleyfi ef skilyrði laga þessara eru ekki uppfyllt eða ef hún telur að starfs- eða viðskiptaferill stofnenda, hluthafa, stjórnarmanna eða annarra stjórnenda við­komandi félags sé með þeim hætti að hæfi þeirra til að starfrækja alþjóðlegt viðskiptafélag með heilbrigðan og traustan rekstur verði dregið í efa. Ákvörðun nefndarinnar um að synja umsækjanda um starfsleyfi sætir ekki stjórnsýslukæru.
    Birta skal tilkynningar um starfsleyfi alþjóðlegra viðskiptafélaga í Lögbirtingablaði. Við­skiptaráðuneytið lætur halda sérstaka skrá yfir alþjóðleg viðskiptafélög.
    Greiða skal gjald í ríkissjóð til að mæta kostnaði við undirbúning og útgáfu starfsleyfis. Um gjaldið fer samkvæmt ákvæðum laga um aukatekjur ríkissjóðs.

6. gr.

    Um stofnun alþjóðlegs viðskiptafélags fer að öðru leyti eftir ákvæðum laga um hlutafélög eða einkahlutafélög, eftir því sem við á.

III. KAFLI
Starfsemi.
7. gr.

    Alþjóðlegt viðskiptafélag má stunda viðskipti í eigin nafni við erlenda aðila utan Íslands, eða hafa milligöngu um slík viðskipti, með vörur sem samningurinn um Evrópska efnahags­svæðið tekur ekki til og ekki eiga uppruna sinn hér á landi, en ekki með aðrar vörur. Það má ekki stunda viðskipti í eigin nafni með vörur við aðila hér á landi, sbr. þó 2. mgr. 10. gr., eða við innlenda aðila utan Íslands eða hafa milligöngu um slík viðskipti. Þá er því einnig óheim­ilt að vinna vöru að hluta til eða að öllu leyti hér á landi, sbr. þó 1. mgr. 10. gr., eða eiga þátt í útflutningi vara sem eiga uppruna sinn hér á landi. Við ákvörðun um það hvort að vara telj­ist eiga uppruna sinn hér á landi skal fara samkvæmt upprunareglum samningsins um Evr­ópska efnahagssvæðið.

8. gr.

    Alþjóðlegt viðskiptafélag má hafa milligöngu um viðskipti með þjónustu milli erlendra aðila utan íslenskrar lögsögu. Það má ekki veita aðra þjónustu en þá sem um ræðir í 1. málsl. né veita öðrum en þar um ræðir slíka þjónustu.

9. gr.

    Alþjóðlegt viðskiptafélag getur verið eignaraðili að öðrum alþjóðlegum viðskiptafélög­um, en ekki að öðrum íslenskum lögaðilum. Alþjóðlegu viðskiptafélagi er heimilt að vera eignaraðili að atvinnufyrirtækjum erlendis auk annarrar starfsemi samkvæmt lögum þessum. Enn fremur er því heimilt að starfa eingöngu sem eignarhaldsfélag sem eigi, fjárfesti í og njóti arðs af eignarhlutum í atvinnufyrirtækjum erlendis.
    Heimilt er alþjóðlegu viðskiptafélagi að eiga, fjárfesta í og njóta arðs af eignarréttindum sem skráð eru opinberri skráningu utan Íslands, svo sem vörumerkjum, einkaleyfum og hönn­unarréttindum. Einnig er alþjóðlegu viðskiptafélagi heimilt að eiga, fjárfesta í og njóta arðs af útgáfuréttindum erlendis.

10. gr.

    Alþjóðlegu viðskiptafélagi skal heimilt að flytja um Ísland vörur sem það annast viðskipti með skv. 7. gr. vegna umflutnings varanna milli svæða utan Íslands. Vinnsla, sem breytir uppruna slíkra vara, er óheimil hér á landi. Um meðhöndlun og umsýslu með vörur alþjóð­legs viðskiptafélags sem eru á Íslandi vegna umflutnings fer að öðru leyti samkvæmt ákvæðum tollalaga.
    Alþjóðlegu viðskiptafélagi er heimilt að kaupa rekstrarvörur og þjónustu hér á landi til eigin nota. Því skal einnig heimilt að eiga viðskipti við önnur alþjóðleg viðskiptafélög bæði hér á landi og erlendis. Þá skal alþjóðlegu viðskiptafélagi heimilt að eiga peningalegar eignir hér á landi til nota í daglegum rekstri og taka lán hér á landi jafnt sem erlendis í eðlilegu samræmi við starfsemi sína.


11. gr.

    Alþjóðlegt viðskiptafélag má eiga eða hafa umráð yfir og skrá hér á landi flugvélar og skip, önnur en fiskiskip, enda sinni slíkar flugvélar og skip einungis verkefnum sem alþjóð­legu viðskiptafélagi er heimilt að annast skv. 7. gr. Alþjóðlegu viðskiptafélagi er einnig heimilt að eiga eða hafa umráð yfir og skrá hér á landi flugvélar og skip, önnur en fiskiskip, og leigja eða framleigja erlendum aðilum til flutninga utan íslenskrar lögsögu.
    Alþjóðlegu viðskiptafélagi er heimilt að öðlast hér á landi eignarrétt og afnotarétt yfir fasteign eða öðrum rekstrarfjármunum til beinnar notkunar í atvinnustarfsemi sinni. Óheimilt skal alþjóðlegu viðskiptafélagi að leigja slíkar eignir út eða hafa af þeim aðrar tekjur frá þriðja aðila. Þó skal alþjóðlegu viðskiptafélagi heimilt að leigja öðrum alþjóðlegum við­skiptafélögum afnot af framangreindum eignum sínum, enda séu slíkar leigutekjur einungis óverulegur hluti rekstrartekna viðkomandi félags. Þá skal alþjóðlegu viðskiptafélagi heimilt að endurnýja og selja slíkar eignir með eðlilegu millibili.

IV. KAFLI
Rekstur.
12. gr.

    Rekstur alþjóðlegs viðskiptafélags skal vera fjárhagslega óháður og aðskilinn frá rekstri annarra aðila. Óheimilt er að láta alþjóðlegt viðskiptafélag bera annan kostnað eða hafa aðr­ar tekjur en þær sem stafa af heimilli starfsemi skv. III. kafla eða færa kostnað eða tekjur af starfsemi þess yfir á aðra aðila. Sé aðstaða eða starfsfólk alþjóðlegs viðskiptafélags samnýtt með öðrum skal gerður skriflegur samningur um samnýtinguna og skiptingu kostnaðar.
    Öll viðskipti alþjóðlegra viðskiptafélaga við aðila þeim tengda skulu gerð á grundvelli almennra kjara og venju í viðskiptum óskyldra aðila.

V. KAFLI
Reikningsskil og endurskoðun.
13. gr.

    Fjármálaráðherra getur heimilað alþjóðlegu viðskiptafélagi að færa bókhald sitt og reikn­ingsskil í nánar tiltekinni erlendri mynt í samræmi við góða reikningsskilavenju. Skulu skatt­stofnar þá umreiknaðir í íslenskar krónur miðað við gengi í lok reikningsárs. Við ákvörðun skattstofna skal þá ekki beita ákvæðum laga um tekjuskatt og eignarskatt um verðlagsbreyt­ingar og endurmat eða sambærilegum ákvæðum annarra laga. Fjármálaráðherra er heimilt að setja nánari reglur þar sem kveðið er á um umreikning fjárhæða milli mismunandi gjald­miðla og útreikning skattstofna hjá alþjóðlegum viðskiptafélögum sem fengið hafa leyfi sam­kvæmt þessari grein.


14. gr.

    Ársreikningur alþjóðlegs viðskiptafélags skal endurskoðaður af löggiltum endurskoðanda eða endurskoðunarfélagi í samræmi við ákvæði laga um ársreikninga og laga þessara. Skal endurskoðandi sannreyna að tekjur og gjöld hafi stofnast í samræmi við ákvæði III. og IV. kafla og skal slíkt koma skýrt fram í áritun hans.
    Hafi endurskoðandi alþjóðlegs viðskiptafélags ástæðu til að ætla að lög og reglugerðir eða reglur sem gilda um félagið eða starfsleyfi félagsins hafi verið brotin skal endurskoðandi tafarlaust gera stjórn félagsins og starfsleyfisnefnd viðvart. Ákvæði þessarar málsgreinar brjóta ekki í bága við þagnarskyldu endurskoðenda samkvæmt ákvæðum annarra laga.

VI. KAFLI
Eftirlit.
15. gr.

    Starfsleyfisnefnd hefur eftirlit með því að starfsemi alþjóðlegra viðskiptafélaga sé í sam­ræmi við ákvæði laga þessara, reglugerða og reglna settra samkvæmt þeim og starfsleyfi og samþykktir viðkomandi félaga.
    Til að mæta kostnaði við eftirlit skv. 1. mgr. skal alþjóðlegt viðskiptafélag árlega greiða gjald í ríkissjóð. Um gjaldið fer samkvæmt ákvæðum laga um aukatekjur ríkissjóðs.

16. gr.

    Alþjóðlegt viðskiptafélag skal eigi síðar en sex mánuðum eftir lok hvers reikningsárs skila starfsleyfisnefnd skýrslu um starfsemi sína í formi sem hún ákveður.

VII. KAFLI
Afturköllun starfsleyfa.
17. gr.

    Starfsleyfisnefnd getur afturkallað starfsleyfi alþjóðlegs viðskiptafélags:
     1.      hafi hlutaðeigandi félag fengið starfsleyfið á grundvelli rangra upplýsinga eða á annan óeðlilegan hátt,
     2.      komi að öðru leyti í ljós að fyrir hendi voru við veitingu starfsleyfis atvik eða atriði sem hefðu orðið þess valdandi að starfsleyfi hefði ekki verið veitt hefði verið um þau kunnugt,
     3.      nýti hlutaðeigandi félag ekki starfsleyfið innan tólf mánaða frá því að það var veitt,
     4.      uppfylli hlutaðeigandi félag ekki lengur skilyrði til að öðlast starfsleyfi eða brjóti alvarlega eða ítrekað gegn lögum þessum, reglugerðum eða reglum settum samkvæmt þeim eða gegn starfsleyfi eða
     5.      séu aðstæður með þeim hætti að starfsleyfisnefnd telji hluthafa, stjórnarmenn eða aðra stjórnendur ekki hæfa með tilliti til heilbrigðs og trausts reksturs viðkomandi félags.
    Áður en til afturköllunar kemur skv. 1. mgr. skal hlutaðeigandi félagi veittur hæfilegur frestur til úrbóta sé þess kostur.

18. gr.

    Afturköllun á starfsleyfi alþjóðlegs viðskiptafélags skal rökstudd skriflega. Tilkynningu um afturköllun skal birta í Lögbirtingablaði. Ákvörðun um afturköllun starfsleyfis sætir ekki stjórnsýslukæru.
    Komi til afturköllunar á starfsleyfi alþjóðlegs viðskiptafélags skal hlutaðeigandi félagi slitið. Sama gildir ef alþjóðlegt viðskiptafélag afsalar sér starfsleyfi.

VIII. KAFLI
Ýmis ákvæði.
19. gr.

    Um alþjóðleg viðskiptafélög fer að öðru leyti en kveðið er á um í lögum þessum sam­kvæmt ákvæðum laga um hlutafélög eða einkahlutafélög, eftir því sem við á, og ákvæðum almennra laga sem við geta átt.

20. gr.

    Viðskiptaráðherra fer með framkvæmd laga þessara. Honum er heimilt að kveða nánar á um framkvæmd þeirra með reglugerð.


IX. KAFLI
Viðurlög.
21. gr.

    Fyrir brot á lögum þessum skal refsað með sektum eða varðhaldi liggi ekki þyngri refsing við broti samkvæmt öðrum lögum.

X. KAFLI
Gildistaka.
22. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1999.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


I.

    Frumvarp þetta byggist að meginefni til á starfi og tillögum verkefnisstjórnar sem for­sætisráðherra skipaði 11. mars 1997 til að vinna að athugun á möguleikum þess að efna til sérhæfðrar alþjóðlegrar viðskiptastarfsemi utan lögsögu á Íslandi, (á ensku Offshore Trading Centre).
    Í verkefnisstjórninni voru eftirtaldir:
    Valur Valsson bankastjóri, formaður, tilnefndur af forsætisráðuneyti.
    Tryggvi Jónsson endurskoðandi, tilnefndur af fjármálaráðuneyti.
    Jóhannes Geir Sigurgeirsson tilnefndur af utanríkisráðuneyti.
    Halldór J. Kristjánsson ráðuneytisstjóri, tilnefndur af viðskiptaráðuneyti.
    Brynjólfur Bjarnason forstjóri, tilnefndur af sjávarútvegsráðuneyti.
    Vilhjálmur Egilsson framkvæmdastjóri, tilnefndur af Verslunarráði.
    Verslunarráð lagði verkefninu til umsjónarmann, aðstöðu og ýmsa aðstoð og hafði Davíð Sch. Thorsteinsson umsjón með verkefninu af hálfu ráðsins. Fjölmargir aðrir komu að málinu með ráðgjöf og ábendingar.
    Verkefni þetta á sér alllangan aðdraganda og var síðasta alvarlega athugunin í málinu gerð árið 1992 og þá á möguleikum Íslendinga til að hasla sér völl á sviði alþjóðlegrar fjár­málastarfsemi. Þá var niðurstaðan sú að Íslendingar ættu litla sem enga möguleika á því að komast inn í slíka starfsemi, m.a. vegna mikillar samkeppni og ýmissa annarra annmarka.
    Snemma árs 1996 hóf Verslunarráð Íslands forathugun á möguleikum Íslands sem vett­vangs fyrir alþjóðlega fjármálastarfsemi og naut til þess tilstyrks Iðnþróunarsjóðs, Fjárfest­ingarskrifstofu viðskiptaráðuneytis og Útflutningsráðs og Seðlabankans. Niðurstaða þeirrar forathugunar var að Íslendingar þyrftu að nálgast þessi mál á annan hátt ef árangur ætti að nást. Flestar alþjóðlegar fjármálamiðstöðvar byggja tilveru sína annaðhvort á grundvelli mikillar þekkingar og mannauðs sem byggður hefur verið upp á viðkomandi sviði eða að á því að skattlagning á starfsemina er nánast engin og jafnvel sérstakar reglur um skatta að­fluttra einstaklinga sem vinna við þessa starfsemi.
    Möguleikar Íslendinga væru því helstir að einbeita sér að því að byggja upp slíka alþjóð­lega viðskiptastarfsemi á sviðum þar sem þeir hefðu eitthvað það fram að færa sem skapaði þeim sérstöðu. Sérstaða og möguleikar Íslendinga í alþjóðlegum viðskiptum með sjávarfang er augljós og það svið hefur enn fremur þann meginkost að engin önnur þjóð hefur reynt að marka sér sérstöðu á því sviði.
    Verslunarráðið kynnti forsætisráðherra og hlutaðeigandi ráðherrum framangreindar niður­stöður og í framhaldi af því var ráðist í það verkefni að kanna til hlítar möguleika Íslands á sviði alþjóðlegrar viðskiptastarfsemi með áherslu á viðskipti með sjávarfang.

II.

    Fjölmörg ríki og einstakar stjórnsýslueiningar innan þeirra beita ýmiss konar ráðum á sviði skatta eða beinna styrkja til þess að laða til sín atvinnustarfsemi og halda þeirri sem fyrir er og má segja að hin almenna regla sé að einhverjar slíkar aðgerðir séu til staðar. Í alþjóðlegu samstarfi, t.d. innan Evrópusambandsins og OECD, hefur í mörg ár verið leitast við að sporna gegn skattalegri samkeppni milli ríkja og hefur umræða um hana og samræm­ingu skatta milli ríkja staðið lengi án þess að hafa leitt til endanlegrar niðurstöðu.
    Ísland hefur haft sérstöðu að því leyti að skattkerfið hefur ekki verið nýtt til þess að laða að erlenda atvinnustarfsemi og hafa skattabreytingar á Íslandi á undanförnum árum fyrst og fremst miðað að því að skapa atvinnulífinu almennt samkeppnishæf starfsskilyrði. Hefur árangurinn af þeim breytingum verið mikill og stuðlað verulega að efnahagsbatanum sem orðið hefur í landinu.
    Enda þótt skattalöggjöf hafi tvímælalaust orðið meira hvetjandi fyrir íslenskt atvinnulíf á undanförnum árum breytir það ekki þeirri staðreynd að á einstökum sviðum hefur íslenska skattkerfið farið halloka í samkeppni við erlend skattkerfi, starfsemi hefur flust úr landi og byggst upp annars staðar.
    Við þessu þarf að bregðast einhvern veginn en hins vegar er hæpið að reikna með því að Ísland geti í öllum atriðum fylgt því sem hagstæðast er hjá keppinautunum. Sem dæmi má nefna að íslensk fjármálastarfsemi býr ekki við þannig skattalöggjöf að hingað laðist erlend fjármálafyrirtæki. Þvert á móti hefur komið fram að íslenskt atvinnulíf leitar í síauknum mæli eftir fjármálaþjónustu erlendis, beint eða með milligöngu íslenskra fjármálafyrirtækja. Enn fremur eru íslensk fjármálafyrirtæki farin að hasla sér völl erlendis í rekstri sínum, væntan­lega í því skyni að geta boðið íslenskum viðskiptavinum sínum fjölbreyttari og ódýrari þjón­ustu en ella.

III.

    Íslensk sjávarútvegsfyrirtæki hafa haslað sér völl í sjávarútvegi erlendis og íslensk mark­aðsfyrirtæki á sviði sjávarútvegs hafa starfað erlendis áratugum saman.
    Til skamms tíma þurfti ekki að hafa áhyggjur af því að arður af starfsemi markaðsfyrir­tækjanna skilaði sér ekki til Íslands vegna þess að þau voru svo beint tengd við íslenska framleiðendur sjávarafurða.
    Nú hefur hins vegar orðið sú þróun að eignarhald á stærstu íslensku fyrirtækjunum er að breytast og þau eru sífellt að öðlast meira sjálfstæði frá framleiðendunum. Þau eru enn frem­ur að byggjast meira upp sem alþjóðleg markaðsfyrirtæki á sviði viðskipta með sjávarfang. Ekki er því sjálfgefið að þessi fyrirtæki muni í framtíðinni flytja arð af starfsemi sinni til Íslands eins og hingað til eða byggja starfsemi sína að miklu leyti upp hér á landi.
    Þessi fyrirtæki eru í harðri alþjóðlegri samkeppni og munu þurfa að gæta ýtrustu hagsýni við uppbyggingu sína til að vera samkeppnishæf.
    Fjölmörg minni fyrirtæki á sviði viðskipta með sjávarvörur hafa náð verulegum árangri á undanförnum árum og hafa í æ ríkari mæli tekið að sér verkefni sem ekki tengjast Íslandi á nokkurn hátt. Þessi fyrirtæki eiga líka í harðri alþjóðlegri samkeppni og munu byggja upp reksturinn þar sem það er hagstæðast.

IV.

    Á þeim tíma sem liðinn er frá að fyrst var farið að huga að möguleikum Íslands í alþjóð­legri fjármálastarfsemi í byrjun þessa áratugar hefur löggjöf um íslenskan fjármagnsmarkað nánast verið alveg endurnýjuð, m.a. með hliðsjón af samningnum um Evrópska efnahags­svæðið. Þannig eru gjaldeyrisviðskipti við útlönd nú alveg frjáls og fjárfestingar milli landa heimilaðar að langmestum hluta. Traustur fjármagnsmarkaður er nú opinn í öllum grund­vallaratriðum. Bankalöggjöf hefur verið endurnýjuð, sömuleiðis löggjöf um verðbréfamarkað og búið hefur verið í haginn fyrir víðtæka einkavæðingu fjármálafyrirtækja. Því er ljóst að margt af því sem blasti við í upphafi á ekki lengur við og þróunin hefur einnig orðið önnur en spáð var. Þannig hafa alþjóðleg fjármálafrísvæði vaxið hröðum skrefum og ný svæði sem starfa með miklum blóma komið til sögunnar.
    Hins vegar eru önnur atriði sem gera það að verkum að Íslendingar ættu fremur að reyna að byggja upp alþjóðleg viðskiptafélög á afmörkuðum sviðum en fjármálafrísvæði.
    Hugtakið alþjóðleg fjármálamiðstöð er vel þekkt. Slíkar miðstöðvar byggjast eins og áður er rakið á mikilli þekkingu, mannauði og öðrum nauðsynlegum innviðum, svo sem efnahags- og lagalegum stöðugleika og hefðum, eða á afar lágri skattlagningu og hér eru þær fjármála­miðstöðvar sem byggjast á lágri skattlagningu nefndar fjármálafrísvæði.
    Ef Íslendingar tækju þá ákvörðun að setja lög sem þarf til þess að hefja starfsemi alþjóð­legs fjármálafrísvæðis hérlendis er ljóst að uppbygging þess tæki töluverðan tíma og alls óvíst um árangur af því að þá værum við Íslendingar að fara inn á svið sem við höfum ekki sérþekkingu á.
    Þess vegna er uppbygging alþjóðlegra viðskiptafélaga á afmörkuðum sviðum, ekki síst á sviði sjávarútvegs, mun rökréttara skref fyrir Ísland. Íslendingar hafa ekki eins mikla þekk­ingu á neinu sviði viðskipta eins og sjávarútvegi og starfsemin gæti því byggst upp í kringum íslenska þekkingu og þann mannauð sem þegar er til hér.
    Lögfesting lagaheimilda til stofnunar alþjóðlegra viðskiptafélaga er bæði varnaraðgerð, eins og áður hefur komið fram, og sóknaraðgerð. Þarna er augljóst svið sem íslensk fyrirtæki geta sótt fram á erlendis jafnframt því að byggja upp starfsemi á Íslandi sem annars færi fram annars staðar.
    Í kringum starfsemi slíkra félaga kunna að skapast tækifæri fyrir aðra aðila til þjónustu af ýmsum toga, svo sem sölu á vélum og tækjum, hugbúnaði, flutningum, vátryggingum og ýmiss konar fjármálaþjónustu sem alþjóðlegu viðskiptafélögin munu þurfa á að halda.

V.

    Helsta tillaga verkefnisstjórnarinnar var að skapa skilyrði á Íslandi fyrir alþjóðleg við­skiptafélög fyrir þriðju landa viðskipti með sjávarafurðir. Tillögur verkefnisstjórnarinnar og frumvarp þetta eru þó mun almennari og gera einnig ráð fyrir því að alþjóðleg viðskipta­félög geti annast milligöngu um viðskipti með þjónustu milli aðila erlendis. Þá er gert ráð fyrir möguleikum á starfsemi eignarhaldsfélaga sem eingöngu eigi, fjárfesti og njóti arðs af eignarhlutum í atvinnufyrirtækjum erlendis eða í eignar- eða notkunarréttindum á óhlutlæg­um réttindum sem skráð eru opinberri skráningu erlendis og í útgáfuréttindum erlendis eða eigi eða hafi umráð yfir og skrái hér á landi flugvélar og skip, önnur en fiskiskip, enda séu slíkar flugvélar og skip einungis nýtt í samræmi við ákvæði frumvarpsins.
    Uppbygging starfsemi af þessum toga kallar á umfangsmikla markaðs- og kynningarstarf­semi sem reiknað er með að skili mestum árangri á sviði verslunar með sjávarafurðir. Til þess að svo geti orðið þarf að skapa lagalegan grundvöll fyrir alþjóðleg viðskiptafélög sem mega stunda slík viðskipti og greiða 5% tekjuskatt af tekjum sínum. Enn fremur er gert ráð fyrir að þau verði undanþegin stimpilgjöldum og eignarskatti.

VI.

    Verkefnisstjórnin lagði mat á hversu mikil áhrif löggjöf af þessum toga kynni að geta haft á tekjur ríkissjóðs.
    Ljóst er að umfang kynningar á þessum möguleikum skiptir miklu máli, sérstaklega þar sem miðað er við að erlendir aðilar geti stofnað fyrirtæki á Íslandi í því skyni að stunda við­skipti í alþjóðlegum viðskiptafélögum.
    Í fyrstu má ætla að markhópurinn verði íslensk fyrirtæki sem ýmist hafa stofnað fyrirtæki erlendis fyrir alþjóðleg viðskipti sín eða eru að hugleiða að gera það. Verkefnisstjórnin taldi að ekki væri óvarlegt að ætla að innan þriggja ára yrðu komin á laggirnar milli 50 og 200 slík fyrirtæki eftir því hversu fljótir þessir aðilar væru að taka við sér.
    Tekjuskattur af þessari starfsemi einni yrði ekki mikill en reikna má með að veltan af henni kunni að vera á bilinu 25–100 milljarðar kr. á ári og hagnaður af starfseminni, sem kæmi til skattlagningar væri góður ef hann næði 1–2% af veltu og skattgreiðslur því á bilinu 12–100 millj. kr.
    Taldi verkefnisstjórnin að innlendur kostnaður alþjóðlegra viðskiptafélaga sem skapaði aftur tekjur hjá starfsfólki og þjónustuaðilum og skattgreiðslur af þeim tekjum yrðu hins veg­ar miklu hærri upphæðir.
    Með því að miða við að innlendur kostnaður og virðisauki geti orðið á bilinu 4–6% af veltu yrðu óbeinar skatttekjur á bilinu 150–1500 millj. kr., miðað við að ársvelta alþjóðlegra viðskiptafélaga væri á bilinu 25–100 milljarðar kr.
    Raunverulegur árangur af markaðsstarfi til kynningar á alþjóðlegum viðskiptafélögum hér á landi kemur þó ekki í ljós fyrr en eftir 5–10 ár sem er sá lágmarkstími sem þarf til þess að sannfæra þá sem hugsanlega hafa áhuga á að koma hingað og setja upp alþjóðleg við­skiptafélög um að þau búi við lagalegan stöðugleika hér á landi og geti náð viðunandi árangri í rekstri. Markviss kynning á möguleikum alþjóðlegra viðskiptafélaga á Íslandi er lykilatriði til þess að besti árangur náist og hún þarf að fara fram bæði innan lands og er­lendis.
    Mat á kostnaði við kynningarstarfsemina, með hliðsjón af starfsemi Útflutningsráðs, Fjár­festingarskrifstofu viðskiptaráðuneytis og Útflutningsráðs og Markaðsskrifstofu iðnaðar­ráðuneytis og Landsvirkjunar, bendir til þess að óvarlegt væri að gera ráð fyrir minna en 20–30 millj. kr. í árlegan kynningarkostnað af hálfu ríkisins til að byrja með.

VII.

    Þessu frumvarpi fylgir frumvarp til laga um breytingar á lögum um álagningu skatta og gjalda vegna alþjóðlegra viðskiptafélaga sem miðar að því að skapa alþjóðlegum viðskipta­félögum samkvæmt þessu frumvarpi þau skilyrði sem nauðsynleg eru talin og að afla tekna vegna veitingar starfsleyfa og eftirlits með starfsemi alþjóðlegra viðskiptafélaga.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.
Um I. kafla.

    Í kaflanum er kveðið á um gildissvið laganna, skilgreiningu á alþjóðlegum viðskiptafélög­um og um auðkenni á slíkum félögum. Þá er einnig fjallað um skilgreiningar hugtaka sem fyrir koma víða í frumvarpinu.

Um 1. gr.

    Í 1. mgr. er kveðið á um gildissvið laganna, þ.e. að þau gildi um alþjóðleg viðskiptafélög.
    Í 2. mgr. er að finna skilgreiningu á alþjóðlegu viðskiptafélagi. Um þarf að vera að ræða íslenskt félag, þ.e. félag sem innlendir eða erlendir aðilar stofna og skrásetja hér á landi, sem stundar viðskipti sem kveðið er á um í III. kafla en þar er nánar lýst þeirri starfsemi sem alþjóðlegum viðskiptafélögum er heimilt að stunda. Er önnur starfsemi en þar er kveðið á um þeim óheimil. Félag sem stundar eða hefur rétt á að stunda aðra starfsemi uppfyllir því ekki skilyrði þess að vera alþjóðlegt viðskiptafélag þótt það hyggist samhliða stunda starf­semi samkvæmt lögunum. Samkvæmt því getur félag sem fengið hefur starfsleyfi samkvæmt öðrum lögum til starfsemi sem sérstakt starfsleyfi þarf fyrir, t.d. sem viðskiptabanki, lána­stofnun önnur en viðskiptabanki eða sparisjóður, vátryggingafélag, verðbréfafyrirtæki eða verðbréfasjóður, ekki jafnframt fengið starfsleyfi sem alþjóðlegt viðskiptafélag.
    Í 3. mgr. er skýrt kveðið á um að alþjóðlegum viðskiptafélögum sé óheimilt að stunda aðra starfsemi en heimil er skv. III. kafla. En jafnvel þótt félag stundi einungis starfsemi sem lýst er í kaflanum verður það ekki alþjóðlegt viðskiptafélag samkvæmt þessum lögum með þeim réttaráhrifum sem því eru tengd nema það sæki um og sé veitt starfsleyfi skv. II. kafla.
    Í 4. mgr. er tekið fram að alþjóðlegum viðskiptafélögum sé skylt og einum heimilt að hafa í heiti sínu orðin alþjóðlegt viðskiptafélag eða skammstöfun þeirra. Félagi sem fengið hefur starfsleyfi alþjóðlegs viðskiptafélags er því skylt að auðkenna sig á þar til greindan hátt. Eins og fram kemur í 3. gr. verður alþjóðlegt viðskiptafélag einungis stofnað sem hlutafélag eða einkahlutafélag og ber því samkvæmt lögum um þau félagsform jafnframt að auðkenna sig sem slíkt. Samkvæmt þessu gæti alþjóðlegt viðskiptafélag sem stofnað hefði verið sem einkahlutafélag og nefnt Poseidon því t.d. auðkennt sig sem Poseidon ehf., alþjóðlegt við­skiptafélag, eða Poseidon ehf. a/v.
    Félagi sem ekki hefði starfsleyfi alþjóðlegs viðskiptafélags yrði á hinn bóginn óheimilt að auðkenna sig á framangreindan hátt þótt það stundaði sams konar viðskipti.

Um 2. gr.

    Í greininni eru skilgreind nokkur hugtök í texta frumvarpsins sem ástæða þykir til að skil­greina. Að öðru leyti þarfnast greinin ekki skýringa.

Um II. kafla.

    Í kaflanum er kveðið á um stofnun og starfsleyfi alþjóðlegra viðskiptafélaga, umsóknir um og skilyrði fyrir starfsleyfi, sérstaka nefnd sem gert er ráð fyrir að veiti starfsleyfi, til­kynningar um starfsleyfi, skrá yfir alþjóðleg viðskiptafélög og gjald fyrir starfsleyfi.

Um 3. gr.

    Í þessari grein er kveðið á um það skilyrði fyrir því að félag geti orðið alþjóðlegt við­skiptafélag að það sé stofnað sem hlutafélag eða einkahlutafélag. Æskilegt þykir að alþjóð­leg viðskiptafélög séu stofnuð og starfrækt samkvæmt viðurkenndu félagsformi sem á sér hliðstæðu víðast hvar í heiminum og ítarlegar lagareglur gilda um. Félög sem stofnuð eru samkvæmt öðru félagsformi uppfylla því ekki skilyrði laga þessara. Miðað er við að félag sé stofnað gagngert í því skyni að starfa sem alþjóðlegt viðskiptafélag. Félag sem starfað hefur á öðru sviði getur því ekki fengið starfsleyfi sem alþjóðlegt viðskiptafélag þótt tilgangi þess og starfssviði sé breytt. Félög sem hafa starfsleyfi samkvæmt öðrum lögum fullnægja heldur ekki starfsleyfisskilyrðum þessara laga. Þótt félag sé formlega stofnað í þeim tilgangi að starfa sem alþjóðlegt viðskiptafélag og skráð í hlutafélagaskrá er því engu að síður óheimilt að hefja starfsemi sem alþjóðlegt viðskiptafélag nema fyrir liggi starfsleyfi. Þá fyrst er félaginu heimilt, og skylt, að taka upp í heiti sitt auðkenni skv. 2. gr.

Um 4. gr.

    Í þessari grein er mælt fyrir um sérstaka nefnd sem veitir starfsleyfi, fer með eftirlit með starfsemi alþjóðlegra viðskiptafélaga og afturkallar starfsleyfi. Viðskiptaráðherra skipar nefndina, dómsmálaráðherra, samgönguráðherra, sjávarútvegsráðherra og utanríkisráðherra tilnefna sinn manninn hver en fimmti maður er skipaður án tilnefningar og skal hann vera formaður nefndarinnar. Varamenn skulu skipaðir á sama hátt. Nefndin heyrir undir viðskipta­ráðherra sem fer með framkvæmd laganna.
    Eðlilegt þykir að matskenndar ákvarðanir af því tagi sem kveðið er á um, sem heyra sam­tímis undir sérsvið fleiri ráðuneyta, séu teknar af fjölskipuðu stjórnvaldi sem þessu.

Um 5. gr.

    Í 1. mgr. er lýst þeim atriðum sem fram skulu koma í eða með umsókn um starfsleyfi. M.a. er gert ráð fyrir að umsókn fylgi nánari lýsing á þeirri stafsemi sem ætlunin er að stunda og viðskiptaáætlun (business plan) fyrir hana. Þá er tekið fram að starfsleyfisnefnd geti ákveðið að aðrar upplýsingar og gögn skuli fylgja umsókn. Gæti nefndin t.d. áskilið að fram komi hvar starfsemin verði til húsa. Miðar þetta ákvæði að því að tryggja að sem ítarlegastar og gleggstar upplýsingar liggi fyrir um fyrirhugaða starfsemi áður en afstaða er tekin til um­sóknar. Þá segir að samþykktir viðkomandi félags skuli fylgja umsókn um starfsleyfi alþjóð­legs viðskiptafélags. Þetta ákvæði og önnur ákvæði þessarar málsgreinar girða þó ekki fyrir að aðilar sem hyggjast starfrækja alþjóðlegt viðskiptafélag dragi, innan þeirra marka sem lög um hlutafélög og einkahlutafélög leyfa, að tilkynna nýstofnað félag til skráningar þar til afstaða hefur verið tekin til starfsleyfisumsóknar.
    Í 2. mgr. er lýst kröfum sem gerðar eru til forsvarsmanna þeirra félaga sem sækja um starfsleyfi alþjóðlegs viðskiptafélags. Er um að ræða sömu skilyrði og lög um hlutafélög og lög um einkahlutafélög hafa að geyma að því er stjórnarmenn og framkvæmdastjóra varðar, en hér eru þessi skilyrði jafnframt látin ná til stofnenda og hluthafa. Þar sem þess er að vænta að oft muni erlendir aðilar eiga í hlut er tekið fram að umræddir forsvarsmenn megi ekki á síðustu þremur árum hafa fengið dóm samkvæmt sambærilegum erlendum lögum og þeim íslensku lögum sem vísað er til. Því til viðbótar er tekið fram að umræddir aðilar megi heldur ekki tengjast refsiverðri starfsemi. Er það þá ekki sett sem skilyrði að viðkomandi hafi hlotið dóm fyrir slíkt athæfi, heldur eftirlátið starfsleyfisnefnd að meta hvort aðstæður séu slíkar að ekki sé álitið rétt að veita því félagi sem í hlut á starfsleyfi samkvæmt lögunum. Rök­studdur grunur gæti t.d. leikið á að umræddir aðilar tengdust með einhverju móti ólöglegri vopnasölu, eiturlyfjasölu eða peningaþvætti.
    Í 3. mgr. er kveðið á um málsmeðferð starfsleyfisnefndar. Sérstaklega er kveðið á um að ákvörðun um veitingu starfsleyfis skuli tekin svo fljótt sem unnt er eftir að fullbúin umsókn berst nefndinni ásamt þeim upplýsingum og gögnum sem eiga að fylgja henni. Augljósir og réttmætir hagsmunir umsækjanda eru að afgreiðsla umsóknar dragist ekki á langinn. Hins vegar kann að þurfa mislangan tíma til að fara yfir einstakar umsóknir og upplýsingar sem þeim fylgja eða er aflað, þ.m.t. um erlenda aðstandendur félags sem starfsleyfis er óskað fyrir. Þykir því ekki fært að kveða á um hámarksfrest til afgreiðslu.
    Í 4. mgr. er kveðið á um synjun starfsleyfis. Nefndin skal synja um starfsleyfi ef skilyrði laganna eru ekki uppfyllt eða ef hún telur feril aðstandenda félagsins með þeim hætti að hæfi þeirra til að stunda starfsemi samkvæmt lögunum verði dregið í efa. Ákvörðun um að synja félagi um starfsleyfi alþjóðlegs viðskiptafélags gæti byggst á því að forsvarsmenn væru tald­ir tengjast refsiverðri starfsemi á einhvern hátt eða að ferill þeirra væri þannig að hæfi þeirra til að eiga eða stjórna alþjóðlegu viðskiptafélagi með heilbrigðan og traustan rekstur væri dregið í efa. Er því beinlínis gert ráð fyrir að nefndin hafi verulegt svigrúm til að synja um starfsleyfi samkvæmt lögunum. Engan veginn er víst að til grundvallar mati nefndarinnar liggi í öllum tilvikum ótvíræðar dómsúrlausnir eða endanlegar, formlegar sannanir um aðild viðkomandi að refsiverðri starfsemi, heldur er gert ráð fyrir að nefndin geti byggt mat sitt á upplýsingum og ábendingum sem henni berast um bakgrunn og fyrri feril aðilanna sjálfra eða tengdra aðila, t.d. móðurfélaga eða systurfélaga stofnenda eða hluthafa umrædds félags. Nefndinni sem í sitja fulltrúar fimm ráðuneyta er ætlað að búa yfir þekkingu og yfirsýn til að meta mál af þessu tagi. Ákveði nefndin að synja umsækjanda um starfsleyfi sætir sú ákvörðun ekki stjórnsýslukæru. Hún verður hins vegar borin undir dómstóla eftir almennum reglum.
    Í 5. mgr. er kveðið á um að tilkynningar um starfsleyfi til alþjóðlegra viðskiptafélaga skuli birta í Lögbirtingablaði. Enn fremur segir að viðskiptaráðuneytið skuli láta halda sér
staka skrá yfir alþjóðleg viðskiptafélög. Til greina kemur að hlutafélagaskrá sjái um skrán­inguna. Verður því unnt að sækja þangað upplýsingar um það hvaða aðilar hafi slíkt starfs­leyfi á hverjum tíma.
    Í 6. mgr. er kveðið á um gjald sem aðili sem veitt er starfsleyfi þarf að greiða í ríkissjóð til að mæta kostnaði við undirbúning og útgáfu starfsleyfis. Samkvæmt fylgifrumvarpi með frumvarpi þessu er gert ráð fyrir að gjald þetta verði 100.000 kr. Þótt mismikil vinna kunni að fylgja athugun og afgreiðslu einstakra umsókna er gert ráð fyrir jafnaðargjaldi.

Um 6. gr.

    Hér er kveðið á um að um stofnun alþjóðlegs viðskiptafélags fari að öðru leyti en segir í frumvarpinu eftir ákvæðum laga um hlutafélög eða um einkahlutafélög, eftir því hvort félagsformið hefur verið valið í hverju tilviki. Vísast því að öðru leyti til ákvæða þeirra laga að því er varðar þau skilyrði sem uppfylla þarf til að stofna megi hlutafélag eða einkahluta­félag.

Um III. kafla.

    Í III. kafla er lýst þeirri starfsemi sem alþjóðlegum viðskiptafélögum er heimil, en sam­kvæmt því sem kveðið er á um í 3. mgr. 1. gr. frumvarpsins er alþjóðlegum viðskiptafélögum einungis heimilt að stunda þá starfsemi sem kveðið er á um í III. kafla. Efni þessa kafla endurspeglar megintilganginn með setningu laganna, þ.e. að laða hingað starfsemi sem í eðli sínu er Íslandi óviðkomandi, þannig að um verði að ræða hreina viðbót við þá starfsemi sem fyrir er í landinu.

Um 7. gr.

    Í þessari grein er kveðið á um þá meginafmörkun starfsheimilda alþjóðlegra viðskipta­félaga að þau megi stunda viðskipti, hvort heldur er í eigin nafni eða sem milligönguaðili, við erlenda aðila utan Íslands með vörur sem samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið tekur ekki til og ekki eiga uppruna sinn hér á landi, en ekki með aðrar vörur. Sérstaklega er kveðið á um að félögin megi ekki eiga viðskipti með vörur við aðila hér á landi eða við innlenda aðila utan Íslands, vinna vöru að hluta eða öllu leyti hér á landi eða eiga þátt í út­flutningi vara sem eiga uppruna sinn hér á landi. Með greininni er sérstaklega horft til alþjóðlegra viðskipta með sjávarafurðir. Er heimilum vöruviðskiptum alþjóðlegra viðskipta­félaga sniðinn sá stakkur að þau nái ekki til vara sem ákvæði samningsins um Evrópska efnahagssvæðið taka til, heldur einungis vara sem falla utan gildissviðs samningsins. Skv. 3. tölul. 8. gr. samningsins taka ákvæði hans til iðnvarnings í tollflokkum 25–97 í samræmdu tollskránni, að undanskildum örfáum efnum, og til nokkurra vara sem unnar eru úr landbún­aðarhráefnum. Heimil vöruviðskipti alþjóðlegra viðskiptafélaga munu því ná til sjávarafurða og landbúnaðarvara annarra en þeirra sem tilgreindar eru í bókun 3 með samningnum um Evrópska efnahagssvæðið.
    Við ákvörðun um það hvort vara teljist eiga uppruna sinn hér á landi skal fara samkvæmt upprunareglum samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Þannig má alþjóðlegt viðskipta­félag t.d. hafa milligöngu um útflutning sjávarfangs sem veitt hefur verið af erlendu fiskiskipi utan 12 mílna landhelgi Íslands, þó ekki ef unnið er við aflann hér á landi þannig að varan fái nýtt upprunavottorð, en það má ekki hafa milligöngu um útflutning á sjávarfangi sem veitt hefur verið af íslensku fiskiskipi á alþjóðlegu hafsvæði eins og t.d. „Smugunni“. Afli sem veiddur er af íslensku fiskiskipi telst íslenskur hvar sem hann veiðist en erlendur ef hann er veiddur af erlendu fiskiskipi utan landhelgi. Einnig má taka sem dæmi að samkvæmt grein­inni væri alþjóðlegu viðskiptafélagi heimilt að kaupa sjávarfang í Namibíu og selja til Argentínu en óheimilt að kaupa sjávarfang af íslensku útgerðar- eða fiskvinnslufyrirtæki og selja innan lands eða utan.

Um 8. gr.

    Í þessari grein er kveðið á um heimildir alþjóðlegra viðskiptafélaga til að stunda milli­göngu um viðskipti með þjónustu milli erlendra aðila utan íslenskrar lögsögu. Það er skilyrði samkvæmt þessari grein að bæði kaupandi og seljandi þeirrar þjónustu sem alþjóðlegt viðskiptafélag hefur milligöngu um að koma á viðskiptum með séu erlendir aðilar utan ís­lenskrar lögsögu. Sérstaklega er tekið fram að óheimilt sé að stunda aðra þjónustu en þá sem felst í milligöngu þeirri sem hér var lýst. Einnig er tekið fram að óheimilt sé að veita þessa þjónustu öðrum en erlendum aðilum utan íslenskrar lögsögu.
    Undir ákvæðið getur fallið flutningamiðlun milli aðila erlendis, miðlun afþreyingarþjón­ustu af ýmsu tagi o.fl.

Um 9. gr.

    Í þessari grein er kveðið á um heimild alþjóðlegra viðskiptafélaga til að eiga eignarhluti og verðmæti sem lið í starfi sínu. Tekið er fram að alþjóðlegt viðskiptafélag geti verið eignaraðili að öðrum alþjóðlegum viðskiptafélögum en ekki að öðrum innlendum lögaðilum. Engar skorður eru hins vegar settar við eignaraðild alþjóðlegs viðskiptafélags að atvinnu­fyrirtækjum erlendis. Þá er veitt heimild til að alþjóðlegt viðskiptafélag starfi sem hreint eignarhaldsfélag sem ekki þurfi þá jafnframt að stunda aðra starfsemi alþjóðlegra viðskipta­félaga sem lögin gera ráð fyrir.
    Í 2. mgr. er kveðið á um heimildir viðskiptafélags til að eiga, fjárfesta í og njóta arðs af réttindum svo sem vörumerkjum, einkaleyfum og hönnunarréttindum. Heimildin er bundin við réttindi sem skráð eru opinberri skráningu erlendis, auk þess sem kveðið er á um heimild alþjóðlegs viðskiptafélags til að eiga útgáfuréttindi erlendis, svo sem rétt til útgáfu utan Íslands á verkum íslenskra höfunda.
    Ákvæði þessarar greinar miða að því að aðilar sem fjárfesta í atvinnufyrirtækjum eða eignarréttindum utan Íslands geti stofnað og starfrækt á Íslandi alþjóðlegt viðskiptafélag til að halda utan um slíkar eignir sínar. Þykir þá ekki ástæða til að þeim sé jafnframt gert skylt að stunda aðra starfsemi alþjóðlegs viðskiptafélags.

Um 10. gr.

    Í 1. mgr. er veitt heimild til að flytja vörur, sem 7. gr. tekur til og óheimilt er að eiga við­skipti með við aðila hér á landi, um Ísland vegna umflutnings varanna milli svæða utan ís­lenskrar lögsögu. Með þessu ákvæði er opnuð heimild til að íslenskir flutningsaðilar geti tekið þátt í alþjóðlegum vöruviðskiptum á vegum alþjóðlegra viðskiptafélaga. Tekið er fram að vinnsla sem breytir uppruna slíkra vara sé óheimil hér á landi. Þannig væri alþjóðlegu viðskiptafélagi óheimilt að flytja hingað til lands frysta rækju og sjóða hana niður og flytja út aftur. Ákvæðið girðir ekki fyrir þann möguleika að vara sé flutt hingað, henni umpakkað í minni einingar og hún síðan flutt á erlendan markað, að því marki sem slíkt breytir ekki uppruna vörunnar.
    Í 2. mgr. er kveðið á um heimild alþjóðlegs viðskiptafélags til að kaupa rekstrarvörur og þjónustu hér á landi til eigin nota. Hér er átt við ýmsa stoðþjónustu, svo sem markaðsráð­gjöf, lögfræði- og bókhaldsþjónustu o.fl. Enn fremur er kveðið á um heimild alþjóðlegs við­skiptafélags til að eiga viðskipti við önnur alþjóðleg viðskiptafélög hér á landi sem erlendis. Er um að ræða frávik frá þeirri meginreglu frumvarpsins að alþjóðlegt viðskiptafélag megi ekki eiga viðskipti með vörur og milligöngu um þjónustu við aðila hér á landi. Á móti kemur að viðsemjandi félagsins, sem sjálfur verður að vera alþjóðlegt viðskiptafélag, er bundinn sömu takmörkunum.
    Í 2. mgr. segir einnig að alþjóðlegu viðskiptafélagi skuli heimilt að eiga peningalegar eignir hér á landi til nota í daglegum rekstri og að fá fé að láni hér á landi jafnt sem erlendis í eðlilegu samræmi við starfsemi sína. Með peningalegum eignum er átt við það sem telst til eigna við útreikning samkvæmt 2. mgr. 53 gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. 3. mgr. 53. gr. laganna. Nauðsynlegt er fyrir alþjóðleg viðskiptafélög að fjárstreymi vegna viðskipta sem þau stunda gangi sem greiðast og æskilegt að innlendur fjármagnsmark­aður geti þjónað þessum félögum. Fésýsla alþjóðlegs viðskiptafélags verður þó að vera í eðlilegu hlutfalli við grunnstarfsemi þess en má aldrei vera aðalviðfangsefni.

Um 11. gr.

    Í 1. mgr. er kveðið á um rétt alþjóðlegs viðskiptafélags til að eiga eða hafa umráð yfir og skrá hér á landi flugvélar og skip, önnur en fiskiskip, til notkunar í verkefnum sem alþjóðlegu viðskiptafélagi er heimilt að annast skv. 7. gr., þ.e. til flutnings á tilteknum vörum utan Íslands, þó með heimild til viðkomu hér á landi vegna umflutnings. Þá er alþjóðlegu við­skiptafélagi heimilt að eiga eða hafa umráð yfir og skrá hér á landi flugvélar og skip, önnur en fiskiskip, í því skyni að leigja eða framleigja þau erlendum aðilum til flutninga utan íslenskrar lögsögu, hvort heldur vöru- eða farþegaflutninga. Um skráningu flugvéla og skipa alþjóðlegs viðskiptafélags hér á landi og réttaráhrif skráningar fer samkvæmt almennum lögum. Alþjóðlegt viðskiptafélag má samkvæmt ákvæðum greinarinnar ekki sjálft annast vöru- eða farþegaflutninga milli Íslands og annarra landa eða eiga eða hafa umráð yfir flug­vélum eða skipum sem það gera. Það má hins vegar leigja eða framleigja flugvélar eða skip til erlendra aðila til flutninga utan íslenskrar lögsögu en ekki standa sjálft fyrir flutningarekstrinum.
    Í 2. mgr. er kveðið á um heimild alþjóðlegs viðskiptafélags til að öðlast hér á landi eignarrétt og afnotarétt yfir fasteign eða öðrum rekstrarfjármunum til beinnar notkunar í atvinnustarfsemi sinni. Eignarhald fasteigna eða annarra rekstrarfjármuna má því ekki vera sjálfstætt viðfangsefni alþjóðlegs viðskiptafélags, heldur verður það að tengjast þörfum félagsins vegna rekstrar þess að öðru leyti. Lög um eignarrétt og afnotarétt fasteigna og lög um fjárfestingar erlendra aðila í atvinnurekstri geyma sams konar ákvæði að því er varðar eignarrétt og afnotarétt aðila með erlenda eignaraðild að fasteignum. Vísast til fyrrnefndu laganna um framkvæmd varðandi fasteignir. Meginreglan samkvæmt þessu ákvæði frum­varpsins er sú að umræddar eignir séu einungis nýttar í þágu eigin starfsemi alþjóðlegs við­skiptafélags, en heimild er þó veitt til takmarkaðra frávika eins og nánar er lýst í ákvæðinu.

Um IV. kafla.

    Í IV. kafla er kveðið á um nokkrar meginreglur sem miða að því að rekstur alþjóðlegs við­skiptafélags verði óháður rekstri annarra aðila.

Um 12. gr.

    Hér segir að rekstur alþjóðlegs viðskiptafélags skuli vera fjárhagslega óháður og aðskil­inn rekstri annarra aðila. Er óheimilt að láta alþjóðlegt viðskiptafélag bera annan kostnað eða hafa aðrar tekjur en stafa af starfsemi slíks félags sem heimil er skv. III. kafla eða að færa kostnað eða tekjur af starfsemi þess yfir á aðra. Miða þessi ákvæði að því að koma í veg fyrir að rekstri, tekjum eða gjöldum af starfsemi alþjóðlegs viðskiptafélags verði bland­að saman við rekstur, tekjur eða gjöld annars aðila. Þá er sérstaklega tekið fram að ef að­staða eða starfsfólk alþjóðlegs viðskiptafélags er samnýtt með öðrum skuli gerður skriflegur samningur um samnýtinguna og um skiptingu kostnaðar. Getur þar bæði verið um að ræða að alþjóðlegt viðskiptafélag fái aðgang og afnot af aðstöðu eða starfsfólki annarra aðila en einnig að þetta sé á hinn veginn. Tekið er fram að öll viðskipti alþjóðlegra viðskiptafélaga við aðila þeim tengda skuli gerð á grundvelli kjara og venju í viðskiptum óskyldra aðila. Almennt mundu einnig gilda ákvæði laga um tekjuskatt og eignarskatt um óvenjuleg skipti í fjármálum.

Um V. kafla.

    Í V. kafla er kveðið á um heimild fjármálaráðherra til að leyfa alþjóðlegu viðskiptafélagi að færa bókhald sitt og ársreikninga í erlendri mynt, auk þess sem sett eru sérákvæði um endurskoðun alþjóðlegra viðskiptafélaga.

Um 13. gr.

    Í greininni segir að fjármálaráðherra geti heimilað að alþjóðlegt viðskiptafélag sem sótt hefur um það færi bókhald sitt og geri reikningsskil í tiltekinni erlendri mynt í samræmi við góða reikningsskilavenju. Er hér um að ræða heimild til að veita undanþágu frá ákvæðum laga um bókhald sem kveða á um að texti bókhaldsbókanna skuli vera á íslensku og fjárhæðir í íslenskum krónum og að í ársreikningi skuli fjárhæðir tilgreindar í íslenskum krónum og frá ákvæðum laga um ársreikninga sem kveða á um að í ársreikningum og samstæðureikning­um sem samdir séu samkvæmt ákvæðum laganna skuli fjárhæðir tilgreindar í íslenskum krón­um. Ástæða þess að rétt þykir að veita megi heimild til slíkra frávika er sú að alþjóðleg við­skiptafélög munu fyrst og fremst stunda viðskipti utan Íslands og væntanlega vera stundum í eigu aðila sem ekki hafa önnur tengsl við Ísland en leiðir af aðild þeirra að alþjóðlega við­skiptafélaginu. Gert er ráð fyrir að heimild til færslu bókhalds og reikningsskila í erlendri mynt miðist í hverju tilviki við einhverja tiltekna mynt, t.d. Bandaríkjadali, en félag eigi ekki rétt á að víxla milli mynta nema að fengnu leyfi. Þótt slík heimild sé veitt er eftir sem áður gert ráð fyrir að viðkomandi félag sé skattlagt samkvæmt íslenskum skattalögum. Því þarf m.a. að kveða á um þær reglur sem fylgja beri við umreikning fjárhæða á milli gjaldmiðla, bæði milli mismunandi erlendra mynta og milli færslumyntarinnar og íslenskrar krónu með tilliti til áramótastöðu félagsins, og um þær reglur sem gildi um útreikning söluhagnaðar og fyrninga, hvort tveggja vegna útreiknings á skattstofnum viðkomandi félags. Er gert ráð fyrir að nánar verði kveðið á um þetta í reglum sem fjármálaráðherra getur sett. Í greininni segir að þegar bókhald og reikningsskil alþjóðlegs viðskiptafélags eru færð í erlendri mynt skuli við ákvörðun skattstofna ekki beita ákvæðum laga um tekjuskatt og eignarskatt um verðlags­breytingar og endurmat, sbr. nú 11.–27. gr. og 35.–44. gr. laga nr. 75/1981, varðandi út­reikning á söluhagnaði og fyrningum eða ákvæðum 53. gr. sömu laga um tekjur og gjöld vegna verðbreytinga, eða sambærilegum ákvæðum annarra laga. Ber því að líta fram hjá ákvæðum laga um verð- og verðlagsbreytingar við útreikning á skattstofnum alþjóðlegs við­skiptafélags sem fengið hefur heimild samkvæmt þessari grein.

Um 14. gr.

    Kveðið á um í greininni að ársreikningur alþjóðlegs viðskiptafélags skuli ávallt endur­skoðaður af löggiltum endurskoðanda eða endurskoðunarfélagi, óháð því hvort slík skylda hefði ella verið fyrir hendi samkvæmt ársreikningalögum. Jafnframt er felld á endurskoðanda lagaskylda til að sannreyna að tekjur og gjöld alþjóðlegs viðskiptafélags hafi stofnast í sam­ræmi við ákvæði III. og IV. kafla, þ.e. að starfsemi félagsins hafi verið innan þeirra marka sem lýst er í III. kafla og rekstur þess verið fjárhagslega óháður og aðskilinn rekstri annarra aðila svo sem áskilið er skv. IV. kafla. Þá segir að endurskoðandi skuli tafarlaust gera stjórn alþjóðlegs viðskiptafélags og starfsleyfisnefnd viðvart ef hann hefur ástæðu til að ætla að lög eða reglugerðir og reglur sem gilda um félagið eða starfsleyfi félagsins hafi verið brotin.

Um VI. kafla.

    Í VI. kafla er kveðið á um eftirlit með starfsemi alþjóðlegra viðskiptafélaga.

Um 15. gr.

    Í 1. mgr. er starfsleyfisnefnd falið eftirlit með því að starfsemi alþjóðlegra viðskiptafélaga sé í samræmi við ákvæði laganna, reglugerða og reglna settra samkvæmt þeim, starfsleyfi og samþykktir viðkomandi félaga. Þessu til viðbótar kemur svo til eftirlit annarra stjórnvalda eftir því sem við á, t.d. eftirlit viðskiptaráðherra og hlutafélagaskrár samkvæmt lögum um hlutafélög og um einkahlutafélög, eftirlit skattyfirvalda samkvæmt skattalögum, eftirlit tolla­yfirvalda með vörum sem hingað koma vegna umflutnings, eftirlit skráningaryfirvalda með flugvélum og skipum alþjóðlegra viðskiptafélaga sem kunna að vera skráð hér á landi o.s.frv.
    Í 2. mgr. er kveðið á um að alþjóðlegt viðskiptafélag skuli árlega greiða í ríkissjóð gjald til að standa undir eftirliti starfsleyfisnefndar skv. 1. mgr. og skal það lagt skal á í samræmi við ákvæði í lögum um aukatekjur ríkissjóðs.

Um 16. gr.

    Í greininni er kveðið á um að alþjóðlegt viðskiptafélag skuli eigi síðar en sex mánuðum eftir lok hvers reikningsárs skila starfsleyfisnefnd skýrslu um starfsemi sína í formi sem nefndin ákveður. Er þessu ætlað að auðvelda nefndinni eftirlit með starfsemi alþjóðlegra við­skiptafélaga.

Um VII. kafla.

    Í VII. kafla er kveðið á um afturköllun starfsleyfis, hvenær til afturköllunar getur komið, hvernig standa ber að henni og hverju það varðar viðkomandi félag.

Um 17. gr.

    Kveðið er í greininni á um þau atvik sem leitt geta til þess að starfsleyfi alþjóðlegs við­skiptafélags verði afturkallað. Er gert ráð fyrir að starfsleyfisnefnd taki ákvörðun um það hvort starfsleyfi verði afturkallað. Þær ástæður fyrir afturköllun sem tilgreindar eru í grein­inni eru af þrennum toga. Í fyrsta lagi atriði sem kemur í ljós eftir á að voru fyrir hendi þegar starfsleyfi var veitt en hefðu orðið til þess að starfsleyfi hefði ekki verið veitt ef kunnugt hefði verið um þær. Í öðru lagi getur það leitt til afturköllunar ef alþjóðlegt viðskiptafélag nýtir ekki starfsleyfi innan árs frá því að það var veitt. Loks getur afturköllun starfsleyfis byggst á atriðum sem koma upp eftir að félag hefur starfsemi, svo sem því að alþjóðlegt við­skiptafélag uppfyllir ekki lengur skilyrði til að öðlast starfsleyfi eða brýtur alvarlega eða ítrekað gegn reglum þeim sem því ber að fylgja eða vegna þess að í ljós kemur að forsvars­menn þess eru að mati starfsleyfisnefndar eru ekki hæfir með tilliti til heilbrigðs og trausts reksturs viðkomandi félags. Tekið er fram í 2. mgr. að áður en til afturköllunar starfsleyfis kemur skuli hlutaðeigandi félagi veittur hæfilegur frestur til úrbóta sé þess kostur. Fer það eftir því hvers eðlis ástæða afturköllunarinnar er.

Um 18. gr.

    Í 1. mgr. er tekið fram að afturköllun á starfsleyfi skuli rökstudd skriflega. Er eðlilegt að slíkur áskilnaður sé gerður, þótt ekki þurfi skv. 5. gr. að rökstyðja sérstaklega ákvörðun starfsleyfisnefndar um að synja um starfsleyfi. Horfir málið öðruvísi við eftir að búið er að gefa út starfsleyfi. Tilkynningu um afturköllun starfsleyfis alþjóðlegs viðskiptafélags skal birta í Lögbirtingablaði. Ástæða þykir til að kveða skýrt á um að ákvörðun um starfsleyfis­afturköllun verður ekki kærð með stjórnsýslukæru til þess ráðherra sem fer með framkvæmd laganna. Aðili sem ekki vill una ákvörðun um afturköllun starfsleyfis getur borið hana undir dómstóla.
    Í 2. mgr. er kveðið á um að slíta beri alþjóðlegu viðskiptafélagi ef starfsleyfi þess er afturkallað. Sama gildir ef alþjóðlegt viðskiptafélag ákveður að skila sjálft inn starfsleyfi. Er því ekki gert ráð fyrir að slíkt félag geti snúið sér að annarri starfsemi. Þetta ákvæði kem­ur þó ekki í veg fyrir að félagsslit eigi sér stað í formi sameiningar við annað félag sam­kvæmt reglum hlutafélagalaga eða einkahlutafélaga þar að lútandi.

Um VIII. kafla.

    Í VIII. kafla er kveðið á um hvaða lög skuli gilda um alþjóðleg viðskiptafélög og um laga­framkvæmd og reglugerðarheimild viðskiptaráðherra.

Um 19. gr.

    Þótt lagt sé til að sérstök löggjöf sé sett um alþjóðleg viðskiptafélög gilda jafnframt um þau ákvæði laga um hlutafélög og einkahlutafélög, eftir því hvort félagsformið hefur verið valið í hverju tilviki, og ákvæði annarra almennra laga eftir því sem við á, sbr. athugasemdir við 15. gr.

Um 20.–22. gr.

    Greinarnar þarfnast ekki skýringa.

Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um alþjóðleg viðskiptafélög.

    Frumvarp þetta gerir ráð fyrir að lögfest verði heimild til stofnunar alþjóðlegra viðskiptafélaga á Íslandi sem hafi þann tilgang að annast viðskipti með þjónustu milli aðila erlendis. Til að hefja starfsemi þarf alþjóðlegt viðskiptafélag að vera skráð og hafa fengið starfsleyfi hjá sérstakri fimm manna starfsleyfisnefnd. Viðskiptaráðherra lætur nefndinni í té starfs­aðstöðu, ákveður þóknun nefndarmanna og greiðir annan kostnað af starfi hennar. Frumvarp­ið gerir ráð fyrir að greitt skuli gjald í ríkissjóð til að mæta kostnaði við undirbúning og útgáfu starfsleyfis og enn fremur árlegt gjald til að standa undir eftirliti nefndarinnar. Þegar til lengri tíma er litið ættu starfsleyfisgjöld og árgjöld að standa undir starfi starfsleyfis­nefndar og er því ekki gert ráð fyrir að frumvarpið leiði til aukinna útgjalda fyrir ríkissjóð verði það óbreytt að lögum.
    Frumvarpið er að meginefni byggt á tillögum verkefnisstjórnar sem forsætisráðherra skip­aði. Í athugasemd með frumvarpinu telur hún að ætla megi að 50–200 alþjóðleg viðskipta­félög verði skráð hér á landi innan þriggja ára. Verkefnastjórnin áætlar að miðað við að inn­lendur kostnaður og virðisauki geti orðið 4%–6% af veltu yrðu óbeinar skatttekjur um 150– 1.500 m.kr. á ári miðað við að ársvelta alþjóðlegra viðskiptafélaga væri 25–100 milljarðar kr. Í athugasemd er enn fremur lagt mat á kostnað af markaðsstarfi til kynningar á alþjóð­legum viðskiptafélögum og er þar gert ráð fyrir 20–30 m.kr. árlega til að byrja með.
    Samtals má því reikna með að fyrsta árið verði útgjöld ríkissjóðs 20–30 m.kr. vegna kynningar og eftir það lækki kostnaðurinn og að nefndin standi undir útgjöldum sínum með starfsleyfis- og eftirlitsgjöldum.